03. maí 2012

Um fjármálastöðugleika og agaða hagstjórn

Nokkur umræða hefur á ný spunnist síðustu daga um afstöðu mína til þingsályktunartillögu forsætisráðherra um breytingu ráðuneyta í stjórnarráðinu, sem nú er deilt um á Alþingi. Það er mikilvægt að afstaða mín sé öllum ljós, sem og það á hvaða rökum hún hvílir.

Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar er kveðið á um að sett skuli á fót efnahagsráðuneyti, til að sameina á einum stað hagstjórnina og yfirstjórn fjármálamarkaða. Ástæðan var sú staðreynd, sem Kaarlo Jännäri benti á í frægri skýrslu, að í aðdraganda hrunsins hafi mönnum yfirsést sú mikla hætta sem stafaði að hagkerfinu vegna útþenslu fjármálamarkaðarins á aðra hlið og agaleysis í hagstjórn á hinni. Sú veila er einnig grunnþáttur í greiningu á því sem aflaga fór í verkstjórn forsætisráðherra samkvæmt dómi meiri hluta Landsdóms, eins og sjá má á síðum 372-373 í dómi Landsdóms yfir Geir H. Haarde.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé mikil öfugþróun að endurvekja þau skil á milli ráðuneyta og á milli verksviðs Fjármálaeftirlits annars vegar og Seðlabanka hins vegar, sem sannanlega áttu þátt í þeim skorti á samstillingu sem háði okkur í aðdraganda hrunsins og hef hvergi séð fagleg rök fyrir slíku.
Þvert á móti liggur nú fyrir ný skýrsla um framtíð fjármálamarkaðar á Íslandi (http://www.efnahagsraduneyti.is/media/Acrobat/Framtidarskipan-fjarmalakerfisins.pdf), sem ég hóf undirbúning að í ráðherratíð minni í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu. Þessi skýrsla er sannarlega tímamótaverk og sýnir í hnotskurn greiningargetu þess ráðuneytis, þótt það sé sannanlega allt of fámennt.

Í skýrslunni er fjallað vandlega um þann vanda sem við var að glíma fyrir hrun og ítarlega um þau verkefni sem við blasa til úrlausnar. Brýnast þeirra er að efla það sem nefnt er í skýrslunni þriðja svið hagstjórnar og greint er með heildstæðum hætti í 8. kafla. Hingað til höfum við bara horft á ríkisfjármál og peningamál, sem þau tæki sem tiltæk eru til hagstjórnar. Fjármálaráðuneytið ber ábyrgð á ríkisfjármálunum og svo ber Seðlabankinn ábyrgð á peningamálunum og þar með vaxtastiginu. Í skýrslunni eru leidd að því sannfærandi rök að nauðsynlegt sé til viðbótar að regla með skipulegum hætti ýmsar áhættur sem geti leitt til fjármálakreppu. Þar má nefna hámarksveðhlutföll, hámark á hlutfall skulda af tekjum jafnt fyrirtækja og einstaklinga, hámark á aukningu einstakra lánveitinga, kröfur um aukna bindiskyldu, lausafjár- eða eiginfjárkröfur eða kröfur um varúðarsjóði og takmarkanir á misvægi gjaldmiðla með innlendum lánveitingum í erlendum gjaldmiðli eða mismun á tímalengd eigna og skulda.

Allt eru þetta úrræði sem einungis verður beitt í náinni samvinnu Seðlabanka og Fjármálaeftirlits og með aðkomu hins pólitíska valds. Þá er eftir að útfæra slík úrræði til samræmis við túlkun Landsdóms á 17. gr. stjórnarskrár og skrifa inn í slíkt samspil sjálfstæðra eftirlitsstofnana hvernig heimildar ríkisstjórnar til beitingar úrræðanna verði aflað.

Allir eru í orði kveðnu sammála um að agi í hagstjórn sé nauðsynleg forsenda efnahagslegs stöðugleika. Það er sannarlega rétt – agalaus hagstjórn kemur okkur jafnt í koll með sjálfstæðan gjaldmiðil eða með evru. Við höfum hins vegar aldrei varið orku í að byggja upp þessa hagstjórn eða sett hana í öndvegi annara markmiða. Forsætisráðuneytið sinnti henni aldrei með fullnægjandi hætti á fyrri tíð og efnahagsráðuneytið hefur ekki fengið fjárheimildir til að byggja upp sína getu að þessu leyti. Þess vegna hefur markmiðið um samstillta hagstjórn aldrei náðst – og næst ekki enn.

Nú hafa þrír sérfræðingar, með Jännäri í broddi fylkingar, tekið að sér að veita okkur ráð um umgjörð fjármálamarkaðar og fyrirkomulag þriðja sviðs hagstjórnar. Efnahagsráðherra Samfylkingarinnar kallaði þá til verka í lok síðasta árs og núverandi efnahagsráðherra hefur veitt skýrt fyrirheit um að leggja fram í haust á grundvelli tillagna þeirra frumvörp um rammalöggjöf um fjármálamarkað og um ábyrgðarsvið Seðlabanka og Fjármálaeftirlits.

Mér finnst einfaldlega að forgangsverkefni okkar eigi að vera að byggja upp getu okkar til að sinna hagstjórn með sama hætti gert er í næstu nágrannalöndum og mæta þeim séríslensku þörfum sem greina má í kjölfar hrunsins. Stærsta skylda stjórnvalda í kjölfar hruns er að byggja trúverðuga umgjörð um agaða hagstjórn og fjármálalegan stöðugleika og skapa um hana eins víðtæka sátt og kostur er.