08. apr 2007

Páskahugvekja

Píslarsagan - Jóhannesarguðspjall, 18. 1-27.
Í píslarsögunni greinir frá atburðum einnar viku. Hún hefst með innreið Jesú í Jerúsalem þegar mannfjöldinn fagnar komu hans. Og áður en henni er lokið fagnar múgurinn krossfestingu Krists. Breyskleiki mannsins verður aldrei skýrari en í þessari mótsögn. Sömu ættar er afneitun Símonar Péturs, þegar hann getur ekki gengist við samfylgd sinni við Jesú og afneitar honum í þrígang.

Úr mannkynssögunni þekkjum við mýmörg dæmi um að illa upplýstur múgur taki svari hins illa. Sem lýðræðisþjóð þekkjum við hins vegar fleiri dæmi þess að fjöldinn taki ákvarðanir sem sómi  er að. Eitt dæmi um slíkt er glæsileg atkvæðagreiðsla að lokinni málefnalegri umfjöllun hér í Hafnarfirði um síðustu helgi. En hvað er það sem skilum á milli hins óupplýsta múgs og hins upplýsta fjölda? Það er fyrst og síðast upplýsingin og skoðanafrelsið og umgjörð skoðanaskipta. Ef vel er að staðið verður niðurstaðan góð. Ef umgjörðin er skökk, fólk ekki virt skoðana sinna og það rekið eins og fé í rétt verður niðurstaðan vond.

Öll vitum við að það er freistandi að segja að segja það sem fleiri segja – synda með straumnum. Þess vegna getur raunverulegt lýðræði og lýðfrelsi aldrei þrifist nema fólki sé gert kleift að vera á öndverðum meiði. Það þarf að vera ásættanlegt - jafnvel beinlínis æskilegt - að halda fram ólíkum skoðunum, svo fremi þær meiði ekki meðbræður okkar eða systur. Þess vegna skiptir svo miklu að fólk geti tjáð hug sinn allan og skoðanir sínar í jafnt í daglegu lífi og í þjóðmálaumræðu án þess að hljóta að launum aðfinnslur, útásetningar eða háðsglósur frá handhöfum framkvæmdavaldsins. Því ef þeir falla í þá freistni ógnum við öllu gangverki samfélagsins. Þá skapast umgjörð ótta sem heldur fólki frá því að standa með sjálfu sér.

Kristur er táknmynd um andstöðuna við múghugsunina. Hann kallar söfnuð sinn til vitnis um að boðskap hans er ekki hagað eftir því sem vindurinn blæs og þorir þannig að standa við skoðanir sínar öfugt við Símon Pétur. Hann talar óhræddur í sama tóni við handhafa valdsins, æðstaprestinn, og við almúgamenn. Þá fyrirmynd eigum við að leitast við hafa í heiðri.

Að stofni til hugvekja flutt í Hafnarfjarðarkirkju á föstudaginn langa.