07. feb 2007

Leyniviðaukar og fullveldisafsal að fornu og nýju

Í fyrradag fór fram á Alþingi umræða um leyniviðauka við varnarsamninginn frá 1951. Í varnarsamningnum sjálfum var fullt jafnræði með samningsaðilum. Leynisamningarnir voru hins vegar annars eðlis og þar var í veigamiklum atriðum samið um ríkari réttindi Bandaríkjamönnum til handa en samrýmdust ákvæðum hins opinbera varnarsamnings og þar með landslögum. Með leyniviðaukunum sömdu íslensk stjórnvöld til dæmis um heimildir Bandaríkjamanna til að taka yfir stjórn almennrar flugstarfsemi, um að stjórnvöld myndu ekki nýta sér forrétt til lögsögu nema í sérstökum tilvikum og að Bandaríkjamönnum væri ekki skylt að skilja við varnarsvæðin í sama ástandi og þeir tóku við þeim.

Hrósa ber Valgerði Sverrisdóttur utanríkisráðherra fyrir hreinskiptni hennar í umræðunni. Þar gat hún þess meðal annars að þessi samningsákvæði hefðu skaðað samningsstöðu Íslands í samningum um nýjan viðbæti við varnarsamninginn í fyrra. Hún taldi einnig að vera kynni að samningarnir stæðust ekki ákvæði stjórnarskrár og taldi það lögfræðilegt úrlausnarefni. Málflutningur Geirs H. Haarde forsætisráðherra var töluvert öðruvísi. Þar klifaði hann á þeirri síðbúnu söguskýringu, sem mjög hefur verið notuð af sjálfstæðismönnum undanfarna mánuði, að slík skelfingarhætta hafi stafað af undirróðursöflum í landinu á kaldastríðstímanum að hún hafi réttlætt þessa löglausu samninga í blóra við ákvæði stjórnarskrár og leyndina yfir þeim allan þennan tíma. Þessi kenning hefur einnig verið notuð til að réttlæta ólögmætt persónueftirlit með pólitískum andstæðingum ráðandi afla um áratugaskeið.

Eftir stendur hins vegar að þetta mál er ekki eitthvert fortíðarmál, sem unnt er að sópa undir teppið með svo billegum skýringum. Ég fæ ekki betur séð en að viðaukinn sem þau Geir og Valgerður gengu frá í haust brjóti með sama hætti gegn 21. gr. stjórnarskrárinnar og gömlu samningarnir gerðu. Reyndar vekur athygli að texti þess samnings virðist einungis til á ensku. Jafnvel þegar menn töldu verulegt hættuástand yfirvofandi sem réttlætti komu varnarliðs, í maí 1951, gáfu menn sér tíma til að undirrita alla samninga – jafnt opinbera sem leynilega – á ensku og íslensku.

Með nýja samningnum er Bandaríkjamönnum veitt vald til að taka yfir stjórn borgaralegrar flugstarfsemi við „military contingency“, þ.e. þegar hernaðarlegar aðstæður krefjast þess. Og, þótt um samning milli tveggja fullvalda ríkja sé að ræða, eiga Bandaríkjamenn einir mat um það samkvæmt samnignum hvenær „military coningency“ er fyrir hendi. Það er rangt sem bæði Geir og Valgerður hafa haldið fram að samþykki Íslands þurfi til að Bandaríkin geti nýtt sér þetta ákvæði. Matið er skýrlega Bandaríkjamanna samkvæmt samningstextanum og Íslandi er hvergi ætlað neitt hlutverk í því mati. Ef Geir og Valgerður töldu sig vera að semja um eitthvað annað hefðu þau kannski betur spanderað í þýðingu á textanum fyrir undirritun.

Með nýja samningnum er ekki heldur hróflað við ákvæði úr gömlu leynisamningunum þess efnis að íslensk stjórnvöld hyggist ekki nýta sér lögsögu yfir brotamönnum úr liði Bandaríkjanna nema í málum er hafa sérstaka þýðingu fyrir Ísland og muni innlendum stjórnvöldum gefin fyrirmæli þar að lútandi. Þetta ákvæði er í beinni andstöðu við lögfest ákvæði viðbætis um réttarstöðu liðs Bandaríkjamanna og gengur því beint gegn landslögum. Í því felst einnig í það minnsta fyrirheit um takmörkun á refsilögsögu ríkisins.

Það er engin leið að túlka samning, sem felur í sér skuldbindingu um að afhenda yfirstjórn flugsamgangna öðru ríki við tilteknar aðstæður í blóra við íslensk lög og takmörkun á beitingu lögfestra ákvæða um inntak refsilögsögu ríkisins, öðruvísi en svo að í honum felist „afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi“ og að hann „horfi til breytinga á stjórnarhögum ríkisins“, eins og segir í 21. gr. stjórnarskrárinnar. Slíka samninga er einungis heimilt að gera með samþykki Alþingis.

Það er því ómögulegt að komast að annarri niðurstöðu en að forsætisráðherra og utanríkisráðherra hafi beinlínis farið út fyrir stjórnskipulegt umboð sitt við samningsgerðina nú í haust. Með öðrum orðum: Í óðagotinu sömdu þau ekki bara af sér. Þau gleymdu ekki bara að láta þýða fyrir sig textann. Þau virðast hafa brotið stjórnarskrána í leiðinni.

-áp