12. apr 2012

Um Icesavemálið fyrir EFTA-dómstólnum

Verð óendanlega dapur þegar ég sé orðaskak dagsins um Icesave.

Það er ekkert athugavert við að framkvæmdastjórn ESB láti dómsmál um Icesave til sín taka – það er réttur hennar og málið varðar túlkun tilskipunar sem getur haft víðtæk áhrif fyrir innri markaðinn sem slíkan. Enginn maður með réttu ráði getur hafa búist við því að framkvæmdastjórnin tæki ekki til meðalgöngu í málinu, í einu eða öðru formi. Hún hefur undanfarin ár glímt við að láta innstæðutryggingakerfið í Evrópu virka á miklum umrótstímum. Tilskipunin er til endurmats og það hefur reynst framkvæmdastjórninni þrautin þyngri að sannfæra Evrópuþingið um að ný drög séu fullnægjandi. Þar er enda ekki tekið á ýmsum agnúum – meðal annars þeim hvað gera skuli ef allir bankar í litlu landi fara á hausinn á sama tíma. Það er því ekki þannig að framkvæmdastjórnin muni mæta til leiks með skýr svör og vind í seglum.

Á hinn kantinn gjósa nú upp raddir sjálfsásakana um að þjóðin hafi haft rangt fyrir sér þegar síðasta Icesave-samningi var hafnað og að við blasi kostnaður upp á hundruð milljarða að loknu dómsmáli. Það er mjög ofmælt.

Ég studdi Icesave III, en það voru góð efnisleg rök fyrir að leita dómsniðurstöðu um greiðsluskylduna. Nú þegar liggur fyrir að kostnaður vegna Icesave III væri mun hærri en útreikningar samninganefndarinnar fyrir réttu ári gerðu ráð fyrir. Ástæðan er annars vegar tafir á fyrstu útgreiðslu frá því sem þá var spáð og hin sú að slitastjórnin hagar útgreiðslu með þeim hætti að ekki hefði myndast gengishagnaður hjá íslenska innstæðutryggingasjóðnum sem vegið getur upp á móti kostnaði af vaxtagreiðslum, eins og samninganefndin gekk út frá. Það er því mjög hæpið og algerlega órökstutt að halda því fram að dómstólaleiðin feli í sér að augljóst sé og óhjákvæmilegt að einhver kostnaður falli á Íslendinga umfram það sem verið hefði með samningsniðurstöðu.

 .      Það er Ef dómur gengur gegn okkur þurfum við bara að greina hvað í þeim dómi felst. Við verðum aldrei dæmd til greiðslu einhverra vaxta, heldur verður dómurinn í versta falli áfellisdómur um að við hefðum átt að haga okkur með einhverjum öðrum hætti. Hvort slíkur dómur hafi í för með sér einhverja bótaskyldu er allt annað mál og ómögulegt um það að spá. Þeir sem þá vilja gera bótakröfu þurfa þá líka að sanna tjón sitt.

Krafa íslenskra stjórnvalda allt frá hausti 2008 var sú að við fengjum rétt til að leggja Icesave-málið fyrir dóm. Það fæst nú. Ég lagði í fyrra í samtölum við tugi erlendra kollega mikla áherslu á að sækjast eftir stuðningi annarra Evrópuríkja við málstað okkar fyrir dómstólnum. Vonandi hefur því verið haldið áfram af þeim sem nú bera ábyrgð á málarekstrinum. Það þýðir þá heldur ekkert að kvarta yfir því að aðrir aðilar eins og Bretar og Hollendingar – eða framkvæmdastjórnin – láti málið til sín taka frá hinni hliðinni. Það er bara gangur lífsins ef mál fer á annað borð fyrir dóm í fjölþjóðlegu réttarkerfi, eins og EES-kerfið er.

Eins og ég nefndi í þingræðu þegar stefnan lá fyrir, var okkur ómögulegt að tryggja aðgang að innstæðum breskra og hollenskra innstæðueigenda, þó ekki væri nema vegna þess að ef þær hefðu verið fluttar yfir í nýju bankana og erlendir innstæðueigendur hefðu getað tekið þær út, hefðu nýju bankarnir orðið gjaldþrota á fyrsta degi því að gjaldeyrisvaraforði þjóðarinnar var ekki þannig að hægt væri að standa við útgreiðslu þessara fjármuna. Okkur var þar af leiðandi ómögulegt að haga málum þannig en við gerðum hitt, við tryggðum rétt innstæðueigenda eins og hægt var með neyðarlögunum.

Íslensk stjórnvöld verða þess vegna að halda því skýrt til haga í málsvörninni - og í svari til EFTA-dómstólsins vegna beiðnar framkvæmdastjórnarinnar um meðalgöngu - að þetta mál snúist ekki nema að litlu leyti um fjórfrelsið sem slíkt, heldur um rétt þjóðar til sjálfsvarnar þegar vegið er að stoðum efnahags- og fjármálakerfis hennar. Efast má um heimildir EFTA-dómstólsins til að taka á ágreiningi sem lýtur að aðgerðum sem sannanlega voru nauðsynlegar til bjargar efnahagslífi lands í fordæmalausum þrengingum. Engin Evrópuþjóð myndi fallast á það athugasemdalaust að dómstóll gæti dæmt af henni rétt til aðgerða til að verja efnahagslegt sjálfstæði hennar. Það eigum við ekki heldur að gera.