12. nóv 2012

Að líta dáð á ný

 

„When times are tough and people are frustrated and angry and hurting and uncertain, the politics of constant conflict may be good. But what is good politics does not necessarily work in the real world. What works in the real world is co-operation.“

(Bill Clinton, 5. september 2012)

Ísland stendur á tímamótum. Að baki er erfið glíma við Hrunið - fall fjármálakerfis, hrun gjaldmiðils,  ríkissjóðshalla og fjöldaatvinnuleysi. Framtíðin er óviss. Árangur í fortíð er til lítils ef hann nýtist ekki til að vísa leiðina fram á við.

Ísland verður að festa í sessi efnahagslegan árangur sinn við skilyrði sem verða áfram mjög erfið og einkennast af mikilli skuldsetningu, erfiðum lánskjörum og gjaldeyrishöftum.  Við þurfum að skapa meiri verðmæti. Við höfum dregist verulega aftur úr nágrannaþjóðum í lífskjörum og sú þróun hófst löngu fyrir Hrun. Okkur skortir fleiri arðbær störf og þau verða ekki til nema með fjárfestingu, efnahagslegum stöðugleika og lágum vöxtum. Slík störf verða ekki til í haftasamfélagi. Og velsæld verður ekki byggð á lánum sem verða torfengnari og dýrari en fyrr.

Hvert sem horft er umhverfis okkur er ríkjandi meiri óvissa en verið hefur í meira en mannsaldur. Ísland verður að greina þær aðstæður af raunsæi og marka sér raunverulega stefnu í efnahags- og utanríkismálum á þeim grunni, því mælskubrögð, sniðugheit eða heimabrúkspólitík mun ekki duga til neins sem máli skiptir fyrir Ísland. 

Verkefnið er skýrt. Við verðum að fara að tala saman og tala hvert við annað. Við erum ekki samsafn af misvondu fólki: Hrunverjum, sægreifum, útrásarvíkingum, lopatreflum og afturhaldskommatittum – svo einungis séu tilfærðir fáeinir af merkmiðum síðustu missera – heldur fólk sem þarf að lifa saman í þessu landi og þarf að ræða sig til niðurstöðu um álitamál. Stjórnmálahreyfing jafnaðarfólks verður að vera í fararbroddi nýrra stjórnarhátta og ber höfuðábyrgð á því að leiða ólík öfl að sameiginlegri niðurstöðu.

Ísland stendur á krossgötum og það stendur þar fast. Þrátt fyrir að verkefnin séu knýjandi virðast íslensk stjórnmál einkennast af getuleysi til að þroska sýn um leiðina fram á við. Stóryrði, gálgahúmor og einsýni eru ráðandi í opinberri umræðu, þegar þörf er á raunsæi, fordómaleysi og samræðu. Við upplifum vonbrigði yfir stöðunni  en megnum við ekki að breyta henni? Stendur valið í stjórnmálum bara á milli brandara Davíðs og brandara Bjartrar framtíðar?

Til að breyta og velja nýja leið þurfum við fyrst að skilja hvar við erum. Við stöndum öll frammi fyrir sömu spurningum, sem stjórnmálin virðast hins vegar ekki geta tekist á við af alvöru.

Hvernig náðist efnahagslegur árangur og hvað einkenndi hann? Hvernig tryggjum við árangurinn í sessi og leggjum grunn að frekari efnahagsbata í óvissu umhverfi hafta og versnandi lánskjara? Hver er ávinningur okkar af þátttöku í evrópsku viðskiptaumhverfi og hvernig tryggjum við best að við njótum hans áfram? Getum við nokkurn tíma afnumið höft og haldið samt ávinningnum sem við fengum með EES? Og ef okkur tekst það, hvernig getum við þá lifað við EES og frjálsar fjármagnshreyfingar með sjálfstæðan gjaldmiðil? Getur evran veitt okkur betri stöðu að þessu leyti? Það sem hér fer á eftir er framlag mitt til svara við þessum spurningum.

[Ég skrifaði grein undir þessu heiti í Herðubreið, sem birtist í októbermánuði. Greinin er hins vegar svo löng að vefurinn ræður ekki við hana í fullri lengd. Hún birtist því hér í fjórum hlutum.]