19. nóv 2013

Að skamma Albaníu

Við heyrum nú allra handa kviksögur um hvað í endanlegum tillögum ríkisstjórnarinnar um úrlausn skuldavandans muni felast. Og við getum ekkert gert annað en að bíða, enda hafnaði forsætisráðherra aðkomu stjórnarandstöðunnar að úrlausn skuldavandans síðasta sumar.

Forsætisráðherra hefur ekki veigrað sér við auka á væntingar skuldugra heimila. Hann hefur lýst fyrirhuguðum aðgerðum sem heimsmeti í úrlausn við skuldug heimili og setur því markið hátt, því fyrir liggur staðfesting Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á því að hvergi hafi verið meira gert í úrlausn skuldavanda heimila í heiminum en hér á landi á síðasta kjörtímabili. Þá lækkuðu skuldir heimila um 200 milljarða vegna ýmissa aðgerða stjórnvalda, löggjafans og dómstóla og 100 milljarðar fóru í vaxtabætur, sérstaka vaxtaniðurgreiðslu og barnabætur. Samtals er það því um 300 milljarðar á fjórum árum. Það heimsmet þarf að bæta ef Sigmundur ætlar að efna sitt.

En ríkisstjórnin er í vanda því að bæði Framsókn og Sjálfstæðisflokkur lofuðu að leggja ekki byrðar á ríkið af úrlausninni. Við munum öll hvernig ljótir erlendir hrægammar áttu að bera tjónið okkur öllum að kostnaðarlausu.

Það heyrist hins vegar nú að til standi að leysa málin með tvíþættum hætti og í báðum tilvikum á kostnað ríkisins. Annars vegar með því að skuldirnar verði lækkaðar og þá væntanlega um meira en 300 milljarða og Seðlabankinn taki á móti vaxtalaust skuldabréf og beri sjálfur kostnaðinn af lækkuninni, upp á von og óvon um hvað muni einhvern tíma koma ú túr erlendum kröfuhöfum. Hins vegar með því að fólk fái skattalækkun fyrir að borga inn á lánin sín. Þá veikist staða ríkissjóðs sem nemur lækkun skattteknanna. Um hvora leiðina skuli fara standi átök milli forystumanna stjórnarflokkanna.

Seðlabankinn tjáði sig skýrt í gær um skuldabréfaleiðina og sagði réttilega að hún gengi ekki, væri ígildi peningaprentunar, stæðist ekki lög og myndi setja landið í ruslflokk. Engum sem eitthvað þekkir til ríkisfjármála þótti þar nokkuð ofsagt. Ofsafengin viðbrögð forsætisráðherra við þessari yfirlýsingu í gærkvöldi vöktu því mikla athygli, en þau eiga sér nærtækari skýringu en margur heldur.

Síðdegis í gær spurði nefnilega Helgi Hjörvar formann Sjálfstæðisflokksins um afstöðu hans, í ljósi yfirlýsinga Seðlabankans. Þar tók formaður Sjálfstæðisflokksins undir með Seðlabankanum um að hann vildi forðast allt sem yki skuldir ríkisins og veikti lánshæfismat ríkisins. Það er hrósverð afstaða.

Reiðilestur Sigmundar Davíðs var því ætlaður öðrum en Seðlabankanum. Í gamla daga helltu stjórnarherrar Sovétríkjanna sér yfir Albaníu, þegar þeir þorðu ekki að skamma Kínverja. Sigmundur fer nú sömu krókaleið að því að skamma fjármálaráðherrann fyrir að vilja ekki láta ríkissjóð borga skuldaleiðréttingarnar – þvert á það sem hann sjálfur lofaði þjóðinni.