05. des 2007

Að fljóta sofandi að feigðarósi

Nú nýverið gaf Viðskiptaráð út vandaða greiningu Friðriks Más Baldurssonar og Richards Portes um stöðu íslensks efnahagslífs. Margt vekur þar athygli.

Vægi krónunnar í viðskiptum hefur minnkað hratt undanfarin misseri. Ástæðan er háir vextir á innlendum skammtímalánum og háar afborganir verðtryggðra langtímalána vegna verðbólgu undanfarinna ára. Skuldir heimilanna í erlendum gjaldeyri hafa aukist hratt og nema nú um 14% lána heimilanna. Nærri helmingur skuldaaukningar heimilanna á þessu ári er í erlendum gjaldeyri. Samhliða hafa heimilin dregið úr óverðtryggðri innlendri lántöku, þar sem stýrivextir Seðlabankans hafa haft mest áhrif. Fjármögnun á bílakaupum almennings er nær alfarið í erlendum gjaldeyri.

Fjölmörg fyrirtæki eru nú að feta sig inn í umhverfi þar sem hluti launa starfsmanna er greiddur í evrum. Við þær aðstæður munu viðkomandi starfsmenn losna úr þeim böndum sem aðhaldssamri peningamálastefnu er ætlað að hafa á einkaneyslu í vestrænum hagkerfum, þar sem lánakjör þeirra munu ekki lengur ráðast af innlendri vaxtastefnu. Þetta bætist ofan á víðtæka verðtryggingu langtímaskulda heimilanna, en einn helsti vandi peningamálastefnunnar er stýrivaxtahækkanir Seðlabankans hafa óveruleg áhrif á verðtryggða langtímavexti. Staðan er enn meira áhyggjuefni þegar horft er til fyrirtækja. 63% lána til íslenskra fyrirtækja eru nú í erlendum gjaldmiðli og það hlutfall hækkar stöðugt.

Grunnhugsunin að baki núverandi peningamálastefnu er sú að unnt sé með stýrivaxtaákvörðunum að hafa áhrif á eftirspurn í samfélaginu og draga þannig úr verðbólgu. Hærri vextir eiga að draga úr getu og vilja fólks og fyrirtækja til að kaupa og fjárfesta. Það sem hér hefur verið rakið sýnir hins vegar svart á hvítu að lánamynstur þjóðarinnar hefur þróast á þann veg að stýrivaxtaákvarðanir Seðlabankans hafa sífellt minni áhrif á lánakjör heimila og fyrirtækja. Eftir stendur þá að stýrivextirnir virka einkum til að halda uppi gengi, sem á móti ýtir undir neyslu heimila og fyrirtækja vegna verðlækkana á innfluttri vöru. Sú staða er sérstaklega skaðleg í smáu myntkerfi, þar sem svo að segja öll neysluvara er innflutt.

Hægfara upptaka evru er stórskaðleg
Að undanförnu hefur nokkuð borið á andvaraleysi yfir þessari þróun. Sumir hafa jafnvel gengið svo langt að tala um það sem jákvæða þróun að heimili og fyrirtæki noti evru í auknum mæli og að það geti verið fullnægjandi valkostur við upptöku evru með formlegum hætti. Fátt er fjær lagi. Hægfara upptaka evru grefur undan efnahagslegum stöðugleika og dregur enn úr virkni peningamálastefnu Seðlabankans. Verst af öllu er að þessi þróun ýtir undir nýja tegund misskiptingar í íslensku samfélagi. Annars vegar verður til forréttindastétt sem á þess kost að fá laun greidd í evrum og getur þá tekið lán án áhættu á miklu lægri vöxtum í evrum. Þess gæti þá verið skammt að bíða að hér rísi evrubúðir, í ætt við sovésku dollarabúðirnar, sem selji forréttindastéttinni vörur og þjónustu í evrum. Hins vegar verður óbreyttur almenningur, rétt eins og rúbluþjóðin í biðröðunum í Sovétríkjunum, sem þarf að búa við ofurvexti hins örsmáa íslenska hagkerfis, sífellt óstöðugri krónu og bera áfram byrðarnar af fákeppnisfyrirkomulagi á öllum helstu mörkuðum.

Það er athyglisvert að skýrsluhöfundarnir vara sérstaklega við þeirri hægfara upptöku evru sem er að verða hér á landi. Þeir benda á að slík þróun sé í ætt við efnahagsumgjörð þróunarríkis og alls óviðeigandi fyrir Ísland. Þessi þróun gæti leitt til viðvarandi óstöðugleika, ýtt fleirum og fleirum í erlendar lántökur og ýkt gengissveiflur og skammtímainnflæði fjármagns, sem leiði til enn frekari óstöðugleika.

Hver er framtíðarstefnan?
Það er alveg ljóst að verkefni okkar á næstu mánuðum er að styðja við bakið á Seðlabankanum í stýrivaxtaákvörðunum bankans, í þeirri von að þær geti leitt til stöðugleika. Það er enda ekki almennt séð við bankann að sakast þótt peningamálastefnan henti ekki þjóðinni lengur. Það er hins vegar tími til kominn að við hugsum lengra en til næstu tveggja eða þriggja missera og ræðum af heiðarleik þau öngstræti sem peningamálastefnan er komin í.
Við byggjum efnahagsstefnu á því að stýrivaxtaákvarðanir hafi áhrif á eftirspurn í samfélaginu, sem þær hafa sannanlega ekki við núverandi aðstæður. Þær hafa hins vegar margvísleg önnur áhrif og flest óæskileg. Núverandi stefna hefur valdið útflutningsgreinum á landsbyggðinni gríðarlegu tjóni og nokkurn veginn lagt í rúst sjávarútveg á Vestfjörðum.

Við verðum að horfast í augu við að fólk og fyrirtæki geta greitt atkvæði með fótunum og notað annan gjaldmiðil án opinberra afskipta. Við þær aðstæður þýðir lítið að halda tárbólgnar lýðskrumsræður um mikilvægi krónunnar, ef færri og færri sjá sér hag af því að nota hana og hún stendur efnahagsþróun landsins fyrir þrifum. Skýrsluhöfundar Viðskiptaráðs vekja með réttu athygli á þeim miklu hættum sem óbreytt staða hefur fyrir íslenskt samfélag.

Valkostirnir til lengri tíma eru bara tveir og tími til kominn að umræðan fari að þroskast að þessu leyti. Annar möguleikinn er úrsögn Íslands úr EES og endurupptaka gjaldeyrishafta og skömmtunar fjármagns. Hinn er formleg upptaka evru sem gjaldmiðils þjóðarinnar. Svo einfalt er það val. Hvort einhliða upptaka evru er mögulegur kostur, er svo efni í aðra grein.

Birt í Viðskiptablaðinu 6. desember 2007.