16. apr 2007

Glæsilegur landsfundur

Landsfundur Samfylkingarinnar um helgina var glæsileg samkoma. Umgjörð og skipulag var allt til fyrirmyndar. Aukafundir í tengslum við landsfundinn voru áhugaverðir og starf í vinnuhópum gott. Setningarathöfnin var sérstaklega glæsileg og ræður Helle Thorning-Schmidt og Monu Sahlin voru góðar. Hápunktur landsfundarins í mínum huga var hins vegar lokaávarp Ingibjargar Sólrúnar. Þar talaði hún um að flokkurinn væri nú fullburða jafnaðarmannaflokkur og brýndi flokksmenn alla til sóknar fyrir lokahnykk kosningabaráttunnar. Hún færði þau rök fyrir því að flokksmenn hefðu sýnt þann styrk að mæta vel á landsfundinn þrátt fyrir andbyr undanfarinna vikna.
Ég get tekið undir það að helsta undrunarefni mitt var hin mikla aðsókn sem var að fundinum. Það var ofar öllum vonum að fá hátt í tvö þúsund manns við setningarathöfnina. Hitt fannst mér ótrúlegra að aldrei skyldu fara undir 200-300 manns í salnum á laugardeginum og að þegar mest var skyldi vera í kringum þúsundið í húsinu.
Það var hins vegar viðbúið að hælbítar íhaldsins myndu reyna að kasta rýrð á landsfundinn. Fjörugar umræður hafa risið í bloggheimum um fundarsóknina eftir að myndin hér til hliðar af okkur Ingibjörgu Sólrúnu birtist á mbl.is og hafa sumir efast um fundarsókn í ljósi myndarinnar. Áhyggjufullum til hugarhægðar skal upplýst að við sitjum þarna við aftasta borðið í salnum og klukkan er um 9.35 á laugardagsmorgni. Á dagskrá var skýrsla gjaldkera og samþykkt reikninga. Tímasetningin og þokki umræðuefnisins útskýra væntanlega hvers vegna ekki er þröng á þingi.