01. feb 2009

Stór áfangi á Evrópuför

Í nýrri verkefnaskrá ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna eru tekin mikilvæg skref í átt til aðildar að Evrópusambandinu. Breytingar verða gerðar á stjórnarskrá sem gera kleift að breyta stjórnarskránni með sérstakri þjóðaratkvæðagreiðslu. Með því er aflétt þeirri hindrun sem stjórnarskrá setur í veg aðildarferlisins að óbreyttu, þar sem þörf er á samþykki tveggja þinga með kosningum á milli til að stjórnarskrá verði breytt. 

Þegar þessar breytingar verða gengnar í gegn mun unnt að breyta stjórnarskránni til samræmis við aðild að Evrópusambandinu í sömu þjóðaratkvæðagreiðslu og fara mun fram um aðildarsamninginn sjálfan. 

Hér er því stigið mjög mikilvægt skref til að tryggja að af aðild geti orðið fljótlega á næsta kjörtímabili, ef vilji ríkisstjórnar stendur til aðildar. 

Samfylkingin mun leggja höfuðáherslu á aðild að Evrópusambandinu í kosningabaráttu næstu mánaða, enda þar um ræða brýnasta hagsmunamál íslensks almennings jafnt í bráð og lengd.