18. feb 2007

Fortíðarstefna Baldurs og Konna

Davíð Oddsson minnti okkur á fyrir rúmri viku að hann hefur aldrei yfirgefið vettvang stjórnmálanna. Þá gagnrýndi hann tiltekið fyrirtæki, Straum-Burðarás, fyrir að hafa með meintum klækjum farið á svig við lagaákvæði um heimildir til upptöku evru. Í annan stað setti hann fram þá hótun í garð annarra fjármálastofnana að ekki hefði verið til þess ætlast að þær gætu nýtt sér lagaheimildir til að taka upp evru sem starfsrækslumynt. Í þriðja lagi lagði hann að jöfnu inngöngu í Evrópusambandið og afsal stjórnarfarslegs sjálfstæðis Íslands með því að þjóðin gerðist hluti Bandaríkjanna.

Fyrst hélt ég að hér væri um að ræða einmanalegt ýlfur frá stjórnmálamanni sem skilað hefur dagsverki sínu og ber, eins og alþjóð veit, hvorki skynbragð á alþjóðamál né efnahagsmál. En svo kom leynigesturinn Geir H. Haarde úr felum í Silfri Egils á sunnudag fyrir viku og endurtók flesta frasana. Geir talaði undan og ofan af því að Straumur-Burðarás hefði ekki mátt færa starfsemi sína yfir í evru. Jafnframt tók hann undir þá lögskýringu Davíðs að mögulegt væri að hindra önnur fjármálafyrirtæki í að nýta sér kosti evrunnar. Að síðustu fór hann með langa þulu sem ætlað var að ýta undir þá tilfinningu að við gætum allt eins tekið upp dollara og evru.

En allt er þá þrennt er. Á miðvikudaginn setti Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra reglugerð um veitingu heimildar til færslu bókhalds og samningar ársreiknings í erlendum gjaldmiðli. Þar eru þrengdar heimildir íslenskra fyrirtækja til að nýta sér hagræði af uppgjöri í erlendum gjaldmiðli. Og í 3. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar segir: „Nú sækir fjármálafyrirtæki sem skilgreint er sem lánastofnun samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki um heimild til bókhalds og samningar ársreiknings í erlendum gjaldmiðli og skal þá ársreikningaskrá leita umsagnar Seðlabanka Íslands um umsóknina.“ Þetta ákvæði er í skýrri mótsögn við meginstefnu í löggjöf á undanförnum árum, þar sem þess hefur verið gætt að draga úr stjórnsýsluhlutverki Seðlabankans í samræmi við opinbera stefnumörkun um sjálfstæði hans. Í leiðara Fréttablaðsins í dag er þessari reglugerðarsmíð réttilega líkt við spastískar tilraunir til að halda aftur af eðlilegri þróun viðskiptalífsins í landinu.

Í öllu þessu brambolti og óðagoti felast skýr skilaboð Sjálfstæðisflokksins til fyrirtækjanna í landinu. Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að viðhalda ofþenslu og verðbólguþrýstingi og forðast stöðugleika eins og heitan eldinn. Sjálfstæðisflokkurinn ætlar síðan að standa í vegi fyrirtækjanna þegar þau reyna að forðast þær búsifjar, sem þessi efnahagsóstjórn leiðir til, með því að gera upp í evrum. Til þess verða allir lagaklækir nýttir og nýjar reglur uppdiktaðar.

Stærstu fyrirtæki landsins skila nú tugum milljarða í skattgreiðslum til íslenska ríkisins. Sveigjanlegt rekstrarumhverfi hefur gert þeim kleift að halda höfuðstöðvum sínum hér á landi, til hagsbóta fyrir okkur öll. Hættan er sú að óbilgirni og veruleikafirring Sjálfstæðisflokksins verði til þess að íslensk fyrirtæki eigi þann eina kost í nauðvörn að flytja starfsemi sína úr landi. Þegar fortíðaraðferðir í hagstjórn eru farnar að valda metnaðarfullum fyrirtækjum óbærilegum kvölum er lausn Sjálfstæðisflokksins ekki að breyta hagstjórnaraðferðunum heldur hrekja fyrirtækin burt. Það er því greinilegt að efnahagsstefna Sjálfstæðisflokksins er eins og spegilmynd af efnahagsstefnu Ögmundar Jónassonar, sem lýst hefur áhuga á að auka jöfnuð í landinu með því að losna við þau fyrirtæki úr landi sem greiða hæstu launin. Samstaða um rekstrarumhverfi fortíðarinnar í helsi hafta og ómálefnalegra afskipta stjórnvalda af fyrirtækjum gæti því verið grunnstef í stjórnarsáttmála íhalds og vinstri grænna.

Þetta eru grafalvarlegt tíðindi fyrir fyrirtækin í landinu. Samband Geirs Haarde og forvera hans er svipað og samband Baldurs og Konna og það fer ekkert á milli mála hvor er hugsuðurinn og hvor er spýtudúkkan í því sambandi. Þegar Davíð hvarf af vettvangi jókst fylgi Sjálfstæðisflokksins, því þjóðin vildi trúa því að nú væri lokið heiftúðugri hefndarherferð flokksins á hendur þeim forystumönnum í atvinnulífinu sem höfðu neitað að lúta flokkslegri forskrift. Endurkoma dúettsins Baldurs og Konna á svið stjórnmálanna sýnir að það var röng ályktun. Nú ríður á að atvinnulífið styðji við framsækna efnahagsstefnu Samfylkingarinnar, sem byggir á virðingu fyrir grundvallarreglum réttarríkisins, stöðugleika, stóriðjuhléi og aðlögun íslensks efnahagslífs að evrópskum veruleika. Fortíðarþrá Baldurs og Konna er ekki viðunandi valkostur.

-áp