02. feb 2008

Um hlutverk og verkefni Íslands í baráttunni gegn matvælaskorti, þurrkum og loftslagsbreytingum

Nýverið hélt ég ræðu um ofangreint efni á ráðstefnu Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri. Ráðstefnan var hluti af fundaröð utanríkisráðuneytisins og háskólasamfélagsins um stöðu og hlutverk Íslands í alþjóðasamfélaginu, meðal annars í ljósi framboðs Íslands til öryggisráðsins. Ræðan fer hér á eftir í heild.

Háskólarektor, frummælendur, ágæta háskólasamfélag!

Ég vil byrja á því að færa ykkur öllum kveðjur frá utanríkisráðherra, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, sem forfallaðist og átti þess því miður ekki kost að koma hingað á þennan fund. Það er mér hins vegar mikill heiður að fá að hlaupa hér í skarð hennar og flytja opnunarávarp þessarar ráðstefnu.

Sú samræða sem hafin hefur verið um utanríkismál í samvinnu háskólasamfélagsins og utanríkisráðuneytisins markar vissulega tímamót. Eitt er það að ekki er fundað í einum háskóla á Melunum í Reykjavík. Þær ánægjulegu breytingar hafa orðið að háskóla er að finna víða um land og þeir glíma við ólík verkefni sem tengjast lífi okkar með fjölbreyttum hætti.

Það er líka tímanna tákn að utanríkismál séu umfjöllunarefni með þessum hætti. Fram til þess að utanríkisviðskiptamál færðust til utanríkisráðuneytisins 1987 voru verkefni ráðuneytisins einkanlega á sviði hefðbundins sendiráðsreksturs og varnar- og öryggismála. Nú byggir íslenskt efnahagslíf á fjölþættu neti milliríkjasamninga, sem eru nauðsynleg stoð framsæknum fyrirtækjum. Fríverslunarsamningar, tvísköttunarsamningar og loftferðasamningar skapa grunn undir markaðsaðgang okkar í öðrum löndum. Mestu skiptir EES-samningurinn sem tryggir markaðsaðgang að mikilvægasta viðskiptasvæði okkar, Evrópu. Viðhald og framþróun þessara samninga er eitt allra mikilvægasta verkefni utanríkisþjónustunnar í dag. Utanríkisráðherra hefur sagt að nú séu heimsmál heimamál og heimamál heimsmál. Það er bæði satt og rétt. Aðgerðir okkar á heimavelli hafa áhrif út fyrir landsteinana, um leið og staða mála á alþjóðavettvangi hefur bein áhrif á efnahag okkar og lífskjör.

Í dag er efnt til umræðu um hlutverk og verkefni Íslands í baráttunni gegn matvælaskorti, þurrkum og loftslagsbreytingum. Ástæðan er augljós: Hlýnun andrúmsloftsins getur kallað yfir okkur veðrabreytingar sem valda óbætanlegu tjóni. Eyjar kunna að sökkva og flóðum fjölga á strandsvæðum, akrar þorna og gróður hopa. Og afleiðingarnar geta líka haft mikil áhrif á vistkerfið við Ísland, komi til þess eins og sumir vísindamenn spá, að bráðnun jökla á norðurhveli jarðar þrýsti Golfstraumnum sunnar og þar með suður fyrir hið íslenska hafsvæði. Slíkt myndi líklega þýða endalok íslensks landbúnaðar í núverandi mynd. Í hnattvæddum heimi er líka ljóst að aukinn flóttamannastraumur vegna þverrandi lífskjara mun snerta okkur eins og önnur velstæð ríki.

Saga okkar leggur okkur auðvitað skyldur á herðar. Við nutum lengi sérstakra kjara og aðstoðar sem fátækt ríki og vorum lengi lítt aflögufær. Við höfum byggt efnahag okkar á matvælaframleiðslu allt fram á síðustu ár. Ríkisstjórnin hefur samþykkt áform um verulega aukin framlög til þróunaraðstoðar á næstu árum og af hálfu utanríkisráðherra hefur verið unnið að nýrri stefnumótun í þróunarsamvinnu. Við þurfum líka að marka okkur þá stöðu með þjóða heims að málflutningur okkar á alþjóðavettvangi, viðskiptastefna okkar og stefna í þróunarsamvinnu falli allar í eina átt.

Það eru engar einfaldar lausnir við loftslagsvandanum. Eitt besta dæmið er sú staðreynd að tilraunir til að draga úr útblæstri bíla með vinnslu lífræns eldsneytis úr maís og sykurrey kunna að hafa ýtt undir eyðingu regnskóganna - og þannig aukið með öðrum hætti á loftslagsvandann. Bandaríkjamenn nota meiri maís til etanólframleiðslu en til útflutnings og niðurgreiðslur til slíkrar framleiðslu eru einn þáttur í hækkandi matvælaverði. Hátt matvælaverð á heimsmarkaði nú er einstakt í ljósi þess að birgðastaða í matvælaframleiðslu er nú betri en nokkurn tíma fyrr – uppskera var meiri á síðasta ári en árið á undan – sem var líka metár. Aukin eftirspurn eftir kjöti í ríkjum á borð við Kína og Indland hefur einnig haft áhrif til hækkunar á matvælaverði á heimsmarkaði. Þessi þróun vekur einnig spurningar um viðbrögð okkar í skipulagi matvælaframleiðslu.

Við þurfum því að nálgast verkefni okkar af ákveðinni auðmýkt og raunsæi og byrja á að horfa til þeirra atriða sem er sannanlega á okkar færi að breyta. Það eru að mínu viti þessi helst:

Við eigum að leggja kapp á að miðla af sérþekkingu okkar í sjálfbærri nýtingu auðlinda. Með farsælu starfi jarðhita- og sjávarútvegsdeilda Háskóla Sameinuðu þjóðanna hér á landi höfum við stuðlað að uppbyggingu þekkingar á þessum þáttum víða um heim. Nýhafinn er rekstur landgræðsluskóla, sem við stefnum að því að verði þriðja íslenska stoðin undir starfi Háskóla Sameinuðu þjóðanna hér á landi, sem við fáum að heyra meira af frá Ingu Svölu Jónsdóttur hér síðar í dag.

Við eigum samhliða þessu að leita samstarfs við íslensk fyrirtæki um þátttöku þeirra í þróunarsamvinnuverkefnum. Það er mikilvægt að draga vel rekin íslensk fyrirtæki með í verkefni til að stuðla að uppbyggingu í þróunarríkjunum. Þótt einstök fyrirtæki hafi í gegnum söguna og allt fram á síðustu ár arðrænt fátækt fólk víða um heim, byggjum við Norðurlandabúar á langri hefð trausts sambands ábyrgra fyrirtækja og metnaðarfullrar verkalýðshreyfingar. Þá fyrirmynd er full ástæða til að flytja út.

Við eigum að styðja við framþróun á alþjóðamarkaði með landbúnaðarvörur og aukið frelsi í milliríkjaviðskiptum með landbúnaðarvörur. Þannig þjónum við jafnt okkar eigin hagsmunum og hagsmunum þróunarríkjanna. Ef marka má tölur Alþjóðabankans búa þrír milljarðar manna í sveitum í þróunarlöndunum og af þeim hafa tveir og hálfur milljarður lífsviðurværi af landbúnaði. Þrír af hverjum fjórum þessara þriggja milljarða manna eru í hópi fátækasta fólks í heimi. Það liggur í augum uppi að auknir möguleikar þróunarríkja til arðbærrar matvælaframleiðslu eru besta þróunaraðstoð sem hægt er að veita. Talið er að fjöldi fátækra í Afríku sunnan Sahara geti minnkað úr 47% af mannafla í 31% árið 2015 vegna aukinna tekna af matvælaframleiðslu. Sum lönd hafa hætt landbúnaðarframleiðslu til útflutnings því verð hefur ekki staðið undir kostnaði og fjárfesting í áveitum og öðrum aðgerðum til stuðnings landbúnaði hefur ekki staðið undir sér. Það kann nú að breytast og hækkun matvælaverðs á heimsmarkaði felur í sér mikil tækifæri fyrir þróunarríkin og fyrir dýra hágæðavöru. Við höfum áratugum saman krafist fríverslunar með sjávarafurðir í milliríkjasamningum en lagt á það áherslu að halda íslenskum markaði frá alþjóðamarkaði með landbúnaðarvörur. Þessi tvískinnungur stendur okkur fyrir þrifum. Við vitum að framundan er enn frekari alþjóðavæðing matvælamarkaðarins, samhliða því sem sérhæfing mun aukast og eftirspurn vaxa eftir vörutegundum af ólíkum gæðum og þannig á ólíku verði. Í þeirri þróun felast gríðarleg tækifæri fyrir íslenska landbúnaðarframleiðslu. Núverandi viðskiptahindranir skaða útflutningsmöguleika og vöruþróun íslenskra framleiðenda og draga úr skilvirkni í landbúnaðarkerfinu. Við eigum að stefna að því að skapa nýja þjóðarsátt um útrás íslensks landbúnaðar sem byggir á skilvirku styrkjakerfi við innlenda framleiðslu og afnámi hindrana á markaðsaðgangi milli landa.

Ágætu tilheyrendur. Velsæld undanfarinna ára hefur breytt stöðu Íslands á alþjóðavettvangi og heldur áfram að móta sjálfsmynd okkar á hverjum degi. Við höfum átt einstæða vegferð frá örbirgð til auðlegðar á rétt um 60 árum. Þeim árangri höfum við náð með almennum lýðréttindum – og sérstaklega efldum réttindum kvenna og barna – markaðshagkerfi og öflugu velferðar- og menntakerfi. Við höfum lagt okkur eftir því að bæta sífellt sjálfbæra nýtinga auðlinda okkar og við höfum jafnframt stigið stór skref í umhverfisvernd á síðustu áratugum. Á öllum þessum sviðum finnst okkur auðvitað margt ógert hér innanlands – en árangur síðustu 60 ára er gríðarlegur í hnattrænum samanburði. Erindi okkar í alþjóðlegum samstarfi er að byggja á þessari reynslu, miðla af henni og styðja við sjálfbæra þróun um allan heim, með sjálfstraust og sanngirni að leiðarljósi.

Flutt á Hvanneyri, 15. janúar 2008.