13. okt 2011

Jöfn og frjáls?

- Hugleiðingar í aðdraganda Landsfundar I -

Þegar ég fór í framboð 2007 kusum við í Suðvesturkjördæmi okkur kjörorðið „Jöfn og frjáls“. Ungir jafnaðarmenn byggðu sína kosningabaráttu á þessu sama kjörorði – það féll vel í kramið hjá ungu fólki sem vildi frelsi, samhliða félagslegri ábyrgð og jöfnuði. Þetta hugtak átti svo vel við þá stefnu sem við fluttum fram, að okkur þótti einboðið að nota það aftur 2009. Það hafði staðist efnahagshrun og hugmyndalega deiglu.

Samfylkingin var stofnuð til að verða öðruvísi flokkur. Við höfðum mörg reynslu af veru í stjórnlyndum flokkum, þar sem hverri nýrri hugmynd var tekið sem ógn í krafti hugmyndafræðilegs rétttrúnaðar eða rótgróinna hagsmuna og hún túlkuð sem svik við eina hugsjón eða aðra. Samfylkingin átti að vera flokkur venjulegs fólks þar sem við leituðum samstöðu á grundvelli jafnaðarstefnunnar með fordómalausum hætti.

Þróun stjórnmálanna síðustu ár hefur borið okkur nokkuð af þessari leið. Góður maður sagði við mig nýlega að stærsta fórnarlamb hrunsins væri frelsið. Við vantreystum getu okkar til að stjórna samfélaginu með frjálsum athöfnum okkar og fyllumst efasemdum um að valddreifð fyrirbæri eins og frjálsir markaðir geti skilað fullnægjandi árangri. Við köllum í staðinn eftir stjórnvaldsaðgerðum – lögum og reglum, boðum og bönnum.

Innan Samfylkingarinnar hefur margt verið sagt og ekki allt skynsamlegt um hugmyndaarf flokksins og stefnumál hans á fyrsta áratug aldarinnar. Margir virðast fullir sjálfsásakana um glópsku gagnvart peningaöflum og meintar yfirsjónir sem af henni hafi leitt. Ég skil það um sumt en að flestu leyti er ég ósammála því mati. Samfylkingin studdi einkavæðingu bankanna, en gagnrýndi harðlega aðferðina við þá einkavæðingu. Ég hef enn ekkert séð sem styður þá skoðun að einkarekstur fjármálastofnana sé skaðlegur efnahagslegu öryggi, en sala þeirra til vildarvina er það sannarlega. Þar hefur Samfylkingin algerlega hreinan skjöld.

Það er ekki heldur þannig að Samfylkingin hafi talað fyrir einhverri allsherjarauðvaldsvæðingu samfélagsins. Sumir nefna „Blair-isma“ til sögunnar, en skýra ekki hvað við er átt. Samfylkingin lagði áherslu á ábyrga og agaða markaði og varaði við efnahagsstefnu sem leiddi til bóluhagkerfis. Leitað var til fremstu alþjóðlegra sérfræðinga, á borð við John Kay, um leiðsögn í því efni. Skilgreiningar hans á öguðum mörkuðum í almannaþágu eiga jafn vel við í dag og þær áttu við fyrir 8 árum síðan þegar hann kom á Landsfund Samfylkingarinnar. Viðvaranir hans um veikleika óhefts kapítalisma að bandarískri fyrirmynd lutu að því hagkerfi sem við bjuggum við fyrir hrun.

Það var margt sem brást í hruninu. Við reyndum veikleika sjálfstæðrar peningamálastefnu í litlu, alþjóðavæddu hagkerfi. Við henni hafði Samfylkingin varað, ein flokka og boðið upp á valkost. Við sáum hvað gerist þegar fákeppnismarkaðir í taumlausri auðsöfnun fá að ráða. Við því hafði Samfylkingin líka varað og boðið upp á valkost.

Gylfi Þ. sagði réttilega fyrir mörgum áratugum að markaðurinn væri þarfur þjónn en afleitur herra. Sú staðhæfing eldist vel. Markaður er óhjákvæmilegur þáttur frjálslyndrar jafnaðarstefnu og forsenda frelsis í daglegu lífi. Við eigum í grunninn bara tvo kosti til að ná samfélagslegum árangri. Önnur er leið boða, hafta og ófrelsis. Hin er leið verðmætadreifingar um ábyrga og vel reglaða markaði, þar sem hver og einn fær ráðið sínum næturstað. Markaðurinn getur veitt samfélaginu ómetanlegan aga, þar sem lélegar lausnir falla og verða að engu ef enginn vill þær. Frjálst val fólks ræður þróun samfélagsins. Forskriftir í miðstýrðu samfélagi lifa hins vegar hvort sem þær eru skilvirkar eða gagnslausar. Stjórnmálamenn sem þrá að leysa vanda neita að horfast í augu við það þegar lausnin virkar ekki og skammast út í allt og alla – embættismenn, skrifræðið, fjölmiðla eða bara einhvern.

Tillögur Samfylkingarinnar um aukna áherslu á ábyrga markaði og nýtingu þeirra voru í fullu samræmi við þessa hugsun og tóku til allra markaða. Samfylkingin sótti líka í smiðju jafnaðarmanna víða um lönd um hvernig hægt væri að nýta markaði enn víðar en á hefðbundnum viðskiptasviðum. Ný lög um sjúkratryggingar miðuðu að því að tryggja rétta verðlagningu í heilbrigðisþjónustu og að almannahagsmuna yrði gætt í útvistun. Tillögurnar voru sniðnar eftir fyrirmynd frá sænskum sósíaldemókrötum. Togstreitan um það mál á þingi er mjög gott dæmi: Áherslur hægrisins voru að veikja aðhaldið og gefa stjórnvöldum tækifæri til að gera samninga við vildarvini án viðhlítandi kostnaðargreiningar. Það mátti ekki einu sinni standa í lögunum að veita skyldi heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Áherslur vinstrisins voru að forðast með öllum tiltækum ráðum að raunverð þjónustu yrði ljóst og hagsmunir veitenda þjónustunnar réðu en ekki hagsmunir almennings. Þarf Samfylkingin að skammast sín fyrir þessa varðstöðu um almannahag?

Jöfnuður er grundvallarmarkmið jafnaðarmanna. En honum verður ekki heldur náð með valdboði. Ekkert okkar vill minna endurgjald en náunginn við hliðina á okkur fær fyrir sömu vinnu og ekkert okkar vill sama endurgjald og sá sem vinnur við hliðina á okkur og stendur sig til muna verr, mætir seint, fer snemma og vinnur illa. Öll viljum við að sérþekking okkar, hæfni og reynsla endurspeglist í launum. Jöfnuður þarf því alltaf að fara saman við sanngjarnt endurgjald fyrir áhættu og dugnað.

Samfylkingin á ekki að vera stjórnmálaflokkur stjórnlyndis, einsleitni og forskrifta. Valddreifing verður best tryggð með skynsamlegri notkun virkra og öflugra samkeppnismarkaða, án sérréttinda og hafta. Hagsaga Íslands er saga einhæfni í atvinnulífi, fákeppni á öllum helstu mörkuðum og algerrar stjórnar forréttindastétta á aðgangi fólks að peningum og aðstöðu. Það er tími til kominn að skapa samfélag þar sem fólk ræður örlögum sínum sjálft, en þarf ekki að eiga afkomu sína eða velferð undir skömmtunarvaldi stjórnvalda.

Þannig verðum við sannanlega „Jöfn og frjáls“. Ég er strax farinn að hlakka til að heyja kosningabaráttu 2013 undir þessu kjörorði.