04. nóv 2008

Að benda bara á eitthvað annað

Síðustu vikur hefur formaður VG leitað stuðnings í útlöndum fyrir þeirri staðhæfingu að rangt hafi verið af íslenskum stjórnvöldum að leita eftir samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þess í stað hefðu íslensk stjórnvöld átt að leita til Norðmanna og annara Norðurlanda um einhvers konar sérnorræna lausn. Forsætisráðherra Noregs hefur hins vegar ítrekað bent á það í síðustu viku að aðkoma Alþjóðagjaldeyrissjóðsins greiði fyrir því að Norðmenn og aðrir hafi getað komið að málum og að einstök lönd hafi ekki haft burði til að leiða starf af þessum toga. Formaður VG hefur í kjölfarið reynt að afflytja svör forsætisráðherrans til að draga úr þeim áfellisdómi sem þarna er kveðinn upp yfir málflutningi VG.

En formaður VG er ekki af baki dottinn þótt hann hafi misst átta í skógarferð sinni í Noregi. Í Morgunblaðinu á laugardagsmorgun talar hann fyrir upptöku norskrar krónu og kveður beiðni um slíkt verða vel tekið af norskum stjórnvöldum. Og ekki virðist varkárni Steingríms í túlkun á afstöðu norskra stjórnvalda hafa aukist við útreiðina um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þvert á móti spáir formaður VG fyrir um viðbrögð norskra stjórnvalda af nokkurri drýldni og segir:„Ég leyfi mér að fullyrða, og ég hef býsna góð sambönd í norskum stjórnmálum, að ósk af þessu tagi yrði ekki hafnað.“

Óheppni formanns VG í milliríkjasamskiptum ríður hins vegar ekki við einteyming. Áður en fréttin um forspárhæfileika formannsins var komin á prent hafði forsætisráðherra Noregs aftekið upptöku Íslendinga á norskri krónu á fréttamannafundi í Noregi. Og það sem meira er: Þegar spurningin var borin upp við forsætisráðherrann stóð fjármálaráðherra Noregs – formaður systurflokks VG – við hlið forsætisráðherrans og gat varla haldið niðri í sér hlátrinum yfir þessari fráleitu hugmynd. Maður hlýtur því að spyrja sig hvar hin „býsna góðu sambönd“ Steingríms J. Sigfússonar liggja í Noregi.

Auðvitað gæti maður bara hlegið að þessari fumkenndu seinheppni ef málflutningur VG væri ekki jafn fráleitur og þjóðhættulegur og raun ber vitni. VG hefur hafnað umræðu um aðild að Evrópusambandinu fyrst og fremst með vísan til fullveldis íslensku þjóðarinnar. Tilraunir okkar til að verja það fullveldi með stöðu okkar utan ESB hafa valdið því að almenningur í landinu er berskjaldaðri fyrir gönuhlaupum auðjöfra og kaupahéðna en almenningur í ríkjum ESB. En í stað þess að læra af reynslunni leggur VG nú til fullkomið fullveldisafsal á sviði peningamála. VG hafnar því að við deilum fullveldi okkar í peningamálum með öðrum þjóðum – og njótum jafn mikils atkvæðavægis við ákvörðun sameiginlegrar peningamálastefnu og tugmilljónaþjóðir – og kjósa frekar að afsala stjórnarfarslegu fullveldi í hendur annars ríkis. 

Sumir hafa gagnrýnt VG undanfarna mánuði fyrir að vilja afturhvarf til 1975. Nýjasta gönuhlaup formannsins sýnir hins vegar að áfangastaðurinn er árið 1262. Langar marga einlæga áhugamenn um þjóðfrelsi og þjóðlega reisn innan raða VG með Steingrími í þá sneypuför? 

Birt í Morgunblaðinu, 4. nóvember 2008.