13. 04 2016

Ég fagna frumkvæði Eyglóar Harðardóttur sem nú hefur birt lykilupplýsingar úr skattframtali vegna sín og maka síns á síðasta ári og árinu þar á undan. Ég vil fara að frumkvæði hennar og legg því spilin algerlega á borðið hvað varðar tekjur mínar og Sigrúnar, eignir okkar og skuldir. Vonandi verður það öðrum hvatning til að svara réttmætum spurningum sem að þeim snúa.

 

 

2015

2016

Tekjur:

 

 

 

Árni Páll

11.969.858

12.586.697

Sigrún

4.519.876

4.530.792

Sameiginlegar fjármagnstekjur af innstæðum og útleigu kjallaraíbúðar

1.321.812

1.383.571

 

Eignir:

 

 

Túngata 36A

57.050.000

69.300.000

Bíll

1.700.611

1.530.068

 

Skuldir:

 

 

 

44.015.113

39.232.068

28. 10 2013

Um þarsíðustu helgi var haldið Fjórðungsþing Vestfirðinga í Trékyllisvík á Ströndum. Þar var samþykkt ályktun um að harma þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að slá aðildarviðræðum við Evrópusambandið á frest. Þingið skoraði á ríkisstjórnina að klára viðræðurnar og bera samning undir þjóðaratkvæðagreiðslu. Gríðarleg vinna hafi verið lögð í undirbúning verkefna sem miða að því að bæta samkeppnishæfni svæða, en eru nú í uppnámi vegna óvissu um áframhald IPA-verkefna.
„Byggðastefna ESB miðar að því að aðstoða hvert svæði við að nýta getu sína til fullnustu með því að bæta samkeppnishæfni og efla atvinnulíf,“ segir í ályktuninni. „Það er gert með verulegu fjármagni og aðferðafræði sem gæti nýst okkur Íslendingum afar vel.“

Á Vestfjörðum hefur undanfarin ár verið lögð mikil vinna í að skilgreina leiðir til að byggja upp atvinnulíf og treysta byggð. Grunnurinn sem heimamenn vilja byggja á er hreinleiki svæðisins, ósnortin náttúra og vitund um mikilvægi umhverfisverndar. Í slíku felast sóknarfæri í ferðaþjónustu, landbúnaði og sjávarútvegi.

En veruleikinn er erfiður. Of háir vextir og lélegur aðgangur að fé til uppbyggingar. Aðild að ESB myndi leysa þann vanda fyrir Vestfirðinga, eins og aðra í hinum dreifðu byggðum.

Og án aðgangs að erlendum mörkuðum mun störfum tæpast fjölga í landbúnaði. Landbúnaðurinn hefur gríðarlega vaxtarmöguleika, en þarf að losna úr álögum einangrunar og fákeppni í afurðaþróun. Aðild að ESB myndi skapa okkur ný tækifæri til að fjölga störfum í landbúnaði. 
Skilaboðin úr Trékyllisvík eru skýr: Hagsmunir landsbyggðanna felast í því að lokið verði við samninga um aðild að ESB. 

Spurningin er hvort ríkisstjórnin hlusti. Hún hefur nú þegar orðið sér til minnkunar með því að telja sig vita betur hverjir eru hagsmunir verkalýðshreyfingar og atvinnulífs en Alþýðusambandið, Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð. Ætlar hún núna að segja okkur að hún þekki betur hagsmuni landsbyggðanna en fundur Vestfirðinga í Trékyllisvík?

Birt í Fréttablaðinu, 22. október 2013.

28. 01 2013

Nú líður að lokum formannskjörs í Samfylkingunni. Það skiptir flokkinn miklu að þátttakan í kjörinu verði sem best. Ég vil hvetja þig til að kjósa í formannskjörinu og til að minna vini og ættingja sem skráðir eru í flokkinn á að taka þátt.

Mér er efst í huga þakklæti fyrir samskiptin og samtalið við mikinn fjölda fólks undanfarna mánuði.

Ég heillaðist barn að aldri af hugmyndinni um þjóðfrelsi og rétt undirokaðs fólks um allan heim til sjálfsákvörðunar. Það hafa verið leiðarljós í stjórnmálastarfi mínu allt til þessa dags. Þess vegna vil ég að Ísland standi vörð um sjálfstæði sitt með fullgildri þátttöku í samfélagi þjóðanna og að íslenskt launafólk njóti afkomuöryggis og verndar gegn ofríki stjórnvalda með sama hætti og fólk í nálægum löndum. Þess vegna vil ég auka vald fólks yfir eigin lífi og tryggja góða velferðarþjónustu án tillits til efnahags, á þeim forsendum sem fólk kýs sjálft.

Samfylkingin er eini flokkurinn sem byggir á svo sterkum rótum að geta með trúverðugum hætti ofið saman kvenfrelsi, verkalýðsbaráttu, velferðarsjónarmið, græn gildi, þjóðfrelsi, alþjóðahyggju og athafnafrelsi í óslítanlegan streng. Í þessari blöndu býr ótrúlegur kyngikraftur og á hennar grunni er auðvelt að veita svör við erfiðustu álitamálum okkar tíma. Spurningin er hvort við kjósum að nýta þetta hreyfiafl, rækta það og sækja fram með það sem höfuðvopn?

Ég hef notið mikils trausts, fengið tækifæri til að þjóna hreyfingu jafnaðarmanna og verið kallaður til verka í erfiðustu ráðuneytunum til að glíma við fordæmalaus verkefni í íslenskri sögu. Eftir þá reynslu hefur mér nú gefist færi á að þróa framtíðarsýn mína, byggða jafnt á hugsjónum bernskunnar og reynslu liðinna ára, og kynna ykkur hana. Samtöl mín við Samfylkingarfólk um allt land hafa þroskað þessar hugmyndir, stælt þær og bætt. Það er ekki sjálfsagt að njóta trausts félaga sinna með þessum hætti og ekki heldur að fá tækifæri til að þróa sýn á framtíðarverkefnin með þessum hætti. Ég lít því á undanfarin misseri sem eina langa uppskeruhátíð.

Fyrir þessi tækifæri þakka ég af alhug. Ég er reiðubúinn til að helga mig áfram því verki að finna hugsjónum okkar allra farveg í flóknum heimi. Nú er valið í höndum Samfylkingarfólks um land allt.

Árni Páll Árnason.

27. 01 2013

Á fundi í Kópavogi á miðvikudagskvöldið mættust formannsframbjóðendurnir Guðbjartur og Árni Páll.

Undir lok fundarins ítrekaði Guðbjartur að hann væri trúr grunngildum Samfylkingarinnar; réttlæti, jöfnuði og kvenfrelsi og varaði við því að flokkurinn kvikaði frá þeim.  Hann tók fram að í orðum hans fælist ekki ásökun í garð mótframbjóðandans.

Nýjar hugmyndir – mismunandi skoðanir
Á leiðinni heim fór ég hugsa um grunngildin og rifjaði upp í huganum tímann fyrir 13-14 árum þegar við Kvennalistakonur mættum fólki úr Alþýðubandalagi og Alþýðuflokki, landið um kring, í verkefninu að búa til nýjan stjórnmálaflokk. Það var tekist á, stundum skellt hurðum en sameining okkar tókst að mestu, því hugsjónin um sameinaða fjöldahreyfingu fólks með svipaða lífsýn varð stærri og mikilvægari en sértækar áherslur hvers og eins.  Á þessum árum sem liðin eru hefur Samfylkingin verið sterkust þegar okkur hefur borið gæfa til að taka fagnandi á móti nýjum hugmyndum, leyft mismunandi skoðunum að flæða um æðakerfi flokksins og nýtt okkur þann kraft sem skapast þegar fólk með ólíkan bakgrunn og sýn, vinnur að sömu markmiðum. Sjaldan höfum við dottið í þá  gryfju að efast um heilindi hvers annars og trúverðugleika sem jafnaðarmenn eða kvenfrelsissinnar því það skiptir máli í keppni samherja að þeir virði hvor annan og takist á um hugmyndir, sýn og leiðir, af sanngirni og heiðarleika.

Klipið smjör
Þetta hefur þeim Árna og Guðbjarti tekist í heiðarlegri baráttu um formannsembættið.  Í slíkri baráttu er líka mikilvægt að helstu stuðningsmenn sýni varkárni í málflutningi og slysist ekki út í þann leiða leik að gera mönnum upp skoðanir.  Þetta er sérlega mikilvægt þegar forystufólk sem hefur verið kosið til ábyrgðarstarfa, á í hlut.  Því voru það vonbrigði þegar varaformaður flokksins, Dagur Eggertsson, sá ástæðu til að rifja upp rúmlega ársgamalt viðtal við Árna Pál um Landsvirkjun og hann og fleiri dylgjuðu í kjölfarið um löngun Árna til að selja fyrirtækið.   Hér er hinn auma smjörklípuaðferð á ferð; að sá fræjum um óheilindi Árna sem „jafnaðarmanns“ með því að slíta orð hans úr samhengi og búa til úr þeim nýjan skilning.  Og fjölmiðlarnir löptu upp smjörið.

Það er merki um veikleika að  draga upp víglínur í stjórnmálum út frá dylgjum og smjörklípum. Aumt  gagnvart andstæðingum, aumara gagnvart samherjum.

Það hefur enginn sjálfskipaðan rétt til að ákveða hver hinn „sanni“ jafnaðarmaður er.

Lifandi umræða
Skilninginn á því hvað felst í gildunum „réttlæti, jöfnuður, kvenfrelsi“ má aldrei meitla í stein.  Ef svo væri hefði stjórnmálahreyfingin Kvennalistinn aldrei orðið til, né náð árangri, hvað þá skráð sig á spjöld Íslandsögunnar sem aflið að baki stökkbreyttri umræðu um frelsi kvenna til athafna.  Það er aðeins í gegnum lifandi umræðu, stöðuga framþróun hugmynda, þor til að orða það sem eru fyrir sumum heilög vé; að grunngildi ganga í endurnýjun lífdaga, í opinni vegferð þar sem nýjar kynslóðir meðtaka þau og gera að sínum.  Jafn mikilvæg og sönn sem áður.

Árni Páll er á slíkri vegferð og vill fá okkur með sér.
Í ræðu og riti, greinum, fésbók og bloggi  – á samkomu eftir samkomu -  hefur hann sýnt fram á hvernig öflugt velferðarsamfélag, heilbrigt og sterkt mennta- og menningarsamfélag, samfélag náttúruverndar og nýrra atvinnutækifæra, byggir á því að  okkur takist að treysta efnahag okkar og frelsi til afhafna, án hafta, án arðráns, án blæðandi gjaldmiðils.

Árni Páll Árnason sér hina stóru mynd og þorir að setja hana í orð.  

Höfundur starfar í listum og skapandi greinum

27. 01 2013

Í hönd fara spennandi tímar og krefjandi. Kosningar framundan og mikið rót er í samfélaginu. Þá er nauðsynlegt að í formannssæti Samfylkingarinnar sé einstaklingur sem hefur þá útgeislun og þann kraft sem getur laðað fólk að flokknum, áherslum hans og framtíðarsýn. Ég sé Árna Pál Árnason fyrir mér sem þennan einstakling og þess vegna styð ég hann í þeim formannskosningum sem nú standa yfir.

Slagkraftur Samfylkingarinnar
Eftir fimm ára ríkisstjórnarsetu á erfiðustu tímum sem þjóðin hefur lifað, á Samfylkingin undir högg að sækja. Framundan eru því átök, sem ég treysti Árna Páli best til að leiða flokkinn í gegnum. Öll viljum við byggja upp öflugt velferðarkerfi á Íslandi. Verða að fullu hluti af því sem kallað er norrænt velferðarkerfi. Við eigum þegar gott menntakerfi, gott heilbrigðiskerfi, hlúum vel að þeim sem minna mega sín og eiga í félagslegum erfiðleikum. En í öllum þessum greinum er þrátt fyrir það við erfiðleika að etja vegna ríkjandi ástands í kjölfar hrunsins. Aðeins Samfylkingin hefur það afl sem þarf til að koma ekki aðeins í veg fyrir að þetta kerfi verði eyðilagt í kjölfar komandi kosninga, heldur ekki síður til að efla það enn frekar þannig að þeir hópar sem vissulega hafa þurft að draga saman seglin undanfarin ár fái þá umbun sem þeir eiga skilið. Til að geta leitt það verkefni þarf sterkan formann, sem hrífur fólk með sér.

Árna Pál í forystu
Eitt grundvallaratriðið í framtíð okkar er að þjóðinni auðnist að verða þátttakandi í samstarfi Evrópuþjóða, í Evrópusambandinu. Árni Páll hefur til að bera þá framtíðarsýn, þá þekkingu, þann kraft og þann dugnað sem þarf til að leiða flokkinn og þjóðina í þeirri vegferð.

Þess vegna kýs ég Árna Pál Árnason til formanns Samfylkingarinnar.

Haukur Már Haraldsson framhaldsskólakennari

26. 01 2013

Við sem eigum þess kost þessa dagana að kjósa okkur formann í Samfylkingunni getum valið á milli tveggja öflugra kosta. Ég hef átt því láni að fagna að hafa kynnst báðum frambjóðendum og mannkostum þeirra og því var valið ekki auðvelt. Guðbjartur er yfirvegaður og traustur og á gott með að tala við fólk. Hann hefur staðið sig vel í erfiðum verkefnum ríkisstjórnarinnar undanfarin misseri og verið traustsins verður. Gutti hefur verið auðfúsugestur á fundum Samfylkingarfélagsins í Kópavogi og alltaf tilbúinn til að ræða þau mál sem kallað hefur verið eftir. Það er í raun lúxusvandamál að þurfa að velja milli tveggja góðra kosta svo við skulum ekki sýta það.

Að velja á milli
Árni Páll er mjög ólíkur Guðbjarti. Hann kemur fyrir sjónir sem kraftmikill og skeleggur en ég veit líka að þessi óþreyjufulli stjórnmálamaður er djúpt hugsandi leiðtogi sem greinir viðfangsefnin og skoðar ólíkar leiðir. Honum þykir vænt um fólk og hann er lífsglaður maður sem hefur gaman af því að hlusta og sætta ólík sjónarmið.

Helstu ástæður
Ég hef ákveðið að kjósa Árna Pál til að leiða Samfylkinguna næstu ár. Árni Páll er litríkur og kraftmikill og er stjórnmálamaður nýrra tíma. Hann er svo eldklár og þroskaður að hann nær jafn vel til þeirra sem eldri eru og unga fólksins. Hann er heilsteyptur jafnaðarmaður með skýra pólitíska sýn og veit hvert þjóðin þarf að stefna, en ekki síður það sem mikilvægt er, hvernig við förum þangað. Hann hefur yfirgripsmikla þekkingu á efnahags- og utanríkismálum og vel útfærðar hugmyndir um hvernig koma megi á auknu jafnvægi í fjármálum þjóðar sem tekst á við afleiðingar af efnahagslegu stórslysi sem varð vegna þess að grímulaus sérhagsmunagæsla réði hér ríkjum í landinu í áratugi.

Þegar vel gengur og þegar á móti blæs
Árni Páll hefur sinnt grasrót Samfylkingarinnar með aðdáunarverðum hætti og hann veit að formaður Samfylkingarinnar þarf að vera í tengslum við fólkið sem starfar úti í aðildarfélögunum, bæði í stemningu sigra og fögnuðar en ekki síður þegar á móti blæs og hindranir blasa við. Hann er góður félagi, ósérhlífinn og duglegur. Árni Páll virðist alltaf hafa gaman af því að takast á við fjölbreytt verkefni.

Samfylkingin til sigurs
Árni Páll  hefur hæfileika til að hrífa fólk með sér og kveikja með því áhuga og baráttuanda.  Árni Páll hefur kraftinn til að leiða Samfylkinguna til sigurs í alþingiskosningunum í vor. Hann hefur alla burði til að gera Samfylkinguna að enn stærri og kröftugri jafnaðarmannaflokki sem stendur vörð um gildi jafnaðarmennskunnar, almannahagsmuni og uppbyggingu heilbrigðara samfélags.

Ég kýs Árna Pál til formanns í Samfylkingunni.

Höfundur er formaður Samfylkingarfélagsins í Kópavogi

25. 01 2013

Tveir hæfir heiðursmenn gefa kost á sér til forystu fyrir Samfylkinguna. Allir skráðir flokksmenn fá að velja á milli þeirra, en ekki bara lokaður landsfundur. Þetta er mikið og dýrmætt valfrelsi. Ég hefi greitt Árna Páli Árnasyni atkvæði mitt. Fyrir því eru nokkrar ástæður, en sú vegur þyngst, að hann hefur góða þekkingu á efnahagsmálum, er snarpur ræðumaður, dugandi í vörn og sókn og hlýr í mannlegum samskiptum. Ég treysti honum einnig til að standa fast á grunngildum jafnaðarstefnunnar. Það hafði einnig áhrif á val mitt, hve óþægilega forysta flokks míns hefur opinberað afstöðu sína til formannsefnanna.- Báðir frambjóðendur hafa háð sína baráttu með heiðri og sóma. Ég hygg þeir geti báðir treyst því, að flokksmenn muni styðja og standa með nýjum formanni.

Árni Gunnarsson fyrrv. Alþingismaður.

24. 01 2013

Nú þegar við Íslendingar erum óðum að vinna okkur út úr erfiðleikum síðustu ára, stöndum við frammi fyrir mörgum grundvallar verkefnum sem munu hafa afgerandi áhrif á framtíð okkar. Mikilvægt er að samfélagið byggi á réttlæti, jöfnuði og samábyrgð. Velferðarsamfélag þar sem öflugt heilbrigðiskerfi og menntun fyrir alla er sjálfsagður hlutur. Þar sem langtímasjónarmið eru sett ofar skammtímagróða.

Til þess að standa undir slíku þjóðfélagi þurfum við dýnamískt samspil einkaframtaks og ríkisvalds. Öflugt og fjölbreytt atvinnulíf sem byggir á kraftmiklu, ábyrgu einstaklingsframtaki og víðsýnu ríkisvaldi, sem styður við verðmætasköpun atvinnulífsins en setur þó skýrar leikreglur. Síðast en ekki síst þurfum við að vinna áfram ötullega að inngöngu í ESB með upptöku Evru sem gjaldmiðil að leiðarljósi. Öllu skiptir að Samfylkingin leiki lykilhlutverk í þessari vinnu á næstu árum. Til þess að svo megi verða þurfum við meðal annars að velja okkur öfluga forystu.

Stjórnmálaleiðtogi sem ætlar sér að stýra þessari þróun þarf að hafa skýra sýn á framtíðina, hæfileika til að miðla henni og þann eiginleika að geta laðað nýja liðsmenn til fylgis við sig. Þá þarf hann að eiga auðvelt með að greina hismið frá kjarnanum og vera reiðubúinn til að taka djarfar ákvarðanir. Hann verður þó að vera opinn fyrir skoðunum annarra og búa yfir ríkum samstarfsvilja.

Ég er sannfærður um að Árni Páll býr yfir þessum kostum og því styð ég hann til formennsku í Samfylkingunni.

Logi Einarsson arkitekt og bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar á Akureyri.

24. 01 2013

Ég hef að undanförnu mikið velt fyrir mér hvort ég eigi að skipta mér af formannskjörinu í Samfylkingunni. Ég hef verið dyggur stuðningsmaður Samfylkingarinnar frá stofnun hennar. Ég vil ekki leyna þeirri skoðun minni að núverandi ríkisstjórn hefði getað gert margt betur. En við jafnaðarmenn huggum okkur við það að viðfangsefni ríkisstjórnarflokkanna á kjörtímabilinu er líklega það erfiðasta sem nokkur ríkisstjórn hefur glímt við á lýðveldistímanum.  Að reisa heilt efnahagskerfi úr rúst eftir hrun. Margt hefur þar tekist vel til. Það er ekki það sem hefur truflað okkur.  Það sem dregur hinn  pólitíska mátt úr okkur, mörgum  í verkalýðshreyfingunni, er hvernig forystumenn okkar í stjórnmálum  hafa vanvirt mikilvæg samskipti við verkalýðshreyfinguna. Fyrirheit hafa verið gefin við undirritun kjarasamninga og framlengingu þeirra sem hafa reynst orðin tóm þegar á reyndi. Þessi afstaða og vinnbrögð stjórnmálamanna hafa smám saman grafið undan öllu samstarfi og trúnaðartraustið sem er undirstaða samstarfsins fer þverrandi þar til enginn samstarfsvilji er eftir. Þetta er því miður staðan nú í lok þessa kjörtímabils. Trúnaður milli forystumanna í Samfylkingu og verkalýðshreyfingunni er farinn í bili að minnsta kosti.

Að endurheimta traust
Ég met það svo að eitt af stóru verkefnum nýrrar forystu í Samfylkingunni sé að endurheimta þetta traust. Eftir að hafa hlustað á formannsefnin og lesið stefnumarkandi skrif þeirra beggja undanfarnar vikur hallast ég að þeirri skoðun, með fullri virðingu fyrir þeim báðum, að Árni Páll Árnason sé sá frambjóðandi sem er líklegri til að ná þeim árangri sem við gerum kröfu til í þessu efni. Á þessu kjörtímabili hef ég átt nokkur samskipti við Árna Pál  þar sem skoðanir okkar í mikilvægum málum hafa ekki alltaf farið saman. Það sem ég hef metið mest við hann sem stjórnmálamann, er að hann mætir okkur flokksmönnum af hæversku en um leið með einurð og sannfæringarkrafti.  Ég hef kunnað að meta virðingu hans fyrir öðrum sjónarmiðum en sínum eigin þó að hann fylgi málum fast eftir með einurð og krafti.

Kynslóð Árna Páls taki nú við….
Ég álít einnig að verkefni næsta kjörtímabils sé að skapa sátt milli kynslóða um sanngjarna skiptingu skulda og eigna í þjóðfélaginu. Mikil eigna og skuldatilfærsla varð í þjóðfélaginu við efnahagshrunið. Efnahagslegt jafnvægi næst ekki að nýju nema með því að knýja fram áherslur á almannahagsmuni á kostnað sérhagsmuna.  Í þessu efni þarf mikla pólitíska yfirsýn og kjark. Ég met það svo að kynslóð Árna Páls eigi nú að taka við þessu viðfangsefni og það verði eitt helsta úrlausnarefni næsta kjörtímabils. Árni Páll sýndi það í ráðherratíð sinni að hann hefur kjark og þor í erfiðum málum m.a. í skuldamálum almennings þar sem alltof margir stjórnmálamenn ástunduðu sýndarmennsku og yfirboð gegn betri vitund. Það ætti að vera öllum stjórnmálamönnum ljóst að vinna þarf áfram í skuldamálum almennings  og finna þar ásættanlegar lausnir sem þjóðin getur búið við.  Ég álít að þetta sé eitt mikilvægasta málið sem brennur helst á kynslóð Árna Páls og félaga og því eðlilegt að sú kynslóð fái að glima við vandann.

Vel útfærðar hugmyndir um framtíðarsýn
En mikilvægast af öllu er framtíðarsýnin sem nú einkennir  sem betur fer málflutning beggja frambjóðenda en þar sýnist mér Árni Páll hafa betur útfærðar hugmyndir um hvernig koma megi á jafnvægi í efnahagsmálum, koma krónunni í skjól meðan við undirbúum  varanlega vegferð okkar inn á stærra gjaldmiðlasvæði og tengjumst vonandi öðrum Evrópuþjóðum með því að taka upp gjaldmiðil evrusvæðisins. Eftir miklar og erfiðar umræður í öllum helstu ríkjum Evrópusambandsins um skuldugustu ríki álfunnar, hafa andstæðingar aðildar Íslands að Evrópusambandinu  fengið vind í seglin og ýmsir stjórnmálamenn okkar megin hafa farið til hlés þegar virkilega reynir á okkur Íslendinga í aðildarumsókn okkar. Ástandið í Evrópusambandinu ætti samt að vekja okkur enn betur til vitundar um mikilvægi þess að þjóðir Evrópu standi saman í efnahags- og gjaldmiðlamálum þegar hriktir í stoðum einstakra Evrópuríkja. Ég hef verið mjög ánægður með hvernig Árni Páll Árnason hefur ekki látið bilbug á sér finna í þessu stærsta sjálfstæðismáli þjóðarinnar, að við fáum notið Evrópusamvinnunnar að fullu með því að gerast fullir þáttakendur í því samstarfi.

Að lokum þetta
Það eru mjög stór pólitísk mál sem bíða þess að nýir forystumenn taki við boltanum í Samfylkingunni. Þar er brýnasta hagsmunamálið að koma okkur Íslendingum út úr sjálfheldu gjaldeyrishaftanna. Þetta er stórmál sem snýr að almenningi og við megum ekki sætta okkur við heilan áratug í viðjum hafta íslensku krónunnar. Hér tel ég að Árni Páll tali fyrir samspili frjálslyndra viðhorfa, áræðni og góðum samstarfsvilja við helstu viðskiptaþjóðir okkar. Aðeins með því að afnema höftin sem fyrst getur okkur Íslendingum tekist að búa okkur til sambærileg lífskjör og í nálægum löndum.
Annað stórmál sem verður meira og meira aðkallandi að leysa er að allir Íslendingar búi við sambærileg kjör í lífeyrismálum en ég álít Árna Pál einmitt  góðan talsmann viðhorfa jafnréttis að þessu leyti.
Það má leiða líkur að því að í mörgum stórmálum okkar tíðar svo sem stjórnarskrármálinu og kvótamálinu, sé komið að nýrri kynslóð að koma þeim málum í höfn. Hin margreynda kynslóð Jóhönnu og Guðbjarts hefur sannarlega lagt sitt af mörkum til að koma okkur áleiðis.

En er þetta ekki einmitt augnablikið í sögunni þegar við þurfum að setja ábyrgðina á næstu kynslóð, sem á líka mest undir því að lífskjör á Íslandi verði sambærileg við það besta sem við þekkjum á komandi árum?

Þráinn Hallgrímsson skrifstofustjóri verkalýðsfélagsins Eflingar

24. 01 2013

Það var mér mikið fagnaðarefni þegar Árni Páll Árnason gaf kost á sér til að leiða Samfylkinguna. Frá því að ég kynntist Árna Páli í starfi mínu með Samfylkingunni á Seltjarnarnesi hef ég verið þess fullviss að þar væri leiðtogaefni á ferð. Hann hefur þroskast sem stjórnmálamaður og lært af sigrum jafnt sem ósigrum á liðnu kjörtímabili. Árni Páll hefur verið ötull að rækta samskipti við félaga sína og kjósendur í kjördæminu og hann er einn af fáum sem leggur sig fram um að hlusta á sjónarmið annarra.

Árni Páll hefur alla burði til að verða farsæll leiðtogi jafnaðarmanna og forystumaður þjóðarinnar á þeim viðkvæmu tímum sem eru framundan. Hann hefur sterka framtíðarsýn sem byggist jöfnum höndum á raunsæju stöðumati og þrá eftir réttlátara samfélagi. Hann er jákvæður, kjarkmikill og baráttuglaður og blæs með því félögum sínum eld í brjóst. Samtímis hefur hann einnig sýnt með störfum sínum að hann er tilbúinn að leita lausna sem sætta ólík sjónarmið.

Það er sannfæring mín að Samfylkingin þurfi að ná góðum árangri í næstu kosningum og verða burðarflokkur í næstu ríkisstjórn. Við blasa vandasöm viðfangsefni á sviði efnahags- og atvinnumála. Þau þarf að leysa með jafnaðarstefnuna að leiðarljósi ef okkur á að auðnast að hafa hér efnahagslega sjálfstætt, opið og réttlátt velferðarsamfélag með sambærilegum lífskjörum og bjóðast í nálægum löndum.

Ég treysti engum betur en Árna Páli til að leiða þá vegferð og afla henni víðtæks stuðnings.

Höfundur er fyrrv. formaður Samfylkingar á Seltjarnarnesi

24. 01 2013

Við vitum öll hvert tjón verðtryggð lán valda okkur. Vandinn við verðtrygginguna er bara einn: Lán eru verðtryggð en laun ekki. Það er nefnilega ekki þannig að lánin hækki: Þau halda verðgildi, en krónan er þynnt út og launin okkar rýrð. Lánin eru ekki að hækka, heldur launin að lækka. Þetta finnst flestum stjórnmálaflokkum á Íslandi mjög sniðugt.

Skuldum í krónum en fáum borgað í ótryggðum krónum
Vegna gríðarlegs veikleika íslensku krónunnar vill enginn lána í íslenskum krónum til langs tíma nema með tryggingu. Gengistrygging var prófuð hér síðustu ár og hefur verið dæmd ólögmæt. En verðtrygging er ekkert annað en óbein gengistrygging. Innlent verðlag ræðst að langmestu leyti af gengi krónunnar, því við flytjum inn allar helstu neysluvörur. Vandi okkar felst í því einu að við skuldum í hálfgengistryggðum krónum en fáum borgað í ótryggðum krónum.

Mannréttindi að fá greitt í peningum
Fyrir rúmum hundrað árum var samþykkt á Alþingi frumvarp Skúla Thoroddsen, þingmanns Ísfirðinga, um greiðslu verkkaups í gjaldgengum peningum. Fram til þess tíma höfðu lausamenn í kaupstöðum fengið greitt í inneignarnótum frá kaupmönnum, en ekki í peningum. Kaupmennirnir réðu því frá degi til dags hversu mikið var hægt var að fá fyrir inneignarnóturnar og höfðu margfalt verð: Algengt var að það magn sem kostaði 20 aura með peningum kostaði 25-30 aura með inneignarnótu.

Hörmungarsaga hefst
Samþykkt laganna frá 1901 hefur allt til þessa dags verið talin til stærstu sigra íslenskrar verkalýðshreyfingar. Færri hafa hins vegar hnotið um þá staðreynd að hér var um skammgóðan vermi að ræða. Íslenska krónan árið 1901 var nefnilega gjaldgengur gjaldmiðill. Henni var að hægt að skipta á jafngildi við danska krónu eða sænska eða fyrir andvirði hvorrar myntar um sig í gulli. Íslenskir framleiðendur og atvinnurekendur þurftu því að verða sér úti um alvöru gjaldmiðil til að standa skil á launum. Við vorum hluti af heimshagkerfinu. Árið 1920 breyttist þetta. Það ár var íslenska krónan aftengd þeirri dönsku og tekin af gullfæti. Þar með hófst sú hörmungarsaga heimatilbúinna efnahagssveiflna, hafta og gengisfellinga sem staðið hefur sleitulítið fram á þennan dag og leitt hefur til þess að íslenska krónan hefur rýrnað um 99,95% gagnvart þeirri dönsku á þessum tíma.

Krónan líkt og inneignarnótur fortíðar
Allt frá 1920 höfum við því verið í sömu stöðu og íslenskur verkalýður var fram til 1901. Við höfum ekki fengið greitt í gjaldgengum peningum, heldur í peningum sem eru líkari inneignarnótum fyrri tíma. Peningum sem eru rýrðir að verðgildi eftir því sem innlendum framleiðendum hefur þóknast, eða viðskiptakjör á erlendum mörkuðum hafa kallað eftir. Ákvörðun um kaupgjald hefur í reynd verið flutt til þeirra sem stjórna landinu og vina þeirra. Í krónuhagkerfinu er ekki samið í reynd um laun heldur um uppbætur. Raunverulegar launaákvarðanir eru teknar með breytingum á gengisskráningu.

Hentar hvorki launafólki né fyrirtækjum
Þessi efnahagsumgjörð hentar ekki launafólki. Hún hentar ekki heldur samkeppnisgreinum sem byggja á hugviti og keppa um markaði við fyrirtæki í öðrum löndum, þar sem rekstrarforsendur eru stöðugar og framtíðin ljós. Einu atvinnugreinarnar sem hingað til hafa þolað þetta umhverfi eru greinar sem njóta ókeypis aðgangs að aðstöðu eða auðlindum, sem geta niðurgreitt kostnaðinn af óstöðugum gjaldmiðli. En þau líða líka fyrir óstöðugleika og ofurvexti.

Að fá greitt í gjaldgengum peningum
Stærsta hagsmunamál íslensks launafólks og verðmætaskapandi fyrirtækja er nú að koma okkur aftur á þann stað sem við þó komumst á 1901: Að fá greitt í gjaldgengum peningum með raunverulegt virði. Við getum ekki skuldað og borið kostnað af rekstri heimilis í einum gjaldmiðli en fengið borgað í inneignarnótum. Afturförin er svo augljós: Meira að segja í árdaga verkalýðshreyfingar, þegar verkföll voru bönnuð og verkalýðsfélög ekki með samningsrétt skulduðum við þó og fengum laun í sama gengistryggða gjaldmiðlinum.

Gjaldgengur gjaldmiðill – eða ekki
Í engu öðru þróuðu ríki býr launafólk og verðmætaskapandi fyrirtæki við sambærilegt ofríki. Þess vegna snýst spurningin um aðild að Evrópusambandinu og upptöku evru um svo allt annað og meira hér á landi en í nokkru nágrannalandanna. Þau búa við gjaldgengan gjaldmiðil en við ekki. Þar er valið milli tveggja kosta sem báðir hafa kost og löst. Hér er valið um gjaldgengan gjaldmiðil – eða ekki.

Drápsklyfjar krónu
Alþjóðleg samkeppni með krónu er eins og að hlaupa 100 metra hlaup á Ólympíuleikum á vaðstígvélum með 20 kílóa lóð á bakinu. Þess vegna flýja fyrirtækin þetta góða land og fólkið ferðbýr sig. Það er sannkallað kraftaverk hverju íslensk þjóð og samkeppnishæf fyrirtæki hafa áorkað með þessar drápsklyfjar síðustu tæp 100 árin. Hugsið ykkur hvað við gætum, ef þessari byrði væri létt af okkur og við nytum sama öryggis og réttlætis og frjálsborið fólk í öðrum Evrópulöndum?

Árni Páll Árnason

24. 01 2013

Allir flokksmenn Samfylkingarinnar fá það tækifæri að kjósa formann á næstu dögum.  Kjörkatlar nýaldar eru rafrænir og við höfum tíu daga til að velja. En sá á kvölina sem á völina. Því lái ég það engum sem velkist í vafa um að velja með einum músarsmelli á  milli þeirra tveggja frábæru frambjóðenda sem í boði eru til að leiða Samfylkinguna næstu fjögur árin. Samfylkingin sýnir hér og sannar enn og aftur þá lýðræðislegu yfirburði sem hún hefur umfram aðra flokka. Allir flokksmenn fá að kjósa sinn leiðtoga á eins auðveldan hátt og hægt þ.e. í gegnum tölvuna heima hjá sér. Hér birtast á borði en ekki aðeins í orði grunngildin um lýðræði og jöfn tækifæri.

Nýr gjaldmiðill – stærsta hagsmunamál þjóðarinnar
Ég tók þá ákvörðun að kjósa formann sem ég hef trú á að leysi eitt af stærstu verkefnum íslensk samfélags. Stöðugleiki í efnahagsmálum landsins og nýr gjaldmiðill eru brýnustu verkefnin sem liggja á borði stjórnmálamanna í dag. Ég fyrir mitt leyti hef séð ljósið og veit að íslenskri flotgengiskrónu fylgja stór mein sem verða aldrei leyst – heldur aðeins plástruð. Má þar nefna fjármagnskostnað almennings við lántöku sem birtist í háum óverðtryggðum vöxtum og verðtryggingu neytendalána sem veldur vöxtum ofan á samningsvexti lánsins. Þá er fjármagnskostnaður fyrirtækja sem skipta í ónýtri krónu gríðarlega hár eða ríflega 10% sem skilar sér aftur út í verðlagið og við sem neytendur borgum að endingu fyrir. Loks er ónefnd gengisfelling krónunnar sem hefur valdið gríðarlegri kaupmáttarskerðingu sem við almenningur í landinu borgum fyrir á hverjum degi, beint í vasa útflutningsfyrirtækja sem hagnast á auðlindum þjóðarinnar. Krónan er eins og undirstaða trésins, rótin sjálf, sem allt hagkerfið byggir á og verðtrygging lána birtist sem ein af greinum þess – sprottin af rótinni. Raunhæf lausn á gjaldmiðilsvanda þjóðarinnar er stærsta hagsmunamál Íslendinga.

Formaður sem hlustar
Ég kýs Árna Pál vegna þess að ég hef trú á því að hann geti ráðist í þann vanda sem krónan er og veitt því verkefni pólitíska forystu. Hann er áræðinn, býr yfir þekkingu og hæfni í efnahags- og utanríkismálum sem er afar dýrmætt. Þess vegna treysti ég honum til að taka slaginn við hagsmunaaðila íslenskrar krónu. Hann hefur sjálfsöryggi, bæði til að hlusta og leita bestu sérfræðiþekkingar, en líka til að taka ákvörðun þegar það þarf og standa fast á henni. Ég treysti Árna Pál til að leiða íslensku þjóðina í ljósið.

Árni Páll mun leiða breiðfylkingu jafnaðarmanna
Árni Páll heldur fast í hugsjónina um Samfylkinguna sem breiðfylkingu jafnaðarmanna. Það er mín bjargfasta trú að í því felst styrkur okkar. Við fáum ætíð bestu útkomuna ef við leiðum mörg sjónarmið saman og mætum öðrum skoðunum fordæmalaust, en höfum jafnframt þekkinguna til að greina hismið frá kjarnanum.
Loks treysti ég Árna Páli til að leiða áfram það verk sem hafið er, að byggja samfélag á grunngildum jafnaðarmennskunnar – að Íslendingar búi við sterkt velferðarkerfi, jöfn tækifæri til menntunar og byrðum sé jafnt dreift í gegnum skatt- og almannatryggingakerfið. Árni Páll skilur ennfremur að til þess að við getum byggt slíkt samfélag þurfum við öflugt atvinnulíf, til að stuðla að verðmætasköpun svo við eigum fyrir velferðinni og getum boðið vinnandi höndum fjölbreytt atvinnutækifæri. Í því verkefni þarf að byggja brýr og snúa bökum saman.

Þar er Árni Páll rétti maðurinn til verksins.

Eva H. Baldursdóttir lögfræðingur

24. 01 2013

Jæja, þá er það formannskjörið í Samfylkingunni. Tveir ­góðir menn í framboði og svolítið erfitt að gera upp hug sinn. En eftir að hafa hugsað málið og setið þrjá fundi með frambjóðendum hallast ég að því að Árni Páll sé betri kostur í þeirri stöðu sem nú blasir við.

Sprungur og kítti
Guðbjartur kemur fyrir sem vandaður maður og góður fulltrúi en Árni Páll virkar þó kraftmeiri og öllu „formannslegri“. Hann er skeleggur og hugsandi, og honum er annt um heildarmyndina, sér málin úr fjarlægð, greinir stóra vandann á bakvið hversdagskarpið. Orð hans um 100 ára vistarband og geðklofinn gjaldmiðil eru meira en lítið eftirtektarverð og ættu að verða stóra málið í kosningabaráttu vorsins.

„Allt síðan 1920, þegar íslensku krónunni var kippt úr sambandi við gullfótinn og dönsku krónuna, höfum við búið við tvískiptan gjaldmiðil. Við fáum launin okkar í platkrónum á meðan skuldirnar teljast í alvörukrónum. Kjarasamningar skipta litlu sem engu þegar forsendur fyrir þeim bresta í næsta gengisfalli. Líkja má kjarasamningum við það að farið sé með kíttisspaða yfir sprungurnar sem jarðskjálftar gengis­breytinganna hafa skilið eftir.“

Baráttan fyrir alvöru gjaldmiðli er líkast til stærsta efnahagsmálið sem framundan er. Þar blasir sérstaða Samfylkingar við. Enginn annar flokkur býður uppá lausnarleið út úr þeim vanda og tilvitnuð greining Árna Páls ber merki um skýran hug þótt andlitið sé loðið.

Lausaganga kjósenda
Af tveimur góðum formannskostum hef ég meiri trú á því að málflutningur og kraftur Árna Páls nái út fyrir raðir flokksmanna. Formannskjörið þarf að vera sú innspýting sem nær að stækka flokkinn í komandi kosningum. Við þurfum að ná til „hlutlausa“ fólksins á miðjunni sem nú stefnir unnvörpum á flokk sem lofar bjartri framtíð án þess að eiga sér þá glæstu fortíð sem hreyfing jafnaðarmanna státar af.

Árni Páll þótti standa sig vel sem ráðherra á örlagatímum, tók upp ný vinnubrögð í ráðuneytinu, náði alvöru allraflokkasamráði í ­Icesave-málsvörninni, beitti sér ­fyrir breytingu á formi ríkisstjórnarfunda, vill leggja niður ráðningarvald ráðherra og minnka vald þeirra almennt séð. Hann talar um flokkinn sem opna og umburðarlynda breiðfylkingu ólíkra sjónarmiða, og er það vel. Sumir segja hann of markaðssinnaðan hægrikrata sem höfði meira til miðjunnar en vinstrimanna. Hér getur sá „galli“ þó einmitt orðið kostur, því á miðjunni er lausagangan mest. „Við eigum ekki að stinga augun úr VG í leit að fylgi,“ svo vitnað sé í frambjóðandann.

Unga fólkið
Á þeim fundum sem ég hef séð til Árna Páls veittist honum létt að kveikja bjartsýni og baráttuhug með fólki. Hann á þrátt fyrir allt ­djúpar rætur í vinstrinu, og hefur ­arkað margar pólitískar heiðar í átt að þessu tækifæri. Það heyrist vel að hann hefur tekið langt tilhlaup að formannsstólnum, er vel tilbúinn í slaginn. Þá spillir ekki að maðurinn er vel menntaður og vel heima í Evrópumálunum. Hann hefur jafnvel, einn örfárra íslenskra stjórnmálamanna, búið erlendis í nokkur ár, talar ensku og dönsku og er „ráðherrafær“ á þýsku og frönsku.

Loks finn ég vel, eftir samtöl við yngsta fólkið í flokknum, sem hvergi fékk sæti ofarlega á nýjustu framboðslistum, að það þráir að sjá nýja kynslóð taka við forystunni í Samfylkingunni.

Inn á við / út á við
Ég finn það líka að Guðbjartur á atkvæði margra í innsta flokkshring. Einnig sú staðreynd hvetur mann til að kjósa Árna Pál. Því nú ber að kjósa út á við. Kosningarnar 27. apríl munu ekki snúast um starfið í Samfylkingunni heldur myndun næstu ríkisstjórnar. Þar þarf formaðurinn að koma fylgisbreiður að borði og hafa styrk til að kljást við ­málþjófana í sjónvarpssal fyrir kosningar og í símtölum eftir kosningar. Ég treysti því að Árni Páll leggi þá að velli þar líkt og hann  mun hafa gert í vetur, á fundum með þeim í Valhöll og Viðskiptaráði.

En hvernig sem formannskosningin fer skulum við samt verða ánægð með úrslitin, faðma ­nýjan formann, og taka svo til við hina raunverulegu kosningabaráttu. Sá frambjóðandinn sem tapar þarf heldur síst að örvænta. Eins og dæmin sanna getur það einmitt verið ávísun á lengra líf í pólitík.

Hallgrímur Helgason rithöfundur

Greinin birtist fyrst í helgarblaði DV, 18. janúar.

24. 01 2013

Ekki þótti mér það stórhuga ákvörðun, þegar ríkisstjórnin tilkynnti að setja ætti aðildarviðræðurnar við ESB á ís, þótt eflaust hafi það verið óhjákvæmilegt, miðað við það hvernig ríkisstjórnarflokkurinn VG hafði þjösnast á málinu. Það er slagsíða á þessari ríkisstjórn. Það hallar á stærri flokkinn. Með þessari ákvörðun var eitt helsta baráttumál Samfylkingarinnar blásið af. Ef fram heldur sem horfir í skoðanakönnunum verður því jafnframt slegið á frest að leggja nýjan grunn að bættri velferð almennings á Íslandi.

Snjóhengjan vofir yfir
Við erum einstaklega lagnir við það Íslendingar að skjóta sjálfa okkur í fótinn. Við viljum frekar láta lægst launuðu hópa samfélagsins berast í bökkum, en taka af manndómi á þeim meinsemdum sem hrjá þjóðfélagið.  Áfram skal búið við viðvarandi þróttmikla verðbólgu, sem borguð er að mestu leyti af  skuldugum íbúðaeigendum. Áfram skal búa við gjaldmiðil sem ekki er hægt að koma stöðugleika á og veldur stöðugum flótta fyrirtækja af landinu. „Snjóhengjan“ svokallaða vofir yfir þjóðinni án þess að við megnum að minnka hana. Áfram skal illa settur almenningur greiða meira fyrir landbúnaðarvörur en á nokkru öðru byggðu bóli, þrátt fyrir ógnar stuðning skattgreiðenda í formi niðurgreiðslna. Áfram skal meirihluti bænda hýrast við þröngan kost án hvetjandi framtíðarsýnar.

Samfylkingin standi í lappirnar
Þetta er kjarni þeirra vandamála sem næsta ríkisstjórn þarf að leysa. Þeir sem eru hreinskilnir gagnvart sjálfum sér vita, að aflandskrónuvandinn (snjóhengjan) verður ekki leystur nema í samstarfi við Evrópska Seðlabankann. Hér þarf  því styrkar hendur og fumlausa hugsun, ef vel á að fara. Með þetta í huga er það afar mikilvægt að Samfylkingin, sem verið hefur eini óskipti stuðningsflokkur aðildar, standi  í lappirnar og velji sér formann sem veit hve mikilvæg aðild okkar að ESB er fyrir velferð almennings og sjálfstæði þjóðarinnar í bráð og lengd. Þar má hvergi hvika.

Við þurfum forystumann
Sérhver ríkisstjórnarþátttaka Samfylkingarinnar verður að vera skilyrt framgangi þessa máls. Reynsla Alþýðuflokksins undir forystu Jóns Baldvins, sem skilyrti ríkisstjórnarmyndun við framgang EES málsins, var bæði árangursrík og lærdómsrík. Það skipti meira máli að koma því stórmáli heilu í höfn en láta blekkjast af fagurgala. Þetta veit Árni Páll mæta vel. Þeir sem fylgst hafa með Árna Páli frá því hann hóf stjórnmálaferil sinn, hafa tekið eftir breytingum til meiri stjórnmálaþroska  og víðtækari þekkingar. Hann er ekki gallalaus frekar en aðrir en hann hefur lært af mistökum, bæði annarra og sjálf síns. Blaðaskrif hans undanfarna mánuði bera þess vott. Hann hefur auk þess einn mikinn kost, sem stjórnmálaforingi verður að hafa.  Hann er ófeiminn við að taka ákvarðanir, jafnvel svo að manni fannst stundum nóg um.  Á okkar erfiðu og viðsjárverðu tímum þurfum við á forystumanni eins og Árna Páli að halda. Sýn hans á framtíð þjóðarinnar vekur vonir.

Þess vegna styð ég hann til formanns Samfylkingarinnar.

Þröstur Ólafsson hagfræðingur.

24. 01 2013

Forystufólk stjórnmálaflokka ber þunga og mikla ábyrgð, ekki síst þegar kemur að því að móta stefnu og vinna henni fylgi. Þar er auðvitað að mörgu að hyggja því stjórnmálin umlykja daglegt líf okkar og skapa það samfélag sem við byggjum saman.

Það skiptir máli hverjir stjórna
Kosningar til Alþingis eru í nánd. Þá vega og meta kjósendur menn og málefni, flokka og stefnuskrár. Útkoma kosninga er oftast ófyrirsjáanleg, ekki bara úrslitin sjálf heldur sá málefnakokteill sem verður hristur saman í nýrri ríkisstjórn. Þá reynir á þá sem hafa verið valdir til forystu í flokkunum. Þá þarf að ná sínu fram og hnýta alla lausa enda.
Íslandi er best borgið með aðild að Evrópusambandinu í bráð og lengd. Þar gildir einu hvort litið er til lífskjara, starfsskilyrða atvinnulífsins, öryggis- og varnarmála eða menningarmála. Það er bjargföst skoðun mín og margra annarra.

Efnahagslegur stöðugleiki tryggður
Samfylkingin er að velja sér formann. Hann verður að vinna ötullega að því að tryggja efnahagslegan stöðugleika og búa í haginn fyrir öflugan útflutning. Það er forsenda góðra lífskjara. Með haftakrónu, hárri verðbólgu, gengissveiflum og annarri óáran sem fylgir okkar sjálfstæðu peningamálastefnu tekst það ekki. Aðild að Evrópusambandinu er auðveldasta og raunhæfasta leiðin til varanlegs árangurs.

Einbeittur og stefnufastur
Nýr formaður þarf að hafa skýra sýn í þessu stóra hagsmunamáli. Hann þarf að þekkja vel til allra þátta þess og hafa getu til þess að leiða saman alla þá sem hafa sömu sýn á vettvangi stjórnmálanna. Hann þarf að vera einbeittur og stefnufastur í verkum sínum, sannkallaður málafylgjumaður. Það er ekki auðvelt að rísa undir þessum kröfum, auk annarra mannkosta sem formaður stjórnmálaflokks þarf til að bera.

Árni Páll er rétti maðurinn.

Jón Steindór Valdimarsson lögfræðingur og formaður Já Ísland

24. 01 2013

Nú eru liðin ríflega tíu ár frá því að Samfylkingin gaf út metnaðarfullt rit margra höfunda um Evrópumál, skipulagði fundahöld og samræðu um landið allt og loks allsherjaratkvæðagreiðslu til að ákvarða stefnu flokksins í Evrópumálum. Síðan þá hefur Samfylkingin ein flokka í landinu staðið heilsteypt að baki þeirri sýn að Ísland skuli tryggja hagsmuni sína með virkri þátttöku í Evrópusamstarfi og leysa gjaldmiðilsvanda sinn með upptöku evru.

Tafir samstarfsflokksins
Þegar þetta er skrifað er ljóst að þetta höfuðverkefni Samfylkingar og lykilhagsmunamál landsins verður að fá nýjan kraft til að knýja fram nýja pólitíska stöðu. Stuðningsfólki Samfylkingarinnar brá í brún að morgni mánudags þegar ríkisstjórn Íslands birti yfirlýsingu um að Ísland ætlaði að hægja á aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Hvernig er það hægt? spurðum við mörg enda ljóst að samstarfsflokkurinn í ríkisstjórn hefur tafið málið og spillt með ljósum og leyndum hætti á kjörtímabilinu. Og nú þetta. Samt nægir aldrei að benda á aðra heldur verðum við að taka okkur sjálf saman í Evrópuandliti flokksins. Þess vegna er það svo mikilvægt hver veitir flokknum og þar með Evrópumálinu forystu á komandi misserum. Samfylkingin verður að kjósa sér leiðtoga sem hefur burði til að veita Evrópumálinu þá forystu sem það þarf nauðsynlega á að halda nú.

Enginn flokkur má skila auðu
Ísland á enga þjóðarhagsmuni stærri en fulla þátttöku í innri markaði Evrópu þangað sem nær 80 prósent útflutningsviðskipta okkar fara. Staða okkar á innri markaðnum er í uppnámi vegna hafta, vegna breytinga á EES-samstarfinu og vegna þess að við höfum ekki enn ákveðið hvernig fjármálakerfi né tengingar við umheiminn við viljum. Þessar ákvarðanir þola enga bið. Hver svo sem verður forsætisráðherra á Íslandi næsta sumar kemst ekki hjá því að taka þær. Þess vegna getur enginn stjórnmálaflokkur skilað auðu.

Krónuhagkerfið búið
Það er löngu tímabært að Samfylkingin snúi vörn í sókn í baráttu fyrir aðildarferlinu hér heima og samningsstöðu Íslands á erlendri grundu. Allir Íslendingar eru sammála um að krónuhagkerfið, með sínum verðtryggðu skuldum og stöðuga óstöðugleika, veitir enga lausn, en færri virðast enn skilja hina einu rökréttu leið út úr ógöngunum. Ný staða evrusvæðisins og nýtt bankasamband Evrópu breytir stöðu Íslands. ESB hefur gengið í gegnum mikla kreppu eins og Ísland en nú efast enginn lengur um að Evrusvæðið lifi og styrkist með nýjum hætti. Í mótun er nýr veruleiki samstarfs Evrópuþjóða rétt eins og var 1989 þegar EES var ýtt úr vör og gaf Íslandi tækifæri sem landinu auðnaðist að nýta.

Úr vörn í sókn
Nú þarf sóknarstefnu, þekkinguna og útsjónarsemi til að grípa tækifærin í þróun og deiglu Evrópu og tryggja bestu mögulegu stöðu Íslands. Samfylkingunni tókst að tryggja að Ísland fór í samstarf við AGS  þrátt fyrir stálharða andstöðu sem kom í senn yst frá hægri og yst frá vinstri og lauk því til meiri farsældar fyrir landið en flestir þorðu að vona. Evróputengslin nú – innri markaðurinn, full aðild, upptaka Evru, bankasamband og gjörbreytt EES er sams konar áskorun sem við verðum að taka og leiða til farsælla lykta.

Árni Páll þekkir alþjóða- og efnahagsmál
Og til þess þurfum við nýjan formann með burði til að leiða bæði alþjóðamál og heimamál. Árni Páll Árnason er slíkt formannsefni. Hann bar sem ráðherra ábyrgð á samskiptunum við AGS og hefur flestum öðrum fremur lagt sig fram um að greina efnahagslega og alþjóðapólitíska stöðu Íslands og efnt til opinnar umræðu þar um með greinaskrifum.
Samfylkingin getur valið mann sem gjörþekkir Evróputengsl Íslands, samningaviðræðurnar um Evrópska efnahagssvæðið og þá orrahríð sem þá gekk yfir íslensk stjórnmál. Þegar Samfylkingin efndi til atkvæðagreiðslunnar 2002 var hann einn höfunda skýrslunnar sem lagði grundvöllinn að umræðunni og sáttinni í flokknum. Árni Páll hefur langa reynslu af samstarfi á alþjóðavettvangi, af samningum við erlend ríki og starfi innan alþjóðastofnana eftir margvísleg störf fyrir íslensku utanríkisþjónustuna.

Sem efnahagsráðherra hafði Árni Páll frumkvæði að því að fá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins til formlegs samstarfs og ráðgjafar um afnám hafta. Honum tókst líka að sameina öll lið af Icesave-vígvellinum innanlands í samstillta og sterka málsvörn fyrir Íslands hönd í dómsmálinu gagnvart EFTA.

Framundan er bæði sókn og vörn fyrir mikilvægasta hagsmunamál Íslands. Við veljum Árna Pál til formanns vegna Evrópumálsins.

Þórunn Sveinbjarnardóttir fyrrv. þingmaður og ráðherra

24. 01 2013

Framundan eru einar mikilvægustu þingkosningar í áratugi. Næsta ríkisstjórn mun móta þá  stefnu sem verður tekin í kjölfar endurreisnar landsins. Í Samfylkingunni verður kosið um formann í febrúarmánuði  í rafrænni kosningu meðal allra flokksfélaga. Það skiptir miklu máli hver verður formaður í Samfylkingunni sem er burðarflokkur í íslenskum stjórnmálum. Árni Páll Árnason hefur boðið sig fram til þess verkefnis og er að okkar mati öllum þeim kostum búinn sem formaður jafnaðarmanna þarf að bera.

Yfirgripsmikil þekking
Í fyrsta lagi er Árni Páll hugmyndaríkur og áræðinn stjórnmálamaður. Hann hefur skýra pólitíska sýn og er einn fárra þingmanna sem hafa yfirgripsmikla þekkingu á þremur mikilvægustu verkefnum næstu ára í íslenskum stjórnmálum. Þessi verkefni eru að klára umsóknarferli Íslands að ESB, að ljúka endurreisn og tryggja uppbyggingu efnahagskerfisins og að tryggja að takmörkuðum gæðum sé sem jafnast skipt á milli þjóðarinnar. Á þessum málum hefur Árni  Páll þekkingu umfram aðra þingmenn. Þekkinguna hefur hann meðal annars öðlast sem ráðherra efnahagsmála, velferðarmála og varaformaður utanríkismálanefndar Alþingis.

Þegar blása þarf til sóknar
Í öðru lagi býr Árni yfir þeim kostum sem prýða sterkan forystumann. Hann hlustar á pólitíska andstæðinga og hann sættir ólík sjónarmið. Hann er sveigjanlegur þegar við á en staðfastur þegar svo ber undir. Hann talar alltaf af sannfæringu og þekkingu – og af eldmóði þegar blása þarf til sóknar. Árni Páll er einlægur jafnaðarmaður með skýra framtíðarsýn. Árni Páll hlustar á félaga sína innan flokks sem utan og er heiðarlegur í ákvarðanatöku.

Auðmýkt, elja og dugnaður
Í þriðja lagi hefur Árni Páll tekist á við þau verkefni sem honum hafa verið falin af auðmýkt og þeirri elju og dugnaði sem einkennir hann. Hann fer óhræddur nýjar leiðir og stendur við erfiðar og umdeildar ákvarðanir án þess að falla í þá gryfju að kaupa sér vinsældir með röngum ákvörðunum. Við treystum Árna Páli best til þess að leiða Samfylkingu jafnaðarmanna til sigurs í vor og til framtíðar.

Guðríður Arnardóttir, Hafsteinn Karlsson og Pétur Ólafsson eru bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar í Kópavogi

24. 01 2013

Það er ágætis siður að tala með því sem maður velur og ekki gegn því sem maður velur ekki. Það er trúverðugara og betra. Í vali Samfylkingarinnar á nýjum formanni eru tveir góðir og gallalitlir kostir í boði. Hér geri ég grein fyrir vali mínu.

Stjórnmál almannahagsmuna
Það er mikilvægt í mínum huga að fyrsti kostur nýs formanns í mögulegri stjórnarmyndun eftir kosningar, sé að mynda stjórn til vinstri. Afhverju? Því ég tel líklegast að heilbrigðis-, mennta- og velferðarkerfið verði varið og hér verði stunduð stjórnmál almannahagsmuna og samkenndar með náunganum, sé stjórnin í höndum flokka vinstra megin við miðju. Báðir virðast vera á sömu skoðun, sem betur fer.

Formaður fylgir stefnunni
Nýr formaður Samfylkingarinnar þarf að vera trúr stefnu flokksins sem er mótuð af flokksmönnum á hverjum tíma. Hann má hafa sínar skoðanir en þegar umræðunni er lokið og við höfum ákveðið okkar stefnu, þá er það hlutverk formannsins að taka stefnu flokksins og bera hana fram fyrir þjóðina á skýran hátt. Hann þarf ekki að vera flokknum sammála í einu og öllu, svo framarlega sem hann sinnir skyldu sinni með því að vera trúr félögum sínum í orðum og verkum.
Leiðtogi þarf að vera hugrakkur. Hann má ekki vera hræddur við sviðsljósið og þarf að þora að stíga fram og taka rökræðuna. Hann þarf að vera mælskur, en aðeins á þann hátt að hann geti komið jafnaðarstefnunni skýrt frá sér. Það er allt sem á að gera, og allt sem þarf að gera. Restin liggur í höndum kjósenda.

Ótrauð áfram
Hverjum manni er hollt að takast á við neitun og styrkur manna kemur best í ljós þegar á móti blæs. Mönnunum eru sett takmörk, sem við þurfum að gera okkur grein fyrir og virða. Sætta okkur við það sem við fáum ekki breytt. Maður sem kann að falla með sæmd en halda samt ótrauður áfram, er maður sem við þurfum á að halda. Í pólitík er mikilvægt að hafa sterka og stöðuga fætur, það eru fáir til þess að grípa mann. Og þetta er það allra mikilvægasta, því að allir falla einhvern tímann.

Sá sem ég mun kjósa í formannskjöri Samfylkingarinnar er maður sem fyrir mér er góður félagi, maður sem er óhræddur við að takast á við hlutina, en er sanngjarn á sama tíma. Hann er maður sem hefur vaxið í mótvindinum, hefur sterka fætur og hann virðist hafa ótæmandi kraft til þess að halda áfram. Síðast en ekki síst tel ég hann vera réttsýnan og sannan jafnaðarmann sem mun gera sitt besta til að halda áfram ríkisstjórnarsamstarfi sem leyfir jafnaðarstefnunni að blómstra.

Ég kýs Árna Pál.

Guðfinnur Sveinsson Heimspekinemi

24. 01 2013

Það er hægt að byggja réttlátt þjóðfélag. Trúðu mér. Taktu þátt í því. Þá gerist það. Þannig gerist það. Komum og ræðum um framtíðina. Hverskonar þjóðfélagi langar okkur að búa í? Hvað getum við gert til að geta búið okkur slíkt þjóðfélag? Það eru margar leiðir til, sumar einfaldar, aðrar býsna flóknar, svo nokkrar sem virka ekki og enn aðrar sem við viljum ekki fara af því þær leiða ekki til réttláts þjóðfélags. Um þær allar skulum við ræða, en alltaf og inn á milli, til að minna okkur á af hverju við séum að ræða um þær, af hverju við séum að þessu: Hverskonar þjóðfélag viljum við!

Þorum að vona. Þorum að eiga okkur draumsýnir. Jú, jú, við þurfum raunhæfar aðferðir til að ná árangri. En, við þurfum ekki endilega að einskorða draumsýnir okkar við það sem við sjáum að við getum raunverulega fengið. Markmiðið er ekki að ná fullkomnun, markmiðið er að taka þátt í ferðinni í átt að fullkomnun. Ánægjan er að upplifa breytingarnar til hins betra. Ævintýrið er að glíma við öll viðfangsefnin sem á leið okkar verða. Áskorunin er að læra og reyna, mistakast, villast, snúa við, biðjast fyrirgefningar, standa upp aftur, fara framúr á ný. Af hverju? Af því við viljum réttlátt þjóðfélag og ætlum og skulum ná því.

Af með gasgrímurnar
„Hjálpaðu mér upp, mér finnst ég vera að drukkna,“ söng Björn Jörundur, á hittingi stuðningsfólks Árna Páls um daginn. Bætti því við að þetta væri of þunglyndislegt lag hjá svona baráttuglöðu fólki. En ég hugsaði: „Og þó?“ Voru þeir Árni Páll og Hallgrímur Helgason ekki einmitt að ljúka við að tala saman um einhverja köfnunartilfinningu sem fólk finnur til í pólitískri umræðu á Íslandi? Hallgrímur talaði um það hvernig fólki er skipað niður í skotgrafir hér og þar, skilur ekkert af hverju það lenti þar, langar ekki að vera þar, en þorir ekki uppúr þeim. Árni Páll talaði um að fólki yrði ómótt þegar póltík bæri á góma, en þegar því væri svo boðið upp á málefnalega og upplýsandi umræðu um pólitík, væri það eins og að hella vatni á þurrt torf sem drekkur endalaust í sig.

Hallgrímur skrifaði um Valdfrekjumeðvirkni á DV og Árni Páll skrifaði honum sendibréf á heimasíðu sinni af því tilefni um Bláa og rauða boxhanska og bauð upp á leiðarvísi upp úr þriðju skotgröf til vinstri. Þennan samræðuþráð röktu þeir félagar upp, í þessum góðra vina hópi, skiptust á skoðunum og prjónuðu úr honum nýjan leista: “Hjálpum okkur upp og hættum við að kafna!” Skiljum Sjálfstæðisflokkinn eftir í reyknum af reykbombum sínum. Skiljum Framsóknarflokkinn eftir í fnyknum af fýlubombum sínum. Förum upp úr skotgröfunum, vöðum út úr forinni, skiljum gaddavírinn eftir. Þetta er ekki sá vígvöllur sem við viljum berjast á, ekki sá vígvöllur sem er þess virði að fórna sér á.

Skoðum og þorum
Lærdómur er alltaf og aðeins dreginn af reynslu. Allt annað eru kenningar, sem eiga eftir að prófast í reynslu. Við þurfum að vera bæði námsfús og gagnrýnin til að læra af reynslu og óhrædd við að prófa okkur áfram með nýjar kenningar. Kenningarnar verða nefnilega ekki til úr engu, heldur sem hugmyndir eftir fengna reynslu. Þess vegna er nauðsynlegt að fá í forystusveit stjórnmálanna fólk sem hefur bæði sýnt tilraunir til að stúdera reynsluna og sett fram tillögur að leiðum og sem hefur opinn hug og vilja til að kalla eftir reynslu og hugmyndum annarra. Það er einmitt þetta sem mér finnst heillandi við að fá Árna Pál til forustu í Samfylkingunni, það að hann hefur lagst í einhverja stúderingu á reynslunni og lagt sig fram um að leiða út framtíðarsýn. Fögnum þeim sem segir „ég vil“ og „mér finnst“, því hann hefur þó fjandakornið eitthvað til málanna að leggja.

Sumir verða því miður foj út í Árna Pál fyrir að hann sé að gagnrýna hina í Samfylkingunni. Mér finnst hann vera að gagnrýna okkur, sig meðtalinn, mig meðtalda og við þurfum gagnrýni og sjálfsgagnrýni til að þróast áfram. Það er margt sem Samfylkingin sem stjórnmálaafl þarf að breyta og bæta í starfsháttum sínum. Þá breytingu framkvæmir enginn einn, ekki einu sinni þótt hann verði formaður. Við sem heild verðum að taka okkur á til að af breytingum verði. Þolum gagnrýni og þorum að treysta þeim sem gagnrýna, þeir eru bandamenn okkar.

Við þurfum, verðum og skulum, leggja okkur fram um að læra af reynslu og setja fram sýn og leiðsögn til framtíðar. Þetta á við á öllum sviðum, eigin innviðum svo sem starfsháttum og framkomu og í stjórnmálastefnu. Hvað höfum við lært, hvert viljum við stefna og hvernig viljum við vinna, í efnahagsmálum, í velferðarmálum, í utanríkismálum, í atvinnumálum, í umhverfismálum, í lýðræðismálum, í starfsháttum?

Bjóðum og þiggjum
Stjórnmál eru sameign samfélagsins, en allt of oft er farið með þau eins og þau séu einkamál einhverra, einstaklinga eða stjórnmálaflokka. Lokaður hópur, „við“, gjarnan á forminu stjórnmálaflokkur, kemur sér saman um stefnu og „á“ hana síðan. Aðrir mega lýsa velþóknun sinni á stefnunni „okkar“ og kjósa frambjóðendur „okkar“. Til að „þið“ megið hafa áhrif á stefnu „okkar“ þá megið „þið“ verða hluti af „okkur“ með því að samþykkja þá stefnuskrá sem „við“ höfum samþykkt áður. (Svo getið „þið“ líka þusað eitthvað í návist „okkar“ í von um að „við“ hlustum á „ykkur“). Samt erum „við“ í öllu þessu stjórnmálastússi af óeigingirni til að vinna fyrir „ykkur“!

Ég er í Samfylkingunni af því ég vil taka þátt í hreyfingu (ekki bara flokki, heldur hreyfingu í andstæðri merkingu við kyrrstöðu) jafnaðarmanna sem vilja og ætla að breyta þjóðfélagi okkar í átt til aukins jöfnuðar, meira frelsis og betri samhygðar. Til þess að okkur megi takast þetta þurfum við öflugt stjórnmálaafl, án þess afls tekst þetta ekki. Afl þess felst ekki eingöngu í stærð þess sjálfs heldur í breidd þess, að það nái yfir breitt svið í skoðunum og fjölbreytni í þjóðfélagsstöðu liðsmanna sinna. Breidd þess ræðst ekki aðeins af innbyrðis breidd þess, heldur líka af hæfileika þess til að ná til nærlægra hreyfinga og mynda þannig með samtakamætti það hreyfiafl sem hefur bæði nægan kraft og nægan hljómgrunn til að geta hreyft heilt samfélag í samvinnu.

Leyfum okkur að koma til fólks
Sú stjórnmálahreyfing sem ætlar að leiða heila þjóð, þarf að geta samfylkt allnokkrum meirihluta þjóðarinnar að baki sér. Til þess þarf hún sjálf að búa yfir víðsýni og miklum vilja til þess að hlusta á, skilja og vinna með fjölda fólks með mismunandi þjóðfélagsstöðu og mismunandi þjóðfélagssýn, finna sameiginlega strenginn, virða það hvað fólk langar til. Samfylkingin þarf að bjóða fólki raunverulega að koma með sínar eigin hugmyndir, langanir og þarfir, en ekki bara til að sitja við fótskör okkar. Samfylkingin þarf að þiggja það sem fjöldi fólks hefur fram að færa, í skoðunum, tillögum, draumum og gagnrýni.

Förum upp úr skotgröfunum og tökum af okkur boxhanskana. Hættum að berja á andstæðingunum og förum að faðma samferðafólkið. Hættum að biðja fólk um að koma til okkar og komum til fólks. Hættum að biðja fólk um að styðja okkur og bjóðumst til að styðja fólk. Þiggjum það sem fjöldinn hefur fram að færa, aðeins þannig getum við orðið fjöldanum að liði við að láta drauma sína rætast. Lang flest fólk vill nefnilega það sama og við, frelsi, jafnrétti og bræðralag.

Soffía Sigurðardóttir

24. 01 2013

Ég er jafnaðarmaður og hef kosið að vera félagi í Samfylkingunni. Nú þegar formannskjör er framundan í Samfylkingunni, sem er einstakt meðal íslenskra stjórnmálaflokka vegna þess hversu margir eiga kosningarétt, þá er ég sáttur við þá valkosti sem í boði eru. Mér finnst gott að geta valið á milli nokkuð þekktra stærða, frekar en að velja hið óþekkta, sem margir virðast aðhyllast í dag.

Spurning um ólíkan stíl
Báðir frambjóðendurnir, Árni Páll og Guðbjartur, finnst mér búa sameiginlega og hvor í sínu lagi yfir eiginleikum sem ég met sem góða kosti fyrir leiðtoga í stjórnmálaflokki að hafa. Þetta eru eiginleikar eins og auðmýkt, ákafi, framtíðarsýn, hugrekki, mælska, réttsýni, sanngirni, sáttavilji, stjórnunarreynsla, yfirsýn, yfirvegun, vinnusemi og þekking. Hugmyndafræðilega sé ég ekki mun á Árna Páli og Guðbjarti, báðir finnst mér þeir standa traustum fótum sem klassískir jafnaðarmenn. Vinstri og hægri skilgreiningar finnst mér í besta falli vera mjög ónákvæmar til að greina á milli þeirra. Fyrir mér er þetta því spurning um ólíkan stíl, mat á því hvar meginstyrkleikar - og veikleikar þeirra liggja og hvaða eiginleikar mér finnast skipta mestu máli í fari næsta formanns Samfylkingarinnar.

Ég hef átt samskipti við bæði Árna Pál og Guðbjart á undanförnum árum í starfi mínu sem formaður Blindrafélagsins og mætt af hendi beggja velvilja, sanngirni og réttsýni. Árna Páli hef ég verið kunnugur lengi en leiðir okkar lágu fyrst saman í Æskulýðsfylkingu Alþýðubandalagsins. Guðbjarti man ég fyrst eftir sem vinsælum skátaforingja ofan af Skaga frá því að ég var í skátunum.

Líklegri til að stækka flokkinn
Þegar ég geri upp við mig hvorn frambjóðandann ég ætla að styðja til formanns í Samfylkingunni þá horfi ég til þess hvor þeirra mér finnst líklegri til að stækka Samfylkinguna og ná að laða fleiri til fylgis við jafnaðarstefnuna. Mér finnst einnig mikilvægt að horfa til klassískra leiðtogaeiginleika frekar en stjórnunareiginleika, hvoru tveggja eru að sjálfsögðu dýrmætir eiginleikar. Eins finnst mér mikilvægt að kynslóðaskipti eigi sér stað í forystu Samfylkingarinnar. Af þessum sökum hef ég ákveðið að styðja Árna Pál til formanns í Samfylkingunni.

Raunveruleg samræða
Reynsla mín af samskiptum við Árna Pál sem ráðherra vegur einnig þungt. En á þeim stutta tíma sem Árni Páll var félagsmálaráðherra þá varð ég vitni að vinnubrögðum ráðherra sem mér finnast vera til mikillar eftirbreytni. Hann kallaði saman breiðan hóp fólks til skrafs og ráðgerða um mál sem hann sem ráðherra var með til úrlausnar. Þar hlustaði hann á skoðanir og viðhorf annarra og mældi við sín eigin viðhorf og skoðanir. Þetta er samráð, þar sem kallað er eftir viðhorfum áður en málin eru orðin fullmótuð. Ég hef ekki orðið vitni að, eða verið boðið til þátttöku í sambærilegum vinnubrögðum frá öðrum ráðherrum. Mér finnst þetta vera vinnubrögð sem eru til fyrirmyndar og sýna á vissan hátt hversu traustum fótum Árni Páll stendur í klassískri jafnaðarstefnu, og hefur sem slíkur nægan kjark til að bjóða til umræðu þeim sem kunna að hafa aðrar og ólíkar skoðanir en hann sjálfur.

Fyrir mér er Árni Páll einnig einn af mjög fáum stjórnmálamönnum sem eru líklegir til að geta náð okkur út úr þeirri ömurlegu niðurrifsumræðu- og stjórnmálahefð sem lamar allt stjórnmálalíf á Íslandi í dag, til mikils skaða fyrir land og þjóð. Það vegur einnig þungt fyrir mig þegar ég tek þá afstöðu að styðja og kjósa Árni Pál Árnason til formennsku í Samfylkingunni.

Kristinn Halldór Einarsson formaður Blindrafélagsins

24. 01 2013

Í vor velja kjósendur fólk og flokka til setu á Alþingi næstu fjögur ár og ný ríkisstjórn verður mynduð. Mikil umskipti hafa orðið frá því gengið var síðast til kosninga og ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tók að sér það vandasama verk að vinna okkur út úr afleiðingum allsherjarhruns. Við jafnaðarmenn getum verið stolt af því að okkar ríkisstjórn hefur haft jöfnuð og almannahagsmuni að leiðarljósi í öllum verkum sínum við þessar erfiðu og fordæmalausu aðstæður.

Öflugir formenn
Á líkingarmáli er hægt að segja að hús hafi hrunið og búið sé að hreinsa grunninn og gera klárt fyrir bygginguna. Gífurlega miklu máli skiptir hvernig hús verður byggt. Næsta ríkisstjórn mun stýra því verki og Samfylkingin á að leiða það verk. Þáttaskil verða líka í flokknum mínum þegar reyndasti stjórnmálamaður landsins víkur af vettvangi eftir vel unnin störf og við í Samfylkingunni veljum nýjan leiðtoga. Mjög öflugir einstaklingar hafa verið formenn í sögu Samfylkingarinnar;  Össur, Ingibjörg Sólrún og Jóhanna auk þess sem Margrét Frímannsdóttir leiddi fyrstu kosningabaráttuna en hún var fyrsta konan til að vera valin formaður í stjórnmálaflokki. I þessu formannskjöri veljum við forystumann til að leiða okkur inn í nýja framtíð og til að leiða uppbyggingu í landinu nú þegar rofar til -  fái Samfylkingin til þess umboð.

Velferðarsinninn Árni Páll
Það er nokkuð um liðið síðan ég fór að horfa á þingflokkinn og meta hvern ég sjái sem þennan mikilvæga forystumann. Ég sannfærðist um að Árni Páll hefði þá eiginleika sem skipta máli núna. Árni Páll er víðsýnn og alþjóðasinnaður og segja má að hann sé öflugur diplómat  sem ítrekað  hefur unnið mikilvægar stöður í Evrópumálum bæði heima og erlendis. Hann er velferðarsinni sem vill samræðu um lausnir og hefur leitað nýrra leiða í mikilvægum hagsmunamálum. Og hann þorir í samvinnu þvert á flokka til að leysa snúin viðfangsefni og þau verða mörg framundan.

Réttlæti í samfélagi jafnaðarmanna
Á ferli mínum sem stjórnmálamaður í 30 ár, fyrst í meirihluta í Kópavogi í þrjú kjörtímabil og í kjölfarið sem alþingismaður í 18 ár - með millilendingum sem aðstoðarmaður ráðherra og um sinn félagsmálaráðherra  - hef ég að mestu beint kröftum mínum í velferðarmálin og þar slær mitt hjarta. Mín framtíðarsýn er að okkur takist að búa til réttlátt jafnaðarmannasamfélag þar sem börn og foreldrar sem búa við  ólíkar aðstæður geti blómstrað. Að þeir sem þurfi stuðning samfélagsins sökum fötlunar, veikinda eða annars, búi við öflugt öryggisnet. Að saman tryggjum við lífsgæði alls fólks.

Nýtt fordæmi
Á stuttum tíma sem félagsmálaráðherra réðst Árni Páll í mikilvægar umbætur. Í kjölfar hrunsins varð að skera niður alls staðar líka  í tryggingakerfinu. Í stað þess að fara í flatan niðurskurð valdi hann að fara í breytingar á bótakerfinu og tryggja með því hag þeirra sem lakast voru settir - sem skipti sköpum á örlagastundu. Með því var jöfnuður aukinn og velferðin varinn enda lýsti AGS því yfir árið 2011 að Ísland hafði m.a. með þessu, skapað nýtt fordæmi í viðbrögðum við kreppu. Félagsmálaráðherrann átti persónulegt frumkvæði að því að allir íslenskir unglingar á viðkvæmasta aldri voru kallaðir út strax árið 2009 í átakinu Ungt fólk til athafna. Bestu sérfræðingar voru kallaðir til og árangurinn var stórmerkilegur eins og Barnaheill hefur m.a. vakið athygli á í alþjóðlegum samanburði. Atvinnuleysi ungs fólks minnkaði í kreppunni sem er einsdæmi.

Hjúkrunarheimilin að veruleika
Árni Páll opnaði líka á algerlega nýja leið til byggingar hjúkrunarheimila en æpandi þörf var orðin bæði fyrir ný rými og breytingar á þeim eldri heimilum þar sem tvíbýli viðgangast. Þess vegna eru byggingar hjúkrunarheimila nú  í gangi í mörgum sveitarfélögum sem annars hefðu ekki átt möguleika á úrræðum. Seinna var Árni Páll tímabundið efnahags- og viðskiptaráðherra og stofnaði til víðtækrar samvinnu  um leiðir til lausna í efnahags- og atvinnulífi. Ég varð þess vör hvað eftir annað að hann starfaði við góðan orðstír allra þeirra sem vildu vera með í að leggja hönd á plóg til lausna.

Uppbygging velferðarríkisins
Við Árni eigum það sameiginlegt að hafa unnið með norrænum sósíaldemókrötum. Við höfum átt langar samræður um þátt jafnaðarmanna alla síðustu öld í uppbyggingu velferðarríkja Norðurlandanna.  Hjá þeim vegur þungt áherslan á almannahagsmuni,  að réttindi og skyldur íbúanna fari saman og að enginn verði undir í lífsbaráttunni. Árni sagði nýverið í blaðagrein að efnahagsmál, utanríkismál, og velferðarmál væru samtvinnuð sem aldrei fyrr og í reynd eitt og sama verkefnið. Og hann sagði jafnframt:

„Ríkisstjórn jafnaðarmanna þarf að vera full baráttuþreks og brjótast til nýrrar framtíðar, geta faðmað þjóðina og fundið öllum rúm á þjóðarheimilinu. Hún er ekki stefnulaus, tekur almannahagsmuni ávallt fram yfir sérhagsmuni og leitar leiða úr erfiðum aðstæðum með samræðuna að vopni. Og henni eru allir vegir færir.“

Um þetta er ég Árna Páli algjörlega sammála og ég treysti honum best til að leiða slíka ríkisstjórn. Þess vegna skora ég á ykkur öll kjósa Árna Pál til formanns Samfylkingarinnar.

Rannveig Guðmundsdóttir fyrrv. alþingingismaður

07. 01 2013

Lítill leiðarvísir upp úr þriðju skotgröf til vinstri - bréf til Hallgríms Helgasonar.


Kæri Hallgrímur.

Ég var að lesa greinina þína „Valdfrekjumeðvirkni“ í helgarblaði DV og það brast eitthvað innra með mér. Of margir eru að gefast upp, einstaklingar sem eiga ríkt erindi í pólitík stíga ekki fram, sterkar konur hrekjast út, ferskar raddir kafna. „Salurinn er ónýtur“ segir þú um þingið. Vonbrigði þín eru smitandi - það finn ég á fólki sem les þig alltaf. Ég vel að bregðast við. Pólitíkin er ekki dauð fyrr en fólk hættir að segja hvað því býr í brjósti, gefur skít í draslið, hættir að gera sitt besta.

Vandi okkar er að stjórnmál gærdagsins héldu áfram eftir 2008. Vonbrigði dagsins í dag eru ekki áfellisdómur yfir verkum vinstri stjórnar. Þau eru birtingarmynd þess sama óþols og einkenndi búsáhaldabyltinguna: Þreyta valdsviptrar þjóðar með stjórnvöld sem gefa hátimbraðar yfirlýsingar um eigið ágæti: Fréttatilkynningar í stjórnlyndum stíl um hvað stjórnin hafi þegar gert og hvernig hún hafi ákveðið að verja skattfénu okkar.

Og kannski er ástæða til að örvænta. Valkosturinn er sannarlega skelfilegur, eins og þú rekur vel: Ekkert verður betra ef vinir gamla góða Villa geta tekið upp Eirarhætti við stjórn efnahagsmála.  

Það eru komin tíu ár síðan þú skrifaðir grein sem hét „Bláa höndin“. Hún lýsti mjög vel megineinkennum íslensks stjórnmálalífs á þeim tíma: Klíkuveldinu, hættulegri einsleitni í ákvarðanatöku, ofríki og hrikalegri meðvirkni. Kannski er stjórnmálalífi Íslands rúmum 10 árum síðar best lýst sem bardaga blárra og rauðra boxhanska.

Veikleiki okkar vinstri manna er að við höfum ekki greint Hrunið af sömu skarpskyggni og þú gerðir í Bláu höndinni. Okkur skortir að skilja að hvaða leyti það var afleiðing misráðinna innlendra stjórnarhátta, að hvaða leyti glæpsamlegrar hegðunar og að hvaða leyti óumflýjanleg afleiðing hrikalegrar fjármálakreppu á mjög skuldsett hagkerfi með fáránlega lítinn gjaldmiðil í opnu og hindrunarlausu hagkerfi. Ef stjórnarhættirnir og glæpamennskan voru allsráðandi ástæður ætti til dæmis að vera vandalaust að afnema gjaldeyrishöft, nú þegar gott fólk stjórnar og meintir glæpamenn eru ekki í lykilstöðum. En hvað blasir þá við? Jú, þverpólitísk samstaða um ótímabundin höft. Kann vandi okkar kannski að vera flóknari en við hugðum í upphafi og það dugi ekki bara að skipta um fólk? Er vonleysið kannski afleiðing þessarar vangetu okkar – fórnarlamba fákeppninnar - til að skilja flækjurnar og hætturnar sem eru því samfara að búa við valddreift samfélag og frjálsan markað í opnu hagkerfi?

Við tölum oft meira um Hrunið en það hvernig Ísland á að líta út árið 2017, hvað þá 2021. Fyrir vikið eiga kyrrstöðuöfl í stjórnarandstöðu þann auðvelda leik að segja ekkert um framtíðina. Jafnaðarmenn um alla norður-Evrópu byggðu hugmyndafræði sína á líkingunni um Þjóðarheimilið – undir forystu jafnaðarmanna ættu sér allir rétt til þátttöku og virðingar, jafnt eigendur fyrirtækja og launamenn. Hvar er hugsun íslenskra jafnaðarmanna um þjóðarheimili Íslands stödd í upphafi árs 2013?

Skipbrot stjórnarhátta genginna tíma kallar á alveg nýja stjórnarhætti, ekki andlitslyftingu eða mjúkmálli fulltrúa. Íslensk stjórnmál minna um sumt á á sápuóperuna Leiðarljós. Það er alltaf sama fólkið á sviðinu og enginn veit um hvað er rifist. Þeir sem deyja, vakna á ný til lífs nokkrum þáttum seinna. Við getum ekki látið stjórnmálin líða áfram endalaust í hægum endursýningum á ástum og hatri eldri kynslóðar íslenskra stjórnmálaforinga. Við verðum að fá til leiks nýja kynslóð stjórnmálamanna sem er tilbúin að kalla fram alla bestu eiginleika samfélagsins, menntun, vit og ábyrgð til að fá aldrei aftur Hrun. Efnahagsmál, utanríkismál og velferðarmál eru samtvinnuð sem aldrei fyrr og í reynd eitt og sama verkefnið. Það er pólitískt lífsspursmál Íslands núna að fá til starfa fólk sem notar bæði heilahvelin, sameinar andstæður, þekkir menningu annarra, hlustar á aðra og kryddar matinn sinn.

Ég hef farið um allt land og hitt að máli ólíkustu Íslendinga undanfarið og vil bjóða fram nýja stjórn undir forystu Samfylkingar sem skilur og skynjar hlutverk sitt sem burðarflokks jafnréttis, félagslegs réttlætis og frjálsrar samkeppni. Eftir 12 ára tilvist getur Samfylkingin sýnt að hún sé komin til manndómsára og ráði við það hlutverk sem henni var ætlað: Að vera breiðfylking á miðju og vinstri væng íslenskra stjórnmála, laus undan oki þess ofríkis og mannhaturs sem einkennt hefur íslensk flokkastjórnmál um áratugi. Við höfum alltaf verið dregin í dilka, nauðug viljug. Við þurfum að losna við köfnunartilfinninguna sem greinin þín lýsir. Stjórn undir forystu jafnaðarmanna má ekki standa í lok kjörtímabils eins og úrvinda bardagamaður með rauða boxhanska sem á þá ósk heitasta að dómarinn flauti bardagann af.

Ríkisstjórn jafnaðarmanna þarf að vera full baráttuþreks og brjótast til nýrrar framtíðar, geta faðmað þjóðina og fundið öllum rúm á Þjóðarheimilinu. Hún er ekki stefnulaus, tekur almannahagsmuni ávallt fram yfir sérhagsmuni og leitar leiða úr erfiðum aðstæðum með samræðuna að vopni. Og henni eru allir vegir færir.

Kær kveðja,

Árni Páll.

12. 11 2012

 

 

„Hver dagur líti dáð á ný,
hver draumur rætist verkum í
svo verði Íslands ástkær byggð
ei öðrum þjóðum háð.“

(Hulda)

Við höfum á undanförnum árum gengið í gegnum Hrun – efnahagslegt áfall sem ekkert okkar bjóst við að lifa. Þrátt fyrir að stjórnmálin einkennist af togstreitu og átakasókn, eins og oft gerist í kjölfar áfalla, getum við horft stolt um öxl yfir árangur síðustu ára. Okkur er að takast að snúa hallarekstri í jöfnuð á ótrúlega stuttum tíma. Þrátt fyrir hrakspár og ótta um gríðarlegt velferðartjón – langvarandi atvinnuleysi, alvarlega fátækt og stórfellda fjölgun öryrkja vegna langtímaatvinnuleysis – er okkur að takast að komast í gegnum þessa erfiðleika án slíkra stórfelldra hamfara.

Sumir starfsmenn AGS sem störfuðu hér fóru síðan til Grikklands. Einn þeirra rakti seinna fyrir mér hversu mikill munur væri að starfa þar og hér. „Þið eruð svo samstillt. Þið viljið alltaf ná samstöðu og standið svo vel saman“ sagði hann og ég hlustaði opinmynntur á hann og var eins og stórt spurningarmerki í framan. Hann hafði rétt fyrir sér. Þrátt fyrir efasemdir okkar sjálfra um okkur sjálf hefur samfélagsgerð okkar, stjórnskipan, stjórnsýsla og innviðir allir reynst færir um að takast á við svo mikla erfiðleika og leysa úr þeim með farsælum hætti. Við sögðum okkur sjálfum og öðrum satt um hlutina og tókumst á við þá eins og þeir voru. Sú hreinskipti jók tiltrú á Ísland og möguleika þess. Það hefur aldrei verið sjálfsagt mál að Ísland sé sjálfstætt land og haldi stjórnarfarslegu og efnahagslegu sjálfstæði. Við héldum vel á málum þegar efnahagslegt sjálfstæði okkar var í húfi og fyrir vikið rættist enn á ný í verkum okkar draumurinn  um sjálfstætt Ísland.

Árangurinn byggði að stóru leyti á því að við voru óhrædd við að beita ríkisvaldinu til að takast á við verkefnin. Við biðum með niðurskurð, þar til versta áfallið var yfirstaðið. Við beittum valdi ríkisins til að þvinga banka og aðra kröfuhafa til að lækka skuldir heimila og fyrirtækja, að því marki sem stjórnarskráin heimilaði okkur. Við höguðum breytingum á bótakerfi og skattbreytingum þannig að lágtekjufólk bar miklu minni byrðar af Hruninu en hátekjufólk. Við tryggðum fjármagn í menntaúrræði fyrir ungt atvinnulaust fólk og gáfum þeim tækifæri á erfiðum tímum.

Framundan eru umbrotatímar. Við þurfum að nálgast verkefni næstu ára með sömu sýn að leiðarljósi. Við eigum að nálgast verkefnin eins og þau eru og vera hreinskilin og heiðarleg við okkur sjálf og aðra um eðli þeirra. Við getum ekki horft framhjá raunverulegum úrlausnarefnum og látið eins og þau séu ekki til. Við verðum líka að ná að vinna verkin í samvinnu.

Við þurfum – eins og jafnaðarfólk á Norðurlöndum hefur gert um áratugi – að beita ríkisvaldinu til að vinna með atvinnulífinu að aukinni verðmætasköpun, svo við fáum traustari stoð fyrir velferðarútgjöld okkar til lengri tíma. Við eigum ekki að hræðast atvinnulífið eða fleygja í það fúkyrðum, heldur mæta því í samtali og samræðu með rökum. Við þurfum að vinna með verkalýðshreyfingunni og nýta okkur styrk hennar. Við þurfum að tala saman og vinna saman og reyna að ná sameiginlegri niðurstöðu. Enginn getur alltaf ráðið öllu. En við eigum að geta náð sátt í þágu almannahagsmuna.

Við þurfum frjálst og öflugt atvinnulíf sem getur skapað verðmæti; ráðið fullt af fólki í vinnu og borgað há laun. Eftir Hrun gætir mikils ótta við einkaframtak og kannski er það ekki að ófyrirsynju: Reynslan af oflæti og græðgisvæðingu áranna fyrir Hrun hræðir og vekur efasemdir. Við höfum jú ekki nema tæpra tveggja áratuga reynslu af frjálsum markaði. Við sáum menn taka yfir gróin fyrirtæki, sem höfðu veitt fólki vinnu og greitt skatta og skyldur í áratugi,  hreinsa þau að innan og tefla rekstrarhæfni þeirra í tvísýnu. En það var ekki frelsið sem brást, þótt sumir hafi misnotað frelsið. Það er ekki áfellisdómur yfir athafnafrelsi þótt sumir kjósi frekar að stunda rányrkju en hyggja að morgundeginum. Markaðurinn er þvert á móti tæki frjálsborins fólks til velja og hafna án afskipta hins opinbera. Öll viljum við njóta slíks frelsis. Við þurfum – eins og jafnaðarfólk á öllum tímum – að treysta okkur til að regla hinn frjálsa markað í þágu almannahagsmuna og beita ríkisvaldinu til að þroska hann og efla.

Við þurfum á óvissutímum að greina stöðu okkar í samfélagi þjóðanna með réttum hætti. Við verðum að meta til fulls hversu miklu það hefur skipt að brjóta Ísland undan aldalöngum yfirráðum innlendrar forréttindastéttar, hringamyndun og pólitísku skömmtunarvaldi og muna hversu miklu máli frelsið skiptir okkur. Við verðum að varðveita tækifærin sem felast í opnu og frjálsu landi. En við megum ekki verða bláeyg gagnvart umheiminum. Frjálsar fjármagnshreyfingar hafa á sér skuggahliðar. Það reyna flest Evrópulönd þessi misserin og það reyndum við árið 2008. Skylda okkar er að verja íslenskan almenning fyrir þeim skuggahliðum og leita til þess bestu lausnanna. Við eigum ekkert að hræðast í því efni og megum engan kost útiloka fyrirfram. Við höfum áður kosið okkur hálfgildings aðild að Evrópu, því við töldum okkur trú um að þannig yrðum við síður öðrum þjóðum háð. Annað kom á daginn. Hálfgildings aðildin setti okkur í meiri hættu og gerði okkur háð öflum sem við hvorki réðum við né skildum. Nú þurfum við að velja rétt.

Að beita samtaki

Thor Vilhjálmsson sagði í viðtali stuttu fyrir andlát sitt í fyrra: „Eins og Kjarval sagði: Fólk sem lyftir aldrei neinu í samtaki verður aldrei þjóð. Og nú ríður á þessu: Samtak, verða þjóð og vinna fyrir okkur sem þjóð, meðal þjóða heimsins.“

Við lifum einstaka tíma. Margt af því sem við töldum öruggt og sjálfgefið er horfið eða véfengt. Fyrirmynda er erfitt að leita – mörg lönd eru að krafsa sig í gegnum vandamál sem við höfum þegar leyst eða eru að gera mistök sem við gerðum eða komumst hjá. Þess vegna verðum við að tileinka okkur auðmýkt gagnvart þeim verkum sem við stöndum frammi fyrir, skilja hætturnar og taka á þeim af þeirri alvöru sem hæfir. Forsprakkar stjórnmálanna láta enn sem að þeir hafi hver fyrir sig öll svörin. Ríkisstjórnin eigi að grobba sig og stæra og stjórnarandstaðan að yfirbjóða. Áfram eigi að kallast á af hótfyndni og stráksskap, eins og ekkert hafi í skorist.

Framtíðin er í okkar höndum. Við getum búið til ný stjórnmál, þar sem við beitum samtaki; hlustum, ræðum og leitum samvinnu um lausnir. Það er okkar að gefa slíkum stjórnmálum rúm og kveðja galskap gærdagsins.

 

12. 11 2012

 

 

„Minn staður er hér, þar sem Evrópa endar
og auðnir hnattarins taka við.
Eldgróf í sæ, með ísgráan múrinn
á aðra hlið.

Örlagastaður sem stundirnar markar.
Hér stendur rótum í gleði og sorg
mitt sveitamannslíf, mín hálfgildings hugsun
í hálfgildings borg

og er viðspyrna, farg; það fellur hér saman —
flækjuleg reynsla. Hvort nýtist hún mér
til fullnaðarsöngva? Útmörk. Evrópa
endar hér.“

(Hannes Pétursson, 1970)

 

Við getum ekki haldið áfram að tala um efnahagsmál úr samhengi við aðgang okkar að hinu alþjóðlega viðskiptaumhverfi, um gjaldeyrishöft úr samhengi við samningssamband okkar við önnur Evrópuríki eða um gjaldmiðilsmál úr samhengi við möguleika okkar til að losa um höft. Efnahagsstefna Íslands, Evrópustefna og stefna um afnám gjaldeyrishafta – allt er þetta ein og órofa heild og byggir hvað á öðru.

Valið er skýrt. Annar kosturinn er að Ísland verði til lengri tíma í höftum, lífskjör haldi áfram að dragast aftur úr því sem tíðkast í nágrannalöndum okkar og atvinnulíf verði sífellt einhæfara. Hinn kosturinn er að Ísland nái tökum á þátttöku í frjálsu og alþjóðavæddu hagkerfi og geti boðið íbúum samkeppnishæf lífskjör og tækifæri. Hvaðeina sem við gerum þessi misserin hefur áhrif á hvor leiðin verði ofan á. Það þarf lítið til að okkur beri af leið. Agaleysi í ríkisrekstri getur ýtt okkur fram af brúninni, rétt eins og glámskyggni okkar á skaðsemi hafta. Þess vegna þurfum við að greina rétt stöðu okkar í alþjóðlegu samhengi og taka skynsamleg skref í kjölfar vandaðrar greiningar. Verkefnið hlýtur að vera að finna leiðir til að við getum þróað áfram samkeppnishæft og opið hagkerfi, en án þess að efnahagslegum stöðugleika sé ógnað.

Ísland er í Evrópu

Ísland varð með EES-samningnum aðili að mikilvægasta þætti Evrópusamstarfsins, innri markaði sem tryggir hindrunarlaus viðskipti með vörur, þjónustu, frjálsa för vinnuafls og fjármagnshreyfingar. Við metum oft ekki til fulls mikilvægi þessarar þátttöku. Hún skiptir sköpum í daglegum rekstri fyrirtækja, sem kaupa aðföng og hráefni frá Evrópu og selja vörur þangað. Menntakerfi okkar er orðið hluti af evrópsku mennta- og rannsóknaneti. Þess vegna er óhjákvæmilegt að allir hugi að stöðu Íslands í evrópsku samstarfi og hvernig hún verði best tryggð.

Ástæðan fyrir aðild okkar að innri markaðnum árið 1993 var augljós, en þó langt í frá óumdeild. Íslenskt efnahagslíf var komið í ógöngur einangrunar, hringamyndunar og pólitískra flokkadrátta undir lok níunda áratugar síðustu aldar. Fyrir ungu fólki í dag hljómar það fjarstæðukennt að pólitískar skoðanir en ekki vörugæði hafi ráðið kaupum á bifreiðum, tækjum, olíu, tryggingum og frakt, en sú var engu að síður raunin. Hægt var að aka um sveitir landsins og sjá á bíla- og vélakosti hvort viðkomandi bóndi kysi Framsókn eða Sjálfstæðisflokk. Frægt er tilsvar Framsóknarmannsins: „Frekar keyri ég bensínlaus en á bensíni frá Skeljungi“.

Þetta einhæfa atvinnulíf var komið í þrot af súrefnisleysi. Það var óhagkvæmt, varið fyrir samkeppni og naut hvorki fullnægjandi aðgangs að fjármagni á arðsemisforsendum né nauðsynlegs aðgangs að erlendum mörkuðum. Hið lokaða Ísland forréttindahópa Kolkrabba og Sambandsins gekk vel á meðan sjávarafli jókst ár frá ári, en um leið og gjöfular auðlindir hættu að niðurgreiða kostnað þjóðarinnar af fákeppni og klíkuveldi hætti hagkerfið að vaxa. 

EES – samningurinn var mikilvægur

EES-samningurinn leysti þetta vandamál í einu vetfangi og var alger forsenda efnahagsuppgangs sem hófst strax upp úr miðjum tíunda áratugnum. Íslenskar útflutningsgreinar fengu fullan og hindrunarlausan markaðsaðgang og tollar á flestar sjávarafurðir féllu niður. Íslenskar samkeppnisgreinar fengu ný vaxtartækifæri sem þær nýttu vel – Össur, Marel, Actavis, CCP eru bara nokkur dæmi um fyrirtæki sem skutust áfram í meðbyr frjálsra markaðsviðskipta og aðgangs að fjármagni og mörkuðum og hefðu ekki getað vaxið með sama hætti nema fyrir tilkomu EES-samningsins.

Samkeppnislöggjöf var sett í fyrsta sinn að evrópskri fyrirmynd og þannig var bundinn endir á víðtækt og landlægt samráð um verð og framboð á vöru og þjónustu, sem hafði takmarkað getu samfélagsins til verðmætasköpunar um áratugi og jafnvel aldir. EES-samningurinn opnaði einnig fyrir erlent fjármagnsstreymi til Íslands, sem var burðarstoð í uppbyggingu atvinnulífsins.

EES gaf Íslendingum líka kærkomið og langþráð frelsi til athafna í eigin rétti, braut niður pólitískt skömmtunarvald og kom böndum á rótgróið ofríki íslenskra stjórnvalda gagnvart eigin borgurum. „Með EES fengum við frelsi til að vera við sjálf“ sagði ein góð kona. EES-samningnum fylgdi líka fjölþjóðlegt eftirlit og dómsvald, sem var ekki síður mikilvægt. Íslensk stjórnvöld gátu ekki lengur virt að vettugi að vild skuldbindingar samkvæmt alþjóðasamningum. Eftirlitsstofnun EFTA var sett á fót til að tryggja að íslensk stjórnvöld færu að EES-samningnum og EFTA-dómstólnum var falið dómsvald um réttindi og skyldur.

Til að uppfylla skyldur okkar samkvæmt samningnum þurftum við að tileinka okkur þær grunnreglur markaðshagkerfis sem nágrannalönd okkar hafa lengi byggt á: Frjálsa samkeppni og bann við hringamyndun, samkeppnishömlum og ríkisstyrkjum í atvinnulífi. Nágrannalönd okkar búa við aldalanga reynslu af frjálsum mörkuðum, þar sem ólíkir hagsmunir leikast á og aðferðir við eftirlit með markaðshegðun hafa þróast á löngum tíma. Reynsla Íslands af frjálsum og valddreifðum markaði nær ekki einu sinni tveimur tugum ára.

Við afnámum ofurvald innlends klíkuveldis og sköpuðum landsmönnum aukið vald til að móta eigin örlög. Án EES-samningsins er alls óvíst að okkur hefði miðað að ráði í rétta átt að þessu leyti. Innlend hagsmunaöfl höfðu öldum saman náð að standa gegn viðskiptafrelsi í landinu.

Frelsið er yndislegt - en vandmeðfarið

En opnun hagkerfisins og aukið frelsi til athafna hafði líka í för með sér vandamál, sem enginn sá fyrir. EES-samningurinn tók gildi um það leyti sem algerlega hindrunarlaus innri markaður ESB með vörur, þjónustu, frjálsa för vinnuafls og fjármagns varð loksins til. Aðildarríki ESB höfðu unnið að því að afnema allar hindranir í viðskiptum sín á milli um áratugi. Allt frá upphafi níunda áratugarins höfðu vestræn ríki líka stefnt að auknu frelsi í fjármagnsflutningum milli landa. Markmiðið var að fjármagnið ætti greiða leið yfir landamæri og allir áttu að njóta ávinnings af því fullkomna frelsi, þegar hagkvæmnin ein réði því hvar fjármagnið lenti á endanum.

Fjármálakerfi heimsins tók stakkaskiptum á þessum tíma. Reglur voru rýmkaðar um allan heim og tækniframfarir gerðu flókin viðskipti miklu auðveldari. Fullt frelsi til fjármagnsflutninga á hinum evrópska markaði skapaði óteljandi ný tækifæri. Fyrir vikið margfölduðust viðskiptin milli ára, hvort sem talið var í fjölda samninga eða í fjármunum sem skiptu um hendur. Þessi nýja veröld hrundi með fjármálakreppunni 2008.

Stjórnmálamenn um öll lönd játa nú að þeir hafi ekki skilið til fulls eðli fjármálamarkaða eða gereyðingarmátt þeirra. Engir gerðu sér til fulls grein fyrir því hver áhrif fullt frelsi til fjármagnshreyfinga gæti haft á efnahagslegt öryggi almennings í hinum vestræna heimi. Þvert á móti var almenn samstaða um mikilvægi aukins markaðsfrelsis. Hægri menn studdu markaðsfrelsið því það myndi auka hagnað og arðsemi. Jafnaðarmenn studdu það því þeir voru sannfærðir um að frjálst heimshagkerfi myndi draga úr aðstöðumun milli ríkari ríkja og fátækari, brjóta niður forréttindi innlendra valdastétta og skapa jafnari tækifæri til verðmætasköpunar.

Alþjóðasinnar, jafnt til hægri og vinstri, vissu líka hversu skaðleg efnahagsleg þjóðernisstefna hafði reynst, allt frá því að ríki heims reistu tollmúra í kreppunni miklu á fjórða áratug síðustu aldar og gerðu þannig alvarlega niðursveiflu að langvinnri heimskreppu og bjuggu í haginn fyrir ofbeldisöfl. Allir höfðu líka séð að samkeppni ríkja um að fella gengi til að bæta stöðu sína hvert gagnvart öðru hafði engu skilað öðru en verðbólgu, óstöðugleika og skertri samkeppnishæfni ríkja. Það var því almennt álitinn mikill fengur af auknum milliríkjaviðskiptum og auknu frelsi í fjármagnshreyfingum.

Það varð hlutskipti Íslands að gera hvort tveggja í senn: Að gera grundvallarbreytingar á innlendu viðskiptaumhverfi í frjálsræðisátt og opna þetta viðskiptaumhverfi fullkomlega fyrir alþjóðlegum hræringum. Við stukkum því í einu vetfangi úr einangruðu haftasamfélagi og yfir í opið, fjölþjóðlegt samkeppnisumhverfi, sem var að taka stórfelldum breytingum á sama tíma. Eftir á að hyggja var alltaf óhjákvæmilegt að slík stökkbreyting myndi valda togstreitu af einhverjum toga og að einhverjir vaxtarverkir myndu gera vart við sig á þessari vegferð.

Hagvarnir litnar hornauga

Við hin hröðu umskipti kom í ljós að íslenskt stjórnkerfi var algerlega óreynt og vanbúið til að regla frjálsa markaði. Við bjuggum ekki yfir langi hefð fyrir frjálsum viðskiptum og eðlilegri verðmyndun á frjálsum markaði, eins og nágrannalönd okkar. Hér varð ekki einu sinni til Kauphöll og markaðsviðskipti með hlutabréf fyrr en upp úr 1990. Á Íslandi var engin þekking eða reynsla til að greina íslenska markaði og sérkenni þeirra. Slík greining hefði átt að vera nauðsynleg forsenda skynsamlegs regluverks. Reynslan kenndi mönnum líka fljótt að vísan til evrópskra reglna komi í veg fyrir að stjórnsýsla eða stjórnmálamenn þyrftu sérstaklega að rökstyðja val á stefnumörkun, enda vissi þjóðin almennt að í EES-samningnum fælist skuldbinding um upptöku samevrópskra reglna. Fyrir vikið var það einföld leið að byggja bara á hinu samevrópska regluverki, sem barst okkur með EES-samningnum, án nokkurrar efnislegrar aðlögunar. Af því leiddi svo að við lögðum aldrei sérstakt mat á séríslenska áhættuþætti, eins og náin tengsl og landlægar klíkumyndanir í viðskiptalífi, sem gerðu skuldsett viðskiptalíf jafn viðkvæmt og spilaborg í aðdraganda hrunsins 2008. Við lögðum heldur aldrei mat á hverjar væru eðlilegar starfsheimildir banka á alþjóðlegum markaði út frá íslenskum hagsmunum og þeirri áhættu sem stórt bankakerfi með mikla alþjóðlega starfsemi skapaði fyrir íslenskt efnahagslíf sem var lítið í samanburði.

Áherslan meðal aðildarríkja ESB var á opið hagkerfi og hugmyndir um einhvers konar hagvarnir voru almennt litnar hornauga og tengdar einangrunarhyggju og tollmúrum fyrri áratuga. Allar sérlausnir hefðu þurft að byggja á efnislegri og rökstuddri greiningu á séreðli íslenskra markaða og það er augljóst að henni gat aldrei verið fyrir að fara þegar hvorki voru til íslenskir markaðir né greining á hegðun þeirra. Líklega höfðum við því hvorki sjálfsskilning né efnislegar forsendur til að útbúa hugmyndir um séríslenskar lausnir á þeim tíma.

Almennt má segja að í hinu evrópska fjórfrelsi hafi falist djúpstætt vanmat á þeim hættum sem gætu skapast af samspili frjáls innri markaðar með fjármálaþjónustu yfir landamæri og áframhaldandi tilvist sjálfstæðra gjaldmiðla og þess að stuðningur við banka og eftirlit með þeim  og umgjörð innstæðutrygginga væri á ábyrgð hvers ríkis um sig. Í þessum veikleikum lágu orsakir Hrunsins að stóru leyti og sumir þessara veikleika hafa valdið Írum og nú Spánverjum gríðarlegum erfiðleikum. Íslenska hrunið var því ekkert séríslenskt, þótt smæð íslenska hagkerfisins og veikleiki krónunnar hafi valdið því að þessar hættur ollu fyrr tjóni og mögulega meira tjóni hér á landi en annars staðar.

Með innri markaðinum urðu gjaldmiðlar vörur – rétt eins og korn eða olía eða hvað annað sem gengur kaupum og sölum á markaði. Skyndilega varð almenningi mögulegt, án vandkvæða, að kaupa gjaldmiðil – ekki til að nota til kaupa á vöru eða þjónustu, heldur til að veðja á verðþróun hans eða njóta vaxtakjara viðkomandi ríkis. Við supum seyðið af þessu á árunum fyrir hrun, þegar vaxtastig hér var hærra en í Evrópu og fjármálafyrirtæki um alla Evrópu buðu viðskiptavinum að njóta íslenskra vaxtakjara með kaupum á krónueignum. Þessi viðskipti voru jafnvel á færi einstaklinga sem gátu keypt krónur eða eignir í krónum með íslenskum vöxtum í heimabankanum sínum. Afleiðingin varð gríðarlegt innflæði erlends gjaldeyris sem styrkti gengi krónunnar, bjó til innistæðulausan kaupmátt og lækkaði verðbólgutölur. Vandinn var bara að þegar harðnaði á dalnum vildu allir út á sama tíma og gjaldeyrismarkaðurinn hrundi. Þess vegna eru hér gjaldeyrishöft og þess vegna eru hér fastar aflandskrónur.

Við þennan vanda bættist annar alvarlegur ágalli. Vegna smæðar hagkerfisins, sveiflna gjaldmiðilsins – og líklega líka rótgróinna efasemda Íslendinga um ágæti erlendrar fjárfestingar – var lítið um beina erlenda fjárfestingu hér á landi í kjölfar EES-samningsins, nema í áliðnaði. Þess í stað nýtti íslenskt atvinnulíf hið nýfengna frelsi til öflunar fjármagns til að taka lán. En þá liggur áhættan öll hjá Íslendingum: Ef gengi krónunnar fellur hækka erlendu lánin og vaxa innlendum fyrirtækjum hratt yfir höfuð. Ef harðnar á dalnum hækka vextir. Hrunið sýnir betur en nokkuð annað hversu varhugavert það er að byggja efnahagsuppbyggingu alfarið á lánsfé. Umsvifameiri bein erlend fjárfesting hér á landi hefði aukið á efnahagslegan stöðugleika, greitt frekar fyrir tækniþróun í íslensku atvinnulífi og ekki farið svo glatt úr landi. Hækkun fjármagnskostnaðar vegna gengisbreytinga eða versnandi ytri aðstæðna hefði lent á hinum erlendu fjárfestum.

Öll vitum við svo hvernig aðdragandi hrunsins leiddi í ljós miklar veilur á því regluverki sem gilti um fjármálastarfsemi á innri markaðnum. Íslensku bankarnir höfðu engan lánveitanda til þrautavara sem gat séð þeim fyrir alþjóðlega nothæfum gjaldmiðli og því voru engin bjargráð möguleg eftir að fyrsti stóri íslenski bankinn lenti í vandræðum. Innstæðutryggingakerfið reyndist of veikburða fyrir banka með starfsemi víða um lönd, jafnvel þótt það hefði verið útbúið í fullu samræmi við hið evrópska regluverk. Enn og aftur var gjaldmiðillinn þar lykilþáttur. Íslenskt bankakerfi gat ekki starfað á evrópskum markaði með íslenska krónu sem gjaldmiðil. Eina leiðin til þess hefði verið ef allir bankar á svæðinu hefðu haft aðgang að einum lánveitanda til þrautavara, sem hefði tryggt þeim aðgang að gjaldeyri og ef sameiginlegt innstæðutryggingakerfi hefði verið við lýði, sem hefði starfað þvert á landamæri.

Höftin aðeins var – veikja heilbrigða viðskiptahætti

Allir þessir áhættuþættir eru enn hluti af innri markaðnum og ekki hafa verið útbúnar leiðir til að takast á við þá nema að litlu leyti á evrópskum vettvangi. Við erum nú í vari fyrir þeim, vegna gjaldeyrishaftanna, en yrðum á ný berskjölduð fyrir þeim þegar höftum væri aflétt.

Þrátt fyrir höftin búum við vissulega enn við marga kosti EES-samningsins. Íslensk fyrirtæki njóta aðgangs að evrópskum markaði fyrir vöru sína og þjónustu og við getum frjáls tekið okkur búsetu hvar sem er á hinu evrópska efnahagssvæði og fengið þar vinnu. En við höfum ekki getað lifað við frjálsar fjármagnshreyfingar og höftin koma í veg fyrir að fjármagn streymi til landsins til að þjónusta íslenskt efnahagslíf og fólk og fyrirtæki í milliríkjaviðskiptum lenda daglega í vandræðum vegna hafta.

Gjaldeyrishöft eru hörmuleg. Það vitum við af áratuga reynslu og það sjáum við nú sífellt skýrar með hverjum degi sem líður í viðjum hafta.Sá ágæti hagfræðingur Dr. Benjamín J. Eiríksson kallaði höft „stíflugarða á floti“ og það var réttnefni. Fé finnur sér farveg. Höft breyta þeim farvegi, gera hagkvæma hluti óhagkvæma og öfugt.

Höftin voru sannarlega óhjákvæmileg til að stöðva stjórnlaust fall krónunnar í árslok 2008. Og gjaldeyriseftirlit er óumflýjanlegt meðan höft eru við lýði. Og öllum ber að fylgja lögum og virða. Hinn siðferðilegi og heimspekilegi vandi við höft er hins vegar sá að með þeim er athæfi, sem áður var fullkomlega löglegt og er samkvæmt almennri réttlætisvitund okkar siðlegt, gert ólögmætt.  Athæfi sem er sjálfsagt og eðlilegt í öllum nágrannaríkjum okkar verður skyndilega glæpsamlegt á Íslandi einu. Og það sem meira er: EES-samningurinn kveður beinlínis á um rétt til einstaklinga og fyrirtækja til óheftra milliríkjaviðskipta með fjármagn. Höftin eru ósamrýmanleg EES-samningnum, nema sem neyðaraðgerð. Við erum því annars vegar með alþjóðlegt regluverk sem hefur lagagildi á Íslandi sem veitir rétt til að gera eitthvað og svo önnur innlend lög sem gera sama hlut glæpsamlegan.

Flest alþjóðleg fyrirtæki okkar vaxa nú um stundir erlendir, meðal annars vegna haftanna. Sú hætta er því raunveruleg að við missum ekki bara úr landi vöxt þessara fyrirtækja heldur líka höfuðstöðvar þeirra og skatttekjur sem þeim fylgja. Það að alþjóðleg fyrirtæki á Íslandi hafi ama af höftunum er ekki það versta. Mun verra er að engin ný alþjóðleg fyrirtæki munu ná að vaxa frá íslenskum rótum þegar litið er til framtíðar í skjóli svona hafta. Þess í stað munu nýir sprotar aðeins ná því að vaxa kyrkingslega á bakvið við múra.  

Afnám hafta á að vera aðalverkefni stjórnmálanna

Ætla mætti að stjórnmálin snerust fyrst og fremst um lausn á þessum bráðavanda sem læsir landið í þriðjaheimsviðskiptaumhverfi, eyðileggur tækifæri til verðmætasköpunar og brýtur niður heilbrigt viðskiptasiðferði.

Staðreyndin er samt sú að enginn sem nær máli – hvort heldur er innanlands eða utan – hefur lengur trú á að höftum verði aflétt í fyrirsjáanlegri framtíð með þeim meðölum sem tiltæk eru.

Erfiðasta hindrunin í vegi afnáms hafta er hin fullkomna óvissa sem væri um hvað það væri sem tæki við eftir höft. Mun krónan einungis taka dýfu í nokkra mánuði og ná svo aftur eðlilegu jafnvægisgengi eða getum við búist við langvinnu tímabili veiks gengis krónunnar með gósentíð útflutningsgreina en hörmulegum afleiðingum fyrir innlenda verslun, þjónustugreinar og skuldsett heimili?

Allir þekkja aflandskrónuvandann og óþarfi að fjölyrða um hann. Aflandskrónurnar þurfa út og við verðum að geta losað þær út á kjörum sem við stöndum undir. Hitt gleymist oft í umræðunni að íslenskt efnahagslíf er nú þegar mjög skuldsett í erlendum gjaldeyri. Ríki, sveitarfélög, orkufyrirtæki og einstök fyrirtæki eru með erlendar skuldir. Til að greiða af þessum skuldum þarf að afla gjaldeyris. Tveir nýju bankanna eru að stærstum hluta í erlendri eigu og munu greiða arð til eigenda sinna úr landi á næstu árum. Til þess þarf líka gjaldeyri. Stærsti óvissuþátturinn sem háir okkur nú við afnám hafta er hvert raunverulegt heildarumfang þessara skuldbindinga er og hvort geta þjóðarinnar til að afla gjaldeyris mun standa undir því útflæði sem fyrirsjáanlegt er vegna þeirra á næstu áratugum. Er Ísland, með öðrum orðum, of skuldsett í erlendum gjaldeyri?

Mikilvægasta verkefni næstu mánaða er að kortleggja þessa stöðu til fulls. Við það mat er mikilvægt að velta við hverjum steini, taka alla þætti með í reikninginn og vanmeta ekki útflæðisþrýstinginn. Við höfum til dæmis séð erlendar eignir lífeyrissjóðanna rýrna hlutfallslega á undanförnum árum og það er óumflýjanlegt að þeir verji miklum hluta handbærs fjár til fjárfestinga erlendis um leið og höftum verður aflétt, ef þeir eiga að ná að dreifa áhættu sinni og standa undir því hlutverki sem þeim hefur verið falið. Við verðum að gera ráð fyrir öllu slíku í þessu reikningsdæmi. Það borgar sig ekki að nálgast þetta verkefni með „þetta reddast“ hugarfarinu. Þvert á móti er staðan sú að ef við tökum ekki allt með í reikninginn og vanmetum heildarumfang skuldbindinganna eru allar líkur á að krónan súnki við afnám gjaldeyrishafta og haldist veik um langa hríð, með hörmulegum afleiðingum fyrir efnahagslífið.

En hvað er til ráða ef aflandskrónur og erlendar afborganir opinberra aðila og einkaaðila – allra hér á Íslandi – reynast meiri en sem nemur getu landsins til að skapa gjaldeyri? Þá bíður okkar mikilvægt verkefni, sem eru samningar við erlenda kröfuhafa um lækkun þessara skulda. Erlendir kröfuhafar hafa hag af því að Íslandi gangi vel og þeim getur ekki hugnast sú framtíðarsýn að íslenskt efnahagslíf læsist í doða vegna ofskuldsetningar. Við höfum í tvígang áður gripið til aðgerða sem greiddu fyrir skynsamlegum skuldaskilum við erlenda kröfuhafa. Fyrst settum við neyðarlögin, sem vörðu hagkerfið. Næst var samið um skiptingu bankanna í gamla og nýja og svigrúm skapað fyrir úrvinnslu skulda heimila og fyrirtækja. Nú er síðasta verkefnið eftir: Að tryggja að Ísland í heild – ríkisrekstur sem einkarekstur – geti staðið undir erlendum skuldum.

Getur krónan virkað? Getur EES virkað?

En eftir stendur þá spurningin um hvort krónan muni geta spjarað sig í eðlilegum viðskiptum á gjaldeyrismarkaði eftir að höft hafa verið afnumin. Getur krónan virkað án sérstakra stuðningsaðgerða og verður verðmyndun hennar eðlileg?

Þátttaka okkar í innri markaðnum hefur skilað okkur miklum árangri en líka gert okkur berskjölduð fyrir hættum sem leitt hafa af samspili frjálsra fjármagnsflutninga og tilvist lítils gjaldmiðils. Gengi krónunnar sveiflast í frjálsu umhverfi langt umfram það sem undirliggjandi efnahagsstærðir gefa tilefni til. Á toppi innflæðis erlends fjármagns vorið 2006 styrktist krónan á sama tíma og fréttir bárust af stórfelldum niðurskurði í þorskafla. Ekkert sýnir betur að gengisþróun krónunnar endurspeglaði ekki verðmætasköpun í hagkerfinu. Fyrir vikið varð íslenskur almenningur ofurseldur dyntum erlendra spekúlanta. Þegar þeir vildu allir út á sama tíma hrundi gjaldeyrismarkaðurinn og haftatíminn tók við.

Getum við aflétt höftum og lifað við umgjörð EES? Höfum við nægilega sterka umgjörð um hagvarnir okkar innan EES? Er EES-samningurinn dæmi um „hálfgildings hugsun“ í anda þess sem Hannes Pétursson lýsti í ljóðinu hér að framan – lausn sem einkennist af þörf okkar fyrir að stíga ekki skrefin til fulls, en dugar kannski heldur ekki til fullnustu?

Við getum ekki í dag uppfyllt ákvæði EES-samningsins og alls óvíst er hvernig við förum að því þegar fram í sækir. Við höfum reist gjaldeyrishöft sem ekki standast ákvæði samningsins. Í nýútkominni skýrslu Seðlabankans um varúðarreglur eftir höft er gert ráð fyrir að áfram verði unnt að viðhalda ýmsum hömlum á frjálsum fjármagnshreyfingum, eftir að höftum hefur verið aflétt. Þegar nánar er að gáð er óvíst að þær standist allar ákvæði EES-samningsins. Þannig er til dæmis gert ráð fyrir banni við lántöku heimila og fyrirtækja sem ekki hafa erlendar tekjur í erlendri mynt, en Eftirlitsstofnun EFTA hefur gert athugasemdir við Ísland um bann við gengistryggðum lánveitingum og telur það ekki samrýmast ákvæðum EES-samningsins. Við munum, að óbreyttu regluverki, eiga erfitt með að takmarka heimildir íslenskra banka til að sækja á erlenda markaði eftir afnám hafta og innstæðutryggingakerfi hefur ekki verið útfært með trúverðugum hætti fyrir íslenska banka að afléttum höftum. Og jafnvel þótt hægt væri að laga EES-samninginn að slíkum hömlum – höftum undir nýju nafni – fælist að öllum líkindum í þeim ákvörðun um að skapa séríslenskt einangrunarregluverk um íslenskan fjármálamarkað. Slíkt mun hafa í för með sér afleiðingar – þær augljósustu enn hærri fjármögnunarkostnað fyrir íslensk fyrirtæki og heimili.

Því til viðbótar er sífellt að koma betur í ljós að EES-samningurinn reynir mjög á þanþol stjórnarskrárinnar að því er varðar framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana. Með hugmyndaríkri túlkun stjórnarskrárinnar má telja mögulegt að fela alþjóðastofnunum, sem Ísland á aðild að, tiltekin verkefni en þó er þar teflt á tæpasta vað. Málið vandast hins vegar ef um er að ræða alþjóðastofnanir sem Ísland á ekki aðild að. Í sífellt ríkari mæli blasir nú við að stofnanir ESB þurfi að fá völd til að taka ákvarðanir sem gildi líka um Ísland og Noreg, sem standa utan ESB. Þessi staða er uppi varðandi viðskiptakerfi með losunarheimildir, um lyf til barnalækninga og, það sem mestu skiptir, um nýjar stofnanir á sviði fjármálastöðugleika og bankaeftirlits. Sú öfugsnúna staða er því uppi nú að Ísland – sem varð fyrir miklu höggi vegna skorts á sameiginlegu regluverki um fjármálastöðugleika og bankaeftirlit – getur ekki leitt í lög hér þær úrbætur á því sviði sem Evrópusambandsríkin hafa þegar tekið ákvarðanir um. Við erum því enn sem fyrr bundin af því að hafa í heiðri fullt frelsi til fjármagnsflutninga, en höfum ekki stjórnskipulegar heimildir til að takmarka það frelsi og regla fjármálakerfið með sama hætti og hin löndin á hinu evrópska efnahagssvæði. Samningurinn leyfir okkur ekki líklega ekki heldur séríslenskar haftalausnir, sem eru að öðrum kosti nauðsynlegar fyrir farsæla sambúð fjármagnsfrelsis og fljótandi veikburða gjaldmiðils. Fátt sýnir betur hversu öfugsnúin staða Íslands er orðin innan umgjarðar EES-samningsins.

Af öllu þessu leiðir að EES-samningurinn er okkur umtalsvert vandamál og ekki er einfalt að finna leiðir til að lifa við hann að óbreyttu. Við munum eiga í erfiðleikum við afnám hafta og tæpast hafa það svigrúm til að setja hömlur sem Seðlabankinn telur nauðsynlegt til að reka sjálfstæðan gjaldmiðil í umgjörð frjálsra fjármagnshreyfinga. Við höfum ekki stjórnskipulegar heimildir til að láta fjölþjóðlegar eftirlitsstofnanir fá fullnægjandi valdheimildir til fjármálaeftirlits og varúðar, sem gætu sett fjármagnsfrelsinu alþjóðlega viðurkenndar hömlur. EES-samningurinn býður því að óbreyttu ekki upp á annað en að endurtaka tilraunina um samspil minnsta fljótandi gjaldmiðils í heimi og óhefts fjármagnsflæðis. Hún tókst ekki vel.

Glerperlur, eldvatn og logandi bál?

En er einhvers betra að vænta af fullri aðild að ESB? Er ekki Evrópuríkin í miklum vanda?

Fjármálakreppan frá 2008 hefur nú þróast í torleysta skuldakreppu. Heimili á Vesturlöndum hafa um áratugi gengið á eigið fé og aukið skuldsetningu sína. Þetta á við um Bandaríkin, Bretland, ýmis evruríki og svo Ísland, en í misríku mæli. Skuldsetning í atvinnulífi hefur líka aukist í kjölfar sífellt fjölbreyttara framboðs á fjármálaþjónustu. Sama má svo segja um hið opinbera – ríki og sveitarfélög – í ýmsum ríkjum. Evran greiddi að mörgu leyti fyrir þessari þróun, því með henni fengu flest aðildarríkin og bankar þeirra aðgang að lánsfé á mun lægri kjörum en þeim hefðu ella boðist. Fleiri og fleiri gátu því tekið hærri og hærri lán. En það þurfti ekki evruna til – þar er reynsla Íslendinga ólygnust. Bætt lánshæfismat íslenska ríkisins nýttist íslenskum bönkum til útþenslu með sama hætti. 

Grunnurinn að vandanum er því skuldsetning heimila, fyrirtækja og opinberra aðila. Þeim mun fleiri þættir efnahagslífsins sem eru skuldsettir upp í rjáfur, því minna svigrúm er til að takast á við óvænt áföll. Þess vegna er enginn eðlismunur á orsökum vanda evruríkjanna Spánar, Írlands og Portúgals og svo Lettlands, Ungverjalands og Bretlands. Eini munurinn felst í því hversu víðtæk skuldsetningin var og hvort það voru ríkið sjálft, sveitarfélögin, bankakerfið, heimilin eða fyrirtækin sem stofnuðu til skuldanna. Sú staðreynd að reglur innri markaðarins byggja á því að hvert ríki um sig styðji við og regli eigið fjármálakerfi veldur því hins vegar að vandi banka verður fljótt vandi þjóða á hinum evrópska markaði. Þar gildir einu hvort við eigum í hlut eða evruríki. Spurningin er bara hversu vel eða illa gengur að komast hjá því að bankakerfi í vanda verði viðkomandi þjóð að fótakefli.

Þegar harðnar á dalnum hætta bankar að geta lánað og lánsfé verður torfengnara og hækkar í verði. Bankar vilja að lán séu greidd upp eða vextir hækki.

Afleiðingarnar verða ólíkar eftir því hvaða land á í hlut, en þær eru alltaf erfiðar. Ísland byggði allt sitt á erlendum lánum. Fyrir vikið komu áhrif versnandi skilyrða að fullu og öllu fram á gjaldeyrismarkaðnum. Erlendir bankar heimtuðu að íslenskir skuldarar borguðu lánin sín. Spákaupmenn vildu líka breyta krónunum sínum í evrur. Enginn gjaldeyrir var til og krónan hrundi.

Evran veldur því að kreppan hefur annars konar áhrif á evruríkin. Innan evrusvæðisins er ekki um gjaldeyrisyfirfærslur að ræða. Þar koma afleiðingar fram á skuldabréfamarkaði, þar sem áhættuálag á skuldug ríki og skulduga banka eykst. Ríkin þurfa að verja meira fé til að styðja við fjármálakerfi sín. Hóflegar ríkisskuldir geta fljótt orðið algerlega óviðráðanlegar þegar vaxtastigið fer upp úr öllu valdi.Vandinn er sá sami, en afleiðingarnar verða aðrar.

Hið öfugsnúna er að við núverandi aðstæður ýkir evran aðstöðumun aðildarríkjanna. Lántökukostnaður Þjóðverja hefur þannig lækkað stórlega á meðan kostnaður annarra hefur hækkað. Spánverjar og Ítalir hafa undanfarið þurft að borga 6-7% vexti á 10 ára skuldabréfum, en Þjóðverjar borga nú rétt rúmt prósent og njóta neikvæðra vaxta á bréfum til tveggja ára - fjárfestar borga semsé fyrir að fá að lána Þjóðverjum peninga til skamms tíma. Fjármögnunarkjör þessara þjóða voru hins vegar áþekk fyrir 2008. Þjóðverjar hafa þannig sparað sér tugi milljarða evra í vaxtagjöld á þessu ári einu, á meðan að öll önnur lönd þurfa að skuldsetja sig - og almenning - til að standa skil á vaxtagreiðslum, sem oftar en ekki renna á endanum til þýskra banka.

Þetta ójafnvægi  hefur sífellt víðtækari áhrif. Vaxtastig það sem ríkið borgar er það gólf sem vaxtastig allra annarra miðast við. Þannig mun vaxtakostnaður ítalskra og spænskra fyrirtækja rjúka upp að óbreyttu þegar þarlendir bankar munu hækka vexti. Augljóst virðist því að þessi staða muni valda vaxandi misvægi á evrusvæðinu, sem birtist í lakari samkeppnisstöðu banka í ríkjum í erfiðleikum, hættu á fjármagnsflótta og mismun í fjármögnunarkjörum ríkja sem er langt umfram það sem eðlilegt getur talist.

Evran hafði þannig áhrif til að auka skuldsetningu sumra evruríkja og hún ýtir – við núverandi aðstæður – undir misvægi milli aðildarríkja, en hún er sem slík hvorki orsök vanda allra evruríkja né hindrun í vegi skynsamlegra lausna á vandanum. Ekki má gleyma því að evran kemur líka í veg fyrir að menn geti beitt hefðbundnum lausnum sem ríki hafa gripið til í alvarlegum fjármálakreppum hingað til – stórfelldum gengisfellingum, höftum á fjármagnsútstreymi og einangrunarstefnu í milliríkjaviðskiptum. Það er auðvelt að mæla með hinni „íslensku leið“ stórfelldrar gengisfellingar – sem felur í sér launalækkun um tugi prósenta – en við vitum líka að slík leið skapar engin verðmæti heldur einfaldlega flytur þau til. Ef allir færu hana, væru allir á sama stað.

Ef evran á að lifa, þurfa aðildarríkin til að takast á við hið raunverulega misvægi sem er að baki kreppunni og þá veikleika sem þegar hafa komið fram í evrusamstarfinu. Eðlislíkt misvægi olli hér bankahruni og haftabúskap og við stöndum ráðalaus gagnvart því. Þetta misvægi ógnar ekki bara stöðugleika evrusamstarfsins heldur líka umgjörð frjálsra fjármagnshreyfinga á hinum samevrópska markaði. Ef ekki tekst vel til kann innri markaðurinn og sá stöðugleiki sem honum hefur fylgt um áratugi að vera í hættu. Það er jafn mikið áhyggjuefni fyrir okkur og önnur Evrópuríki.

Samspil frjálsra fjármagnshreyfinga og sjálfstæðs, veikburða gjaldmiðils var einn stærsti sveifluvaldur hér á landi í aðdraganda hruns og olli á endanum hruni gjaldeyrismarkaðar og upptöku gjaldeyrishafta. Flest allir viðurkenna kostnaðinn við sjálfstæðan gjaldmiðil fyrir svo lítið ríki, þótt sumir telji að það svigrúm sem er til að fella gengi vegi upp á móti þeim kostnaði að hluta eða öllu leyti. Heildarmyndin í því efni er langt í frá einföld. Hlutskipti Íra og Grikkja er vissulega annað en okkar að því leyti að þeir hafa ekki getað lækkað laun með gengisfellingu og atvinnuleysi hefur líklega orðið meira en það hefði orðið ef þessi ríki hefðu átt þess kost að fella gengi. En á móti vegur að íbúðalán almennings í þessum löndum hafa ekki hækkað vegna gengisfalls og þorri fyrirtækja í þessum löndum hefur ekki lent í öngstræti vegna lána sem tekin voru í erlendum gjaldmiðli. Kaupmáttur hefur ekki dregist eins mikið saman og hjá almenningi hér á landi, því neysluvara í þessum löndum er í ríkum mæli framleidd á evrusvæðinu, þótt innflutt sé. Og það sem mest er um vert: Bæði ríkin hafa getað tekist á við vandamál sín án þess að setja á gjaldeyrishöft. Það vekur athygli að þrátt fyrir mikinn vanda Grikkja skuli almenningur í Grikklandi halda dauðahaldi í evruna. Enginn virðist vilja hið íslenska ástand: Stórfellda gengisfellingu, upptöku drökmunnar og gjaldeyrishöft.

Bætt regluverk í Evrópu – Tíminn vinnur með okkur

Lausn á vanda evrusvæðisins þarf að minnsta kosti að fela í sér sameiginlegt regluverk um fjármálakerfið og aukinn aga í ríkisútgjöldum aðildarríkjanna. Fyrir hálfu ári var öll áhersla á meiri aga í ríkisútgjöldum evruríkjanna. Síðustu mánuði hefur orðið mun ljósara að um raunverulega skuldakreppu er að ræða, en ekki kreppu sem stafar fyrst og fremst af ábyrgðarleysi í ríkisrekstri.

Nýtt regluverk um fjármálakerfið (sem nefnt hefur verið upp á frönsku „union bancaire“), fæli í sér samevrópskt bankaeftirlit, sameiginlegan lánveitanda til þrautavara og sameiginlegt innstæðutryggingakerfi sem jafnar aðstöðumun innan svæðisins. Slík umgjörð hefði haft mikil áhrif til að forða Spánverjum úr þeim vanda sem þeir standa nú frammi fyrir og hefði skipt sköpum fyrir okkur og Íra ef við hefðum notið hennar árið 2008. Hún er líka forsenda þess að hægt sé að sjá fyrir sér að íslenskt fjármálakerfi geti aftur nýtt sér frjálsar fjármagnshreyfingar á sameiginlegum evrópskum markaði. Með henni væri hægt að vinna gegn því misvægi sem birtist nú í ólíkum fjármögnunarkjörum banka eftir því hver bakhjarlinn er og misjafnri tiltrú á innstæðutryggingar. Árangurinn mun hins vegar líka vera í réttu samhengi við það hversu miklum fjármunum ríki evrusamstarfsins eru tilbúin að heita til þessa verkefnis.

Umgjörð um aukinn aga í ríkisrekstri aðildarríkjanna hefur þegar verið útfærð að miklu leyti. Hún myndi torvelda stjórnlausan hallarekstur og gera ríkjum erfiðara fyrir að fela útgjöld og fegra ríkisreikninginn. Slík umgjörð myndi hjálpa okkur mjög. Það er hollt að muna að efnahagsvandi á Íslandi undanfarna áratugi hefur nær ávallt verið vegna þess að stjórnvöld hafa misst stjórn á eftirspurnarhlið hagkerfisins, en ekki vegna ytri áfalla. Eina undantekningin frá því er kreppan sem fylgdi hruni síldarstofnsins 1968. Við höfum ekki tamið okkur þann hagstjórnaraga sem þurft hefði til að gera okkur kleift að takast á við þensluáhrif stórframkvæmda eða aflaaukningu. Það er því líklega erfitt að finna land sem myndi hafa meiri augljósan hag af því að undirgangast skuldbindingu um bætta hagstjórn og aukinn aga í ríkisrekstri en Ísland.

Ef þessar útbætur takast vel bendir allt til að aðild að ESB og upptaka evru sé heppilegasti kosturinn fyrir Ísland. Ef Ísland verður hluti af evrusamstarfinu getum við að mörgu leyti tekist betur á við þá áhættu sem felst í frjálsum fjármagnsflutningum, enda ekki lengur hægt að spila á gengi krónunnar í viðskiptum á markaði. Reynslan af skuldakreppunni sýnir þó að kálið er ekki allt sopið þó í ausuna sé komið og að útflæðisvandi getur birst á skuldabréfamarkaði þótt engum gjaldeyrismarkaði sé til að dreifa. Mikilvægt er að meta þá áhættu rétt og hvernig hægt er að bregðast við henni með skynsamlegri hagstjórnarstefnu.

EES-samningurinn er í öngstræti og mun ekki að óbreyttu gera okkur kleift að afnema höft og láta íslenskt fjármálakerfi búa við hliðstæðan rekstraraga og fjármálakerfi í öðrum ríkjum á innri markaðnum. Sú staðreynd ein gerir það óhjákvæmilegt að við höldum áfram aðildarferlinu og tökum þátt í því úrbótaferli á evrusamstarfinu sem framundan er. Það ferli mun taka í það minnsta fram til ársloka 2014 og þá fyrst verður að fullu ljóst hver umgjörð evrusamstarfsins verður. Það hentar okkur vel. Við þurfum að sjá hvernig okkur gangi í að leysa aflandskrónuvandann og fikra okkur þannig út úr gjaldeyrishöftunum. Það er líka gott fyrir okkur að hafa tímann fyrir okkur í samningum við ESB um mikilvæga samningskafla sem ekki er byrjað að semja um, auk þess að sterk rök mæla með því að ekki sé gott að semja um sjávarútvegsmál með makríldeiluna óleysta. Við þurfum á tímanum að halda.

12. 11 2012

 

Þótt okkur greini á um margt er ekki hægt að neita því að umtalsverður árangur hefur náðst í ríkisrekstri og endurreisn efnahagslífsins frá Hruni. Ríkisstjórnin hefur réttilega fengið hrós fyrir þann árangur, þótt menn hafi misjafnar skoðanir á því hversu mikinn þátt hún eigi í árangrinum og hvort hægt hefði verið að gera betur í einstökum þáttum.

Það er mikilvægt að muna að verkefni okkar í ríkisstjórninni var sama eðlis og verkefni heimila, fyrirtækja og sveitarfélaga eftir Hrun. Fall krónunnar og glötuð framleiðslugeta hefur valdið því að laun hafa lækkað, skuldir hækkað og kaupmáttur minnkað. Það er veruleiki þorra heimila landsins. Sveitarfélög hafa þurft að takast á við gríðarlega skuldaaukningu og minnkandi tekjur af sömu ástæðum. Verkefni ríkisins var sama eðlis. Tekjur ríkisins hrundu vegna falls fjölmargra fyrirtækja og minnkandi atvinnu, á sama tíma og útgjöld til atvinnuleysisbóta og annarra velferðarverkefna ruku upp. Endurreisn fjármálakerfisins kostaði líka sitt, þótt við höfum farið frekar vel út úr þeim kostnaðarlið í alþjóðlegum samanburði.

Þessi árangur hefur ekki komið af sjálfu sér. Efnahagsstefna sú sem núverandi ríkisstjórn hefur fylgt og mótuð var í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn strax eftir hrun, hefur verið forsenda þessa árangurs.

Varðstaða um velferð og mannauð

Samfylkingin ber lykilábyrgð á þessari stefnu, jafnt í fyrri ríkisstjórn og þeirri sem nú situr. Stefnan fólst í blandaðri leið skattahækkana, tímabundins hallarekstrar og niðurskurðar í ríkisútgjöldum, til að koma á jöfnuði í ríkisrekstri og leggja grunn að heilbrigðri endurreisn. Samvinnan við AGS gerði okkur kleift að skera minna niður en ella og fresta því lengur. Við nýttum okkur þannig samvinnuna við AGS til að milda höggið af Hruninu.

Í þeim tveimur ráðuneytum sem ég bar ábyrgð á um hríð lagði ég allt kapp á tvennt, sem skipti miklu máli fyrir heildarárangurinn. Í annan stað lækkun skulda heimila og fyrirtækja án gjaldþrotameðferðar og hins vegar lögðum við í mikið átak og mikil útgjöld til að verja mannauð okkar í þessum erfiðu aðstæðum og koma í veg fyrir neikvæðar afleiðingar langtímaatvinnuleysis.

Um allan hinn vestræna heim glíma ríki nú við afleiðingar fjármálakreppunnar og reyna að laga útgjöld að tekjum. Í mörgum löndum hefur ríkið axlað svo miklar byrðar vegna fjármálakerfisins að rekstur ríkisins til lengri tíma er í hættu. Tvær leiðir eru einkum boðaðar til lausnar: Í Bretlandi hafa stjórnvöld boðað mikinn niðurskurð ríkisútgjalda án nokkra teljandi stuðningsaðgerða. Víða annars staðar hafna stjórnvöld lækkun ríkisútgjalda og vilja halda áfram hallarekstri og skuldasöfnun til að standa vörð um samneysluna. Þeir fyrri veifa kenningum Hayeks og síðari hópurinn vitnar í hugmyndir Keynes frá fjórða áratugnum. En eins og oft vill verða með ósveigjanleg kenningakerfi dugar hvorug leiðin til lausnar á þeirri erfiðu stöðu sem uppi er.

Breska leiðin lækkar vissulega útgjöld, en hún hefur margvísleg neikvæð áhrif. Niðurskurðurinn beinist í ríkum mæli að millifærslum úr opinberum sjóðum – greiðslum til atvinnulausra, lífeyrisþega og barnafólks. Af því leiðir að allir þessir hópar hafa minna milli handanna og halda að sér höndum í neyslu. Fyrir vikið dregst hagkerfið saman meira og fyrr en ella. Keynes var fyrstur til að greina þennan ókost réttilega. Bresk stjórnvöld fara nú þessa leið, þrátt fyrir ókosti hennar, vegna þess að hægri menn hafa þar það pólitíska markmið að brjóta niður þá umgjörð félagslegrar samstöðu sem vinstri stjórn Verkamannaflokksins tókst að byggja upp allt frá 1997. Stefna sem þessi eykur á vandann og hefur þau hörmulegu hliðaráhrif að auka misskiptingu og fækka þeim tækifærum sem við þurfum öll á að halda.

Leið hallareksturs er hins vegar enginn raunverulegur valkostur við niðurskurð við núverandi aðstæður. Hún getur verið skynsamleg til skamms tíma og getur þá forðað því að kreppa dýpki um of, en við getum aldrei komist undan þeim gömlu sannindum að enginn getur eytt um efni fram. Forsenda þess að þessi leið virki er að skuldabréfamarkaðir séu í jafnvægi og ríki séu lítið skuldsett áður en til erfiðleika kemur og ráði því vel við hallarekstur um nokkurt skeið. Sú er ekki staðan í dag. Mörg Evrópuríki eru nú komin í öngstræti vegna þess að þau hafa forðast að taka á sóun í ríkisrekstri og treyst á að þau gætu fjármagnað hallarekstur á meðan á kreppunni stæði. Skuldsetning þeirra er hins vegar orðin það mikil að vaxandi efasemdir eru meðal fjárfesta um sjálfbærni skuldastöðunnar. Við þær aðstæður versna fjármögnunarkjör ríkisins hratt og skuldastaðan verður fljótt óviðráðanleg. Það er allt annað mál að standa í skilum með lán á 3% vöxtum en 6%. Þessi ríki standa núna frammi fyrir því að þurfa að skera meira niður en þau hefðu ella þurft, til að koma ríkisrekstrinum í horf. Fjármálakreppa ársins 2008 hefur þróast í alvarlega skuldakreppu, sem gerir ósjálfbæran hallarekstur ómögulegan. Keynes myndi varla ráðleggja nokkru ríki í hættu vegna ofskuldsetningar að auka á hana, væri hann á lífi í dag.

Skuldakreppa – fjármálafyrirtæki verða að afskrifa

En hvað er þá til ráða? Svarið er að við getum ekki horft framhjá þeirri skuldsetningu sem er að sliga hið vestræna hagkerfi. Það er óhjákvæmilegt að taka á skuldastöðu fyrirtækja og heimila. Um alla Evrópu blasir við að allur kraftur verði að óbreyttu soginn úr efnahagslífinu, því fyrirtæki og heimili eru læst í skuldaviðjum. Ef ríkið getur ekki beitt hallarekstri til að auka kaupmátt fólks með hækkun bótagreiðslna eða aukið umsvif í hagkerfinu með því að ráðast í nýjar framkvæmdir, þarf að leita annarra leiða til að koma hagkerfinu á hreyfingu. Þá liggur beinast við að þvinga fjármálakerfið til að horfast í augu við að kröfur þess á fyrirtæki og heimili eru óraunsæjar og þurfa lækkunar við.

Hin íslenska leið er sérstök að því leyti að skuldaúrvinnsla var lykilþáttur í árangri okkar og skuldastaða heimila og fyrirtækja var færð að greiðslugetu og raunvirði rekstrar og eigna. Við okkur blasti hryggðarmynd ofskuldsetningar eftir hrun: Þorri fyrirtækja landsins var með neikvætt eigið fé og fjöldi heimila með lán langt umfram virði eigna. Ef ekkert hefði verið að gert hefði blasað við efnahagsleg stöðnun: Ekkert fyrirtæki hefði getað ráðið fólk eða ráðist í ný verkefni. Þau hefðu öll verið eins og svefngenglar í þjónustu banka. Sama hefði átt við um heimilin.

Nú má sjá árangurinn af áherslu okkar í lækkandi skuldum heimilanna og því að kúfur í gjaldþrotahrinu fyrirtækja virðist að baki. Mikill fjöldi fyrirtækja fór í þrot, en það voru að stærstum hluta eignarhaldsfyrirtæki án eiginlegs rekstrar eða bólufyrirtæki með fallnar forsendur. Það var engin sérstök ástæða til að gráta að verslunarfyrirtæki með lúxusvörur, svo dæmi sé tekið, færu í þrot. Við því var einfaldlega ekkert að gera. Eftirspurnin var horfin.  Hitt skipti meira máli að koma í veg fyrir að fyrirtæki með heilbrigðar rekstrarforsendur þyrftu að fara í þrot. Þess vegna réðumst við í stórátak til að lækka skuldir heimila og fyrirtækja, án þess að tugþúsundir einstaklinga og fyrirtækja þyrftu að fara hina hefðbundnu gjaldþrotaleið. Nú þegar eru þúsundir einstaklinga búnar að fá skuldir lækkaðar að greiðslugetu og enn bíður fjöldi úrlausnar hjá umboðsmanni skuldara. Þegar er búið að lækka skuldastöðu þúsunda rekstrarhæfra fyrirtækja og gera þeim þannig kleift að halda áfram rekstri. Ef þetta hefði ekki verið gert hefði afleiðingin orðið enn meira atvinnuleysi, enn dýpri kreppa, enn fleiri gjaldþrot og langvinnt samfélagstjón.

Við óttuðumst í upphafi niðursveiflunnar að langtímaatvinnuleysi myndi valda þeim sem fyrir því yrðu miklum erfiðleikum og skerða starfshæfni þeirra til langframa. Reynslan af kreppu Finna í upphafi níunda áratugarins gaf til kynna að 90% langtímaatvinnulausra ættu ekki afturkvæmt á vinnumarkað. Þeirra biði líf án starfsgetu á örorkubótum. Ungt fólk án menntunar væri í sérstakri hættu. Við beittum því öllu afli til að fjárfesta í fólki og draga úr líkunum á því að við myndum lenda í sömu stöðu. Sérstakt ánægjuefni er því sú fækkun í hópi langtímaatvinnulausra sem sést í nýjustu tölum, sem er ekki hægt að skýra með því að þeir hafi horfið af vinnumarkaði í nám eða glatað starfshæfni.

Allar þær aðgerðir sem við höfum staðið fyrir til að auka menntunarstig atvinnulauss fólks eru að skila tvíþættum árangri: Þær draga úr framboði á vinnumarkaði á tímum þegar offramboð er af vinnuafli án starfsmenntunar og skila betra samfélagi, virðismeiri störfum og ánægðari einstaklingum þegar upp er staðið. Allar þjóðir með skýra sýn um samkeppnishæfni sína freista þess að nýta erfiðleikatíma á vinnumarkaði til að bæta starfsmenntun þeirra sem missa vinnuna og leggja þannig grunn fyrir betri framtíð. Við höfum fjárfest í fólki og munum uppskera árangur af því.

Ríkisrekstur á leið til jafnvægis

Markmið aðgerða okkar var að nauðsynlegt aðhald í ríkisrekstri til lengri tíma dragi sem minnst úr krafti efnahagslífsins. Við nýttum okkur leið hallarekstursins í upphafi efnahagsáætlunar okkar. Ríkissjóðshallinn var á þriðja hundrað milljarða árið 2008, en stærstur hluti niðurskurðar ríkisútgjalda kom ekki til fyrr en á fjárlögum ársins 2011. Þannig gátum við – með aðstoð og lánafyrirgreiðslu AGS – haldið ríkisútgjöldum háum lengur en ella. Það olli því að kreppan varð ekki eins djúp hér og hún hefði ella verið og atvinnuleysið komst aldrei í þær hæðir sem spáð var í upphafi. Millifærslukerfið – greiðslur til atvinnulausra, lífeyrisþega og barnafólks – hélst lítt skert og gegndi þannig hlutverki til sjálfvirkrar sveiflujöfnunar. Fólk hafði meira milli handanna fyrst eftir Hrun en ef strax hefði verið ráðist í niðurskurð. Fyrir vikið dróst hagkerfið ekki eins mikið saman og ella hefði verið.

Við hækkuðum svo skatta, því það var óhjákvæmilegt. Í efnahagsóstjórn góðærisins frá  2003-2007 hafði verið gengið svo langt í skattalækkunum að ríkissjóður þoldi ekki eitt einasta venjulegt ár. Stöðug uppsveifla var forsenda þess að skattaumhverfi Sjálfstæðisflokksins gengi upp og ljóst var fyrir lok kjörtímabilsins árið 2007 að ríkissjóður yrði rekinn með halla um leið og stóriðjuframkvæmdum við Kárahnjúka lyki. Það er erfitt að finna augljósari falleinkunn fyrir efnahagsstjórn Sjálfstæðis – og Framsóknarflokksins. Það var engin leið að reka norrænt velferðarkerfi með þeim skatttekjum sem til ráðstöfunar voru. Þess vegna var óhjákvæmilegt að hækka skatta, en þeir voru hækkaðir meira á þá sem voru betur í færum til að borga þá.

Við tókum líka á í ríkisrekstrinum, en hlífðum velferðarþjónustunni við niðurskurði eins og kostur var. Verkefnið var alltaf það að freista þess að veita jafn góða þjónustu með minni tilkostnaði. Þessi forgangsröðun sást meðal annars í því að á árunum 2009 og 2010 var algengt að uppsafnaður sparnaður í almennri stjórnsýslu væri 17-19%. Á sama tíma voru fjárveitingar til þjónustu við fatlaða einungis skornar niður um 2,6%. Óhjákvæmilegt var að draga úr útgjöldum til almannatrygginga. Þar var líka forgangsraðað og sparnaði náð með því að lækka greiðslur til þeirra sem mest höfðu milli handanna en grunnfjárhæð bóta ekki snert. Með sama hætti voru hámarksgreiðslur til foreldra í fæðingarorlofi lækkaðar, en ekki snert að neinu leyti við tímalengd fæðingarorlofs eða greiðslum til tekjulægri foreldra. Þessi forgangsröðun var auðvitað erfið, en hún er skýr vitnisburður um að það skiptir máli hverjir stjórna.

Samvinna um efnahagslega endurreisn

Þessi blandaða leið kallaði á samvinnu ríkisvalds, fjármálafyrirtækja, atvinnulífs, almennings og alþjóðlegra stofnana og hún skilaði miklum árangri. En næstu skref þarf að stíga af varúð og yfirvegun. Okkur er hollt að muna að verstu ákvarðanirnar sem áttu þátt í að skapa Hrunið voru teknar mörgum árum fyrr – flestar á árunum 2002-2003. Skrefin sem við tökum nú þurfa að treysta árangurinn í sessi, hjálpa okkur við að losna úr efnahagslegri einangrun og fjölga störfum. Við getum ekki haldið áfram að kallast á og hlusta ekki hvert á annað. Ríkið verður að styðja við verðmætasköpun í atvinnulífinu og gera sitt til að auka traust í frjálsum viðskiptum með skýrum leikreglum. Ríkisstjórn jafnaðarfólks verður að hafa sjálfstraust til samvinnu og samtals við hagsmunasamtök atvinnulífs og verkalýðshreyfingu til að finna leiðina fram á við.

Aðhald í ríkisrekstri verður auðvitað áfram nauðsynlegt. Við, sem viljum búa í réttlátu samfélagi þar sem ríkið tryggir jöfn tækifæri og félagslegt réttlæti, berum ábyrgð á því að reka ríkið með eins hagkvæmum hætti og kostur er. Ef við gerum það ekki, færum við andstæðingunum mikilvæg vopn til að grafa undan samneyslunni og veikja velferðarþjónustuna. Innan Sjálfstæðisflokksins eru einstrengingsleg öfl sem vilja fara þá leið. Sjálfstæðisflokkurinn gæti enn einu sinni elt ranghugmyndir breskra íhaldsmanna, rétt eins og þegar þangað voru sóttar fyrirmyndir að markaðsvæðingu án samfélagslegrar ábyrgðar á fyrri tíð.

Við sem viljum verja félagslegt réttlæti og skynsamleg útgjöld til velferðarmála getum því ekki talað eins og að við höfum nú höndlað hinn eilífa sannleik og að útgjöld til ríkisrekstrarins og umgjörð hans þurfi ekki framar endurmats við. Þvert á móti þurfum við að nýta öll tækifæri til að fara betur með opinbert fé og fá meiri og betri þjónustu fyrir minna verð. Þar eru mörg tækifæri. Sem dæmi má nefna að notendur kalla eftir sífellt meira frelsi í að ákveða hvernig þjónustu þeir fá, frá hverjum og hvenær. Hagsmunasamtök fatlaðra hafa gengið fram fyrir skjöldu í þessu efni. Aldraðir munu líka vilja ráða meiru um þá þjónustu sem þeir þurfa á að halda. Í slíkum breytingum felast ný tækifæri til að gera hvort tveggja í senn: Auka vald fólks yfir eigin lífi og draga úr kostnaði við umgjörðina við þjónustuna, á sama tíma og þjónustan er bætt. Með þessum hætti þurfum við að að halda áfram að endurmeta allan ríkisreksturinn, til að tryggja að þjónustan sé ávallt veitt með eins hagkvæmum og skynsamlegum hætti og kostur er.

Aðgerðir okkar höfðu þau áhrif að jafna niður tjóninu af Hruninu á þann veg að þeir tekjulægstu báru minnstar byrðar. Fyrir vikið höfum við náð árangri til að draga úr misskiptingu. En við megum ekki gleyma að gengishrunið, hækkandi skattar og afborganir hafa reynt mjög á meðaltekjufólkið. Það er algengur misskilningur að minnkandi skattbyrði auðmanna skapi störf og velmegun. Þvert á móti eru það meðaltekjuhópar sem allt hagkerfið byggir á. Það er mikilvægt að auka fjárhagslegt svigrúm meðaltekjufólks svo fólk geti áfram keypt, fjárfest og borgað skatta. Við verðum líka að tryggja að aukin þekking skili ávinningi í launum og að skattheimta meðaltekjuhópanna sé hófleg.   

Vöxtur okkar hvílir á viðkvæmum grunni. Afgangur af viðskiptum við útlönd frá Hruni hefur ekki byggst á aukningu á útflutningi okkar heldur á minni innflutningi. Þegar hægði á hagkerfinu drógum við úr kaupum á erlendri neysluvöru og við hættum að kaupa erlend tæki og tól í sama mæli og áður. Þegar hagkerfið kemst á fullt skrið má búast við aukningu á innflutningi. Þá skiptir miklu að útflutningur okkar aukist, ef áfram á að vera afgangur af viðskiptum við útlönd. Helstu útflutningsvörur okkar eru sjávarafurðir og ál. Magn þeirra verður ekki aukið svo auðveldlega á einni nóttu. Við veiðum ekki meira en ráðgjöf vísindamanna leyfir og það tekur langan tíma að reisa ný stóriðjuver og erfitt er orðið að finna orku sem hentar til slíkrar stóruppbyggingar. Ferðaþjónustan skilar miklu, en það eru líka takmörk fyrir því hversu hratt sú grein getur vaxið. Því skiptir miklu að við reisum traustari stoðir undir  fjölbreyttari útflutningsgreinar. Fleiri þurfa að geta flutt út. Við getum ekki öll farið að framleiða ál, en við getum flutt út þjónustu og þekkingu. Efnahagslegur stöðugleiki, með lágum vöxtum og stöðugu gengi, er forsenda þess að okkur takist það verkefni.

En stöðugleika er vandasamt að ná, þegar íslenskt efnahagslíf er í viðjum hafta, hik er á erlendri fjárfestingu og lánsfé verður landinu og atvinnulífi dýrt og torsótt um mörg ókomin ár. Þá skiptir mestu að reisa sjálfbæra umgjörð um íslenskt efnahagslíf. Við erum ung þjóð og munum þurfa á erlendu fé að halda um ókomna tíð. Við höfum bitra reynslu af því að byggja uppbyggingu á erlendu lánsfé. Því skiptir mestu að hafa regluverk erlendra fjárfestinga einfalt og skýrt, til að laða að ný fyrirtæki með ný og verðmæt störf. Við verðum líka að búa okkur undir að nýta betur landkosti og hæfileika okkar sjálfra, auka á nýsköpun í hverri grein og fjölga þannig tækifærum til verðmætasköpunar.

Í þessu samhengi er mikilvægt að horfa til þess hvernig grannar okkar, Norðmenn og Finnar, tóku á veikleikum í efnahagsþróun sinni eftir kreppuna í upphafi tíunda áratugarins. Norðmenn reistu skynsamlega umgjörð um nýtingu náttúruauðlinda sinna og veittu einkafyrirtækjum aðkomu að þeirri nýtingu undir opinberu forræði og þannig að arður af nýtingu félli til samfélagsins. Ávinningurinn er ekki síst sá að draga úr áhættu ríkisins af atvinnurekstri og nýta betur það fé sem er bundið í opinberu eignarhaldi en nýtist að óbreyttu illa til verðmætasköpunar. Við þurfum líka að nýta okkur betur afl okkar ágætu lífeyrissjóða og finna þeim fjárfestingartækifæri í arðsamri uppbyggingu innviða. Af hverju á ríkið að flytja eigið fé frá heilbrigðiskerfinu til að byggja flugstöðvar eða skuldsetja almenning til að byggja rafmagnslínur til einkafyrirtækja? Af hverju geta ekki lífeyrissjóðir landsmanna fengið þessi verkefni?

Finnar nýttu sér aðgang að evrópskum mörkuðum til að byggja upp nýja útflutningsatvinnuvegi, þar sem höfuðáhersla var lögð á sköpunarkraft og þekkingu. Við höfum fjárfest í þekkingu ungs atvinnulauss fólks og þannig forðast stærstu mistök Finna, sem misstu heila kynslóð af vinnumarkaði. En ungt fólk, með þekkingu og burði, sem vill hasla sér völl í skapandi greinum og tæknigreinum þarf pláss. Lítil skapandi fyrirtæki þurfa ekki skjall og innblásnar lofræður, heldur pláss til að vaxa og stækka. Ríkið getur stutt við slíka þróun með með því að haga innkaupastefnu sinni þannig að upplýsingatækni, hönnun og ýmis stoðþjónusta sé aðkeypt í vaxandi mæli. Af hverju rekur ríkið fjölmörg mötuneyti í miðbænum, mitt í þyrpingu helstu matsölustaða landsins sem glíma við þann stærsta vanda að lifa af vetrarmánuðina? Öflugar útflutningsgreinar verða ekki til nema við styðjum við þær hér heimafyrir og gefum þeim tækifæri til að verða til. Og þær þurfa markaðsaðgang og heilbrigt samkeppnisumhverfi. Þannig eigum við ónýtt gríðarleg sóknarfæri í landbúnaði, sem aldrei verða að veruleika nema við fáum hindrunarlausan markaðsaðgang að Evrópumarkaði og ögrandi samkeppni á heimamarkaði.

Á sóknarstefnu af þessum toga hangir margt. Fyrirsjáanlegt er að vaxandi útgjaldaþrýstingur verður á næstu áratugum, eftir því sem þjóðin eldist, enda enn ekki búið að koma öllum lífeyrisskuldbindingum ríkisins í það horf að við eigum fyrir þeim. Við þurfum að létta á þeim þrýstingi. Ef við náum að að sýna afgang af rekstri ríkisins um mörg ókomin ár dafnar atvinnulíf í landinu, vaxtastig lækkar og dregur úr skattbyrði. Við drögum úr útflæðisáhættu fjár frá landinu, sem er nauðsynleg forsenda hvort heldur afnáms gjaldeyrishafta eða farsællar upptöku sameiginlegs gjaldmiðils. Erlend fjárfesting færir okkur nýja þekkingu og styður við þessa heildarmynd. Við drögum úr erlendri lánsfjárþörf og þar með vaxtagreiðslum úr landi. Aukinn kraftur í fjölbreyttari útflutningsstarfsemi fjölgar þeim stoðum sem hagkerfið hvílir á. Við þurfum að koma íslensku efnahagslífi aftur í samband við hið alþjóðlega efnahagsumhverfi og nýta aðgang að mikilvægum mörkuðum til að fjölga tækifærum. 

12. 11 2012

 

„When times are tough and people are frustrated and angry and hurting and uncertain, the politics of constant conflict may be good. But what is good politics does not necessarily work in the real world. What works in the real world is co-operation.“

(Bill Clinton, 5. september 2012)

Ísland stendur á tímamótum. Að baki er erfið glíma við Hrunið - fall fjármálakerfis, hrun gjaldmiðils,  ríkissjóðshalla og fjöldaatvinnuleysi. Framtíðin er óviss. Árangur í fortíð er til lítils ef hann nýtist ekki til að vísa leiðina fram á við.

Ísland verður að festa í sessi efnahagslegan árangur sinn við skilyrði sem verða áfram mjög erfið og einkennast af mikilli skuldsetningu, erfiðum lánskjörum og gjaldeyrishöftum.  Við þurfum að skapa meiri verðmæti. Við höfum dregist verulega aftur úr nágrannaþjóðum í lífskjörum og sú þróun hófst löngu fyrir Hrun. Okkur skortir fleiri arðbær störf og þau verða ekki til nema með fjárfestingu, efnahagslegum stöðugleika og lágum vöxtum. Slík störf verða ekki til í haftasamfélagi. Og velsæld verður ekki byggð á lánum sem verða torfengnari og dýrari en fyrr.

Hvert sem horft er umhverfis okkur er ríkjandi meiri óvissa en verið hefur í meira en mannsaldur. Ísland verður að greina þær aðstæður af raunsæi og marka sér raunverulega stefnu í efnahags- og utanríkismálum á þeim grunni, því mælskubrögð, sniðugheit eða heimabrúkspólitík mun ekki duga til neins sem máli skiptir fyrir Ísland. 

Verkefnið er skýrt. Við verðum að fara að tala saman og tala hvert við annað. Við erum ekki samsafn af misvondu fólki: Hrunverjum, sægreifum, útrásarvíkingum, lopatreflum og afturhaldskommatittum – svo einungis séu tilfærðir fáeinir af merkmiðum síðustu missera – heldur fólk sem þarf að lifa saman í þessu landi og þarf að ræða sig til niðurstöðu um álitamál. Stjórnmálahreyfing jafnaðarfólks verður að vera í fararbroddi nýrra stjórnarhátta og ber höfuðábyrgð á því að leiða ólík öfl að sameiginlegri niðurstöðu.

Ísland stendur á krossgötum og það stendur þar fast. Þrátt fyrir að verkefnin séu knýjandi virðast íslensk stjórnmál einkennast af getuleysi til að þroska sýn um leiðina fram á við. Stóryrði, gálgahúmor og einsýni eru ráðandi í opinberri umræðu, þegar þörf er á raunsæi, fordómaleysi og samræðu. Við upplifum vonbrigði yfir stöðunni  en megnum við ekki að breyta henni? Stendur valið í stjórnmálum bara á milli brandara Davíðs og brandara Bjartrar framtíðar?

Til að breyta og velja nýja leið þurfum við fyrst að skilja hvar við erum. Við stöndum öll frammi fyrir sömu spurningum, sem stjórnmálin virðast hins vegar ekki geta tekist á við af alvöru.

Hvernig náðist efnahagslegur árangur og hvað einkenndi hann? Hvernig tryggjum við árangurinn í sessi og leggjum grunn að frekari efnahagsbata í óvissu umhverfi hafta og versnandi lánskjara? Hver er ávinningur okkar af þátttöku í evrópsku viðskiptaumhverfi og hvernig tryggjum við best að við njótum hans áfram? Getum við nokkurn tíma afnumið höft og haldið samt ávinningnum sem við fengum með EES? Og ef okkur tekst það, hvernig getum við þá lifað við EES og frjálsar fjármagnshreyfingar með sjálfstæðan gjaldmiðil? Getur evran veitt okkur betri stöðu að þessu leyti? Það sem hér fer á eftir er framlag mitt til svara við þessum spurningum.

[Ég skrifaði grein undir þessu heiti í Herðubreið, sem birtist í októbermánuði. Greinin er hins vegar svo löng að vefurinn ræður ekki við hana í fullri lengd. Hún birtist því hér í fjórum hlutum.]

 

30. 09 2012
 

- Um Ísland í Evrópu

Í fyrri greinum hef ég lýst skuldakreppunni sem hrjáir Evrópu og komist að þeirri niðurstöðu að ólíklegt sé að EES-samningurinn geti verið fullnægjandi umgjörð um aðild okkar að innri markaðnum í framtíðinni. En myndi aðild að ESB og upptaka evru veita okkur betri möguleika? Hvað má læra af þeim vanda sem mörg evruríkin glíma nú við?

Samspil frjálsra fjármagnshreyfinga og sjálfstæðs, veikburða gjaldmiðils var einn stærsti sveifluvaldur hér á landi í aðdraganda hruns og olli á endanum hruni gjaldeyrismarkaðar og upptöku gjaldeyrishafta. Allir viðurkenna kostnaðinn við sjálfstæðan gjaldmiðil fyrir svo lítið ríki, þótt sumir telji að það svigrúm sem er til að fella gengi vegi upp á móti þeim kostnaði að hluta eða öllu leyti. Hlutskipti Íra og Grikkja er vissulega annað en okkar. Þeir hafa ekki getað lækkað laun með gengisfellingu og atvinnuleysi hefur líklega orðið meira en það hefði orðið ef þessi ríki hefðu átt þess kost að fella gengi. En á móti vegur að skuldir almennings og fyrirtækja í þessum löndum hafa ekki hækkað vegna gengisfalls og verðbólgu. Kaupmáttur hefur ekki dregist eins mikið saman og hjá almenningi hér á landi, því neysluvara í þessum löndum er í ríkum mæli framleidd á evrusvæðinu þótt innflutt sé. Og bæði ríkin hafa getað tekist á við vandamál sín án þess að setja á gjaldeyrishöft. Þrátt fyrir mikinn vanda Grikkja heldur almenningur í Grikklandi dauðahaldi í evruna. Enginn virðist vilja hið íslenska ástand: Stórfellda gengisfellingu, upptöku sjálfstæðs gjaldmiðils og gjaldeyrishöft.

Skuldakreppan nú reynir mjög á evrusamstarfið. Skammtímalán til meðalstórra fyrirtækja á Ítalíu og Spáni bera nú allt að 4% hærri vexti en lán til sambærilegra fyrirtækja í Þýskalandi. Ef þetta ástand varir lengi er grunnur hins sameiginlega markaðar í hættu. Nýleg ákvörðun um skuldabréfakaup evrópska seðlabankans er tilraun til að taka á þessum vanda. Öllum er nú orðið ljóst að um raunverulega skuldakreppu er að ræða, en ekki kreppu sem stafar fyrst og fremst af ábyrgðarleysi í ríkisrekstri. Lausn á vanda evrusvæðisins þarf því að minnsta kosti að fela í sér hvort tveggja sameiginlegt regluverk um fjármálakerfið og aukinn aga í ríkisútgjöldum aðildarríkjanna.

Nýtt regluverk um fjármálakerfið (sem kalla má bankasamband á íslensku), fæli í sér samevrópskt bankaeftirlit, sameiginlegan lánveitanda til þrautavara og sameiginlegt innstæðutryggingakerfi sem jafnar aðstöðumun innan svæðisins. Tillaga að slíku bankasambandi hefur nú verið lögð fram. Ef slíkt kerfi hefði verið hluti af EES fyrir fjármálakreppu hefði það skipt sköpum fyrir okkur, Íra og Spánverja. Aðild að slíku kerfi er líka forsenda þess að hægt sé að sjá fyrir sér að íslenskt fjármálakerfi geti aftur nýtt sér frjálsar fjármagnshreyfingar á sameiginlegum evrópskum markaði og lágmarkað áhættu íslensks almennings af alþjóðlegri starfsemi íslenskra banka og af innstæðutryggingum vegna skuldbindinga þeirra erlendis. Það vinnur líka gegn því misvægi sem birtist nú í ólíkum fjármögnunarkjörum banka eftir því hver bakhjarlinn er og misjafnri tiltrú á innstæðutryggingar. Árangurinn mun þó verða í réttu samhengi við það hversu miklum fjármunum ríki evrusamstarfsins eru tilbúin að heita til þessa verkefnis.

Þær tillögur sem nú hafa verið kynntar gera ekki ráð fyrir að aðildarríki ESB utan evrusamstarfsins verði sjálfkrafa þátttakendur í bankasambandinu. Ef þau kjósa slíka þátttöku, verða þau að skuldbinda sig til að innleiða án tafar allar ákvarðanir sem Evrópski seðlabankinn tekur og varða starfsemi einstakra fjármálastofnana á hinum evrópska markaði. Vandséð er að EFTA-ríkin geti tekið þátt í þessari nýju umgjörð, jafnvel þótt það byðist, og það væri útilokað fyrir Ísland að óbreyttri stjórnarskrá.

Umgjörð um aukinn aga í ríkisrekstri aðildarríkjanna hefur þegar verið útfærð að miklu leyti. Hún myndi torvelda stjórnlausan hallarekstur og gera ríkjum erfiðara fyrir að fela útgjöld og fegra ríkisreikninginn. Slík umgjörð myndi hjálpa okkur mjög. Það er hollt að muna að efnahagsvandi á Íslandi undanfarna áratugi hefur nær ávallt verið vegna þess að stjórnvöld hafa misst stjórn á eftirspurnarhlið hagkerfisins, en ekki vegna ytri áfalla. Eina undantekningin frá því er kreppan sem fylgdi hruni síldarstofnsins 1968. Við höfum ekki tamið okkur þann hagstjórnaraga sem þurft hefði til að gera okkur kleift að takast á við þensluáhrif stórframkvæmda eða aflaaukningu. Það er því líklega erfitt að finna land sem myndi hafa meiri augljósan hag af því að undirgangast skuldbindingu um bætta hagstjórn og aukinn aga í ríkisrekstri en Ísland.

Ef þessar úrbætur á evrusvæðinu takast vel bendir allt til að aðild að ESB og upptaka evru sé heppilegur kostur fyrir Ísland. Ef Ísland verður hluti af slíku evrusamstarfi getum við tekist betur á við þá áhættu sem felst í frjálsum fjármagnsflutningum, enda ekki lengur hægt að spila á gengi krónunnar í viðskiptum á markaði og við myndum njóta góðs af bankasambandinu. Íslenskir bankar gætu starfað á evrópskum markaði á jafnréttisgrundvelli án óbærilegrar áhættu fyrir íslenskan almenning. Það myndi bæta samkeppnisstöðu hagkerfisins og auðvelda aðgang okkar að fjármagni á bestu kjörum. Reynslan af skuldakreppunni sýnir þó að kálið er ekki sopið þó í ausuna sé komið og að útflæðisvandi getur birst á skuldabréfamarkaði þótt engum gjaldeyrismarkaði sé til að dreifa. Mikilvægt er að meta þá áhættu rétt og hvernig hægt er að bregðast við henni með skynsamlegri hagstjórnarstefnu.

Ég hef áður rakið að EES-samningurinn er í öngstræti og mun ekki að óbreyttu gera okkur kleift að afnema höft og láta íslenskt fjármálakerfi búa við hliðstæðan rekstraraga og fjármálakerfi í öðrum ríkjum á innri markaðnum. Sú staðreynd ein gerir það óhjákvæmilegt að við höldum áfram umsóknarferlinu og tökum samhliða þátt í því úrbótaferli á evrusamstarfinu sem fram undan er. Okkur liggur ekkert á. Við þurfum á óvissutímum að halda öllum dyrum opnum. 

Birt í Fréttablaðinu, 22. september 2012.
 

30. 09 2012

- Um Ísland í Evrópu

Í fyrri greinum hef ég rakið stöðu Íslands í Evrópu og þau flóknu úrlausnarefni sem við – og aðrar þjóðir Evrópu – glíma við nú þessi misseri og mánuði. Skuldakreppan birtist með misjöfnum hætti eftir því hvaða land á í hlut, hvernig hagstjórn var háttað á árunum fyrir 2008 og hvort landið er hluti af sameiginlegu gjaldmiðilssvæði evrunnar. Af því leiðir að hvert og eitt land verður að meta hvernig best er að haga aðildinni að hinum innri markaði. Er hægt að vera hluti af innri markaðnum einum, er betra að vera innan evrunnar og yrði betra að vera innan nýs og eflds samstarfs um fjármálamarkaðinn eða utan þess? Svörin geta verið jafn misjöfn og löndin eru mörg.

Þátttaka okkar í innri markaðnum á grundvelli EES-samningsins hefur skilað okkur miklum árangri en líka gert okkur berskjölduð fyrir hættum sem leitt hafa af samspili frjálsra fjármagnsflutninga og tilvist lítils gjaldmiðils. Gengi krónunnar sveiflast í frjálsu umhverfi langt umfram það sem undirliggjandi efnahagsstærðir gefa tilefni til. Á toppi innflæðis erlends fjármagns vorið 2006 styrktist krónan á sama tíma og fréttir bárust af stórfelldum niðurskurði í þorskafla. Ekkert sýnir betur að gengisþróun krónunnar endurspeglaði ekki verðmætasköpun í hagkerfinu. Fyrir vikið varð íslenskur almenningur ofurseldur dyntum erlendra spekúlanta. Þegar þeir vildu allir út á sama tíma hrundi gjaldeyrismarkaðurinn og haftatíminn tók við.

Getum við aflétt höftum og lifað við umgjörð EES? Höfum við nægilega sterka umgjörð um hagvarnir okkar innan EES? Er EES-samningurinn dæmi um „hálfgildings hugsun" í anda þess sem Hannes Pétursson lýsti í frægu ljóði, sem ég hef áður vísað til – lausn sem einkennist af þörf okkar fyrir að stíga ekki skrefin til fulls, en dugar kannski heldur ekki til fullnustu?

Í þeirri fyrirferðarmiklu umræðu um kosti Íslands í Evrópumálum sem staðið hefur undanfarin misseri hefur farið frekar hljótt um þá staðreynd að við getum ekki í dag uppfyllt ákvæði EES-samningsins og að alls óvíst er hvernig við förum að því þegar fram í sækir. Við höfum reist gjaldeyrishöft sem ekki standast ákvæði samningsins. Í nýútkominni skýrslu Seðlabankans um varúðarreglur eftir höft er gert ráð fyrir að áfram verði unnt að viðhalda ýmsum hömlum á frjálsum fjármagnshreyfingum, eftir að höftum hefur verið aflétt. Þegar nánar er að gáð er óvíst að þær standist allar ákvæði EES-samningsins. Þannig er til dæmis gert ráð fyrir banni við lántöku heimila og fyrirtækja sem ekki hafa erlendar tekjur í erlendri mynt, en Eftirlitsstofnun EFTA hefur gert athugasemdir við Ísland um bann við gengistryggðum lánveitingum og telur það ekki samrýmast ákvæðum EES-samningsins. Við munum, að óbreyttu regluverki, eiga erfitt með að takmarka heimildir íslenskra banka til að sækja á erlenda markaði eftir afnám hafta og innstæðutryggingakerfi hefur ekki verið útfært með trúverðugum hætti fyrir íslenska banka að afléttum höftum. Og jafnvel þótt hægt væri að laga EES-samninginn að slíkum hömlum – höftum undir nýju nafni – fælist að öllum líkindum í þeim ákvörðun um að skapa séríslenskt einangrunarregluverk um íslenskan fjármálamarkað. Slíkt mun hafa í för með sér afleiðingar – þær augljósustu enn hærri fjármögnunarkostnað fyrir íslensk fyrirtæki og heimili.

Því til viðbótar er sífellt að koma betur í ljós að EES-samningurinn reynir mjög á þanþol stjórnarskrárinnar að því er varðar framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana. Með hugmyndaríkri túlkun stjórnarskrárinnar má telja mögulegt að fela alþjóðastofnunum, sem Ísland á aðild að, tiltekin verkefni en þó er þar teflt á tæpasta vað. Málið vandast hins vegar ef um er að ræða alþjóðastofnanir sem Ísland á ekki aðild að. Í sífellt ríkari mæli blasir nú við að stofnanir ESB þurfi að fá völd til að taka ákvarðanir sem gildi líka um Ísland og Noreg, sem standa utan ESB. Þessi staða er uppi varðandi viðskiptakerfi með losunarheimildir, um lyf til barnalækninga og, það sem mestu skiptir, um nýjar stofnanir á sviði fjármálastöðugleika og bankaeftirlits.

Sú öfugsnúna staða er því uppi nú að Ísland – sem varð fyrir miklu höggi vegna skorts á sameiginlegu regluverki um fjármálastöðugleika og bankaeftirlit – getur ekki leitt í lög hér þær úrbætur á því sviði sem Evrópusambandsríkin hafa þegar tekið ákvarðanir um. Við erum því enn sem fyrr bundin af því að hafa í heiðri fullt frelsi til fjármagnsflutninga, en höfum ekki stjórnskipulegar heimildir til að takmarka það frelsi og regla fjármálakerfið með sama hætti og hin löndin á hinu evrópska efnahagssvæði. Samningurinn leyfir okkur líklega ekki heldur séríslenskar haftalausnir, sem eru að öðrum kosti nauðsynlegar fyrir farsæla sambúð fjármagnsfrelsis og fljótandi veikburða gjaldmiðils. Fátt sýnir betur hversu öfugsnúin staða Íslands er orðin innan umgjarðar EES-samningsins.

Af öllu þessu leiðir að EES-samningurinn er okkur umtalsvert vandamál og ekki er einfalt að finna leiðir til að lifa við hann að óbreyttu. Við munum eiga í erfiðleikum við afnám hafta og tæpast hafa það svigrúm til að setja hömlur sem Seðlabankinn telur nauðsynlegt til að reka sjálfstæðan gjaldmiðil í umgjörð frjálsra fjármagnshreyfinga. Við höfum ekki stjórnskipulegar heimildir til að láta fjölþjóðlegar eftirlitsstofnanir fá fullnægjandi valdheimildir til fjármálaeftirlits og varúðar, sem gætu sett fjármagnsfrelsinu alþjóðlega viðurkenndar hömlur. EES-samningurinn býður því að óbreyttu ekki upp á annað en að endurtaka tilraunina um samspil minnsta fljótandi gjaldmiðils í heimi og óhefts fjármagnsflæðis. Hún tókst ekki vel.

Sú hálfgildings lausn sem fólst í EES-samningnum virðist ekki duga okkur til fulls. Þess vegna er okkur brýn nauðsyn að halda áfram með aðildarumsóknina, til að freista þess að finna betri leið fyrir þátttöku Íslands í hinu evrópska viðskiptaumhverfi. Um kosti aðildarinnar og galla fjalla ég í næstu grein. 

Birt í Fréttablaðinu, 13. september 2012.
 

27. 08 2012

Í fyrri greinum hef ég rakið þann mikla ávinning sem varð af opnun íslensks efnahagslífs með EES-samningnum, en jafnframt hversu viðkvæmt hagkerfið reyndist vera fyrir frjálsum fjármagnshreyfingum. Ég hef líka rakið að evruríkin glíma í dag við afleiðingar misvægis sem er eðlislíkt því sem við höfum þurft við að etja. Spurningin sem við stöndum frammi fyrir er hvernig við getum áfram verið hluti af hinu evrópska viðskiptaumhverfi og hvort EES-samningurinn dugi okkur til þess eða hvort aðild að ESB færi okkur betri tæki til að verjast og sækja fram fyrir íslenska hagsmuni.

En fyrst þurfum við að meta raunsætt stöðu okkar í dag. Við búum vissulega enn við marga kosti EES-samningsins. Íslensk fyrirtæki njóta aðgangs að evrópskum markaði fyrir vöru sína og þjónustu og við getum frjáls tekið okkur búsetu hvar sem er á hinu evrópska efnahagssvæði og fengið þar vinnu. En við höfum ekki getað lifað við frjálsar fjármagnshreyfingar og neyðst til þess að setja á gjaldeyrishöft. Þau verja okkur í dag fyrir afleiðingum þess misvægis sem fyrr var vikið að, en valda því líka að fjármagn streymir ekki til landsins til að þjónusta íslenskt efnahagslíf og fólk og fyrirtæki í milliríkjaviðskiptum lenda daglega í vandræðum vegna hafta. Samkeppnishæfustu fyrirtæki okkar kjósa að vaxa í útlöndum, fremur en á Íslandi, eins og ég rakti í þriggja greina flokki hér í vor.

Eftir að greinarnar birtust spratt allmikil umræða um höftin, skaðsemi þeirra og leiðina út úr þeim. Það sem mér þótti standa upp úr eftir þá umræðu var að erfiðasta hindrunin í vegi afnáms hafta væri hin fullkomna óvissa sem væri um hvað það væri sem tæki við eftir höft. Mun krónan einungis taka dýfu í nokkra mánuði og ná svo aftur eðlilegu jafnvægisgengi eða getum við búist við langvinnu tímabili veiks gengis krónunnar með gósentíð útflutningsgreina en hörmulegum afleiðingum fyrir innlenda verslun, þjónustugreinar og skuldsett heimili?

Allir þekkja aflandskrónuvandann og óþarfi að fjölyrða um hann. Aflandskrónurnar þurfa út og við verðum að geta losað þær út á kjörum sem við stöndum undir. Hitt gleymist oft í umræðunni að íslenskt efnahagslíf er nú þegar mjög skuldsett í erlendum gjaldeyri. Ríki, sveitarfélög, orkufyrirtæki og einstök fyrirtæki eru með erlendar skuldir. Til að greiða af þessum skuldum þarf að afla gjaldeyris. Nýir bankar eru í erlendri eigu og munu greiða arð til eigenda sinna úr landi á næstu árum. Til þess þarf líka gjaldeyri. Stærsti óvissuþátturinn sem háir okkur nú við afnám hafta er hvert raunverulegt heildarumfang þessara skuldbindinga er og hvort geta þjóðarinnar til að afla gjaldeyris mun standa undir því útflæði sem fyrirsjáanlegt er vegna þeirra á næstu áratugum. Er Ísland, með öðrum orðum, of skuldsett í erlendum gjaldeyri?

Mikilvægasta verkefni næstu mánaða er að kortleggja þessa stöðu til fulls. Við það mat er mikilvægt að velta við hverjum steini, taka alla þætti með í reikninginn og vanmeta ekki útflæðisþrýstinginn. Við höfum til dæmis séð erlendar eignir lífeyrissjóðanna rýrna hlutfallslega á undanförnum árum og það er óumflýjanlegt að þeir verji miklum hluta handbærs fjár til fjárfestinga erlendis um leið og höftum verður aflétt, ef þeir eiga að ná að dreifa áhættu sinni og standa undir því hlutverki sem þeim hefur verið falið. Við verðum að gera ráð fyrir öllu slíku í þessu reikningsdæmi. Það borgar sig ekki að nálgast þetta verkefni með „þetta reddast“ hugarfarinu. Þvert á móti er staðan sú að ef við tökum ekki allt með í reikninginn og vanmetum heildarumfang skuldbindinganna eru allar líkur á að krónan súnki við afnám gjaldeyrishafta og haldist veik um langa hríð, með hörmulegum afleiðingum fyrir efnahagslífið.

En hvað er til ráða ef aflandskrónur og erlendar afborganir opinberra aðila og einkaaðila – allra hér á Íslandi – reynast meiri en sem nemur getu landsins til að skapa gjaldeyri? Þá bíður okkar mikilvægt verkefni, sem eru samningar við erlenda kröfuhafa um lækkun þessara skulda. Erlendir kröfuhafar hafa hag af því að Íslandi gangi vel og þeim getur ekki hugnast sú framtíðarsýn að íslenskt efnahagslíf læsist í doða vegna ofskuldsetningar. Við höfum í tvígang áður gripið til aðgerða sem greiddu fyrir skynsamlegum skuldaskilum við erlenda kröfuhafa. Fyrst settum við Neyðarlögin, sem vörðu hagkerfið. Næst var samið um skiptingu bankanna í gamla og nýja og svigrúm skapað fyrir úrvinnslu skulda heimila og fyrirtækja. Nú er síðasta verkefnið eftir: Að tryggja að Ísland í heild – ríkisrekstur sem einkarekstur – geti staðið undir erlendum skuldum.

Ef þetta verkefni tekst vel er mögulegt að setja meiri kraft í afnám gjaldeyrishafta. Þá tekst líka að draga verulega úr hættunni á því að krónan nái sér ekki aftur á strik í kjölfar afnáms hafta. En eftir stendur þá spurningin um hvort krónan muni geta spjarað sig í eðlilegum viðskiptum á gjaldeyrismarkaði eftir að höft hafa verið afnumin. Getur krónan virkað án sérstakra stuðningsaðgerða og verður verðmyndun hennar eðlileg? Getum við lifað við þá umgjörð sem EES-samningurinn skapar um frjálst fjármagnsflæði? Ég leita áfram svara við því í næstu greinum.

Birt í Fréttablaðinu, 27. ágúst 2012.

21. 08 2012

- um Ísland í Evrópu.

Í fyrri greinum hef ég rakið þann mikla ávinning sem við höfum haft af opnun hagkerfisins með EES-samningnum en líka rætt hversu berskjölduð við urðum þá fyrir hræringum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Markmið okkar hlýtur nú að vera að koma Íslandi aftur í full tengsl við hið alþjóðlega viðskiptaumhverfi, en tryggja okkur líka fullnægjandi hagvarnir svo að við verðum ekki aftur jafn berskjölduð og við höfum verið síðustu ár. Og stóra spurningin er hvort það sé mögulegt innan EES eða hvort það verði auðveldara með aðild að ESB?

Fyrst af öllu þurfum við þá að greina rétt þann vanda sem nú steðjar að mörgum Evrópuríkjum. Sumir kenna evrunni um stöðuna og aðrir segja vandamálið einungis vera skuldavanda sumra aðildarríkja evrunnar. Málið er hins vegar flóknara er svo.

Fjármálakreppan frá 2008 hefur nú þróast í torleysta skuldakreppu. Heimili á Vesturlöndum hafa um áratugi gengið á eigið fé og aukið skuldsetningu sína. Þetta á við um Bandaríkin, Bretland, ýmis evruríki og svo Ísland, en í misríku mæli. Skuldsetning í atvinnulífi hefur líka aukist í kjölfar sífellt fjölbreyttara framboðs á fjármálaþjónustu. Sama má svo segja um hið opinbera – ríki og sveitarfélög – í ýmsum ríkjum. Evran greiddi að mörgu leyti fyrir þessari þróun, því með henni fengu flest aðildarríkin og bankar þeirra aðgang að lánsfé á mun lægri kjörum en þeim hefðu ella boðist. Fleiri og fleiri gátu því tekið hærri og hærri lán. En það þurfti ekki evruna til – þar er reynsla Íslendinga ólygnust. Bætt lánshæfismat íslenska ríkisins nýttist íslenskum bönkum til útþenslu með sama hætti.  

Grunnurinn að vandanum er því skuldsetning heimila, fyrirtækja og opinberra aðila. Þeim mun fleiri þættir efnahagslífsins sem eru skuldsettir upp í rjáfur, því minna svigrúm er til að takast á við óvænt áföll. Þess vegna er enginn eðlismunur á orsökum vanda evruríkjanna Spánar, Írlands og Portúgals og svo Lettlands, Ungverjalands og Bretlands. Eini munurinn felst í því hversu víðtæk skuldsetningin var og hvort það voru ríkið sjálft, sveitarfélögin, bankakerfið, heimilin eða fyrirtækin sem stofnuðu til skuldanna. Sú staðreynd að reglur innri markaðarins byggja á því að hvert ríki um sig styðji við og regli eigið fjármálakerfi veldur því hins vegar að vandi banka verður fljótt vandi þjóða á hinum evrópska markaði. Þar gildir einu hvort við eigum í hlut eða evruríki. Spurningin er bara hversu vel eða illa gengur að komast hjá því að bankakerfi í vanda verði viðkomandi þjóð að fótakefli.

Þegar harðnar á dalnum hætta bankar að geta lánað og lánsfé verður torfengnara og hækkar í verði. Bankar vilja að lán séu greidd upp eða vextir hækki.

Afleiðingarnar verða ólíkar eftir því hvaða land á í hlut, en þær eru alltaf erfiðar. Ísland byggði allt sitt á erlendum lánum. Fyrir vikið komu áhrif versnandi skilyrða að fullu og öllu fram á gjaldeyrismarkaðnum. Erlendir bankar heimtuðu að íslenskir skuldarar borguðu lánin sín. Spákaupmenn vildu líka breyta krónunum sínum í evrur. Enginn gjaldeyrir var til og krónan hrundi.

Evran veldur því að kreppan hefur annars konar áhrif á evruríkin. Innan evrusvæðisins er ekki um gjaldeyrisyfirfærslur að ræða. Þar koma afleiðingar fram á skuldabréfamarkaði, þar sem áhættuálag á skuldug ríki og skulduga banka eykst. Ríkin þurfa að verja meira fé til að styðja við fjármálakerfi sín. Hóflegar ríkisskuldir geta fljótt orðið algerlega óviðráðanlegar þegar vaxtastigið fer upp úr öllu valdi.Vandinn er sá sami, en afleiðingarnar verða aðrar.

Hið öfugsnúna er að við núverandi aðstæður ýkir evran aðstöðumun aðildarríkjanna. Lántökukostnaður Þjóðverja hefur þannig lækkað stórlega á meðan kostnaður annarra hefur hækkað. Spánverjar og Ítalir hafa undanfarið þurft að borga 6-7% vexti á 10 ára skuldabréfum, en Þjóðverjar borga nú rétt rúmt prósent og njóta neikvæðra vaxta á bréfum til tveggja ára - fjárfestar borga semsé fyrir að fá að lána Þjóðverjum peninga til skamms tíma. Fjármögnunarkjör þessara þjóða voru hins vegar áþekk fyrir 2008. Þjóðverjar hafa þannig sparað sér tugi milljarða evra í vaxtagjöld á þessu ári einu, á meðan að öll önnur lönd þurfa að skuldsetja sig - og almenning - til að standa skil á vaxtagreiðslum, sem oftar en ekki renna á endanum til þýskra banka.

Þetta ójafnvægi  hefur sífellt víðtækari áhrif. Vaxtastig það sem ríkið borgar er það gólf sem vaxtastig allra annarra miðast við. Þannig mun vaxtakostnaður ítalskra og spænskra fyrirtækja rjúka upp að óbreyttu þegar þarlendir bankar munu hækka vexti. Augljóst virðist því að þessi staða muni að óbreyttu valda vaxandi misvægi á evrusvæðinu, sem birtist í lakari samkeppnisstöðu banka í ríkjum í erfiðleikum, hættu á fjármagnsflótta og mismun í fjármögnunarkjörum ríkja sem er langt umfram það sem eðlilegt getur talist.

Evran hafði þannig áhrif til að auka skuldsetningu sumra evruríkja og hún ýtir – við núverandi aðstæður – undir misvægi milli aðildarríkja, en hún er sem slík hvorki orsök vanda allra evruríkja né hindrun í vegi skynsamlegra lausna á vandanum. Ekki má gleyma því að evran kemur líka í veg fyrir að menn geti beitt hefðbundnum lausnum sem ríki hafa gripið til í alvarlegum fjármálakreppum hingað til – stórfelldum gengisfellingum, höftum á fjármagnsútstreymi og einangrunarstefnu í milliríkjaviðskiptum. Það er auðvelt að mæla með hinni „íslensku leið“ stórfelldrar gengisfellingar – sem felur í sér launalækkun um tugi prósenta – en við vitum líka að slík leið skapar engin verðmæti heldur einfaldlega flytur þau til. Ef allir færu hana, væru allir á sama stað.

Ef evran á að lifa, þurfa aðildarríkin til að takast á við hið raunverulega misvægi sem er að baki kreppunni og þá veikleika sem þegar hafa komið fram í evrusamstarfinu. Á sama tíma er það misvægi sem olli hér bankahruni og haftabúskap óleyst. Þetta misvægi ógnar ekki bara stöðugleika evrusamstarfsins heldur líka umgjörð frjálsra fjármagnshreyfinga á hinum samevrópska markaði. Ef ekki tekst vel til kann innri markaðurinn og sá stöðugleiki sem honum hefur fylgt um áratugi að vera í hættu. Það er jafn mikið áhyggjuefni fyrir okkur og önnur Evrópuríki.

En hvað er þá til ráða? Við þá spurningu held ég áfram að glíma í næstu greinum.

Birt í Fréttablaðinu, 21. ágúst 2012.