24. jan 2013

Á ég að skipta mér af formannskjöri í Samfylkingunni?

Ég hef að undanförnu mikið velt fyrir mér hvort ég eigi að skipta mér af formannskjörinu í Samfylkingunni. Ég hef verið dyggur stuðningsmaður Samfylkingarinnar frá stofnun hennar. Ég vil ekki leyna þeirri skoðun minni að núverandi ríkisstjórn hefði getað gert margt betur. En við jafnaðarmenn huggum okkur við það að viðfangsefni ríkisstjórnarflokkanna á kjörtímabilinu er líklega það erfiðasta sem nokkur ríkisstjórn hefur glímt við á lýðveldistímanum.  Að reisa heilt efnahagskerfi úr rúst eftir hrun. Margt hefur þar tekist vel til. Það er ekki það sem hefur truflað okkur.  Það sem dregur hinn  pólitíska mátt úr okkur, mörgum  í verkalýðshreyfingunni, er hvernig forystumenn okkar í stjórnmálum  hafa vanvirt mikilvæg samskipti við verkalýðshreyfinguna. Fyrirheit hafa verið gefin við undirritun kjarasamninga og framlengingu þeirra sem hafa reynst orðin tóm þegar á reyndi. Þessi afstaða og vinnbrögð stjórnmálamanna hafa smám saman grafið undan öllu samstarfi og trúnaðartraustið sem er undirstaða samstarfsins fer þverrandi þar til enginn samstarfsvilji er eftir. Þetta er því miður staðan nú í lok þessa kjörtímabils. Trúnaður milli forystumanna í Samfylkingu og verkalýðshreyfingunni er farinn í bili að minnsta kosti.

Að endurheimta traust
Ég met það svo að eitt af stóru verkefnum nýrrar forystu í Samfylkingunni sé að endurheimta þetta traust. Eftir að hafa hlustað á formannsefnin og lesið stefnumarkandi skrif þeirra beggja undanfarnar vikur hallast ég að þeirri skoðun, með fullri virðingu fyrir þeim báðum, að Árni Páll Árnason sé sá frambjóðandi sem er líklegri til að ná þeim árangri sem við gerum kröfu til í þessu efni. Á þessu kjörtímabili hef ég átt nokkur samskipti við Árna Pál  þar sem skoðanir okkar í mikilvægum málum hafa ekki alltaf farið saman. Það sem ég hef metið mest við hann sem stjórnmálamann, er að hann mætir okkur flokksmönnum af hæversku en um leið með einurð og sannfæringarkrafti.  Ég hef kunnað að meta virðingu hans fyrir öðrum sjónarmiðum en sínum eigin þó að hann fylgi málum fast eftir með einurð og krafti.

Kynslóð Árna Páls taki nú við….
Ég álít einnig að verkefni næsta kjörtímabils sé að skapa sátt milli kynslóða um sanngjarna skiptingu skulda og eigna í þjóðfélaginu. Mikil eigna og skuldatilfærsla varð í þjóðfélaginu við efnahagshrunið. Efnahagslegt jafnvægi næst ekki að nýju nema með því að knýja fram áherslur á almannahagsmuni á kostnað sérhagsmuna.  Í þessu efni þarf mikla pólitíska yfirsýn og kjark. Ég met það svo að kynslóð Árna Páls eigi nú að taka við þessu viðfangsefni og það verði eitt helsta úrlausnarefni næsta kjörtímabils. Árni Páll sýndi það í ráðherratíð sinni að hann hefur kjark og þor í erfiðum málum m.a. í skuldamálum almennings þar sem alltof margir stjórnmálamenn ástunduðu sýndarmennsku og yfirboð gegn betri vitund. Það ætti að vera öllum stjórnmálamönnum ljóst að vinna þarf áfram í skuldamálum almennings  og finna þar ásættanlegar lausnir sem þjóðin getur búið við.  Ég álít að þetta sé eitt mikilvægasta málið sem brennur helst á kynslóð Árna Páls og félaga og því eðlilegt að sú kynslóð fái að glima við vandann.

Vel útfærðar hugmyndir um framtíðarsýn
En mikilvægast af öllu er framtíðarsýnin sem nú einkennir  sem betur fer málflutning beggja frambjóðenda en þar sýnist mér Árni Páll hafa betur útfærðar hugmyndir um hvernig koma megi á jafnvægi í efnahagsmálum, koma krónunni í skjól meðan við undirbúum  varanlega vegferð okkar inn á stærra gjaldmiðlasvæði og tengjumst vonandi öðrum Evrópuþjóðum með því að taka upp gjaldmiðil evrusvæðisins. Eftir miklar og erfiðar umræður í öllum helstu ríkjum Evrópusambandsins um skuldugustu ríki álfunnar, hafa andstæðingar aðildar Íslands að Evrópusambandinu  fengið vind í seglin og ýmsir stjórnmálamenn okkar megin hafa farið til hlés þegar virkilega reynir á okkur Íslendinga í aðildarumsókn okkar. Ástandið í Evrópusambandinu ætti samt að vekja okkur enn betur til vitundar um mikilvægi þess að þjóðir Evrópu standi saman í efnahags- og gjaldmiðlamálum þegar hriktir í stoðum einstakra Evrópuríkja. Ég hef verið mjög ánægður með hvernig Árni Páll Árnason hefur ekki látið bilbug á sér finna í þessu stærsta sjálfstæðismáli þjóðarinnar, að við fáum notið Evrópusamvinnunnar að fullu með því að gerast fullir þáttakendur í því samstarfi.

Að lokum þetta
Það eru mjög stór pólitísk mál sem bíða þess að nýir forystumenn taki við boltanum í Samfylkingunni. Þar er brýnasta hagsmunamálið að koma okkur Íslendingum út úr sjálfheldu gjaldeyrishaftanna. Þetta er stórmál sem snýr að almenningi og við megum ekki sætta okkur við heilan áratug í viðjum hafta íslensku krónunnar. Hér tel ég að Árni Páll tali fyrir samspili frjálslyndra viðhorfa, áræðni og góðum samstarfsvilja við helstu viðskiptaþjóðir okkar. Aðeins með því að afnema höftin sem fyrst getur okkur Íslendingum tekist að búa okkur til sambærileg lífskjör og í nálægum löndum.
Annað stórmál sem verður meira og meira aðkallandi að leysa er að allir Íslendingar búi við sambærileg kjör í lífeyrismálum en ég álít Árna Pál einmitt  góðan talsmann viðhorfa jafnréttis að þessu leyti.
Það má leiða líkur að því að í mörgum stórmálum okkar tíðar svo sem stjórnarskrármálinu og kvótamálinu, sé komið að nýrri kynslóð að koma þeim málum í höfn. Hin margreynda kynslóð Jóhönnu og Guðbjarts hefur sannarlega lagt sitt af mörkum til að koma okkur áleiðis.

En er þetta ekki einmitt augnablikið í sögunni þegar við þurfum að setja ábyrgðina á næstu kynslóð, sem á líka mest undir því að lífskjör á Íslandi verði sambærileg við það besta sem við þekkjum á komandi árum?

Þráinn Hallgrímsson skrifstofustjóri verkalýðsfélagsins Eflingar