18. nóv 2013

Að gefa almannaeigur

Sjávarútvegsráðherra talar nú fyrir því að kvótasetja makríl, þannig að enginn geti veitt makríl nema hafa til þess kvóta. Ég er sammála því, enda skynsamlegt að hafa stjórn á veiðum á öllum stofnum.

En ríkisstjórnin hyggst núna gefa makrílkvótann á grundvelli veiðireynslu undanfarinna ára. Það er ekkert sem kallar á það að kvótanum verði úthlutað án samkeppni. Af hverju má ekki bjóða þennan kvóta út? Engin útgerð hefur skuldsett sig til að kaupa þennan kvóta. Engin útgerð hefur áratuga langa reynslu af þessum veiðum og áunnið sér einhvern siðferðilegan hefðarrétt. Þess vegna eru kjöraðstæður til að úthluta kvóta með betri hætti í almannaþágu.

Ríkissjóður er í erfiðri stöðu og allir eru sammála um að við vildum svo gjarnan fá meira fé til að bæta velferðarþjónustuna. Heilbrigðisþjónustan þarf nauðsynlega á auknu fé að halda. Því ekki að bjóða út þessar almannaeigur? Hvers vegna á að gefa þær?

Ríkisstjórnin segir að veiðireynsla síðustu ára skipti öllu máli. En hún gengur í þveröfuga átt í nýlegum tillögum um kvótasetningu á úthafsrækju. Rækjukvótinn var til skamms tíma lítt eða ekki veiddur, því eigendur kvótans skiptu honum yfir í aðrar veiðiheimildir með svokallaðri tegundatilfærslu. Þess vegna voru rækjuveiðar gefnar frjálsar fyrir nokkrum árum. Á síðustu árum hafa nokkrar útgerðir sótt rækju og byggt undirstöður undir stönduga rækjuvinnslu á ýmsum stöðum. Sóknin er nú orðin of mikil og skýr rök fyrir því að kvótasetja úthafsrækjuna á ný.

Þá bregður svo við að ríkisstjórnin ætlar einungis að úthluta 30% af rækjukvótanum til þeirra sem sótt hafa rækju undanfarin ár. 70% af kvótanum eiga að fara til þeirra sem áttu rækjukvótann um síðustu aldamót og voru hættir að sækja hann! Ekkert sýnir betur tvöfeldnina í nálgun ríkisstjórninarinnar.

Ríkisstjórnin segir að veiðireynsla skipti öllu þegar spurt er hvort leigja eigi eða gefa kvóta. En sama ríkisstjórn virðir veiðireynslu að vettugi þegar hún telur mikilvægt að verja forréttindastöðu gamalgróinna útgerða, eins og í tilviki rækjukvótans.  

Eina skynsamlega leiðin við kvótasetningu nýrra tegunda er útboð. Það má hugsa sér að halda einhverjum hluta heildarkvótans eftir til úthlutunar á grundvelli veiðireynslu, en það er fráleitt að gefa allan kvótann með þeim hætti.