16. 2011

Samkomulag um afgreiðslu laga um gjaldeyrishöft

Mikið hefur að undanförnu verið rætt um gjaldeyrishöftin og hvernig við getum komist úr þeirri ömurlegu stöðu að hafa hér gjaldeyrishöft. Kostnaður við þau er mikill og hann vex, eftir því sem þau eru lengur við lýði. Atvinnulíf sem venst höftum verður óhagkvæmt og óarðbært. Samkeppnisgreinar sem byggja á þekkingu og hugviti geta illa vaxið hér á landi í umhverfi gjaldeyrishafta. Því skiptir öllu að koma sem fyrst á þeim aðstæðum að við getum létt af höftum og búið þekkingargreinum vaxtarskilyrði hér á landi, með opnum fjármagnsflutningum, traustari gjaldmiðli og meiri stöðugleika.

En gjaldeyrishöftin skýla okkur líka. Nú þessar vikurnar eru miklar víðsjár á fjármálamörkuðum í Evrópu og margir óttast nýja bankakreppu þar. Við erum óhult fyrir þeirri áhættu, vegna haftanna. Þau eru líka mikilvæg á meðan fjármálakerfið hefur ekki náð að vinna úr afleiðingum hrunsins.

Eftir umræðu um gjaldeyrishöftin í þinginu að undanförnu er það niðurstaða mín að óhjákvæmilegt sé að setja með skýrari hætti fram verkáætlun um þau mál sem taka þarf á til að auðvelda afnám hafta og flýta því. Með því getum við gefið innlendum samkeppnisfyrirtækjum skýrara fyrirheit um einarðan vilja okkar til að afnema höftin. Til að svo megi verða þurfum við hins vegar að sameinast um að fara að tala um það sem máli skiptir – meðal annars hvaða fyrirkomulag við getum haft um gengis- og peningamál eftir höft. Ég er ánægður að hafa fundið fyrir vilja forystumanna allra flokka til að takast þetta verkefni á hendur.

Í þeim anda hef ég gefið yfirlýsingu í þinginu um helstu verkefni og breytingar á frumvarpinu, á eftirfarandi grunni:

  1. Tímamörk afnáms gjaldeyrishaftanna verði mun skemmri en nú er gert ráð fyrir. Heimilt verði að viðhalda höftum til 31. desember 2013. Því verði þó haldið opnu að heimild til að viðhalda höftum verði framlengd en þó ekki lengur en brýnasta nauðsyn krefur.
  2. Efnahags- og viðskiptaráðherra mun óska eftir tímasettri áætlun frá FME fyrir 1. nóvember 2011 um þær aðgerðir sem ráðast þarf í til að búa fjármálakerfið undir afnám hafta, með úrvinnslu efnahagsreikninga og uppbyggingu innviða. Fyrsta skrefið er lögfesting nýs innstæðutryggingakerfis fyrir lok þessa árs. Samstaða er um greiða þinglega meðferð þess frumvarps. Tímalengd lagaheimildar um afnám hafta verði endurmetin til styttingar í ljósi þessarar áætlunar.
  3. Efnahags- og viðskiptaráðherra mun skipa þverpólitíska nefnd sérfræðinga sem meti áfram svigrúm til að flýta afnámsferlinu og veiti stjórnvöldum og Seðlabanka aðhald. Ráðherra mun, fyrir lok október 2012, leggja fyrir Alþingi mat á því hvort áfram sé þörf á að höft verði við lýði til loka árs 2013 eða hvort forsendur séu til styttingar lagaheimildarinnar.
  4. Farið verði yfir lagaákvæði um gjaldeyrishöft og kannaðir möguleikar á að einfalda ákvæði laganna og fella út óþarflega íþyngjandi atriði er lúta að heimildum heimila og fyrirtækja. Frumvarp þess efnis verði lagt fyrir Alþingi ekki síðar en 1. nóvember 2011.
  5. Efnahags- og viðskiptaráðherra mun leggja fram skýrslu, og frumvarp ef þarf, fyrir Alþingi um nauðsynleg þjóðhagsvarúðartæki til að greiða fyrir afnámi hafta, fyrir lok febrúar 2012.
  6. Efnahags- og viðskiptaráðherra mun skipa nefnd fulltrúa allra stjórnmálaflokka til samráðs um mótun gengis- og peningamálastefnu, í samræmi við það fyrirheit um samráð sem gefið var í upphafi árs. Frumvarp til breytinga á einstökum atriðum í lögum um Seðlabanka Íslands verður lagt fram á vorþingi 2012 og Alþingi gefst þá færi til að fjalla um lagagrunn peningamálastefnunnar.
  7. Efnahags- og viðskiptaráðherra mun leggja skýrslu fyrir Alþingi um umgjörð fjármálamarkaðarins í nóvember 2011, sem fari til efnislegrar umræðu og afgreiðslu í nefnd. Sérfræðingahópur, með aðkomu erlendra sérfræðinga, mun vinna tillögur að lagabreytingum á grunni skýrslunnar sem lúta að umgjörð fjármálamarkaðar og stjórnskipulagi Seðlabanka og Fjármálaeftirlits. Þær tillögur verða lagðar fram í frumvarpi haustið 2012.

Með þessu móti setjum við stefnuna til framtíðar. Við viljum að Ísland sé í vari gjaldeyrishafta á meðan nauðsynlegt er, en ekki stundinni lengur.