27. jan 2016

Dönsku lagabreytingarnar

Mikið hefur verið fjallað um lagabreytingar sem samþykktar voru í danska þinginu í gær og miða að því að herða reglur um móttöku flóttafólks.

Sérstaka athygli hefur vakið sú breyting að leit verði gerð hjá flóttafólki og verðmæti umfram sem svarar til 190.000 íslenskra króna verði nýtt til að standa straum af kostnaði við uppihald viðkomandi. Það er full ástæða til að vara við þessari breytingu og árétta að hún gengur gegn öllu því sem eðlilegt og mannúðlegt má teljast við móttöku flóttafólks. Hún skapar þau hugrenningatengsl að flóttafólk sé almennt vel stætt og hafi að markmiði að komast undan því að leggja af mörkum í nýju samfélagi. Það er óásættanlegt og grefur undan mannúðlegum viðhorfum til flóttafólks, sem sannarlega er í brýnni þörf fyrir hæli gegn ofsóknum, styrjöldum og ofbeldi.

Þetta er þeim mun sorglegra þegar haft er í huga að Danir hafa verið og eru enn í fremstu röð meðal Evrópuríkja, þegar kemur að móttöku flóttafólks. Danir voru þannig í sjöunda sæti yfir Evrópusambandsríki í móttöku flóttafólks á síðasta ári og hafa lagt mikið af mörkum til alþjóðastofnana sem sinna flóttafólki. Ríkisstjórn Danmerkur viðurkennir að með þessum breytingum sé gengið út á ystu nöf gagnvart þeim alþjóðasamningum sem Danir eiga aðild að. Þessar staðreyndir sýna hversu dapurleg þróunin getur orðið ef alþjóðasamfélagið megnar ekki að taka heildstætt á þeim fordæmalausa flóttamannavanda sem nú er við að glíma og hvert og eitt ríki fer að grípa til aðgerða til að hrinda straumnum frá sér. Ég er sammála Jónasi Gahr Støre, formanni norskra jafnaðarmanna, þegar hann segir í Morgunblaðinu í dag að við höfum einungis nokkrar vikur til að bjarga Schengen og frjálsri för um Evrópu.