10. apr 2007

Útvarpsviðtal á Sögu

Í morgun var ég gestur Jóhanns Haukssonar í Morgunhananum á Útvarpi Sögu. Einfalt er að hlusta á viðtalið á vefsíðu Morgunhanans

Í viðtalinu lagði ég áherslu á að hryggjarstykkið í ríkisstjórn án Sjálfstæðisflokks hlyti að vera Samfylkingin. Jóhann hafði mikinn áhuga á nýlegum útleggingum felulitafræðinga Sjálfstæðisflokksins - Hannesar Hólmsteins og Illuga Gunnarssonar - þess efnis að Sjálfstæðisflokkurinn væri í reynd bara ósköp notalegur jafnaðarmannaflokkur.

Ég lagði áherslu á að þetta væri frekar ósvífin tilraun til að setja stefnu Sjálfstæðisflokknum fram undir fölsku flaggi. Nýjustu loforð Sjálfstæðismanna um frekari skattalækkanir á sama tíma og ekki er hægt vegna fjárskorts að bjóða upp á lágmarks velferðarþjónustu sýni þvert á móti einbeittan brotavilja íhaldsins í þá átt að grafa undan samfélagslegri samstöðu um fjármögnun velferðarþjónustunnar og brjóta þannig undan samstöðu um velferðarkerfi fyrir alla, óháð efnahag.

-áp