09. des 2013

Hugrökk ríkisstjórn

Nýjustu fréttir af fjárlagatillögum ríkisstjórnarinnar vekja áhyggjur. Enn og aftur kýs ríkisstjórnin að flytja til byrðar af þeim sem best geta borið þær. Barnafjölskyldur og skuldugt fólk á meðaltekjum á að borga fyrir heilbrigðisþjónustu fyrir okkur öll. Auðmenn og best stæðu fyrirtæki landsins eiga að bera minni byrðar.

Á sama tíma sjáum við fjöldauppsagnir á RÚV sem vekja með manni skrýtnar tilfinningar. Er það virkilega þannig að við ráðum ekki við að reka ríkisútvarp? Er það virkilega þannig – eins og einn þingmanna Framsóknar sagði um daginn – að við þyrftum að velja um að hlusta á dægurtónlist eða láta sjúklinga lifa? Er það virkilega þannig að ekki sé hægt að sinna þróunaraðstoð við fátækt fólk og hafa fullnægjandi heilbrigðisþjónustu?

Ónei. Það eru mörg tækifæri til að reka gott samfélag. En við búum við ríkisstjórn sem treystir sér ekki til að skattleggja þá sem geta borgað, en kýs að skattleggja þá sem ekki geta borgað.

Tökum dæmi:

Samkvæmt lögum er nú lagt á útvarpsgjald. Það nemur upp á 19.400 kr. á mann á ári. Óháð tekjum og óháð félagslegri stöðu. Þetta er nefskattur – skattur af þeirri sort sem menn vilja helst ekki nota. Vegna þess að hann leggst jafnt á fátæka og ríka, sjúka og heilbrigða, öryrkja og þá sem vinnugetu hafa, atvinnulausa og þá sem ekki eru í vinnu, unglinga, fólk á besta aldri og aldraða. Sigmundur Davíð borgar jafn mikið og foreldralaus 18 ára stelpa í menntaskóla.

En við sættum okkur við að greiða þetta gjald því það á að renna til RÚV. Það er þannig lagað séð þjónustugjald. Af því okkur þykir vænt um RÚV. En – ó – allt í einu ákveður ríkisstjórnin að RÚV fái ekki nema hluta af útvarpsgjaldinu. Við, sem borgum til RÚV erum ekki að borga til RÚV. Við erum að borga í ríkissjóð.

Og þetta er ekki einstakt dæmi. Samkvæmt fjárlagatillögum nýrrar ríkisstjórnar er gert ráð fyrir að hækka skráningargjöld í HÍ úr kr. 60.000 í kr. 75.000. Gott og vel – Háskólinn þarf nú peninga. Við hækkuðum skráningargjöld í tíð fyrri ríkisstjórnar og Háskólinn naut þess. En – ó – skráningargjaldshækkunin nú upp á 213 milljónir króna mun ekki skila sér til HÍ. Háskólinn mun bara fá í sinn hlut 39,2 milljónir. Afgangurinn – 173,8 milljónir – mun renna í ríkissjóð. Sérstakur skattur á námsmenn.

Ríkisstjórnin treystir sér ekki til að leggja skatt á útflutningsgreinar, sem aldrei hafa hagnast meira vegna gengisfellingarinnar.

Ríkisstjórnin treystir sér ekki að leggja skatt á ríkustu landsmennina og ætlar að leggja af auðlegðarskattinn.

Ríkisstjórnin ætlar að gefa makrílkvótann og hún lækkar veiðigjaldið.

En hún hefur fundið breiðu bökin. Fólk í fátækustu löndum heims. Íslenskar barnafjölskyldur, venjulegar fjölskyldur með venjulegar skuldir, lágtekjufólk, lífeyrisþegar og námsmenn. Þessir hópar eiga að borga meira til samfélagsins en Sigmundur Davíð og Bjarni.

Þetta er hugrökk og framsýn ríkisstjórn.