24. jan 2016

Á að reka hótel fyrir skattfé?

Á föstudag fréttist að sjúkrahótelið í Ármúla hefði sagt upp samningi sínum við Sjúkratryggingar Íslands. Í kvöldfréttum RÚV í gærkvöldi sagði svo heilbrigðisráðherra að hann ætlaði að funda með aðilum, því „fá þurfi botn í hvernig heilbrigðisþjónustan ætli að sinna sjúklingum sem þurfa þessa þjónustu.“ En hver er „þessi þjónusta“?

Samningur Sjúkratrygginga við sjúkrahótelið í Ármúla hefur nefnilega vakið athygli fyrir að vera um umtalsverð framlög úr almannasjóðum fyrir alltof lítið. Engin vitræn þjónustuskilgreining liggur samningnum til grundvallar og hagsmunir eigenda hótelsins en ekki almennings eru í fyrirrúmi.

Til að fjármagna samninginn á sínum tíma voru fjárveitingar til Landspítalans lækkaðar. Spítalinn hafði fram að því rekið sjúkrahótelsþjónustu, þar sem lasburða fólk sem þó þurfti ekki að vera á sjúkrahúsi, fékk hjúkrun. Spítalinn gat þannig létt á álagi á sjúkrahúsið sjálft. Í samningi við sjúkrahótelið í Ármúla gerðu Sjúkratryggingar Íslands engar kröfur um neina hjúkrunarþjónustu, heldur er einungis varið almannafé til að kaupa hótelherbergi og fæði. Sú þjónusta nýtist Landspítalanum ekki neitt, því ef hægt væri að útskrifa fólk af spítalanum heim til sín án hjúkrunarþjónustu væri það auðvitað þegar gert, ríkissjóði að kostnaðarlausu. Landspítalinn þarf því að sinna hjúkrunarþjónustunni.

Ámælisverðast er að hótelið, en ekki Landspítalinn, ræður hverjir fá inni samkvæmt samningnum. Ef Landspítalinn er að springa undan álagi, eins og þessar vikurnar, getur hóteleigandinn samt sagt nei. Hann tekur sjúklinga bara inn á hótelið til uppfyllingar, þegar ekki er hægt að leigja til túrista. Frægt varð þegar Smáþjóðaleikarnir voru haldnir og veiku fólki var vísað á dyr, því svo margir túristar komu til landsins. Díllinn er því sniðinn að þörfum eigenda sjúkrahótelsins en ekki þjóðarinnar. Hvaða hóteleigandi vill ekki vera í aðstöðu til að láta ríkið borga hjá sér öll þau herbergi sem annars standa tóm?

Eftir stendur því að það er jákvætt fyrir okkur skattborgara að þessi furðulegi og óþarfi samningur skuli á enda runninn og fráleitt fyrir heilbrigðisráðherra að reyna að endurvekja vitleysuna. Samningurinn var til skammar og gengur gegn meginmarkmiðum laga um sjúkratryggingar sem er ætlað að tryggja að almannaþörf sé að leiðarljósi við samningsgerð. Hann er gott dæmi um slæmar afleiðingar vanhugsaðrar samningsgerðar við einkaaðila, þar sem almannahagsmunir skipta engu, viðsemjandinn fær samning sniðinn að eigin hagsmunum, engin þarfagreining liggur til grundvallar og fjárfestar geta læst klóm í opinbert fé sem ætti að renna til umönnunar sjúks fólks. Við ættum satt að segja að nota nú tækifærið og koma, með lagabreytingu, alfarið í veg fyrir að hægt sé að semja við fjárfesta sem reka fyrirtæki í hagnaðarskyni um framkvæmd spítalaþjónustu við veikt fólk. Þar hafa Svíar nú sett mörkin, vegna vondrar reynslu af fjárfestingastarfsemi einkaaðila í spítalaþjónustu.

Ríkið á auðvitað ekki að greiða fyrir hótelherbergi fyrir fólk sem þarf ekki hjúkrunar við. Ef þörf er á hótelþjónustu, t.d. vegna þess að fólk utan höfuðborgarsvæðisins er að leita sér meðferðar á Landspítalanum, er sjálfsagt að greiða fyrir það, en annars ekki. Landspítalinn og þjóðin öll þarf sjúkrahótel, sem hýsir og hjúkrar fólki sem þarf umönnunar við en er ekki svo veikt að það þurfi sjúkrahúsvistar við og Landspítalinn þarf að geta ákveðið hverjir fái þar inni og í hvaða röð. Það takmarkaða fé sem rennur til heilbrigðismála á ekki að fara í rekstrarstyrki til sjúkrahótelsins í Ármúla, ekki frekar en til Hótel Nordica.