21. des 2008

Að leita sér að smugu

Það einkennir oft umræðu um alþjóðamál hér á landi að mönnum er gjarnara að reyna að finna hjáleið framhjá almennum leikreglum á alþjóðavettvangi en að fara troðnar slóðir. Þessi þjóðarlöstur - að leita sér stöðugt að nýrri smugu - hefur einungis skilað okkur vondri niðurstöðu þegar þessi leið hefur verið farin. Okkur hefur gefist best að vinna með nágrannaríkjum okkar og leita sömu lausna, hvort sem það var með aðildinni að EFTA eða með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. 

Nú blasir við að íslenska krónan verður ekki gjaldmiðill þjóðarinnar nema um stutta hríð. Undanfarin misseri hefur ítrekað verið staðhæft að einhliða upptaka evru sé lausn á þessum gjaldmiðilsvanda. Jafn oft hafa verið færð sannfærandi rök fyrir því að svo er ekki. Einhliða upptaka evru hefur aldrei verið reynd af þróuðu, sjálfstæðu ríki. Evrópusambandið er andvígt einhliða upptöku. Við eigum víðtæk og pólitísk og viðskiptaleg tengslum við Evrópusambandið. Upptaka gjaldmiðils Evrópusambandsins, í blóra við vilja þess, er ósamrýmanleg slíkri stöðu. Það hefur líka verið bent á að einhliða upptaka sé okkur dýr og að hún leysi á engan hátt úr þeim vanda sem að okkur steðjar vegna skorts á lánveitanda til þrautavara. Bankakerfið okkar hrundi vegna skorts á alþjóðlegum gjaldeyri. Um allan heim leita menn leiða til að stækka gjaldmiðilssvæði til að draga úr áhættu smárra myntsvæða og greiða fyrir meira efnahagsjafnvægi og lægri vöxtum til lengri tíma litið. Ætlum við þá, eftir allt sem á undan er gengið, að búa til sérstaka íslenska evru með tilheyrandi áhættu? 

Það er til leið til efnahagslegrar endurreisnar sem öll nágrannaríki okkar hafa farið við efnahagslega ágjöf. Sú leið er aðild að Evrópusambandinu. Hún leysir auðvitað ekki allan vanda tafarlaust, en hún veitir jafnt efnahagslegan og pólitískan stöðugleika. Aðild er líka til þess fallin að tryggja öllum í samfélaginu sanngjarna hlutdeild í efnahagslegum ávinningi og draga úr hættu á misskiptingu milli stétta og þjóðfélagshópa. Einhliða upptaka án samþykkis Evrópusambandsins er tilræði við það efnahagslega jafnvægi sem er nauðsynleg forsenda sáttar um nýja efnahagsuppbyggingu. 

Sumir talsmenn þessarar hugmyndar staðhæfa að þessi leið sé óhjákvæmileg vegna erfiðrar stöðu landsins og þess tíma sem aðildarviðræður taki. Það eru mikil falsrök. Fyrir það fyrsta hefur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins veitt fyrirheit um að aðildarviðræðum verði hraðað í ljósi fordæmislausrar stöðu Íslands. Í annan stað líta slíkar staðhæfingar framhjá þeim ávinningi sem aðildarferlið yrði fyrir efnahagslífið og verðmyndun á krónunni. Augljóst er og ágreiningslaust að hættulegt er að láta krónuna fljóta áður en að aðildarviðræður hefjast og á meðan fullkomin óvissa er um framtíðarfyrirkomulag peningamála. 

En það yrði okkur verulegur ávinningur í kjölfarið að hafa krónuna með slíku flotholti, sem aðildarferlið er, til að takast á við það efnahagslega ójafnvægi sem hér er óhjákvæmilegt á næstu árum. Það er enda tilgangur aðildarferlisins í efnahagslegu tilliti að draga úr ósamkvæmni í hagsveiflu og tryggja sjálfbærni þess viðmiðunargengis sem evran yrði á gagnvart íslensku krónunni til frambúðar. Einungis þannig tryggjum við traust og stöðugt efnahagskerfi til næstu áratuga. Það ber ekki að útiloka að sérstakar lausnir eða tímafrestir finnist í aðildarumsóknarferlinu, ef íslenskir hagsmunir kalla á það. En það er grundvallaratriði að slíkt sé unnið sem hluti af umsóknarferlinu og ákvarðanir séu teknar í samráði við Evrópusambandið. 

Við þurfum ekki meira af undanbrögðum, hálfsannleik og því að farið sé á svig við almennar reglur sem aðrar þjóðir fara eftir. Við þurfum ekki meira af óábyrgri ævintýramennsku. Við þurfum ekki fleiri séríslenskar lausnir, með tröllaukinni áhættu fyrir almenning en öruggum ávinningi fyrir kaupahéðna. Við þurfum grunn fyrir endurreisn efnahagslegs stöðugleika fyrir alla, með lágum vöxtum og heilsteyptri framtíðarsýn. 

Birt í Morgunblaðinu, 17. desember 2008.