04. feb 2007

Illugi „leggur til“ að „skoðað verði“

Í grein í Fréttablaðinu í dag fjallar Illugi Gunnarsson um eignaréttindi og orkufyrirtækin. Þar ræðir Illugi í almennum orðum að til greina geti komið að banna orkufyrirtækjum að nýta eignarnámsheimildir við öflun orku til sölu til stóriðju. Illugi er hins vegar fjarri því að vera tilbúinn að kveða upp úr um þetta atriði, því hjá honum er þetta allt á umræðustiginu. Hann segir orðrétt: „ Ég hef lagt til að við skoðum það vel hvort ekki eigi að takmarka ..“.

Nú er það svo að tími þess að „skoða vel“ jafn sjálfsagða hluti og hér um ræðir er liðinn. Fyrir dyrum eru stórslys í orkunýtingarmálum, ef ekkert verður að gert. Orkufyrirtækin keppast við að gera orkusölusamninga og undirbúa virkjanir, sem ganga munu á mikilvægar náttúruperlur ef ekkert verður að gert. Enginn hemill er í dag í löggjöf til að hindra skefjalausa sókn orkufyrirtækjanna hvert sem þau vilja. Samfylkingin hefur lagt til stóriðjuhlé á meðan að virkjunarkostir eru metnir og þeim raðað eftir verndargildi. Við bíðum þess að aðrir flokkar tali jafn skýrt.

Ég ítreka það sem ég sagði í síðustu viku: Ef Sjálfstæðisflokkurinn meinar eitthvað með gjálfri um áhuga á umhverfismálum er einfalt að grípa til aðgerða. Valdið er í þeirra höndum. Vangaveltur og umhugsunarferli Illuga benda hins vegar ekki til að mikils sé að vænta úr þeirri átt.

Sjálfstæðisflokkurinn getur hins vegar ekki lengur falið sig á bak við Framsóknarflokkinn þegar um stefnumörkun í orkumálum og umhverfismálum er að ræða. Þetta stefnulausa hagsmunabandalag verður að fara segja okkur hvað þeir ætla sér í umhverfismálum – ef þeir ætla sér þá á annað borð eitthvað.