09. feb 2008

Ræða um framtíð Evrópu og EES næstu 50 ár

Nú áðan flutti ég ræðu á fundi Evrópusamtakanna í Noregi á ráðstefnu þeirra hér í Osló. Yfirskrift ráðstefnunnar var framtíð Evrópu næstu 50 árin og flutti Jonas Gahr Störe, utanríkisráðherra upphafsræðuna. Í ræðu minni fjallaði ég um framtíð Evrópu og áhrif okkar sem aðila að EES-samningnum á þá framtíð. Jafnframt fjallaði ég nokkuð um umræðu um evruna sem framtíðargjaldmiðil Íslands. Ræðan, sem flutt var á norsku, fylgir hér á eftir á íslensku:

Utanríkisráðherra, ágætu ráðstefnugestir.
 
Það er mér mikill heiður að fá tækifæri til þess að ávarpa ykkur hér á þessari ráðstefnu. 

Evrópa er í miklu og hröðu breytingaferli, sem ekki sér fyrir endann á. Og við erum orðin svo vön breyttu umhverfi að við tökum varla eftir breytingunum. Evrópa ársins 1987 – þegar ég byrjaði að skipta mér af pólitík – er allt önnur álfa en Evrópa dagsins í dag. Erlendar fjárfestingar, hreyfanleiki í atvinnuháttum, alþjóðleg fjármálaþjónusta, sameiginlegur vinnumarkaður – ekkert af þessu þekktist þá með sama hætti og nú. 

Hér í Noregi var samfélagsgerðin einnig öll einfaldari. Á þeim tíma voru til menn á Íslandi sem kölluðu Osló stærsta sveitaþorp í Evrópu – og voru þó Íslendingar ekki meiri heimsborgarar sjálfir en svo að bannað var að kaupa bjór á Íslandi og Grænmetisverslun ríkisins hafði einkarétt á innflutningi á kartöflum! Ef aðeins er litið á breytingarnar á Evrópusambandinu frá samþykkt Maastricht-sáttmálans 1993 er ljóst að þær eru gríðarlegar, samanborið við breytingarnar á sambandinu fjórtán árin þar á undan. 

Verður EES-samningurinn til eftir 50 ár? Ég útiloka það ekki, en ég held að í ljósi þeirra breytinga sem við höfum séð á undanförnum árum sé ótrúlegt að hann verði til í sömu mynd og nú er. Í mínum huga er mögulegt að hann þróist í tvær höfuðáttir, ef hann líður ekki undir lok. Annars vegar gæti hann í höfuðatriðum orðið samningur um þátttöku smáríkja í Evrópusamningnum, með þátttöku Liechtenstein, San Marínó, Andorra. Hinn möguleikinn er að hann verði frekar vettvangur jaðarríkja sem gætu átt erfitt ýmissa hluta vegna með fulla aðild að ESB, svo sem Úkraínu, Georgíu, Ísraels og jafnvel Tyrklands. Hvor leiðin sem yrði ofan á – eða jafnvel blanda þeirra beggja – þyrfti þó ekki að útiloka að samningurinn yrði áfram tæki fyrir aðild Íslands og Noregs að Evrópusamrunanum. 

En hvernig þróast Evrópusambandið? Evrópa er að sönnu pólitískt stórveldi og nýtur mikilla áhrifa á alþjóðavettvangi. Stækkunarferlið mun væntanlega leiða til þess að aðildarríki ESB verði allt að þrjátíu og fimm strax árið 2015. Lengi var óljóst hvort ESB þróaðist í átt til stórríkis eða yrði ríkjabandalag sjálfstæðra ríkja. Með ákvörðunum um stækkun og með mikilli fjölgun smáríkja í sambandinu er ljóst að draumsýnin um stórríkið hefur verið lögð á hilluna. Það þarf enda býsna mikið hugmyndaflug til að sjá fyrir sér sameinuð Bandaríki Evrópu innan fimmtíu ára sem telji bæði Króatíu og Serbíu, Albaníu, Tyrkland og Grikkland. 

Á efnahagssviðinu er Evrópa dvínandi veldi. Það er ekki fyrst og fremst að kenna hægum vexti í stærstu ríkjum Evrópu, heldur mun frekar mun örari vexti annara ríkja á borð við Indland og Kína. Hagvöxtur undanfarinna ára á Vesturlöndum hefur líka fremur stafað af greiðum aðgangi af ódýru lánsfjármagni en aukinni hagkvæmni í rekstri framleiðslufyrirtækja. Stór hluti lánsfjármagns á Vesturlöndum er komið frá Mið-Austurlöndum og Suð-Austur Asíu. Verðfall á hlutabréfamörkuðum undanfarið þýði að eignir á Vesturlöndum hafi rýrnað verulega á móti skuldum sem enn eru óbreyttar. Á sama tíma er hagvöxtur annars staðar í heiminum knúinn áfram af framleiðniaukningu í framleiðslugreinum. Þetta eru augljós merki þessi að hratt dregur saman á milli gömlu efnahagsveldanna og hinna nýju. 

Sem dæmi má nefna að Kína hefur undanfarin ár verið stærsti kaupandi bandarískra ríkisskuldabréfa og þannig fjármagnað í reynd stríðið í Írak, sem kínversk stjórnvöld mótmæla svo harðlega innan öryggisráðs SÞ. Fátt sýnir betur hið nýja misvægi pólitísks áhrifavalds og efnahagslegra burða. 

Þessu til viðbótar þarf að hafa í huga að aldurssamsetning Evrópu allrar er að breytast. Við verðum eldri og því fækkar stöðugt vinnandi höndum en þeim sem þurfa umönnun fyrir aldurs sakir fjölgar. Víðast í álfunni eru ekki til lífeyrissjóðir sem staðið geta undir greiðslum til lífeyrisþega til lengri tíma litið (þótt við Íslendingar höfum verið svo heppnir að slysast til að búa til söfnunarsjóði með þátttöku verkalýðshreyfingar og atvinnurekenda fyrir næstum þrjátíu árum, sem nú eiga meiri eignir en sem nemur árlegri þjóðarframleiðslu). 

Fyrir liggur að erlent vinnuafl mun þurfa að koma til í auknum mæli á næstu áratugum til að afla þeirra verðmæta sem tryggt geta áframhaldandi efnahagslega og félagslega velferð. En sú staðreynd kallar líka á félagslega og pólitíska togstreitu. Flest bendir til að eftir 50 ár verði fleiri íbúar Parísar og Lundúna múslimar en kristnir. Borgarar nýju aðildarríkjanna frá 2004 hafa nýtt sér nýfengið atvinnufrelsi af miklum krafti. Um aldir var sambúð ólíkra þjóða hlutskipti afmarkaðra landsvæða í Evrópu, einkanlega frá austanverðu Eystrasalti og suður um. Næstu fimmtíu árin verður sambúð ólíkra þjóða hins vegar daglegt viðfangsefni í hverri einustu borg á EES-svæðinu – frá Reykjavík til Riga og frá Bergen til Búkarest. Evrópusambandið markar leikreglur vinnumarkaðsmála og þar með rétt verkalýðshreyfingarinnar til að verja þau mannréttindi nýrra íbúa að þurfa ekki að þola lægri laun eða vinnuskilyrði en heildarkjarasamningar aðila vinnumarkaðarins kveða á um. Dómstóll ESB markar á þessu sviði einnig leikreglurnar, eins og í nýja Vaxholm-dómnum. 

Fleiri atriði mætti hér nefna. Umhverfis- og orkumál verða eitt stærsta viðfangsefni Evrópusamstarfsins á næstu áratugum og munu hafa lykiláhrif á starfsumhverfi fyrirtækja, lífsgæði almennings og möguleika Evrópuríkja á að vinna að lausnum á loftslagsvandanum á alþjóðavettvangi. Átök eru innan ESB um svigrúm aðildarríkjanna til að veita almannaþjónustu gagnvart ríkisstyrkjareglum sambandsins. Þessir þættir hafa lykiláhrif á möguleika stjórnvalda á Íslandi og í Noregi til að rækja skyldur sínar gagnvart eigin borgurum. 

Allt skapar þetta nýjar áskoranir fyrir öll ríki EES. Brýnasta samfélagslega verkefni næstu áratuga er að vinna gegn félagslegri einangrun og tryggja öllum þátttökurétt í samfélaginu. Efnahagsleg óvissa, minnkandi þjóðartekjur og rýrnandi kjör eldri borgara og millistétta, samfara sambúð við þjóðernisminnihluta, einkenndi aðdraganda mestu hörmunga síðustu aldar í álfunni. Flest bendir til að slíkar aðstæður bíði okkar á næstu áratugum og það skiptir okkur öllu máli hvernig okkur tekst að takast á við þær. 

Evrópusambandið var stofnað í lok styrjaldar til að binda hagsmuni aðildarríkjanna saman með þeim hætti að aldrei myndi aftur rofna friðurinn milli þeirra. Öryggi og innri stöðugleiki aðildarríkjanna verður augljóslega áfram eitt mikilvægasta verkefni Evrópusamrunans. Þess vegna þarf að flétta saman til frambúðar öfluga en sveigjanlega vinnumarkaðsstefnu, skynsamlega útlendingastefnu og skilvirka efnahagsstefnu. Fátt er mikilvægara í þessu samhengi en að aðildarríkjunum takist að efla samkeppnishæfni og endurnýjunarkraft atvinnulífsins. 

Mikilvægasta útflutningsafurð Evrópusambandsins sem ríkjaheildar verður áfram öryggi og stöðugleiki fyrir samstarfsríki á jaðri Evrópu. Reynsla síðustu ára bendir til vaxandi togstreitu milli Bandaríkjamanna og Evrópuríkja þegar kemur að forgangsröðun í öryggismálum, nú síðast í tilviki Afganistan. Bandaríkjamenn skynja Evrópubúa sem hikandi í að axla byrðar af sameiginlegu öryggi. Munu Bandaríkjamenn til lengdar axla skuldbindingar í þágu öryggis Evrópu ef sú tilfinning verður viðvarandi? Ég held að við eigum ekki að gera ráð fyrir því. Af þessum sökum er óhjákvæmilegt að gera ráð fyrir að mikilvægi ESB á sviði öryggismála aukist á næstu áratugum. 

Reynsla undanfarinna tveggja áratuga sýnir skynsemi stefnu Evrópusambandsins gagnvart nágrannaríkjum, sem náð hefur að breiða út pólitískan og efnahagslegan stöðugleika. Breytt heimsmynd viðskipta kallar á að sú stefna verði einnig flutt út til fjarlægari landa og sé samþætt virkri viðskiptastefnu Evrópu, sem tryggi EES-ríkjum aðgang að mörkuðum utan Evrópu samhliða því sem stutt sé við fríverslun, sjálfbæra þróun og heilbrigða viðskiptahætti á alþjóðavettvangi. 

------- 

Jafnt á Íslandi og í Noregi er rík sú hugsun að með því að standa utan við ESB, geti ríkin best varið brýna þjóðarhagsmuni. Sama hugsun liggur að baki tregðu Breta og Dana við fullri þátttöku í ESB. Ég hef stundum kallað þessa hugsun „dýrkun sérstöðunnar“, því hún gerir ráð fyrir að sérhagsmunir séu alltaf mikilvægari en sameiginlegir hagsmunir af sameiginlegum lausnum. Hún gerir líka ráð fyrir því að hver þjóð hafi alltaf einsleita hagsmuni. Og síðast en ekki síst gerir hún ráð fyrir að mikilvægustu hagsmunirnir séu óumbreytanlegir. Ekkert af þessu er hins vegar sjálfgefið. 

Samningsmarkmið Íslands og Noregs voru áþekk í samningaviðræðunum um EES. Fjórfrelsið var ásættanlegt, fríverslun skyldi gilda um öll svið vöru og þjónustu, en sjávarútvegur skyldi undanskilinn fjárfestingafrelsi. Jafnframt kæmi ekki til greina að veita EU veiðiheimildir gegn tollaívilnunum. Þessi markmið náðust í stórum dráttum hvað Noreg varðar og jafnvel enn betur fyrir Ísland. 

Sumir andstæðingar aðildar Íslands að ESB telja að í áhuga á aðild að ESB í dag felist áfellisdómur yfir þessum áherslum og EES-samningnum. Því er ég einlæglega ósammála. Ég er þeirrar skoðunar að samningsmarkmiðin í EES-samningnum hafi verið skynsamleg út frá hagsmunum og stöðu Íslands og Noregs á þeim tíma. Ég get jafnvel fallist á, að með sömu rökum hafi verið hægt að leggjast gegn aðild Noregs í þjóðaratkvæðagreiðslunni 1994. En ég held að þróun þátttöku ríkjanna í Evrópusamrunanum síðan þá geri endurmat á hagsmunamati ríkjanna óhjákvæmilegt. Ég held að mikilvægustu þjóðarhagsmunir Íslands séu ekki þeir sömu í dag og þeir voru þá. 

Í annan stað erum við orðin lifandi þátttakendur í Evrópusamstarfi. Þegar við stóðum utan Evrópusamstarfsins gátum við tekið nokkurs konar ljósmynd af Evrópusambandinu og mátað við okkar eigin samfélagsgerð og metið stöðu hvors ríkis um sig á þeim grunni. Það gerðum við 1992 og sáum hvað myndi breytast og hvernig við inngöngu í Evrópusamrunann. Það gerðuð þið líka þá og komust að sömu niðurstöðu. Árið 1994 tókuð þið aðra ljósmynd af Evrópusambandinu í heild og komust að þeirri niðurstöðu að ganga ekki lengra. 

En það er þýðingarlaust fyrir okkur að bera ljósmyndina frá 1992 við samfélag dagsins í dag. Við aðild að EES fóru samfélög okkar að þroskast og þróast – í sömu átt og ESB. Með nokkurri einföldun má segja að ljósmyndin hafi breyst í hreyfimynd. Ríki sem þegar er orðinn aðili að Evrópusamstarfinu getur aldrei framar með trúverðugum hætti tekið ljósmynd af Evrópusambandinu og borið saman við núllkost, þ.e. ástandið sem var fyrir 1992. Það ríki getur bara tekið hreyfimynd af Evrópusamstarfinu – og í tilviki Noregs og Íslands – verður að sætta sig við að eigið samfélag hreyfist samhliða á nákvæmlega sama hátt. Þess vegna er varðstaða um gamla grundvallarhagsmuni sem skilgreindir voru út frá öðrum samfélagsforsendum alltaf tvíbent. Evrópusamruninn breytir efnahagskerfinu og samfélagsgerðinni og skapar nýja hagsmuni.
-------

Núverandi ríkisstjórn Íslands hefur aðildarumsókn ekki á sinni stefnuskrá, en hefur lagt áherslu á að efla hagsmunagæslu Íslands innan EES og að efna til opinnar og fordómalausrar umræðu um Evrópumál. 

Ég er þeirrar skoðunar að sú opna og fordómalausa umræða, sem samstaða er um að efna til á Íslandi, hljóti að hafa áhrif á viðhorf sífellt stærri hluta þjóðarinnar. Ástæðan er einföld. Á meðan áhugamenn um aðild Noregs að ESB eiga erfitt með að vekja áhuga á því máli hér vegna góðs efnahagsástands, hefur óstöðugleiki og smæð íslensku krónunnar valdið almenningi og fyrirtækjum miklum búsifjum á undanförnum árum og torveldað hagstjórn. Erfiðleikar heimila og fyrirtækja við að búa við krónuna valda því að evran er það sem Íslendingar almennt séð sjá æskilegast við aðild að ESB. Aðstöðu íslenskra fyrirtækja í alþjóðlegri samkeppni á að þessu leyti líkja við að keppa í 100 metra hlaupi á Ólympíuleikum í gúmmístígvélum. 

Vægi íslensku krónunnar í viðskiptum hefur minnkað hratt. Skuldir heimilanna í erlendum gjaldmiðli jukust á síðasta ári og nema nú um 16% lána heimilanna. Nærri 70% lána til íslenskra fyrirtækja eru nú í erlendum gjaldmiðli og það hlutfall eykst stöðugt. Sífellt fleiri fyrirtæki gera nú upp í erlendum gjaldmiðli og sækjast eðlilega eftir að draga úr gjaldmiðilsáhættu sinni með því að bjóða launagreiðslur að hluta í evrum. 

Þessi þróun ýtir undir nýja tegund misskiptingar í íslensku samfélagi. Ef svo fer fram sem horfir er þess skammt að bíða að í reynd verði tvær stéttir í landinu. Annars vegar forréttindastéttin sem á þess kost að fá laun greidd í evrum og getur þá tekið lán án áhættu á miklu lægri vöxtum í evrum. Hins vegar verði óbreyttur almenningur, rétt eins og rúbluþjóðin í biðröðunum í Sovétríkjunum, sem þurfi að búa við ofurvexti hins örsmáa íslenska hagkerfis, sífellt óstöðugri krónu og bera áfram byrðarnar af fákeppnisfyrirkomulagi á öllum helstu mörkuðum. 

Þessi staða kallar auðvitað á endurmat á hagsmunum Íslands. Höfuðástæða aðildar Íslands að EES á sínum tíma var tollfríðindi fyrir fisk sem metin voru að verðmæti um tveggja milljarða íslenskra króna. Sem hlutfall af heildarútflutningstekjum var þessi upphæð 1.6% en 0,5% af vergri landsframleiðslu. Ef við skoðum hvað þessar hlutfallstölur þýða miðað við þjóðhagsreikning 2006, fáum við tölu milli 4 og 5 milljarða króna. Það er með öðrum orðum núvirt verðmæti þeirra hagsmuna sem mestu skipti fyrir okkur við aðild okkar að EES. Kostnaður heimila og fyrirtækja af íslensku krónunni er hins vegar í dag metinn á milli 50 og 100 milljarða króna á ári. Ekkert sýnir betur hversu gríðarlegir hagsmunir eru af því að fyrir íslensk fyrirtæki og heimili að fá stöðugan og viðskiptahæfan gjaldmiðil. Allir helstu stjórnmálaleiðtogar á Íslandi eru sammála um að evra verði ekki tekin upp sem lögeyrir á Íslandi án aðildar að Evrópusambandinu. Þess vegna mun spurningin um aðild verða áfram fyrirferðarmikil í umræðu á Íslandi. 

Íslenski rithöfundurinn Hallgrímur Helgason er ekki bara einn besti rithöfundur landsins – hann er líka einn besti samfélagsrýnir okkar. Fyrir nokkrum árum fjallaði hann um ofuráherslu Íslendinga á sérstöðu sína og líkti henni við að vilja bara keppa á smáþjóðaleikum með San Marínó og Andorra, en ekki Ólympíuleikum. Smáþjóðaleikar fælu einhvern veginn í sér að smáþjóðirnar væru svo smáar að þær treystu sér ekki í alvöru keppni og hefðu orðið knýjandi þörf til að komast á verðlaunapall. Þess vegna, sagði hann, hlyti að vera lógískt að keppa á slíkum leikum í tvístökki, lágstökki og sextíumetrahlaupi, en ekki þrístökki, hástökki eða hundraðmetrahlaupi. 

Það má halda því fram að Íslendingar og Norðmenn hafi búið sér til nokkurs konar smáþjóðaleika með því smáþjóðaEvrópusambandi sem felst í EES. EES er órjúfanlegur hluti Evrópusamrunans og þróast með sama hætti og ESB, en er ekki sjálfstæður, statískur fríverslunarsamningur, eins og sumir virðast halda. Það kann að veita Íslendingum og Norðmönnum einhvers konar öryggi ímyndaðs fullveldis og ósnertanleika að búa í þessu sérherbergi og gera okkur kleift að halda að við séum húsbóndar í okkar eigin húsi. En til lengri tíma kann það að reynast okkur dýrkeypt að hafa ekki til að bera metnað til þess að hafa raunveruleg áhrif á mikilvægustu álitamál í samfélögum okkar á næstu árum. 

Ríki, án umtalsverðra áhrifa á mikilvægustu úrlausnarefni samfélagsins, missir fljótt lýðræðislega fótfestu og legitimitet meðal borgaranna. Í Belgíu fara ríkin hver um sig með svo að segja allt ríkisvald. Það má velta því upp hvort erfið staða belgíska sambandsríkisins og áhugaleysi belgískra stjórnmálamanna á að halda því saman, stafi ekki einfaldlega af því að ríkið fer ekki með nein verkefni sem máli skipta í hugum borgaranna og hefur því ekki lengur neinn tilgang? 

Í þessu er höfuðvandi aðildar Íslands að EES-samningnum fólginn. EES-samningurinn er embættismannasamningur, rekinn á forsendum stjórnvalda Íslands og Noregs. Hann tryggir stjórnvöldum og þjóðkjörnum fulltrúum ekki sambærileg áhrif á þróun mála og í aðildarríkjum ESB. Þótt almenningur og fyrirtæki njóti réttinda á grundvelli samningsins, er hinni lýðræðislegu þátttöku mikil takmörk sett. 

Fyrir liggur að samkvæmt hinum nýja umbótasáttmála verður Evrópuþingið áhrifamest í löggjafarferli Evrópusambandsins. Jafnframt munu þjóðþing aðildarríkja ESB fá aukin áhrif á þróun Evrópusamrunans. Alþingi og Stórþingið munu hins vegar sitja eftir sem áhorfendur að þeirri þróun. Ég rakti hér áðan þær miklu samfélagsbreytingar sem við stöndum frammi fyrir um alla álfuna næstu hálfa öldina. Íslendingar og Norðmenn hafa oft gagnrýnt ESB fyrir þann skort á lýðræði sem lengi einkenndi sambandið. Sú gagnrýni hefur auðvitað komið úr hörðustu átt því innan EES-samningsins eru engin formleg lýðræðisleg áhrif á ákvarðanatöku. Það er hins vegar sérkennileg kaldhæðni að ákvörðun okkar um að halda okkur við smáþjóðaleika EES valdi því að þjóðkjörnir fulltrúar, fyrirtæki, verkalýðshreyfing og borgarar á Íslandi og Noregi fái nú ekki notið þeirrar lýðræðisþróunar sem orðið hefur í leikreglum á vettvangi ESB á síðustu árum. Erfitt er að finna betri dæmi um hversu óskynsamleg dýrkun sérstöðu ríkja umfram sameiginlega hagsmuni getur verið. 

Þátttaka í Evrópusamrunanum er fyrir mér alþjóðahyggja í sinni bestu mynd. Það er af því að með Evrópusamrunanum hefur náðst sátt um að samfélagsþróunin í aðildarríkjunum verði til fyrir lýðræðislega samræðu, en sé ekki knúin fram á forsendum fyrirtækja, stjórnvalda eða sérhagsmunahópa. Hvert ríki, hvert sveitarfélag, hver einstaklingur, hvert verkalýðsfélag, hvert fyrirtæki tekur þátt á sínum forsendum eftir almennum, sanngjörnum leikreglum. Þetta eru nokkurs konar Ólympíuleikar þar sem keppnisgreinarnar eru ólíkar, jafnt frelsi í fjármagnshreyfingum, félagslegt réttlæti, frjáls þjónustuviðskipti og umhverfismál. Á þessum Ólympíuleikum eigum við að hafa þor til að keppa og tryggja þannig borgurum okkar áhrif á samfélagsþróun okkar næstu áratugina.