15. okt 2011

Að vera í litlum flokki eða fjöldahreyfingu?

 - Hugleiðingar í aðdraganda Landsfundar II -

 Fyrsta grein sem ég skrifaði í Þjóðviljann – 28. júlí 1987 – bar þetta heiti. Hún fjallaði um þann flokk sem ég þá var að hefja starf í – Alþýðubandalagið – og hvatti fólk til umhugsunar um hvort það vildi frjálshuga flokk með valddreifða sýn eða flokk kreddufestu og leiðtogaræðis.

Félagshyggjufólk úr öllum áttum svaraði þessari spurningu skýrt með stofnun Samfylkingarinnar. Samfylkingin byggði frá upphafi á valddreifingu og valdeflingu og leiddi saman ólíka hópa, sem allir þráðu nýja sýn. Sumir höfðu unnið innan stjórnmálaflokka sem voru of bundnir af þrasi dagsins í dag, eilífri stöðu- og valdabaráttu og gáfu fólki lítið rúm til að vera það sjálft. Margir þekktu af eigin reynslu hið óbærilega stjórnlyndi og flokksforystu sem var búin að leggja línur og gaf lítið rúm til lýðræðislegrar umræðu. Allir þekktu flokksklíkurnar, sem í krafti þaulsetu höfðu alltaf dagskrárvald og gátu alltaf talað alla í kaf. Flestir þekktu skilgreiningardauðann – hina hugmyndafræðilegu lömun sem leiddi af því að búið var að skilgreina allt til dauðs. Enginn mátti fá nýja hugmynd, því hún fól alltaf í sér eitthvað slæmt. Hún ógnaði ýmist hugmyndafræðilegum hreinleika, viðteknum venjum eða hagsmunum forystunnar.

Samfylkingin þarf á umrótstímum að rifja upp þennan bakgrunn. Hvers vegna mælist Besti flokkurinn með mikið fylgi á landsvísu, þrátt fyrir aðild að óvinsælum ákvörðunum í Reykjavík? Vegna þess að liðsmenn hans hafa – þrátt fyrir allt – sýnst vera ósköp venjulegt fólk sem tekst á við ósköp venjuleg erfið úrlausnarefni af heiðarleika og sanngirni. Þau eru ekki að flytja dogmatískar ræður um hvort þessi eða hin ákvörðunin feli í sér svik við þessa eða hina hugmyndafræðina. Þau eru ágætlega laus við skilgreiningardauðann.

Er það endilega rétt nú að loka Samfylkingunni frekar og múra hana inn á bak við heilög vé flokksbanda? Er rétt að útiloka skráða stuðningsmenn frá aðkomu að ákvörðunum? Við höfum vissulega vonda reynslu af galopnum prófkjörum, en líka ágæta reynslu af prófkjörum þar sem skráðir stuðningsmenn geta tekið þátt. Er rétt að útiloka þann kost? Um síðustu helgi var árangur franskra jafnaðarmanna í prófkosningu metinn í góðri kjörsókn í prófkosningu forsetaframbjóðenda, þar sem öllum sem borguðu eina evru og lýstu stuðningi við flokkinn bauðst að kjósa. Og hvað með breska verkamannaflokkinn, sem ætlar nú að opna val formanns fyrir skráðum stuðningsmönnum? Eru þessir flokkar bara hugsjónalaus leiguþý og handbendi auðmanna?

Stjórnmál eru ekki upphaf og endir lífsins hjá þorra þjóðarinnar. Fólk vill gott og siðað samfélag og vill helst sinna sínu. Það vill gjarnan fá að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, en þegar því hentar og á þeim forsendum sem það sjálft kýs. Og það vill oftast ekki vera flokksbundið og hefur fyrir því margar góðar ástæður.

Í fyrsta lagi er það útbreiddur misskilningur að lýðræðislegt umboð aukist með því að flokksstofnanir taki fleiri og fleiri ákvarðanir um alla þætti stefnu flokka. Fólk sem mætir á fundi endurspeglar ekki kjósendahóp Samfylkingarinnar, frekar en flokksmenn annarra flokka endurspegla kjósendahóp þeirra. Fólk vill sinna sínu. Ef fólkið sem mætir á fundi myndi endurspegla kjósendahópinn væri það ekki á fundi, heldur heima hjá sér að tala við börnin sín, lesa eitthvað skemmtilegt eða horfa á sjónvarpið. Þar er jú kjósendahópurinn. Kjósendahópurinn á ekkert síðri rétt en flokksbundið fólk. Hann er frjómagn lýðræðislegrar hreyfingar, ekkert síður en skráðir félagar. Fólk sem mætir á fundi hefur sérstakan áhuga – og jafnvel sérstakar aðstæður – sem gera því kleift eða valda því að það sækir fundi af miklum þrótti. En sú staðreynd gerir það ekki þess umkomið að tala fyrir alla fylgismenn Samfylkingarinnar.

Í annan stað eru sífellt fleiri störf í samfélaginu þess eðlis að flokksaðild fer illa með því að þeim sé gegnt. Þetta eru störf sem byggja á einhvers konar trúnaðarskyldu. Þeir sem þeim gegna geta illa verið bundnir á klafa flokks, vegna trúnaðar við fag sitt eða þau verkefni sem þeim hefur verið trúað fyrir. Er það yfirveguð afstaða Samfylkingarinnar að loka dyrunum gagnvart þessu fólki?

Í þriðja lagi hefur umræða gagnvart flokksbundnu fólki líklega aldrei verið jafn andstyggileg og hatursfull og nú í almennri umræðu hér á Íslandi. Flokksbundið fólk, sem ekkert hefur til saka unnið annað en að sækja um starf og fá það, þarf að sæta alls konar ámælum og áburði.   

Í fjórða lagi eru viðhorf gagnvart stjórnmálaflokkum nú einstaklega neikvæð og látið er sem stjórnmálaflokkar gegni engu jákvæðu, lýðræðislegu hlutverki. Stjórnlagaráð kemst að þeirri niðurstöðu að veikja skuli hlut stjórnmálaflokka og leggur höfuðáherslu á fullt persónukjör stjórnmálamanna, án aðkomu flokka. Á sama tíma lítur systurflokkur okkar í Noregi á eflingu lýðræðislegra stjórnmálaflokka sem brjóstvörn lýðræðis gagnvart villimannslegri árás. Áhrifa þess virðist að engu gæta hér á landi.

Ísland stendur á tímamótum. Gömul valdaöfl eiga í miklum tilvistarvanda og fornir valdaflokkar eru ófærir um að svara þörfum hófsams miðjufólks sem þráir að sjá á Íslandi kraftmikið alþjóðavætt athafnalíf, samhliða félagslegu réttlæti. Við þessar aðstæður væri það ótrúlegt axarskaft af Samfylkingunni að loka sig af og þróast í gamaldags stjórnmálaflokk. Það fer henni ekki og hugmyndir um slíkt virðast til vitnis um djúpstæðan skort á sjálfstrausti. Við ætluðum ekki að búa til svoleiðis flokk. Við ætluðum að losna úr viðjum lítilla og stjórnlyndra flokka og búa til lýðræðislega fjöldahreyfingu.