23. apr 2007

Að hlaupast frá verkum sínum

Ég var að koma af góðum fundi eldri borgara í Mosfellsbæ með frambjóðendum úr öllum flokkum.

Það sem einkennir málflutning Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er að báðir flokkarnir eru nú á harðahlaupum undan verkum sínum í ríkisstjórn. Þeir koma og lofa endurmati á skerðingum vegna atvinnutekna eða lífeyrisgreiðslna, sem þeir lofuðu í síðustu kosningum. Samt lofuðu þeir því í stjórnarsáttmálanum.

Og þegar Katrín Júlíusdóttir minnti Ragnheiði Ríkharðsdóttur á að ríkisstjórnarflokkarnir hefðu fellt tillögu stjórnarandstöðunnar til úrbóta í þessu efni á þingi í haust sagðist Ragnheiður nú bara vera að tjá sína eigin skoðun. Þrátt fyrir mannval úr röðum ríkisstjórnarflokkanna á fundinum - þarna voru þær Ragnheiður Elín Árnadóttir og Siv Friðleifsdóttir - gat enginn stjórnarsinni útskýrt af hverju tillögur stjórnarandstöðunnar voru felldar í haust en áþekkum úrlausnum nú lofað af stjórnarflokkunum.

Í ræðu minni minnti ég á að þegar jafnaðarmenn hófu uppbyggingu velferðarkerfisins í stjórn hinna vinnandi stétta hafi markmiðið verið að binda enda á hreppaflutninga og aðrar ómennskar aðgerðir gagnvart fátæku fólki.

Það er nöpur staðreynd að ríkisstjórnarflokkarnir hafa endurvakið hreppaflutninga sem meginreglu í velferðarþjónustu við aldraða. Aldraðir Mosfellingar í brýnni þörf fyrir hjúkrunarrými mega sæta því að vera fluttir nauðungarflutningum í Stykkishólm eða Vík, því enga vist er að fá í heimabyggð. 1000 manns búa í nauðungarsambúð með ókunnugu fólki á hjúkrunarheimilum.

Þetta er óbrotgjarn minnisvarði um afrek Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins í velferðarmálum, eftir einstakt hagvaxtarskeið. Nú koma ríkisstjórnarflokkarnir aftur - eins og samviskulausir síbrotamenn - og lofa því sama og síðast og þarsíðast. Mér finnst nú hins vegar komið að reikningsskilum.

-áp