06. des 2013

Að spyrja fólk eða svíkja

Nokkur umræða hefur spunnist um þá staðhæfingu Illuga Gunnarssonar að ekki eigi að spyrja fólk um hvort það vilji að haldið verði áfram með aðildarferlið, heldur hvort það vilji ganga inn í ESB.

Í þessu felast bæði rökleysa og svik.

Rökleysan er sú að upplýsingar skortir til að maður geti svarað spurningunni um aðild með upplýstum hætti. Ég er til dæmis ekki til í aðild nema tryggt sé búið um ákveðna þjóðarhagsmuni. Þeir lúta til dæmis að því hvernig búið verður um hnúta í gjaldmiðilsmálum og möguleikum okkar til viðbragða við fjármálaáföllum og svo auðvitað um stjórnkerfi fiskveiða. Ég gæti ekki sagt í dag með óyggjandi og óafturkræfum hætti að ég vilji aðild að ESB ef aðildarsamningur verður ekki góður. Svo er um svo marga, marga aðra. Þess vegna hafa allar þjóðir gengið óbundnar til aðildarsamninga og lagt niðurstöðuna í dóm þjóðarinnar.

Svikin felast í því að Sjálfstæðisflokkurinn lofaði fyrir kosningar þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort haldið yrði áfram með aðildarumsóknina og lagði meira að segja fram tillögur um það efni á Alþingi. Þá var það semsagt rökrétt afstaða, að áliti forystu flokksins.

Viðsnúningur Illuga í þessu máli er eðlislíkur viðsnúningi Sjálfstæðisflokksins í skuldamálunum. Fyrir kosningar sagði Bjarni Benediktsson alveg skýrt að ekki kæmi til greina að ríkið tæki á sig kostnað af skuldalækkunum einstaklinga. Nú boðar hann aukningu ríkisútgjalda um 80 milljarða með allsherjarríkisvæðingu vandans.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur augljóslega ekkert lært frá því að hann leiddi Ólaf F. Magnússon til hásætis í borgarstjórn.

Hann gerir hvað sem er, segir hvað sem er og svíkur hvaða fyrirheit sem er til að fá völd og halda þeim.