02. apr 2007

Innflutningshöft Frjálslyndra

Í Fréttablaðinu í gær gaf að líta óspennandi lesningu. Þar freistaði Frjálslyndi flokkurinn þess að hnoða innflytjendastefnu sinni í söluvænlegan búning. Í auglýsingunni staðhæfir flokkurinn að í EES-samningnum sé að finna undanþágu varðandi innflutning verkafólks frá aðildarlöndum EES og að flokkurinn hyggist beita þessari undanþágu.

Almenn öryggisákvæði
Staðreyndin er sú að engin slík undanþága er fyrir hendi. Hin almenna regla 28. gr. EES-samningsins er að frelsi launþega til flutninga skuli vera tryggt í aðildarríkjunum og að í því felist afnám allrar mismununar milli launþega „sem byggð er á ríkisfangi og lýtur að atvinnu, launakjörum og öðrum starfs- og ráðningarskilyrðum“.

Í 112. gr. samningsins eru almenn ákvæði um öryggisráðstafanir, sem ætlað er að gera samningsaðilum kleift að bregðast við því ef upp koma „alvarlegir efnahagslegir, þjóðfélagslegir eða umhverfislegir erfiðleikar í sérstökum atvinnugreinum eða á sérstökum svæðum“. Slíkar öryggisráðstafanir „skulu vera takmarkaðar, að því er varðar umfang og gildistíma, við það sem telst bráðnauðsynlegt til þess að ráða bót á ástandinu“ segir ennfremur í greininni.

Í 113. gr. er mælt fyrir um að unnt sé að grípa til þessara ráðstafana að höfðu samráði við aðra samningsaðila og í henni felst samningsskylda um að leita samkomulags við aðra samningsaðila um viðeigandi viðbrögð.

Í 114. gr. segir að ef „öryggisráðstöfun, sem samningsaðili hefur gripið til, veldur misvægi milli réttinda og skyldna samkvæmt samningi þessum getur hver hinna samningsaðilanna gripið til jafn umfangsmikilla jöfnunarráðstafana gagnvart fyrrnefndum samningsaðila og bráðnauðsynlegar eru til að jafna umrætt misvægi.“

Yfirlýsing Íslands
Í tengslum við samningsgerðina lýstu íslensk stjórnvöld þeirri túlkun sinni að Ísland gæti nýtt þessar heimildir ef af framkvæmd samningsins myndi leiða „alvarlega röskun jafnvægis á vinnumarkaði vegna meiri háttar flutninga starfsfólks sem beinast að sérstökum svæðum, störfum eða atvinnugreinum“.

Þessi yfirlýsing er hins vegar einhliða yfirlýsing Íslands, sem bindur ekki hendur viðsemjenda okkar. Og jafnvel þótt hún gerði það eru skilyrði hennar ekki uppfyllt. Það hefur ekki orðið „alvarleg röskun jafnvægis á vinnumarkaði“. Þvert á móti: Vinnumarkaðurinn er í jafnvægi því atvinnuleysi er ekkert.

Engin undanþága
Það er öllum læsum mönnum ljóst að í þessum ákvæðum felst engin „undanþága .. sem samið var um í EES-samningnum, varðandi innflutning verkafólks“ eins og segir í auglýsingu Frjálslynda flokksins. Við getum gripið til aðgerða til að verjast alvarlegum efnahagslegum eða þjóðfélagslegum erfiðleikum, en við þurfum að bera þær aðgerðir undir viðsemjendur okkar og eiga við þá samstarf um þær. Ef þær hafa mikil áhrif, mega þeir beita samsvarandi aðgerðum gagnvart okkur. Með öðrum orðum: Ef við beitum þessu ákvæði til að takmarka innflutning verkafólks verðum við að takmarka innflutning frá öllum aðildarríkjunum og þau geta þá takmarkað heimildir okkar til að nýta okkur frjálsa för til launavinnu eða náms í aðildarríkjunum.

Ef við förum þá leið að takmarka innflutning erlends vinnuafls eiga viðsemjendur okkar samningsbundinn rétt til að beita sams konar aðgerðum gagnvart Íslendingum sem nú eru að störfum eða við nám í Evrópusambandsríkjunum. Viljum við það?

Innflutningshöft til að halda uppi verði?
Frjálslyndi flokkurinn færir þau einu rök fyrir neyðarástandi að kjör iðnaðarmanna hafi ekki hækkað eins mikið og kjör annarra. Aukið framboð vinnuafls hefur með öðrum orðum dregið úr launahækkunum. Það veldur minni þenslu og lægri verðtryggðum skuldum heimilanna. Hvað ætlar Frjálslyndi flokkurinn að gera ef erlendir bankar koma og veita ódýrari lán en íslenskir bankar? Eða ef erlendar matvöruverslanir koma og bjóða vörur á lægra verði en innlendar? Á þá að beita öryggisákvæðinu og hindra erlenda banka eða erlendar matvöruverslanir í að bjóða lægra verð en innlendir aðilar gera? Eða á að taka upp tolla á ný?

Örvæntingarfullur leikur
Staðreyndin er einfaldlega sú að ekki stendur steinn yfir steini í staðhæfingum Frjálslyndra í þessu efni. Tillögur þeirra fela í sér að brotið verði gegn ákvæðum EES-samningsins og tekin upp höft í milliríkjaviðskiptum til að halda uppi verði á vinnuafli innanlands. EES-samningurinn er forsenda efnahagslegrar velmegunar í landinu síðastliðinn einn og hálfan áratug. Við eigum ekki að stofna honum í hættu þótt Frjálslyndir séu með örvæntingarfullum hætti að leita að athygli.

-áp