11. maí 2007

Herhvöt

Á laugardag kjósum við um nýja framtíð og nýjar hugmyndir. Það er aðeins eitt stjórnmálaafl sem vill breytingar og framfarasókn með hagsmuni fjöldans en ekki fámennra forréttindahópa í öndvegi. Ég legg áherslu á þrjár lykilástæður fyrir því að kjósa Samfylkinguna:
  1. Þú getur kosið ferskan andblæ í stað doða og hugmyndaleysis núverandi ríkisstjórnar. Við munum leggja höfuðáherslu á efnahagslegan stöðugleika, lækkandi vexti og verðbólgu og búa þannig í haginn fyrir fjölbreytt og þróttmikið atvinnulíf. Við viljum leggja niður samræmd próf, auka faglegt sjálfstæði skóla, draga úr miðstýringu og auka valfrelsi nemenda. Við munum hefja það verk að bæta úr vanrækslusyndum ríkisstjórnarinnar á sviði velferðarmála og binda enda á hreppaflutninga og biðlistavæðingu velferðarþjónustunnar.
  2. Þú getur kosið flokk sem ætlar Íslandi sess meðal grannþjóða, en ekki sæti hornreku eða hlutskipti taglhnýtings. Við viljum aðild að Evrópusambandinu og upptöku evru til hagsbóta fyrir almenning og smærri fyrirtæki. Síðast en ekki síst viljum við afturköllun stuðnings Íslands við Íraksstríðið.
  3. Þú getur veitt brautargengi nýrri kynslóð jafnaðarmanna sem er við þröskuld Alþingis. Guðmundur Steingrímsson félagi minn situr í 5. sæti Samfylkingarinnar í Kraganum og á nú góða möguleika á þingsæti. Kristrún Heimisdóttir, Róbert Marshall og Guðný Hrund Karlsdóttir eru ásamt okkur að banka á dyrnar. Margrét Kristín Helgadóttir, Reynir Harðarson og Helga Vala Helgadóttir eru skammt undan. Atkvæði greitt Samfylkingunni hvar sem er á landinu nýtist okkur öllum til sóknar inn á þing.
Við erum fús til verka. Þitt er valið.

Með kveðju,
Árni Páll Árnason