17. nóv 2011

Vill Ísland hagstjórn?

Ég hélt erindi á fundi Félags viðskipta og hagfræðinga í hádeginu. Fundarefnið var spurningin „Hvernig hagstjórn þarf Ísland?“. Þegar ég glímdi við þessa spurningu vaknaði strax önnur í huga mér: „Þarf Ísland hagstjórn?“. Ef maður svarar henni játandi þarf næst að svara spurningunni: „Vill Ísland hagstjórn?“.  

Vill Ísland hagstjórn? Viljum við stöðugt verðlag framar öðru? Stöðugt gengi og traustan hagvöxt? Reynslan bendir því miður ekki til þess, þrátt fyrir fögur orð stjórnmálamanna og forsvarsmanna aðila vinnumarkaðar á tyllidögum. Allt of oft höfum við teflt á tæpasta vað, með afdrifaríkum afleiðingum.

Ég vitnaði í máli mínu í Jónas H. Haralz, sem vísaði í Velferðarríki á villigötum til þess að sameiginleg áföll gætu skapað sameiginlega sýn um úrlausn mála og nýjar meginákvarðanir í efnahagsmálum. Hann sagði:

„Til eru þeir tímar að tiltölulega auðvelt er að ná einingu. Þetta eru tímar sterkrar eða almennrar tilfinningar um sameiginlega ógnun eða hættu, hvort sem sú hætta kemur að utan eða innan. Slíkir tímar geta einnig fylgt í spor djúpstæðrar reynslu, sem mönnum hefur fundist ógna sjálfri tilveru samfélagsins. Þessi tilfinning hefur sameiginlega hagsmuni yfir sérhagsmuni. Þetta eru tímar meiri háttar umbóta, þegar unnt er að marka og framkvæma virka og árangursríka stefnu í efnahagsmálum.“ 

Dugar alvarlegasta efnahagsáfall í 80 ár til að við getum náð saman um meginreglur agaðrar hagstjórnar, eða þarf meira til?

Skiljum við nú loks að mikilvægasta verkefnið er að reka ríkissjóð með afgangi og tryggja lága verðbólgu?

Getum við sameinast um leiðina fram á veg?