15. nóv 2013

Þjóðhagsspá: Frostið mun ríkja eitt

Nýútkomin þjóðhagsspá Hagstofunnar lýsir viðkvæmri stöðu. Við búum ekki lengur við afgang af viðskiptum við útlönd. Spá um gengi er að það verði áfram veikt og að kauphækkanir verði mjög litlar í kjarasamningum. Við blasir að ef kaupmáttur eykst muni innflutningur aukast og þrýstingur aukast á gengið.

Hagvöxtur er lítill og svo lítill að líklega ná fyrirtækin ekki að standa undir greiðslu skulda sinna. Framundan kann því að vera að fyrirtækin lendi aftur í sömu stöðu og rétt eftir hrun, þegar þau skulduðu meira en þau stóðu undir og gátu hvorki ráðið fólk né aukið við fjárfestingu í tækjum eða þekkingu.

Fjárfesting er lítil og gerir Hagstofan þó ráð fyrir því að Helguvíkurverkefnið eða ígildi hennar fari af stað á árinu 2015. Þrátt fyrir alla þessa kyrrstöðu er samt ekki gert ráð fyrir að verðbólga nái verðbólgumarkmiði fyrr en á árinu 2016!

Við þessar aðstæður þarf að tryggja innri vöxt með öllum tiltækum ráðum. Við þurfum meiri fjárfestingu í þekkingu og rannsóknum, auka menntunarstig í hverri grein og byggja þannig forsendur fyrir auknum hagvexti án þrýstings á gengið.   

Þessi sýn ætti að vera okkur öllum hvatning til að opna markaði og leita aukins krafts af erlendum samskiptum. Aðildarumsóknin er besta leiðin til þess.

En gott og vel, þessi ríkisstjórn hefur ekki áhuga á auknum vexti af alþjóðlegum viðskiptum.

En einmitt þess vegna er algerlega óskiljanlegt að sjá nýja ríkisstjórn leggja allt kapp á að slá af öll atvinnuþróunarverkefni vítt og breitt um land, skera við trog fjármagn í rannsóknarsjóði og tækniþróunarsjóð, afnema alveg uppbyggingarverkefni í starfsnámi og draga úr framlögum til framhaldsskóla og háskóla. Með slíkri stjórnarstefnu bíður stöðnunin ein.

Í þessu ljósi þarf að skilja nýleg hnjóðsyrði iðnaðarráðherra í garð stjórnenda Landsvirkjunar: Þegar heimatilbúnir hlekkir hugarfarsins – óbeit á alþjóðaviðskiptum og aukinni þekkingarsókn – hafa lamað ríkisstjórnina er bara einn kostur til að auka fjárfestingu.

Það er að gefa raforku til stóriðju.