23. des 2008

Áfangasigur í eftirlaunastríði

Við höfum undanfarin fimm ár lagt höfuðáherslu á að afnema eftirlaunaforréttindin. Við höfum þurft samkomulag við aðra flokka til þess. Í gær fengum við þau að mestu afnumin og gott betur – við afnámum gamalt forréttindakerfi sem heimilaði töku eftirlauna samhliða fullri vinnu – þrátt fyrir andstöðu VG. 

Um áratugaskeið hafa stjórnmálamenn getað fengið starf hjá ríkinu eftir starfslok á Alþingi og fengið eftirlaun, samhliða nýju starfi. Þetta hefur leitt til eins ógeðfelldasta sérkennis á íslenskri stjórnsýslu: Óeðlilegs þrýstings á pólitískar ráðningar hjá hinu opinbera. Við afnámum þessar tvöföldu greiðslur frá hinu opinbera. VG lagðist gegn afnámi þessarar grunnforsendu pólitískrar spillingar og klíkukerfis. 

Við erum að afnema forréttindi fyrrverandi forsætisráðherra og hækka aldursmörk fyrir töku eftirlauna. Við höfum jafnað réttindaávinnslu milli þingmanna og ráðherra sem er mikilvægt og þetta allt saman lækkar lífeyrissjóðsskuldbindingar gagnvart ráðherrum um 60%. 

Við lækkuðum réttindaávinnslu þingmanna og ráðherra þannig að hún verður í samræmi við réttindaávinnslu í A-deild, að teknu tilliti til þeirra hærri iðgjalda sem þessi hópur greiðir. M.ö.o.: Að því leyti sem um forréttindi er að ræða greiða þingmenn og ráðherrar fyrir þau forréttindi sjálf. 

Það sem út af stendur er að stjórnarandstaðan vildi að við færum í A-deild opinberra starfsmanna. Meiri hluti allsherjarnefndar kallaði eftir frekari athugun á þessum þætti og fyllilega kemur til greina að færa þennan hóp undir A-deildina en sú skoðun og sú umræða á eftir að eiga sér stað. Það er hins vegar ekkert óumdeild lausn. Spyrja má: Eru það ekki forréttindi að við skömmtum okkur með aðild að A-deildinni örugg réttindi, óháð stöðu viðkomandi lífeyrissjóða, á meðan að almennir launamenn þurfa nú að sæta skerðingu vegna taps sjóðanna? Yrði örugglega sátt um slíkt? Er ekki nær að fella okkur þá inn í almenna kerfið?

Sjálfur tel ég eðlilegast að við nýtum það tækifæri sem nú er að skapast í niðursveiflunni til að jafna lífeyriskjör allra borgara og ná þjóðarsátt um gamalt baráttumál jafnaðarmanna.

Einn lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn!