21. maí 2012

Að hóta öllu illu án afleiðinga?

Vefmiðillinn Eyjan bað mig að segja álit mitt á hugmyndum sem Róbert Wessmann hefur sett fram um hvernig leysa megi aflandskrónuvandann og koma efnahagslífinu úr öngstræti einangrunar. Hugmyndirnar byggja helst á því að þrengt verði aflandskrónueigendum og snjóhengjan þannig losuð. Lilja Mósesdóttir hefur gengið enn lengra í sömu hugmyndum. Svarið við þessu varð bæði lengra og efnismeira en lagt var upp með og fylgir hér.

Það er allt rétt sem Róbert Wessmann segir um mikilvægi þess að efnahagsleg endurreisn hér á landi byggi á verðmætasköpun. Gjaldeyrishöftin eru vissulega alvarlegasta vandamál íslensks atvinnulífs og nauðsynlegt að ræða raunverulega og raunhæfa kosti til afnáms þeirra. Að sumu leyti er Róbert á réttum stað í þeirri greiningu. Hann greinir til dæmis með hárréttum hætti að einhliða upptaka erlends gjaldmiðils gengur alls ekki upp í núverandi stöðu. Hann horfir sérstaklega á þann vanda sem aflandskrónueign erlendra aðila skapar, en þar skortir ýmislegt á að tillögur hans um lausnir gangi upp.

Í fyrsta lagi leggur hann til þá einföldu lausn að aflandskrónueigendum verði stillt upp við vegg og hótað að engir alvöru kostir muni bjóðast þeim, ef þeir fallist ekki á 40% afslátt. Hugsunin um þvingaðan afslátt af aflandskrónum hljómar út af fyrir sig alltaf jafn vel, en þessi hugsun er ástæðan fyrir því hversu illa okkur gengur glíman við aflandskrónuvandann.

Vandinn við þessa hugmynd er nefnilega sá að til að einhver taki svona afarkostum þarf að liggja að baki alvarleg og trúverðug hótun um hvað ella bíði. Hels helvítsvist. Við erum ekki í þeim bransa. Við erum þvert á móti stolt af þeim árangri sem við höfum náð og pirrumst helst á að ná ekki betri árangri.

Ef hótun af þessum toga á að vera trúverðug þarf samfélagið að vera tilbúið að hóta höftum til áratuga. Hver er tilbúinn til þess? Ég reyndi afbrigði af þessari leið, til að styðja við áætlun Seðlabankans um afnám hafta, þegar ég lagði í apríl 2011 fram frumvarp um framhald lagaheimildar til viðhalds gjaldeyrishafta til ársloka 2015. Markmiðið var að líklegra yrði en ella að aflandskrónueigendur tækju þátt í útboðum Seðlabankans. En hvað gerðist: Allt ætlaði þá um koll að keyra. Enginn - hvorki pólitík né hagsmunaaðilar - reyndist tilbúinn til að setja fram hótun um framhald hafta í hálft fimmta ár.

Hver á þá að hóta höftum í áratugi? Róbert segir í grein sinni að „Allir hagsmunaðilar þurfa að koma fram með skýr og samræmd skilaboð til krónueigenda um að þeir séu betur settir að taka þessu tilboði en ella. Til þess að slíkt megi takast verða leiðtogar okkar að leggja til hliðar stundarpólitík og ágreining.“

Ég tel engar líkur á pólitískri samstöðu um slíkar hótanir. Ef allir aflandskrónueigendur eiga að taka tilboði um 40% afslátt af eign sinni þurfa þeir að vera sannfærðir um að þeim bjóðist ekkert betra að öðrum kosti um langa framtíð. Þeir sjá á hinn bóginn að íslenskt efnahagslíf er frekar að rétta úr kútnum og að íslenskir vextir eru frekar háir i alþjóðlegum samanburði. Þeir sjá líka fram á að geta mögulega skipt öllum sínum aflandskrónum í evrur án afsláttar ef Ísland gengur í ESB og tekur upp evru.

Auðvitað getum við sameinast um að tala niður íslenskt efnahagslíf til að láta svona afarkosti virka. Við getum sett fram trúverðuga hótun. Við getum dregið aðildarumsóknina til baka, lýst því yfir að við séum til í að fórna öllu til – þar með áframhaldi EES – og við séum til í að viðhalda höftum í áratugi. Til að auka trúverðugleikann getum við gert Vigdísi Hauks að forsætisráðherra, Steingrím að fjármálaráðherra, Lilju Mósesdóttur að efnahagsráðherra og Ögmund að utanríkisráðherra (hvar er pláss fyrir Hall Hallsson?). Þá er aldrei að vita nema þeir færu fyrr - og gæfu okkur meira en 40% afslátt af kröfunum! En við skulum hætta að blekkja okkur með því að útlendingar séu svo vitlausir að falla fyrir hótunum sem við trúum ekki einu sinni sjálf.

Í annan stað virðist Róbert Wessmann misskilja einföldustu leiðina til að leysa aflandskrónuvandann, sem er upptaka evru með aðild að ESB. Hann gerir því skóna að sú aðgerð hafi í för með sér að skuld myndist milli íslenska seðlabankans og þess evrópska þegar aflandskrónueigendur fari með evrur sínar úr landi og að það geri aðild að ESB og upptöku evru ekki vænlegan kost. Þessi misskilningur fer víða þessa dagana og ekki seinna vænna að leiðrétta hann. Þetta er ekki rétt.

Við upptöku evru í kjölfar aðildar að ESB breytast allar íslenskar krónur í evrur - jafnt eignir okkar i bönkum, lífeyrissjóðum og eignir erlendra kröfuhafa. Úttekt og flutningur milli landa kemur íslenska seðlabankanum ekkert við, því þessar evrur eru alveg jafngildar evrópskum evrum. Úttektin kann að reyna á lausafjárstöðu einstakra banka, en það er viðráðanlegt vandamál. Þetta er bara sagan um Öskubusku með öfugum formerkjum: Í stað þess að prinsessan breytist í Öskubusku á miðnætti þegar Ísland tekur upp evru breytast allar íslensku krónurnar i evrur. Punktur. Fyrir vikið er sá stóri ágalli i greiningu Róberts að hann metur ekki með réttum hætti kosti upptöku evru með þessum hætti í samanburði við þá leið sem hann leggur til.

Í þriðja lagi felur tillaga hans í sér þá hættulegu hugsun að Ísland leysi aflandskrónuvandann einvörðungu með því að skella landinu í lás og svíða erlenda aðila, án efnislegrar réttlætingar. Það er mikil stefnubreyting að einsetja sér að græða á útlendingum og hún gæti orðið afdrifarík. Hún felur í sér að íslensk stjórnvöld myndu beinlínis að yfirlögðu ráði beita mismunun á grundveli þjóðernis. Það höfum við aldrei gert í þeim miklu erfiðleikum sem við höfum gengið í gegnum og sú stefnubreyting hefði mikil áhrif. Dettur einhverjum í hug að EES-samningurinn myndi bara virka eins og ekkert hefði í skorist eftir svona aðgerðir? Að þessar aðgerðir stæðust lánaskilmála Norðurlandanna og AGS? Skiptir aðgangur okkar að hinu alþjóðlega viðskiptakerfi og gagnkvæmni ekki lykilmáli í hugum manna eins og Róberts, sem hafa notið ríkulega af þeim tækifærum sem sköpuðust með opnun íslenska hagkerfisins?

Sagan er til þess að læra af henni. Ísland upplifði bankahrun 1930. Viðbrögð Íslands þá ollu útilokun Íslands og þvinguðum haftabúskap í 60 ár. Í hverju fólust þau vitlausu viðbrögð aftur? Jú – í ákvörðun um að láta tjónið lenda á útlendingum. Í mismunun þar sem réttindi erlendra fjarfesta voru fyrir borð borin og þeim skipað aftur fyrir innlenda aðila með afturvirkri lagasetningu.

Okkur hefur lánast að spila vel úr stöðu Íslands eftir hrun. Við áttum tvær leiðir – aðra að gefast upp og lýsa því yfir að okkur væru allar bjargir bannaðar. Þá hefði án efa gengið vel að leysa aflandskrónuvandann og við fengið mikinn afslátt, en meiri spurning er hvort hér væri yfir höfuð eitthvað atvinnulíf. Kannski værum við í stöðu Grikklands. Hin leiðin – að nýta afl og þor íslenskrar þjóðar og ákveða að vinna okkur út úr vandanum. Blessunarlega tókum við þann kostinn.

Kröfuhafar íslensku bankanna – að stærstum hluta erlendir bankar - hafa vissulega borið stærstan hluta tjónsins, enda stóð þeim það næst. Skipuleg aðför Íslands að erlendum aflandskrónueigendum væri alger stefnubreyting og myndi marka uppgjöf Íslands gagnvart því verkefni sem við stöndum frammi fyrir. Hún gæti líka eydilagt aðgang okkar að mörkuðum og læst okkur nauðug, viljug i áratugalöngum haftabúskap.

Alveg eins og síðast þegar við prófuðum þetta sniðuga trikk.