28. jan 2007

Vefsíðan vaknar af dvala

Eftir hamagang prófkjörsbaráttu, aðventu- og jólastúss og hefðbundnar áramótavangaveltur er nú komið að því að hefja á ný hina pólitísku hugmyndasókn. Ég hef breytt útliti vefsíðunnar og ætla mér að setja hér stuttar hugleiðingar og lengri greinar í bland. Kosningabaráttan er að hefjast og af mörgu að taka. Mest stingur í augun hugmyndaleysi og metnaðarleysi ríkisstjórnarinnar, sem virðist halda að kosningavíxlar af gömlu sortinni séu til þess fallnir að fá kjósendur til fylgilags á síðustu metrum kjörtímabilsins. Ég trúi því hins vegar að kjósendur muni efnahagslegan glundroða, hækkanir á verðtryggðum skuldum og útlánsvöxtum, heimóttarskap á alþjóðavettvangi og hæsta matvælaverð í heimi. Það er verðugt verkefni að setja fram valkost við það dáðleysi, drunga og lífsleiða sem einkenna síðustu mánuði þessa blágræna bandalags. Vonandi tekst það vel hér á þessari síðu.
-áp