24. jan 2013

Að kjósa út á við

Jæja, þá er það formannskjörið í Samfylkingunni. Tveir ­góðir menn í framboði og svolítið erfitt að gera upp hug sinn. En eftir að hafa hugsað málið og setið þrjá fundi með frambjóðendum hallast ég að því að Árni Páll sé betri kostur í þeirri stöðu sem nú blasir við.

Sprungur og kítti
Guðbjartur kemur fyrir sem vandaður maður og góður fulltrúi en Árni Páll virkar þó kraftmeiri og öllu „formannslegri“. Hann er skeleggur og hugsandi, og honum er annt um heildarmyndina, sér málin úr fjarlægð, greinir stóra vandann á bakvið hversdagskarpið. Orð hans um 100 ára vistarband og geðklofinn gjaldmiðil eru meira en lítið eftirtektarverð og ættu að verða stóra málið í kosningabaráttu vorsins.

„Allt síðan 1920, þegar íslensku krónunni var kippt úr sambandi við gullfótinn og dönsku krónuna, höfum við búið við tvískiptan gjaldmiðil. Við fáum launin okkar í platkrónum á meðan skuldirnar teljast í alvörukrónum. Kjarasamningar skipta litlu sem engu þegar forsendur fyrir þeim bresta í næsta gengisfalli. Líkja má kjarasamningum við það að farið sé með kíttisspaða yfir sprungurnar sem jarðskjálftar gengis­breytinganna hafa skilið eftir.“

Baráttan fyrir alvöru gjaldmiðli er líkast til stærsta efnahagsmálið sem framundan er. Þar blasir sérstaða Samfylkingar við. Enginn annar flokkur býður uppá lausnarleið út úr þeim vanda og tilvitnuð greining Árna Páls ber merki um skýran hug þótt andlitið sé loðið.

Lausaganga kjósenda
Af tveimur góðum formannskostum hef ég meiri trú á því að málflutningur og kraftur Árna Páls nái út fyrir raðir flokksmanna. Formannskjörið þarf að vera sú innspýting sem nær að stækka flokkinn í komandi kosningum. Við þurfum að ná til „hlutlausa“ fólksins á miðjunni sem nú stefnir unnvörpum á flokk sem lofar bjartri framtíð án þess að eiga sér þá glæstu fortíð sem hreyfing jafnaðarmanna státar af.

Árni Páll þótti standa sig vel sem ráðherra á örlagatímum, tók upp ný vinnubrögð í ráðuneytinu, náði alvöru allraflokkasamráði í ­Icesave-málsvörninni, beitti sér ­fyrir breytingu á formi ríkisstjórnarfunda, vill leggja niður ráðningarvald ráðherra og minnka vald þeirra almennt séð. Hann talar um flokkinn sem opna og umburðarlynda breiðfylkingu ólíkra sjónarmiða, og er það vel. Sumir segja hann of markaðssinnaðan hægrikrata sem höfði meira til miðjunnar en vinstrimanna. Hér getur sá „galli“ þó einmitt orðið kostur, því á miðjunni er lausagangan mest. „Við eigum ekki að stinga augun úr VG í leit að fylgi,“ svo vitnað sé í frambjóðandann.

Unga fólkið
Á þeim fundum sem ég hef séð til Árna Páls veittist honum létt að kveikja bjartsýni og baráttuhug með fólki. Hann á þrátt fyrir allt ­djúpar rætur í vinstrinu, og hefur ­arkað margar pólitískar heiðar í átt að þessu tækifæri. Það heyrist vel að hann hefur tekið langt tilhlaup að formannsstólnum, er vel tilbúinn í slaginn. Þá spillir ekki að maðurinn er vel menntaður og vel heima í Evrópumálunum. Hann hefur jafnvel, einn örfárra íslenskra stjórnmálamanna, búið erlendis í nokkur ár, talar ensku og dönsku og er „ráðherrafær“ á þýsku og frönsku.

Loks finn ég vel, eftir samtöl við yngsta fólkið í flokknum, sem hvergi fékk sæti ofarlega á nýjustu framboðslistum, að það þráir að sjá nýja kynslóð taka við forystunni í Samfylkingunni.

Inn á við / út á við
Ég finn það líka að Guðbjartur á atkvæði margra í innsta flokkshring. Einnig sú staðreynd hvetur mann til að kjósa Árna Pál. Því nú ber að kjósa út á við. Kosningarnar 27. apríl munu ekki snúast um starfið í Samfylkingunni heldur myndun næstu ríkisstjórnar. Þar þarf formaðurinn að koma fylgisbreiður að borði og hafa styrk til að kljást við ­málþjófana í sjónvarpssal fyrir kosningar og í símtölum eftir kosningar. Ég treysti því að Árni Páll leggi þá að velli þar líkt og hann  mun hafa gert í vetur, á fundum með þeim í Valhöll og Viðskiptaráði.

En hvernig sem formannskosningin fer skulum við samt verða ánægð með úrslitin, faðma ­nýjan formann, og taka svo til við hina raunverulegu kosningabaráttu. Sá frambjóðandinn sem tapar þarf heldur síst að örvænta. Eins og dæmin sanna getur það einmitt verið ávísun á lengra líf í pólitík.

Hallgrímur Helgason rithöfundur

Greinin birtist fyrst í helgarblaði DV, 18. janúar.