15. 2011

Rabb við Aliber

Fékk Robert Aliber í heimsókn áðan hingað í ráðuneytið. Það var gaman að ræða við hann um stöðu mála á gjaldeyrismörkuðum á þessum óvissutímum. Maður getur ekki annað en hugsað um það hvort við séum komin að endimörkum þess kerfis fullkomlega frjálsra gjaldeyrismarkaða, sem við höfum vanist í okkar heimshluta í tvo áratugi. Munum við áfram búa við kerfi fljótandi gjaldmiðla þar sem engin höft eru á fjármagnsflutningum og ríki beita vöxtum einvörðungu í baráttu við verðbólgu, eða erum við að fara inn í tímabil þar sem fjölbreyttari umgjörð verður um fjármálaviðskipti í hinu alþjóðlega kerfi? Aliber telur svo vera. Hann var líka ákveðið þeirrar skoðunar að ástæða hrunsins hér á landi væri að stærstu leyti aðstæður á alþjóðamörkuðum, sem gerðu skuldsettan bankarekstur og stórfelld vaxtamunarviðskipti möguleg. Þar er ég sammála honum: Við gleymum oft að flest það sem við höfum séð í íslensku bankakerfi fyrir hrun átti sér hliðstæðu í Bretlandi, Írlandi og Bandaríkjunum. Það er óhætt að mæla með bókinni sem hann og Gylfi Zoega tóku saman af greiningum ýmissa í aðdraganda hrunsins: "Preludes to the Icelandic Financial Crisis". Þar er enga hofmóðuga eftiráspeki að finna.