10. 09 2016

Ég þakka öllum þeim sem tóku þátt í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi nú síðustu daga. Ég er þakklátur fyrir þann stuðning sem ég fengið hjá flokksfólki og stuðningsfólki flokksins í þessu frábæra kjördæmi nú, sem og ávallt áður. Takk fyrir mig. 

06. 09 2016

Ég gef kost á mér til endurkjörs í flokksvalinu um komandi helgi og sækist eftir að leiða lista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi.

Aðalsmerki Samfylkingarinnar hefur verið að þora að takast á við stóru málin. Það eigum við að gera áfram og láta öðrum eftir dægurþrasið og að elta það sem hæst glymur hverju sinni:

1.       Húsnæðismálin eru brýnasta málið. Ungt fólk kemst ekki í ódýrt og öruggt húsnæði, engin úrræði eru fyrir heilsuhraust aldrað fólk og alltof fá hjúkrunarrými bíða þeirra sem þurfa. Það þarf að auka framboð á húsnæði og auðvelda fólki að kaupa það.

2.       Atvinnumálin eru stóra málið sem allt snertir og er lykillinn að farsælli framtíð. Á meðan við þrösum um hitt og þetta hafa orðið grundvallarbreytingar í atvinnumálum. Vel launuðum þekkingarstörfum fækkar og nýsköpun er helst í ferðaþjónustu, sem þrengir aftur að húsnæðismarkaðnum og vinnumarkaðnum. Engin framtíðarstefna er í atvinnumálum. Haftakróna og óhóflegir vextir ryðja þekkingarstörfum úr landi. Fjármálakerfið er nær allt í opinberri eigu og sú staða býður upp á mikil tækifæri til uppstokkunar og endurbyggingar. Gjaldmiðilsmálin verður líka að endurskoða. Þessi tækifæri þarf að nýta.

3.       Við þurfum að fjárfesta í velferðarþjónustunni. Hún er fjárþurfi, en líka um margt mjög góð. Víða eru miklar glufur. Það er sérlega sárt að sjá eldri borgara sem ná ekki endum saman og ungt fólk sem hefur dottið úr skóla og kemst hvergi áfram. Það er sárt að sjá fólk á göngum spítala því ekkert hjúkrunarrými bíður. Við þurfum að loka glufunum.

13. 04 2016

Ég fagna frumkvæði Eyglóar Harðardóttur sem nú hefur birt lykilupplýsingar úr skattframtali vegna sín og maka síns á síðasta ári og árinu þar á undan. Ég vil fara að frumkvæði hennar og legg því spilin algerlega á borðið hvað varðar tekjur mínar og Sigrúnar, eignir okkar og skuldir. Vonandi verður það öðrum hvatning til að svara réttmætum spurningum sem að þeim snúa.

 

 

2015

2016

Tekjur:

 

 

 

Árni Páll

11.969.858

12.586.697

Sigrún

4.519.876

4.530.792

Sameiginlegar fjármagnstekjur af innstæðum og útleigu kjallaraíbúðar

1.321.812

1.383.571

 

Eignir:

 

 

Túngata 36A

57.050.000

69.300.000

Bíll

1.700.611

1.530.068

 

Skuldir:

 

 

 

44.015.113

39.232.068

06. 02 2016

Viðbrögð Landsbankans við gagnrýni minni á sölu Borgunar hafa verið mjög athyglisverð. Bankinn gaf út sérstaka fréttatilkynningu 20. janúar sl. til að mótmæla vangaveltum mínum um rangt verðmat bankans á Borgun, en virðist nú hafa skipt um skoðun. Nú virðist bankinn loks fallast á að verðmatið hafi verið rangt, en heldur því fram að hann hafi verið leyndur upplýsingum. Svör bankans um tildrög og aðstæður Borgunarsölunnar hafa verið misvísandi og ósannfærandi.

Þessi atburðarás er skólabókardæmi um hætturnar sem fylgja því þegar viðskipti í fjármálakerfinu fara fram fyrir luktum dyrum. Stjórnendur Landsbankans bera ábyrgð gagnvart almenningi, hvort sem bankinn er í ríkiseigu eða ekki. Það gera forsvarsmenn annarra fjármálafyrirtækja líka. Fjármálakerfið á að þjóna fólki og fyrirtækjum, ekki sjálfum sér. Atburðarásin virðast einfaldlega hafa verið sú að stjórnendur hafi ákveðið að selja stjórnendum Borgunar - og þeim handvöldu vildarvinum sem þeir komu með í togi - hlut Landsbankans í félaginu, án fullnægjandi rannsóknar. Almenningur í landinu á kröfu til annarra vinnubragða. Það á ekki að vera góðlátlegt vinaspjall sem ræður tilfærslum á eignarhlutum í fjármálakerfinu. Hagnaður Borgunar, eins og Landbankans og annarra fjármálafyrirtækja, byggir á gjaldtöku af almenningi, sem á nú í vaxandi mæli ekki einu sinni val um hvar hann er í viðskiptum. Á svona fyrirtækjum hvílir rík ábyrgð, sem þau hafa ekki axlað að nokkru leyti. 

Borgunarmálið er greinilega rétt að byrja. Alvöru rannsóknar er þörf.

27. 01 2016

Mikið hefur verið fjallað um lagabreytingar sem samþykktar voru í danska þinginu í gær og miða að því að herða reglur um móttöku flóttafólks.

Sérstaka athygli hefur vakið sú breyting að leit verði gerð hjá flóttafólki og verðmæti umfram sem svarar til 190.000 íslenskra króna verði nýtt til að standa straum af kostnaði við uppihald viðkomandi. Það er full ástæða til að vara við þessari breytingu og árétta að hún gengur gegn öllu því sem eðlilegt og mannúðlegt má teljast við móttöku flóttafólks. Hún skapar þau hugrenningatengsl að flóttafólk sé almennt vel stætt og hafi að markmiði að komast undan því að leggja af mörkum í nýju samfélagi. Það er óásættanlegt og grefur undan mannúðlegum viðhorfum til flóttafólks, sem sannarlega er í brýnni þörf fyrir hæli gegn ofsóknum, styrjöldum og ofbeldi.

Þetta er þeim mun sorglegra þegar haft er í huga að Danir hafa verið og eru enn í fremstu röð meðal Evrópuríkja, þegar kemur að móttöku flóttafólks. Danir voru þannig í sjöunda sæti yfir Evrópusambandsríki í móttöku flóttafólks á síðasta ári og hafa lagt mikið af mörkum til alþjóðastofnana sem sinna flóttafólki. Ríkisstjórn Danmerkur viðurkennir að með þessum breytingum sé gengið út á ystu nöf gagnvart þeim alþjóðasamningum sem Danir eiga aðild að. Þessar staðreyndir sýna hversu dapurleg þróunin getur orðið ef alþjóðasamfélagið megnar ekki að taka heildstætt á þeim fordæmalausa flóttamannavanda sem nú er við að glíma og hvert og eitt ríki fer að grípa til aðgerða til að hrinda straumnum frá sér. Ég er sammála Jónasi Gahr Støre, formanni norskra jafnaðarmanna, þegar hann segir í Morgunblaðinu í dag að við höfum einungis nokkrar vikur til að bjarga Schengen og frjálsri för um Evrópu.  

24. 01 2016

Á föstudag fréttist að sjúkrahótelið í Ármúla hefði sagt upp samningi sínum við Sjúkratryggingar Íslands. Í kvöldfréttum RÚV í gærkvöldi sagði svo heilbrigðisráðherra að hann ætlaði að funda með aðilum, því „fá þurfi botn í hvernig heilbrigðisþjónustan ætli að sinna sjúklingum sem þurfa þessa þjónustu.“ En hver er „þessi þjónusta“?

Samningur Sjúkratrygginga við sjúkrahótelið í Ármúla hefur nefnilega vakið athygli fyrir að vera um umtalsverð framlög úr almannasjóðum fyrir alltof lítið. Engin vitræn þjónustuskilgreining liggur samningnum til grundvallar og hagsmunir eigenda hótelsins en ekki almennings eru í fyrirrúmi.

Til að fjármagna samninginn á sínum tíma voru fjárveitingar til Landspítalans lækkaðar. Spítalinn hafði fram að því rekið sjúkrahótelsþjónustu, þar sem lasburða fólk sem þó þurfti ekki að vera á sjúkrahúsi, fékk hjúkrun. Spítalinn gat þannig létt á álagi á sjúkrahúsið sjálft. Í samningi við sjúkrahótelið í Ármúla gerðu Sjúkratryggingar Íslands engar kröfur um neina hjúkrunarþjónustu, heldur er einungis varið almannafé til að kaupa hótelherbergi og fæði. Sú þjónusta nýtist Landspítalanum ekki neitt, því ef hægt væri að útskrifa fólk af spítalanum heim til sín án hjúkrunarþjónustu væri það auðvitað þegar gert, ríkissjóði að kostnaðarlausu. Landspítalinn þarf því að sinna hjúkrunarþjónustunni.

Ámælisverðast er að hótelið, en ekki Landspítalinn, ræður hverjir fá inni samkvæmt samningnum. Ef Landspítalinn er að springa undan álagi, eins og þessar vikurnar, getur hóteleigandinn samt sagt nei. Hann tekur sjúklinga bara inn á hótelið til uppfyllingar, þegar ekki er hægt að leigja til túrista. Frægt varð þegar Smáþjóðaleikarnir voru haldnir og veiku fólki var vísað á dyr, því svo margir túristar komu til landsins. Díllinn er því sniðinn að þörfum eigenda sjúkrahótelsins en ekki þjóðarinnar. Hvaða hóteleigandi vill ekki vera í aðstöðu til að láta ríkið borga hjá sér öll þau herbergi sem annars standa tóm?

Eftir stendur því að það er jákvætt fyrir okkur skattborgara að þessi furðulegi og óþarfi samningur skuli á enda runninn og fráleitt fyrir heilbrigðisráðherra að reyna að endurvekja vitleysuna. Samningurinn var til skammar og gengur gegn meginmarkmiðum laga um sjúkratryggingar sem er ætlað að tryggja að almannaþörf sé að leiðarljósi við samningsgerð. Hann er gott dæmi um slæmar afleiðingar vanhugsaðrar samningsgerðar við einkaaðila, þar sem almannahagsmunir skipta engu, viðsemjandinn fær samning sniðinn að eigin hagsmunum, engin þarfagreining liggur til grundvallar og fjárfestar geta læst klóm í opinbert fé sem ætti að renna til umönnunar sjúks fólks. Við ættum satt að segja að nota nú tækifærið og koma, með lagabreytingu, alfarið í veg fyrir að hægt sé að semja við fjárfesta sem reka fyrirtæki í hagnaðarskyni um framkvæmd spítalaþjónustu við veikt fólk. Þar hafa Svíar nú sett mörkin, vegna vondrar reynslu af fjárfestingastarfsemi einkaaðila í spítalaþjónustu.

Ríkið á auðvitað ekki að greiða fyrir hótelherbergi fyrir fólk sem þarf ekki hjúkrunar við. Ef þörf er á hótelþjónustu, t.d. vegna þess að fólk utan höfuðborgarsvæðisins er að leita sér meðferðar á Landspítalanum, er sjálfsagt að greiða fyrir það, en annars ekki. Landspítalinn og þjóðin öll þarf sjúkrahótel, sem hýsir og hjúkrar fólki sem þarf umönnunar við en er ekki svo veikt að það þurfi sjúkrahúsvistar við og Landspítalinn þarf að geta ákveðið hverjir fái þar inni og í hvaða röð. Það takmarkaða fé sem rennur til heilbrigðismála á ekki að fara í rekstrarstyrki til sjúkrahótelsins í Ármúla, ekki frekar en til Hótel Nordica. 

15. 12 2013

Við í Samfylkingunni erum sammála ríkisstjórninni um að rétt sé að létta skattbyrði fólks á meðaltekjum. En það skiptir máli hvernig það er gert.

Ríkisstjórnin leggur til að lækka skatt í meðaltekjuþrepi um 0,8%. Sú breyting mun kosta 5 milljarða, en nýtist þeim hæst launuðu best. Maður með 300.000 fær 500 krónur en maður með 770.000 fær 4.200 kr.

Við viljum verja sama fé til að hækka mörk millitekjuþrepsins úr 250.000 í 350.000, í samræmi við tillögur ASÍ. Sú breyting kostar jafn mikið og leið ríkisstjórnarinnar en skilar öllum á launum milli 250.000 og 600.000 meiri ávinningi og þeim mun meiri sem tekjurnar eru lægri. Einungis þau 25% sem hafa mestu tekjurnar munu tapa á þessari breytingu.

Með þessu móti léttum við betur undir með þeim hópum sem eru nú að lenda hvað harðast í tekjuskerðingum og stöndum vörð um fjölþrepaskattkerfið.

Er þetta ekki borðleggjandi?

09. 12 2013

Nýjustu fréttir af fjárlagatillögum ríkisstjórnarinnar vekja áhyggjur. Enn og aftur kýs ríkisstjórnin að flytja til byrðar af þeim sem best geta borið þær. Barnafjölskyldur og skuldugt fólk á meðaltekjum á að borga fyrir heilbrigðisþjónustu fyrir okkur öll. Auðmenn og best stæðu fyrirtæki landsins eiga að bera minni byrðar.

Á sama tíma sjáum við fjöldauppsagnir á RÚV sem vekja með manni skrýtnar tilfinningar. Er það virkilega þannig að við ráðum ekki við að reka ríkisútvarp? Er það virkilega þannig – eins og einn þingmanna Framsóknar sagði um daginn – að við þyrftum að velja um að hlusta á dægurtónlist eða láta sjúklinga lifa? Er það virkilega þannig að ekki sé hægt að sinna þróunaraðstoð við fátækt fólk og hafa fullnægjandi heilbrigðisþjónustu?

Ónei. Það eru mörg tækifæri til að reka gott samfélag. En við búum við ríkisstjórn sem treystir sér ekki til að skattleggja þá sem geta borgað, en kýs að skattleggja þá sem ekki geta borgað.

Tökum dæmi:

Samkvæmt lögum er nú lagt á útvarpsgjald. Það nemur upp á 19.400 kr. á mann á ári. Óháð tekjum og óháð félagslegri stöðu. Þetta er nefskattur – skattur af þeirri sort sem menn vilja helst ekki nota. Vegna þess að hann leggst jafnt á fátæka og ríka, sjúka og heilbrigða, öryrkja og þá sem vinnugetu hafa, atvinnulausa og þá sem ekki eru í vinnu, unglinga, fólk á besta aldri og aldraða. Sigmundur Davíð borgar jafn mikið og foreldralaus 18 ára stelpa í menntaskóla.

En við sættum okkur við að greiða þetta gjald því það á að renna til RÚV. Það er þannig lagað séð þjónustugjald. Af því okkur þykir vænt um RÚV. En – ó – allt í einu ákveður ríkisstjórnin að RÚV fái ekki nema hluta af útvarpsgjaldinu. Við, sem borgum til RÚV erum ekki að borga til RÚV. Við erum að borga í ríkissjóð.

Og þetta er ekki einstakt dæmi. Samkvæmt fjárlagatillögum nýrrar ríkisstjórnar er gert ráð fyrir að hækka skráningargjöld í HÍ úr kr. 60.000 í kr. 75.000. Gott og vel – Háskólinn þarf nú peninga. Við hækkuðum skráningargjöld í tíð fyrri ríkisstjórnar og Háskólinn naut þess. En – ó – skráningargjaldshækkunin nú upp á 213 milljónir króna mun ekki skila sér til HÍ. Háskólinn mun bara fá í sinn hlut 39,2 milljónir. Afgangurinn – 173,8 milljónir – mun renna í ríkissjóð. Sérstakur skattur á námsmenn.

Ríkisstjórnin treystir sér ekki til að leggja skatt á útflutningsgreinar, sem aldrei hafa hagnast meira vegna gengisfellingarinnar.

Ríkisstjórnin treystir sér ekki að leggja skatt á ríkustu landsmennina og ætlar að leggja af auðlegðarskattinn.

Ríkisstjórnin ætlar að gefa makrílkvótann og hún lækkar veiðigjaldið.

En hún hefur fundið breiðu bökin. Fólk í fátækustu löndum heims. Íslenskar barnafjölskyldur, venjulegar fjölskyldur með venjulegar skuldir, lágtekjufólk, lífeyrisþegar og námsmenn. Þessir hópar eiga að borga meira til samfélagsins en Sigmundur Davíð og Bjarni.

Þetta er hugrökk og framsýn ríkisstjórn.

06. 12 2013

Nokkur umræða hefur spunnist um þá staðhæfingu Illuga Gunnarssonar að ekki eigi að spyrja fólk um hvort það vilji að haldið verði áfram með aðildarferlið, heldur hvort það vilji ganga inn í ESB.

Í þessu felast bæði rökleysa og svik.

Rökleysan er sú að upplýsingar skortir til að maður geti svarað spurningunni um aðild með upplýstum hætti. Ég er til dæmis ekki til í aðild nema tryggt sé búið um ákveðna þjóðarhagsmuni. Þeir lúta til dæmis að því hvernig búið verður um hnúta í gjaldmiðilsmálum og möguleikum okkar til viðbragða við fjármálaáföllum og svo auðvitað um stjórnkerfi fiskveiða. Ég gæti ekki sagt í dag með óyggjandi og óafturkræfum hætti að ég vilji aðild að ESB ef aðildarsamningur verður ekki góður. Svo er um svo marga, marga aðra. Þess vegna hafa allar þjóðir gengið óbundnar til aðildarsamninga og lagt niðurstöðuna í dóm þjóðarinnar.

Svikin felast í því að Sjálfstæðisflokkurinn lofaði fyrir kosningar þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort haldið yrði áfram með aðildarumsóknina og lagði meira að segja fram tillögur um það efni á Alþingi. Þá var það semsagt rökrétt afstaða, að áliti forystu flokksins.

Viðsnúningur Illuga í þessu máli er eðlislíkur viðsnúningi Sjálfstæðisflokksins í skuldamálunum. Fyrir kosningar sagði Bjarni Benediktsson alveg skýrt að ekki kæmi til greina að ríkið tæki á sig kostnað af skuldalækkunum einstaklinga. Nú boðar hann aukningu ríkisútgjalda um 80 milljarða með allsherjarríkisvæðingu vandans.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur augljóslega ekkert lært frá því að hann leiddi Ólaf F. Magnússon til hásætis í borgarstjórn.

Hann gerir hvað sem er, segir hvað sem er og svíkur hvaða fyrirheit sem er til að fá völd og halda þeim. 

19. 11 2013

Við heyrum nú allra handa kviksögur um hvað í endanlegum tillögum ríkisstjórnarinnar um úrlausn skuldavandans muni felast. Og við getum ekkert gert annað en að bíða, enda hafnaði forsætisráðherra aðkomu stjórnarandstöðunnar að úrlausn skuldavandans síðasta sumar.

Forsætisráðherra hefur ekki veigrað sér við auka á væntingar skuldugra heimila. Hann hefur lýst fyrirhuguðum aðgerðum sem heimsmeti í úrlausn við skuldug heimili og setur því markið hátt, því fyrir liggur staðfesting Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á því að hvergi hafi verið meira gert í úrlausn skuldavanda heimila í heiminum en hér á landi á síðasta kjörtímabili. Þá lækkuðu skuldir heimila um 200 milljarða vegna ýmissa aðgerða stjórnvalda, löggjafans og dómstóla og 100 milljarðar fóru í vaxtabætur, sérstaka vaxtaniðurgreiðslu og barnabætur. Samtals er það því um 300 milljarðar á fjórum árum. Það heimsmet þarf að bæta ef Sigmundur ætlar að efna sitt.

En ríkisstjórnin er í vanda því að bæði Framsókn og Sjálfstæðisflokkur lofuðu að leggja ekki byrðar á ríkið af úrlausninni. Við munum öll hvernig ljótir erlendir hrægammar áttu að bera tjónið okkur öllum að kostnaðarlausu.

Það heyrist hins vegar nú að til standi að leysa málin með tvíþættum hætti og í báðum tilvikum á kostnað ríkisins. Annars vegar með því að skuldirnar verði lækkaðar og þá væntanlega um meira en 300 milljarða og Seðlabankinn taki á móti vaxtalaust skuldabréf og beri sjálfur kostnaðinn af lækkuninni, upp á von og óvon um hvað muni einhvern tíma koma ú túr erlendum kröfuhöfum. Hins vegar með því að fólk fái skattalækkun fyrir að borga inn á lánin sín. Þá veikist staða ríkissjóðs sem nemur lækkun skattteknanna. Um hvora leiðina skuli fara standi átök milli forystumanna stjórnarflokkanna.

Seðlabankinn tjáði sig skýrt í gær um skuldabréfaleiðina og sagði réttilega að hún gengi ekki, væri ígildi peningaprentunar, stæðist ekki lög og myndi setja landið í ruslflokk. Engum sem eitthvað þekkir til ríkisfjármála þótti þar nokkuð ofsagt. Ofsafengin viðbrögð forsætisráðherra við þessari yfirlýsingu í gærkvöldi vöktu því mikla athygli, en þau eiga sér nærtækari skýringu en margur heldur.

Síðdegis í gær spurði nefnilega Helgi Hjörvar formann Sjálfstæðisflokksins um afstöðu hans, í ljósi yfirlýsinga Seðlabankans. Þar tók formaður Sjálfstæðisflokksins undir með Seðlabankanum um að hann vildi forðast allt sem yki skuldir ríkisins og veikti lánshæfismat ríkisins. Það er hrósverð afstaða.

Reiðilestur Sigmundar Davíðs var því ætlaður öðrum en Seðlabankanum. Í gamla daga helltu stjórnarherrar Sovétríkjanna sér yfir Albaníu, þegar þeir þorðu ekki að skamma Kínverja. Sigmundur fer nú sömu krókaleið að því að skamma fjármálaráðherrann fyrir að vilja ekki láta ríkissjóð borga skuldaleiðréttingarnar – þvert á það sem hann sjálfur lofaði þjóðinni.
 

18. 11 2013

Sjávarútvegsráðherra talar nú fyrir því að kvótasetja makríl, þannig að enginn geti veitt makríl nema hafa til þess kvóta. Ég er sammála því, enda skynsamlegt að hafa stjórn á veiðum á öllum stofnum.

En ríkisstjórnin hyggst núna gefa makrílkvótann á grundvelli veiðireynslu undanfarinna ára. Það er ekkert sem kallar á það að kvótanum verði úthlutað án samkeppni. Af hverju má ekki bjóða þennan kvóta út? Engin útgerð hefur skuldsett sig til að kaupa þennan kvóta. Engin útgerð hefur áratuga langa reynslu af þessum veiðum og áunnið sér einhvern siðferðilegan hefðarrétt. Þess vegna eru kjöraðstæður til að úthluta kvóta með betri hætti í almannaþágu.

Ríkissjóður er í erfiðri stöðu og allir eru sammála um að við vildum svo gjarnan fá meira fé til að bæta velferðarþjónustuna. Heilbrigðisþjónustan þarf nauðsynlega á auknu fé að halda. Því ekki að bjóða út þessar almannaeigur? Hvers vegna á að gefa þær?

Ríkisstjórnin segir að veiðireynsla síðustu ára skipti öllu máli. En hún gengur í þveröfuga átt í nýlegum tillögum um kvótasetningu á úthafsrækju. Rækjukvótinn var til skamms tíma lítt eða ekki veiddur, því eigendur kvótans skiptu honum yfir í aðrar veiðiheimildir með svokallaðri tegundatilfærslu. Þess vegna voru rækjuveiðar gefnar frjálsar fyrir nokkrum árum. Á síðustu árum hafa nokkrar útgerðir sótt rækju og byggt undirstöður undir stönduga rækjuvinnslu á ýmsum stöðum. Sóknin er nú orðin of mikil og skýr rök fyrir því að kvótasetja úthafsrækjuna á ný.

Þá bregður svo við að ríkisstjórnin ætlar einungis að úthluta 30% af rækjukvótanum til þeirra sem sótt hafa rækju undanfarin ár. 70% af kvótanum eiga að fara til þeirra sem áttu rækjukvótann um síðustu aldamót og voru hættir að sækja hann! Ekkert sýnir betur tvöfeldnina í nálgun ríkisstjórninarinnar.

Ríkisstjórnin segir að veiðireynsla skipti öllu þegar spurt er hvort leigja eigi eða gefa kvóta. En sama ríkisstjórn virðir veiðireynslu að vettugi þegar hún telur mikilvægt að verja forréttindastöðu gamalgróinna útgerða, eins og í tilviki rækjukvótans.  

Eina skynsamlega leiðin við kvótasetningu nýrra tegunda er útboð. Það má hugsa sér að halda einhverjum hluta heildarkvótans eftir til úthlutunar á grundvelli veiðireynslu, en það er fráleitt að gefa allan kvótann með þeim hætti.

15. 11 2013

Nýútkomin þjóðhagsspá Hagstofunnar lýsir viðkvæmri stöðu. Við búum ekki lengur við afgang af viðskiptum við útlönd. Spá um gengi er að það verði áfram veikt og að kauphækkanir verði mjög litlar í kjarasamningum. Við blasir að ef kaupmáttur eykst muni innflutningur aukast og þrýstingur aukast á gengið.

Hagvöxtur er lítill og svo lítill að líklega ná fyrirtækin ekki að standa undir greiðslu skulda sinna. Framundan kann því að vera að fyrirtækin lendi aftur í sömu stöðu og rétt eftir hrun, þegar þau skulduðu meira en þau stóðu undir og gátu hvorki ráðið fólk né aukið við fjárfestingu í tækjum eða þekkingu.

Fjárfesting er lítil og gerir Hagstofan þó ráð fyrir því að Helguvíkurverkefnið eða ígildi hennar fari af stað á árinu 2015. Þrátt fyrir alla þessa kyrrstöðu er samt ekki gert ráð fyrir að verðbólga nái verðbólgumarkmiði fyrr en á árinu 2016!

Við þessar aðstæður þarf að tryggja innri vöxt með öllum tiltækum ráðum. Við þurfum meiri fjárfestingu í þekkingu og rannsóknum, auka menntunarstig í hverri grein og byggja þannig forsendur fyrir auknum hagvexti án þrýstings á gengið.   

Þessi sýn ætti að vera okkur öllum hvatning til að opna markaði og leita aukins krafts af erlendum samskiptum. Aðildarumsóknin er besta leiðin til þess.

En gott og vel, þessi ríkisstjórn hefur ekki áhuga á auknum vexti af alþjóðlegum viðskiptum.

En einmitt þess vegna er algerlega óskiljanlegt að sjá nýja ríkisstjórn leggja allt kapp á að slá af öll atvinnuþróunarverkefni vítt og breitt um land, skera við trog fjármagn í rannsóknarsjóði og tækniþróunarsjóð, afnema alveg uppbyggingarverkefni í starfsnámi og draga úr framlögum til framhaldsskóla og háskóla. Með slíkri stjórnarstefnu bíður stöðnunin ein.

Í þessu ljósi þarf að skilja nýleg hnjóðsyrði iðnaðarráðherra í garð stjórnenda Landsvirkjunar: Þegar heimatilbúnir hlekkir hugarfarsins – óbeit á alþjóðaviðskiptum og aukinni þekkingarsókn – hafa lamað ríkisstjórnina er bara einn kostur til að auka fjárfestingu.

Það er að gefa raforku til stóriðju.

28. 10 2013

Um þarsíðustu helgi var haldið Fjórðungsþing Vestfirðinga í Trékyllisvík á Ströndum. Þar var samþykkt ályktun um að harma þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að slá aðildarviðræðum við Evrópusambandið á frest. Þingið skoraði á ríkisstjórnina að klára viðræðurnar og bera samning undir þjóðaratkvæðagreiðslu. Gríðarleg vinna hafi verið lögð í undirbúning verkefna sem miða að því að bæta samkeppnishæfni svæða, en eru nú í uppnámi vegna óvissu um áframhald IPA-verkefna.
„Byggðastefna ESB miðar að því að aðstoða hvert svæði við að nýta getu sína til fullnustu með því að bæta samkeppnishæfni og efla atvinnulíf,“ segir í ályktuninni. „Það er gert með verulegu fjármagni og aðferðafræði sem gæti nýst okkur Íslendingum afar vel.“

Á Vestfjörðum hefur undanfarin ár verið lögð mikil vinna í að skilgreina leiðir til að byggja upp atvinnulíf og treysta byggð. Grunnurinn sem heimamenn vilja byggja á er hreinleiki svæðisins, ósnortin náttúra og vitund um mikilvægi umhverfisverndar. Í slíku felast sóknarfæri í ferðaþjónustu, landbúnaði og sjávarútvegi.

En veruleikinn er erfiður. Of háir vextir og lélegur aðgangur að fé til uppbyggingar. Aðild að ESB myndi leysa þann vanda fyrir Vestfirðinga, eins og aðra í hinum dreifðu byggðum.

Og án aðgangs að erlendum mörkuðum mun störfum tæpast fjölga í landbúnaði. Landbúnaðurinn hefur gríðarlega vaxtarmöguleika, en þarf að losna úr álögum einangrunar og fákeppni í afurðaþróun. Aðild að ESB myndi skapa okkur ný tækifæri til að fjölga störfum í landbúnaði. 
Skilaboðin úr Trékyllisvík eru skýr: Hagsmunir landsbyggðanna felast í því að lokið verði við samninga um aðild að ESB. 

Spurningin er hvort ríkisstjórnin hlusti. Hún hefur nú þegar orðið sér til minnkunar með því að telja sig vita betur hverjir eru hagsmunir verkalýðshreyfingar og atvinnulífs en Alþýðusambandið, Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð. Ætlar hún núna að segja okkur að hún þekki betur hagsmuni landsbyggðanna en fundur Vestfirðinga í Trékyllisvík?

Birt í Fréttablaðinu, 22. október 2013.

26. 06 2013

Félagsmálaráðherra hefur lagt fram frumvarp sem ætlað er að draga til baka skerðingar í almannatryggingakerfinu frá árinu 2009.

Það er gott markmið, sem við styðjum, en það skiptir máli hvernig það er gert.

Hér er byrjað á öfugum enda og gripið til aðgerða sem ekki nýtast þorra lífeyrisþega. Einungis tveir afmarkaðir hópar hagnast á breytingunum: Aldraðir sem geta unnið og hafa atvinnutekjur og svo örorku- og ellilífeyrisþegar sem hafa a.m.k. 250.000 krónur í mánaðartekjur frá lífeyrissjóðum. Mest hagnast þeir 2500 lífeyrisþegar sem eru með yfir 350.000 kr. á mánuði úr lífeyrissjóðum og fá nú ekkert úr ríkissjóði. Þeir munu eftir breytinguna fá rúmar 30.000 kr. fyrir skatt.

Þessar breytingar gera ekkert fyrir lífeyrisþega með undir 250.000 í tekjur og sem ekki hafa atvinnutekjur.

Ekkert bólar á efndum á raunverulegum kjarabótum, sem nýtast þorra lífeyrisþega. Svoleiðis aðgerðir virðast ekki ofarlega á forgangslista ríkisstjórnarinnar.  

Ekkert bólar á lækkun skerðinga vegna fjármagnstekna, sem myndi gagnast stórum hópi lífeyrisþega. Við ákváðum árið 2009 að skerðingarmörk vegna tekna úr lífeyrissjóðum yrðu hækkuð tímabundið og lækkuð aftur í lok árs 2013. Kjaraskerðing lífeyrisþega yrði því tímabundin. Ekkert bólar á flýtingu þeirrar breytingar, þrátt fyrir digur loforð stjórnarflokkanna þar um fyrir kosningar. Sama á við um loforð framsóknarþingmanna um endurgreiðslu allrar skerðingar allt frá árinu 2009. Ekkert bólar á efndum þar.

Þessi bútasaumur núna gengur líka í þveröfuga átt við þá þverpólitísku sátt milli fulltrúa flokka og aðila vinnumarkaðarins sem náðist í fyrra um nýtt almannatryggingakerfi og teflir þeirri endurskoðun í tvísýnu.

Eftir standa allir ókostir gamla kerfisins, sem við vildum losna við með nýju almannatryggingakerfi. Áfram verður 100% skerðing á framfærsluuppbót. Áfram geta lífeyrisþegar lent í falli á krónu og tapað hundruðum þúsunda ef þeir fá einni krónu meira en minna í greiðslur úr almennum lífeyrissjóðum.

28. 01 2013

Nú líður að lokum formannskjörs í Samfylkingunni. Það skiptir flokkinn miklu að þátttakan í kjörinu verði sem best. Ég vil hvetja þig til að kjósa í formannskjörinu og til að minna vini og ættingja sem skráðir eru í flokkinn á að taka þátt.

Mér er efst í huga þakklæti fyrir samskiptin og samtalið við mikinn fjölda fólks undanfarna mánuði.

Ég heillaðist barn að aldri af hugmyndinni um þjóðfrelsi og rétt undirokaðs fólks um allan heim til sjálfsákvörðunar. Það hafa verið leiðarljós í stjórnmálastarfi mínu allt til þessa dags. Þess vegna vil ég að Ísland standi vörð um sjálfstæði sitt með fullgildri þátttöku í samfélagi þjóðanna og að íslenskt launafólk njóti afkomuöryggis og verndar gegn ofríki stjórnvalda með sama hætti og fólk í nálægum löndum. Þess vegna vil ég auka vald fólks yfir eigin lífi og tryggja góða velferðarþjónustu án tillits til efnahags, á þeim forsendum sem fólk kýs sjálft.

Samfylkingin er eini flokkurinn sem byggir á svo sterkum rótum að geta með trúverðugum hætti ofið saman kvenfrelsi, verkalýðsbaráttu, velferðarsjónarmið, græn gildi, þjóðfrelsi, alþjóðahyggju og athafnafrelsi í óslítanlegan streng. Í þessari blöndu býr ótrúlegur kyngikraftur og á hennar grunni er auðvelt að veita svör við erfiðustu álitamálum okkar tíma. Spurningin er hvort við kjósum að nýta þetta hreyfiafl, rækta það og sækja fram með það sem höfuðvopn?

Ég hef notið mikils trausts, fengið tækifæri til að þjóna hreyfingu jafnaðarmanna og verið kallaður til verka í erfiðustu ráðuneytunum til að glíma við fordæmalaus verkefni í íslenskri sögu. Eftir þá reynslu hefur mér nú gefist færi á að þróa framtíðarsýn mína, byggða jafnt á hugsjónum bernskunnar og reynslu liðinna ára, og kynna ykkur hana. Samtöl mín við Samfylkingarfólk um allt land hafa þroskað þessar hugmyndir, stælt þær og bætt. Það er ekki sjálfsagt að njóta trausts félaga sinna með þessum hætti og ekki heldur að fá tækifæri til að þróa sýn á framtíðarverkefnin með þessum hætti. Ég lít því á undanfarin misseri sem eina langa uppskeruhátíð.

Fyrir þessi tækifæri þakka ég af alhug. Ég er reiðubúinn til að helga mig áfram því verki að finna hugsjónum okkar allra farveg í flóknum heimi. Nú er valið í höndum Samfylkingarfólks um land allt.

Árni Páll Árnason.