13. feb 2007

Ráðalaus ráðherra

Það var athyglisvert að fylgjast með Geir H. Haarde í Silfri Egils á sunnudag. Undanfarið hafa menn velt fyrir sér hvað valdi þögn hans á vettvangi stjórnmálanna. Ástæðan varð ljós í gær: Það er engin stefna í Sjálfstæðisflokknum. Og þegar enga stefnu er að hafa, er betra að láta vera að tjá sig.

Fyrir það fyrsta staðfesti Geir að Sjálfstæðisflokkurinn hefur enga stefnu í umhverfismálum. En hann gerði meira. Hann hóf til vegs Guðlaug Þór Þórðarson, stjórnarformann Orkuveitunnar, sem nýjan hugmyndafræðing flokksins í umhverfismálum. Þar með klippti formaðurinn niður Illuga Gunnarsson, sem sýnt hefur mesta tilburði til að marka einhverja umhverfisstefnu í Sjálfstæðisflokknum undanfarnar vikur og staðfesti að metnaður íhaldsforystunnar stendur ekki til annars en að viðhalda óbreyttu ástandi. Metnaðarmál Guðlaugs Þórs í umhverfismálum eru samkvæmt heimasíðu hans að „vernda ákveðin svæði og undanskilja þau virkjunum“ og að „gera ríkari kröfur“ til að mannvirki til orkuöflunar „séu falin og lítt áberandi“. Hmmm. Hér er falin mikil og djúphugsuð framtíðarsýn. Staðreyndin er sú að Guðlaugur Þór hefur tekið við hlutverki Alfreðs Þorsteinssonar sem holdgervingur stórfelldrar orkuöflunar til stóriðju, sem niðurgreidd er af okkur skattborgurum. Hann stendur ekki fyrir neina nýja hugsun í umhverfismálum.

Í annan stað boðaði Geir áframhaldandi hagvaxtardýrkun, sem upphaf og endi efnahagsstefnunnar. Um áratugi var það stefnumið allra flokka að tryggja efnahagslegan stöðugleika. Geir og Árni Matt hafa hins vegar ítrekað talað fyrir þeirri framtíðarsýn að við eigum að stefna að látlausum hagvaxtarkúfum með tilheyrandi verðbólguskotum til framtíðar. Þessi stefna sýnir að forysta Sjálfstæðisflokksins er ekki í nokkrum tengslum við veruleika venjulegs fólks sem hefur mátt þola gríðarlegar kjaraskerðingar á undanförnum árum vegna hækkandi verðtryggðra skulda í kjölfar hagstjórnarklúðurs Geirs og Árna Matt. Og þessi áhersla markar brotthvarf frá varðstöðu um efnahagslegan stöðugleika. Þess vegna verður Geir að halda dauðahaldi í verðtryggða krónu, því hún er forsenda þess að unnt sé að jafna kostnaðinum af hagstjórnarmistökunum niður á íbúðaeigendur í landinu til 40 ára.

Í þriðja lagi féll Geir á prófinu varðandi Byrgið og Breiðavík. Enginn heldur því fram að hann beri persónulega ábyrgð á því máli. En skortur hans á samlíðan með því fólki sem á um sárt að binda vegna mistaka hins opinbera í þeim málum var átakanlegur. Orðin „auðvitað er ekki hægt að fullyrða að þessar stúlkur hefðu ekki orðið barnshafandi hvort eð er“ segja allt sem segja þarf um skilningsleysið á örlögum þessa fólks. Fólkið á skilið afsökunarbeiðni. Ekki persónulega afsökunarbeiðni í þeim skilningi að Geir eigi að biðja afsökunar á eigin gerðum, heldur á hann í krafti síns embættis að biðja afsökunar á vanrækslu og meingerðum opinberra aðila. Það voru opinberir aðilar sem buðu vegalausu fólki upp á meðferð í Byrginu. Það voru opinberir aðilar sem hvöttu fólk til að senda börnin sín í Breiðavík. Stjórnvöld þurfa að horfast í augu við það. Undanbrögð og hundalógík eru forsætisráðherra til minnkunar.

-áp