31. júl 2012

Í minningu Hallvarðar Guðlaugssonar

Ég var á tólfta ári þegar ég kom á kosningaskrifstofu Alþýðubandalagsins í Kópavogi og bauð fram liðsinni. Það var upphaf á pólitískri vegferð sem ekki sér enn fyrir endann á. Það sem heillaði mig allt frá byrjun var óeigingjarnt og fórnfúst starf þess hugsjónafólks sem þarna kom saman og sá mikli einhugur sem var um verkefnin í hinni pólitísku baráttu. Alþýðubandalagsmenn í Kópavogi spönnuðu rétt eins og annars staðar allt litróf ólíkra skoðana, en þeir voru ekki kreddukommar. Þeir höfðu um langt árabil haft lykiláhrif á stjórn og rekstur bæjarfélagsins og höfðu næman skilning á því hvernig ætti að tengja hugsjónir um jöfnuð og félagslegt réttlæti eðlilegum löngunum venjulegs fólks um betri kjör og aðstæður fyrir sig og sína.

Hallvarður Guðlaugsson var einn tryggasti liðsmaðurinn í þessum hópi. Hann var eindreginn sósíalisti frá unga aldri. Ófáar eru sögurnar af fórnfýsi hans í þágu hreyfingarinnar – ef eitthvað þurfti að smíða eða gera var hann fyrstur á vettvang. Þáttur hans í byggingarsögu húss yfir Þjóðviljann er margfrægur. Hann varð liðsmaður Samfylkingarinnar þegar við stofnun hennar og tók virkan þátt í starfi okkar allt til loka. Hann var almennt talinn til vinstri í Alþýðubandalaginu og því voru margir hissa á að hann skyldi taka þátt í Samfylkingunni. Afstaða hans var hins vegar skýr: Flokkurinn hafði tekið ákvörðun um að taka þátt í þessari tilraun og hann var hluti af þeirri ákvörðun. Það er þetta jákvæða flokksholla viðhorf fólks eins og Hallvarðar sem skýrir stærð og fjölbreytileika Samfylkingarinnar. Við njótum þess að eiga rætur víða, hjá ólíku fólki með fjölbreyttar skoðanir, sem á það sameiginlegt að hafa ákveðið að leggja meiri áherslu á það sem sameinar það, en hitt sem skilur að.

Ég fékk byggingarvinnu hjá Hallvarði í einu jólafríi á menntaskólaárum og endurnýjaði þá við hann kynnin úr æsku. Þegar í pólitík var komið varð hann einn minn dyggasti stuðningsmaður og veitti mér liðsinni í hvert sinn sem óskað var. Sá stuðningur var jafnt í blíðu sem stríðu, enda Hallvarður hvorki huglaus maður né maður málalenginga. Þegar ég varð ráðherra kom í minn hlut það óvinsæla og erfiða verkefni að draga saman í útgjöldum til viðkvæmra málaflokka velferðarmála. Þá var Hallvarður fullur stuðnings, sýndi skilning á nauðsyn þessa erfiða verkefnis og hrósaði mér í bak og fyrir.

Fyrir allt starf Hallvarðar í þágu hreyfingar jafnaðarmanna í kjördæminu um áratugi er vert að þakka. Sjálfur þakka ég að leiðarlokum stuðning, uppörvun og skemmtilega samfylgd. Fjölskyldu Hallvarðar sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.