15. 2011

Stjórnarskipti í Danmörku

Jafnaðarmenn, undir forystu Helle Thorning-Schmidt, unnu stjórnarforystu í kosningunum í dag.

Þetta eru mikil tímamót. Jafnaðarmenn hafa átt undir högg að sækja í kosningum víða um lönd á undanförnum árum. Eftir stendur þó að fylgi jafnaðarmanna hefur ekki verið minna í rúm 100 ár og hinir gömlu tímar, þegar flokkurinn gat vænst um 40% fylgis eru gengnir. Þegar öllu er á botninn hvolft er það líka árangurinn sem skiptir máli: Kemst flokkurinn til valda? Svend heitinn Auken vann stærsta kosningasigur í seinni tíma sögu jafnaðarmann um 1990 með 37% fylgi. Ári seinna var honum velt úr formannssessi, því enginn annar flokksleiðtogi treysti honum til samstarfs.  

Kosningabaráttan núna snerist mest um efnahagsmál. Danir standa frammi fyrir minnkandi hagvexti og óttast að tapa störfum til landa þar sem laun eru lægri. Þeir standa mun betur en við, þegar horft er til menntunarstigs þjóðarinnar, en hafa samt þungar áhyggjur af samkeppnishæfni efnahagslífsins. Danir eldast og vinnandi höndum fækkar, á sama tíma og velferðarkerfið er dýrt. Danskir jafnaðarmenn hafa áður sýnt að þeir geta vel tekist á við hagræðingu í velferðarkerfinu og kjósendur virðast treysta þeim betur en borgaralegu flokkunum fyrir húsaga í þeim efnum.

Í mörgum undanförnum kosningum hafa innflytjendamál verið stærsta kosningamálið, en nú var það ekki lykilmál. Fátt sýnir betur þann hæfileika Helle og Henriks Dam Kristensen, talsmanns jafnaðarmanna í málefnum innflytjenda, til að tala inn í þann ótta sem margir Danir bera vissulega í brjósti gagnvart of miklum fjölda útlendinga í landinu. Fyrri forysta jafnaðarmanna varð viðskila við kjósendur sína í þessum málaflokki og tapaði fyrir vikið miklu fylgi til Danska þjóðarflokksins og í kjölfarið stjórnarforystunni.

Það sópaði að Helle þegar ég kynntist henni fyrir næstum tuttugu árum, rétt eins og það gerir enn í dag. Hún er kraftmikil, fyndin og hugmyndarík. Hún er órög og hugrekki hennar mun hjálpa henni í þessu erfiða verkefni.

Meirihlutinn er tæpur og samsettur úr fjórum ólíkum flokkum. Helle mun þurfa að sýna stjórnlist og lítið má út af bregða. Svend Auken lýsti SF einu sinni þannig að það væri jafn erfitt að fá afgerandi svör frá þeim og að negla búðing fastan við vegg. Nú þarf hún að hræra þann búðing og reyna að festa hann við vegginn. Ætli það sé jafn auðvelt og að smala köttum?