09. nóv 2012

Árni Páll og atvinnulífið

Í Suðvesturkjördæmi – Kraganum – þurfum við jafnaðarmenn að velja á milli mjög hæfra einstaklinga til að leiða lista okkar í komandi kosningum. Þetta setur mörg okkar örugglega í töluverð vandræði en sýnir um leið styrkleikamerki flokksins.
Það er ljóst að samskipti ríkisstjórnarinnar og atvinnulífsins mættu vera í uppbyggilegri farvegi – en þau samskipti hafa því miður of oft lent í átakafarvegi. Bera báðir aðilar nokkra ábyrgð á stöðu mála enda er sagt að sjaldan valdi einn þá tveir deila. Það er hins vegar lykilatriði að eftir kosningar í vor nái stjórnmálin og atvinnulífið að stilla betur saman strengi sína og vinna saman að þjóðþrifamálum enda hefur allt of mikill tími og orka beggja aðila farið í deilur.
Á undanförnum árum hef ég átt þess kost að kynnast Árna Páli í gegnum vinnu mína fyrir hagsmunasamtök atvinnulífsins. Það sem hefur einkennt samskipti mín við Árna Pál er að við úrlausn mála hefur hann verið óhræddur við að kalla ólíka aðila að borðinu og þannig kynnt sér málin ýtarlega frá öllum hliðum. Þetta er mikill kostur enda skiptir miklu máli í öllum samskiptum að menn séu tilbúnir að hlusta á rök, að niðurstaðan sé ekki fyrir fram gefin. Þegar Árni Páll gegndi stöðu efnahags- og viðskiptaráðherra var hann einnig ötull að halda samskiptaleiðum opnum, en það er að mínu mati lykillinn að úrlausn mála, að menn tali saman í stað þess að hrópa á torgum.
Ég tel að Árni Páll hafi undanfarið nýtt tímann vel og sé reiðubúinn að taka að sér forystuhlutverk í Samfylkingunni og leiða flokkinn í Kraganum. Hann hefur unnið sér traust innan atvinnulífsins og ég tel að hann sé einn af lykilmönnum í því að byggja brýr milli ólíkra viðhorfa – byggja brýr á milli stjórnmálanna og atvinnulífsins. Við þurfum mann með sterka framtíðarsýn. Við þurfum öflugan jafnaðarmann sem skilur að öflugt velferðarkerfi verður eingöngu byggt á öflugu atvinnulífi.

Margrét Kristmannsdóttir.