05. apr 2011

Hátíðarræða á hálfrar aldar afmæli Seðlabankans

I.

Sérnafnið „Hrunið“ hefur fylgt okkur allt frá vetrarbyrjun 2008 – og fylgir enn. Þetta hugtak er að sumu leyti hætt að vísa til fortíðar og afmarkaðra atburða heldur lýsir í hugum margra viðvarandi óheillaþróun þar sem Íslands óhamingju verði allt að vopni og margir spyrja hvort óstöðvandi sé.

Þegar við nú fögnum fimmtíu ára afmæli Seðlabanka Íslands búast því væntanlega margir við að ég segi bankanum til syndanna og lesi upp af löngu syndaregistri. Og víst er um það að fyrsti áratugur þessarar aldar markaði ekki glæstustu kaflana í sögu Seðlabankans. En þessi ræða verður ekki slíkrar gerðar. Viðvarandi ógöngur þjóðarinnar stafa ekki síst af heilögum sakbendlum sem nærast á og næra hræsnisfulla fortíðarsýn sem horfir framhjá framtíðinni, skilur bara persónusögu, horfir framhjá samábyrgð og hlífir sér við því að skilja í raun hvað gerðist og þar með hvað framundan er.

Sagt er að í Svíþjóð sé ekki enn samhljómur um orsök bankakreppunnar og gengishrunsins sem þar varð árið 1992. Rannsóknarnefnd Alþingis stillti orsökum falls íslensku bankanna upp í 68 mismunandi atriðum án orsakasamhengis, án alþjóðlegs samanburðar og án greiningar á sögulegu samhengi. Sagt er um Argentínu að þar hafi bankakreppa breyst í viðvarandi stjórnarfars – og efnahagskreppu því að samfélagið hafi aldrei komið sér saman um leiðina út. Sundurlyndisfjandinn á marga samherja á Íslandi og brýnasta verkefni okkar nú er að segja honum stríð á hendur. Grunnstofnanir hvort sem er ríkisstjórn, Alþingi eða Seðlabanki verða að þekkja sinn vitjunartíma, skilja að skyldan er sú að greina sameiginlega þjóðarhagsmuni og láta þá ráða í einu og öllu.

Málflutningur Seðlabanka Íslands þarf einnig að brjótast undan oki persónuvarnar þáverandi formanns bankastjórnar og þróast í átt til skýrrar og ærlegrar viðurkenningar á kjarna málsins, sem er sá að mælikvarðar Seðlabankans á fjármálastöðugleika í landinu reyndust rangir. Framundan er langvinn sókn sakamáls til refsidóms gegn fyrrverandi forsætisráðherra. Sú saksókn byggir fyrst og fremst á sakbendingu bankastjórnarformanns um óskráðar viðvaranir ótengdar mati á fjármálastöðugleika. Er slíkt réttmætt, faglegt og stofnuninni samboðið? Mat á fjármálastöðugleika er ennþá, rétt eins og fyrir 2008 lögmælt hlutverk Seðlabanka Íslands: Spurt er hvert er rétt mat á fjármálastöðugleika lítils, opins hagkerfis á hnattrænum óstöðugum fjármagnsmörkuðum? Nú árið 2011 bíður íslenska þjóðin skýrs og óhlutdrægs svars seðlabanka síns við því.

 

II.

Gylfi Þ. Gíslason foringi Alþýðuflokksins í Viðreisnarstjórninni frá 1959 og einn hugmyndasmiða aðlögunar Íslands að alþjóðasamvinnu og viðskiptafrelsi, lýsti tilgangi nýstofnaðs Seðlabanka svo í endurminningum sínum um viðreisnarárin að bankanum væri ætlað að „varðveita og efla gjaldeyrisvarasjóð sem tryggja myndi viðskiptafrelsi með því að ávallt væri til staðar gjaldeyrir til viðskipta við útlönd og stuðla að fjárhagslegu öryggi þjóðarinnar út á við“.

Breytingin er gríðarleg á þessum fimmtíu árum sem liðin eru frá stofnun Seðlabanka Íslands. Þegar Seðlabankinn var settur á fót var Ísland enn í hópi þróunarríkja. Efnahagslífið var einhæft og illa farið eftir krampakenndar tilraunir stjórnvalda um áratugi til að halda aftur af heimatilbúinni víxlverkan hafta og viðskiptahalla. Traust á Íslandi í alþjóðlegum viðskiptum var í lágmarki. Pólitísk spilling var landlæg. Peningar voru afhentir vildarvinum á kostakjörum úr ríkisbönkum og skattar voru innheimtir að geðþótta. 

Það reyndist aldrei mögulegt að ná umtalsverðum stöðugleika gengis og verðlags. Þar ræður líklega mestu smæð hagkerfisins og viðkvæmni þess fyrir sveiflum. En okkur tókst að auka tiltrú á íslenskt hagkerfi og íslenska hagstjórn á þann veg að lánstraust þjóðarinnar jókst og lánshæfismat ríkisins batnaði. Fyrir vikið varð mögulegt að afla lánsfjár til framkvæmda sem skiluðu þjóðinni arði og juku hagsæld í landinu. Þessar umbætur urðu ekki af sjálfu sér og þáttur Seðlabankans á þessari vegferð til aukinnar alþjóðlegrar reisnar Íslands verður seint ofmetinn.

Árið 2003 var lánstraust Íslands orðið auðlind – auðlind sem við ofnýttum með sama hætti og síldin var ofveidd á sinni tíð. Þegar lánshæfismat ríkisins hafði náð allra bestu kjörum sóttu nýeinkavæddir bankar óheft fjármagn til endurlána með þeim hörmulegu afleiðingum sem allir þekkja. En það voru ekki bara óábyrgir bankamenn sem misstu fótanna. Stjórnmálamenn blinduðust líka af ávinningnum sem lánshæfismatið gaf. Íbúðalánasjóði var breytt úr húsnæðislánastofnun sem lánaði almenningi á lágmarkskjörum með lágmarksáhættu í fjármálastofnun sem axlaði mikla áhættu í rekstri og var óvarin gegn áhlaupi á markaði. Sveitarfélög öfluðu sér gríðarlegs lánsfjár á ótrúlega hagstæðum kjörum til misskynsamlegra verkefna. Sparisjóðir tóku margir þátt í leiknum og breyttust í vogunarsjóði. Tugþúsundir Íslendinga tóku lán umfram það sem skynsamlegt var.

Nú hefur rányrkjan á þessari auðlind valdið þurrð, eins og ávallt gerist þegar um ágenga og ósjálfbæra nýtingu auðlinda er að ræða.

 

III.

Það er kominn tími til að binda enda á „Hrunið“. Ísland bjargaðist frá þjóðargjaldþroti haustið 2008. Við lágum undir ámæli um að vera þrotaríki og umheimurinn skildi óskýrar yfirlýsingar Seðlabankans svo að greiðsluvilji Íslands væri horfinn. Neyðarlögin voru eini kostur Íslands og mörkuðu varnarlínu sem síðan hefur dugað best: Við vildum vera hluti af alþjóðlegu viðskiptaumhverfi en jafnframt forða því að almenningur þyrfti að bera óásættanlegar byrðar vegna hrunsins. Allar okkar aðgerðir síðan hafa markast af þessari stefnu. Þessi leið nýtur aukinnar alþjóðlegrar virðingar, þegar aðrar þjóðir stara á banvænan skuldaklafa bankabjörgunar í sínum löndum.

Framundan er endurreisn á þessum grunni. Forsenda efnahagslegs öryggis er endurnýjuð sóknarbarátta Seðlabanka og ríkisstjórna fyrir alþjóðlegu trausti og tiltrú á íslenskt efnahagslíf. Sú barátta verður að byggja á þeim meginmarkmiðum með starfi Seðlabanka Íslands sem Gylfi rakti forðum – að stuðla að fjárhagslegu öryggi þjóðarinnar út á við og tryggja viðskiptafrelsi. Jóhannesi Nordal, fyrsta Seðlabankastjóranum, varð tíðrætt í skrifum sínum um mikilvægi þess að vera í senn góður heimsborgari og sannur Íslendingur. Aldrei í sögu sjálfsstjórnar Íslands hefur þetta skipt jafn miklu og nú.

Samspil þjóðríkisins og fjölþjóðlegs skipulags fjármálamarkaða verðum við Íslendingar að skilja til fulls, ef við ætlum að verja okkar hagsmuni. Mat okkar á fjármálastöðugleika, á rekstri banka í mörgum ríkjum, á forsendum eigin gjaldmiðils og opnun hagkerfisins og skipulagi okkar eigin hagstjórnar – allt þarf þetta nýrrar hugsunar við. Hagfræðin í landinu þarf fleiri raddir en þá einsleitni sem leiddi til þess að enginn hagfræðingur varaði opinberlega við ofvexti bankakerfisins eins og Gylfi Zoëga rekur ágætlega í nýrri bók. Seðlabankinn fór ekki varhluta af þeirri þróun.

Við þurfum að hugsa ýmsa þætti upp á nýtt. Ódýrt lánsfé mun ekki ráða atvinnuuppbyggingu og knýja hagvöxt á Íslandi á næstu árum. Þvert á móti þurfum við nýjar lausnir sem leggja grunn að hagvexti á sjálfbærum forsendum. Við þurfum að byggja nýja umgjörð um fjármögnun stærri fjárfestinga í íslensku atvinnulífi. Við þurfum að tryggja forsendur heilbrigðrar fjárfestingar, innlendrar sem erlendrar, og koma á skynsamlegu fjármálakerfi, sem styður við verðmætasköpun í atvinnulífinu og gerir samkeppnishæfum fyrirtækjum kleift að vaxa hér á landi.

Við þurfum að herða okkur í endurbótum á bankarekstrinum í landinu. Gengisfall krónunnar þurrkaði í einu vetfangi upp drýgstan hluta eigin fjár fyrirtækja, heimila, sveitarfélaga og veitufyrirtækja. Okkur verður að takast að hreinsa út hið ónýta og bankar og aðrir að viðurkenna tapaðar kröfur. Meðan ársreikningar bankanna gefa óraunsanna mynd af rekstri þeirra eins og nú er og lánateppa ríkir, er hætta á lamandi stöðnun efnahagslífs Íslendinga. Ábyrgð banka sem reikna sér svimandi háar vaxtatekjur af endurmati á útlánasöfnum þar sem annað hvort lán er í vanskilum, er mikil. Bankar þurfa að verða smærri, byggja á heilbrigðum rekstrarforsendum og störfum í fjármálakerfinu þarf að fækka verulega. Ef sú þróun tefst mun alltof stórt og dýrt bankakerfi sjúga afl og þrótt úr atvinnulífinu og frá heimilunum í landinu. Íslensk þjóð getur ekki orðið sem lénsmaður fjármálafyrirtækja sem eru alltof dýr og óarðbær í rekstri.

Við þurfum aftur að fá húsnæðislánakerfi sem gerir fólki kleift að taka hófleg lán með lágmarks áhættu. Öll íbúðalán eiga að vera forfjármögnuð með skuldabréfaútgáfu á markaði og uppgreiðsla íbúðalána þarf ávallt að vera heimil. Nýendurreistir bankar eiga að koma að því að veita íbúðalán á þessum sjálfbæru forsendum, rétt eins og hið opinbera.

Ísland er enn land tækifæra. Við eigum mikinn mannauð og náttúruauðlindir sem nýta má þótt lánsfé skorti. Um aldir sátum við í heljarkulda og horfðum á bullandi hveri og dynjandi fossa sem við höfðum hvorki þekkingu né fjármagn til að nýta. Ódýrt lánsfé hefur verið drifkraftur orkunýtingar á Íslandi um áratugi. Nú er það horfið. Getum við bundist samtaki um að sækja fram og finna nýjar aflvélar fyrir efnahagssóknina? Getum við þróað íslensku atvinnulífi samkeppnishæfa umgjörð og tryggt því aðgang að þolinmóðu fjármagni á sanngjörnum kjörum við breyttar aðstæður?

Thor Vilhjálmsson minnti í viðtali fáum dögum fyrir andlát sitt á að við þyrftum að komast „út úr fárinu og standa saman, þeir sem hafa einhvern mann innra með sér“ og minnti á orð Kjarvals: „Fólk sem lyftir aldrei neinu í samtaki verður aldrei þjóð.“ Hann bætti við: „Nú ríður á þessu: Samtak, verða þjóð og vinna fyrir okkur sem þjóð, meðal þjóða heimsins.“

Við stöndum nú á tímamótum. Mun okkur auðnast að vísa veginn út úr þokunni – út úr fárinu, eins og Thor orðaði það? Verkefnið er að skapa efnahagslegan stöðugleika og samkeppnishæf lífskjör. Til þess þurfum við að vera jafnt heimsmenn og heimamenn: Við þurfum að skilja þau tækifæri sem búa í íslensku atvinnulífi en þora jafnframt að marka atvinnulífinu alþjóðlega og samkeppnishæfa umgjörð og ætla Íslandi þann sess sem sæmir meðal þjóða heimsins. Til þess þarf öflugan seðlabanka með skýra sýn til fortíðar og framtíðar.