01. okt 2011

Viltu verða heill?

Í guðsþjónustu við þingsetningu í dag lagði sr. Agnes M. Sigurðardóttir út frá þessari spurningu frelsarans með ágætum hætti.

Á okkur sem þjóð hafa dunið ýmis áföll undanfarin ár. Erfiðast við þau áföll eru ekki áföllin sjálf, heldur viðbrögð okkar við þeim. Við höfum ekki náð samtali og samstöðu um leiðina áfram. Þjóðmálaumræðan einkennist af hringrás upphrópana og stóryrða. Hver dagur er alveg eins og dagurinn í gær.

Upplausnin birtist líka í stöðugum skeytasendingum milli ríkisstjórnar og aðila vinnumarkaðarins, linnulausu málþófi á Alþingi og í orðaskaki ráðherra og forseta lýðveldisins. Allir tala, en enginn hlustar.

Spyrja má hvort okkur standi nú orðið á sama um Ísland? Viljum við ekki lengur verja lýðveldið og stofnanir þess? Erlend stórríki lýstu okkur gjaldþrota vanskilaþjóð árið 2008. Okkur tókst að varna þeim örlögum. Alþingi er grunnstoð ríkisins, en allir virðast uppgefnir á að verja það og starfsfrið þess. Lýðræðisleg þingstörf geta ekki þrifist undir ógnunum og árásum. Við höfum látið slíkt átölulaust frá 2008 og uppskerum nú eins og til var sáð.

Þingsetningin er forn hefð þessarar stofnunar – opin og berskjölduð athöfn. Athyglisvert er að enginn virðist vilja standa vörð um þingsetninguna á forsendum hefðarinnar.  Hvert erum við komin þegar lögreglumenn skipuleggja mótmæli í aðdraganda þingsetningar, dómarar Hæstaréttar mæta ekki til þings í fyrsta sinn frá stofnun réttarins og forsetafrúin snýr baki í þingið og setur einkaleikþátt á svið?

Þversögnin er sú að þrátt fyrir þessa þverbresti og ósamstöðu hefur Ísland reynst sterkara en menn héldu og efnahagsleg staða landsins er betri en hjá flestum þjóðum sem þó hafa glímt við minni vanda. Erlendir viðmælendur efast ekki lengur um getu okkar til að snúa vörn í sókn, en þeir spyrja æ oftar hvort einhverjar líkur séu á að við náum saman um leiðina áfram.

Það eru dæmi um ríki sem hafa festst í vítahring stjórnleysis og upplausnar í kjölfar efnahagsáfalla vegna þess að þau hafa aldrei geta sameinast um leiðina fram á veg. Verður það hlutskipti Íslands?

Hvernig svörum við spurningunni: Viltu verða heill? Viljum við það? Viljum við sættast og græða sár? Viljum við kveðja ofbeldisfulla orðræðu öskurs, málþófs, þrætubóka, ásakana, gagnásakana og útúrsnúninga?

Við getum ekki frestað því mikið lengur að svara þessum grundvallarspurningum.