12. nóv 2012

Að líta dáð á ný - draumar rætast í verkum

 

 

„Hver dagur líti dáð á ný,
hver draumur rætist verkum í
svo verði Íslands ástkær byggð
ei öðrum þjóðum háð.“

(Hulda)

Við höfum á undanförnum árum gengið í gegnum Hrun – efnahagslegt áfall sem ekkert okkar bjóst við að lifa. Þrátt fyrir að stjórnmálin einkennist af togstreitu og átakasókn, eins og oft gerist í kjölfar áfalla, getum við horft stolt um öxl yfir árangur síðustu ára. Okkur er að takast að snúa hallarekstri í jöfnuð á ótrúlega stuttum tíma. Þrátt fyrir hrakspár og ótta um gríðarlegt velferðartjón – langvarandi atvinnuleysi, alvarlega fátækt og stórfellda fjölgun öryrkja vegna langtímaatvinnuleysis – er okkur að takast að komast í gegnum þessa erfiðleika án slíkra stórfelldra hamfara.

Sumir starfsmenn AGS sem störfuðu hér fóru síðan til Grikklands. Einn þeirra rakti seinna fyrir mér hversu mikill munur væri að starfa þar og hér. „Þið eruð svo samstillt. Þið viljið alltaf ná samstöðu og standið svo vel saman“ sagði hann og ég hlustaði opinmynntur á hann og var eins og stórt spurningarmerki í framan. Hann hafði rétt fyrir sér. Þrátt fyrir efasemdir okkar sjálfra um okkur sjálf hefur samfélagsgerð okkar, stjórnskipan, stjórnsýsla og innviðir allir reynst færir um að takast á við svo mikla erfiðleika og leysa úr þeim með farsælum hætti. Við sögðum okkur sjálfum og öðrum satt um hlutina og tókumst á við þá eins og þeir voru. Sú hreinskipti jók tiltrú á Ísland og möguleika þess. Það hefur aldrei verið sjálfsagt mál að Ísland sé sjálfstætt land og haldi stjórnarfarslegu og efnahagslegu sjálfstæði. Við héldum vel á málum þegar efnahagslegt sjálfstæði okkar var í húfi og fyrir vikið rættist enn á ný í verkum okkar draumurinn  um sjálfstætt Ísland.

Árangurinn byggði að stóru leyti á því að við voru óhrædd við að beita ríkisvaldinu til að takast á við verkefnin. Við biðum með niðurskurð, þar til versta áfallið var yfirstaðið. Við beittum valdi ríkisins til að þvinga banka og aðra kröfuhafa til að lækka skuldir heimila og fyrirtækja, að því marki sem stjórnarskráin heimilaði okkur. Við höguðum breytingum á bótakerfi og skattbreytingum þannig að lágtekjufólk bar miklu minni byrðar af Hruninu en hátekjufólk. Við tryggðum fjármagn í menntaúrræði fyrir ungt atvinnulaust fólk og gáfum þeim tækifæri á erfiðum tímum.

Framundan eru umbrotatímar. Við þurfum að nálgast verkefni næstu ára með sömu sýn að leiðarljósi. Við eigum að nálgast verkefnin eins og þau eru og vera hreinskilin og heiðarleg við okkur sjálf og aðra um eðli þeirra. Við getum ekki horft framhjá raunverulegum úrlausnarefnum og látið eins og þau séu ekki til. Við verðum líka að ná að vinna verkin í samvinnu.

Við þurfum – eins og jafnaðarfólk á Norðurlöndum hefur gert um áratugi – að beita ríkisvaldinu til að vinna með atvinnulífinu að aukinni verðmætasköpun, svo við fáum traustari stoð fyrir velferðarútgjöld okkar til lengri tíma. Við eigum ekki að hræðast atvinnulífið eða fleygja í það fúkyrðum, heldur mæta því í samtali og samræðu með rökum. Við þurfum að vinna með verkalýðshreyfingunni og nýta okkur styrk hennar. Við þurfum að tala saman og vinna saman og reyna að ná sameiginlegri niðurstöðu. Enginn getur alltaf ráðið öllu. En við eigum að geta náð sátt í þágu almannahagsmuna.

Við þurfum frjálst og öflugt atvinnulíf sem getur skapað verðmæti; ráðið fullt af fólki í vinnu og borgað há laun. Eftir Hrun gætir mikils ótta við einkaframtak og kannski er það ekki að ófyrirsynju: Reynslan af oflæti og græðgisvæðingu áranna fyrir Hrun hræðir og vekur efasemdir. Við höfum jú ekki nema tæpra tveggja áratuga reynslu af frjálsum markaði. Við sáum menn taka yfir gróin fyrirtæki, sem höfðu veitt fólki vinnu og greitt skatta og skyldur í áratugi,  hreinsa þau að innan og tefla rekstrarhæfni þeirra í tvísýnu. En það var ekki frelsið sem brást, þótt sumir hafi misnotað frelsið. Það er ekki áfellisdómur yfir athafnafrelsi þótt sumir kjósi frekar að stunda rányrkju en hyggja að morgundeginum. Markaðurinn er þvert á móti tæki frjálsborins fólks til velja og hafna án afskipta hins opinbera. Öll viljum við njóta slíks frelsis. Við þurfum – eins og jafnaðarfólk á öllum tímum – að treysta okkur til að regla hinn frjálsa markað í þágu almannahagsmuna og beita ríkisvaldinu til að þroska hann og efla.

Við þurfum á óvissutímum að greina stöðu okkar í samfélagi þjóðanna með réttum hætti. Við verðum að meta til fulls hversu miklu það hefur skipt að brjóta Ísland undan aldalöngum yfirráðum innlendrar forréttindastéttar, hringamyndun og pólitísku skömmtunarvaldi og muna hversu miklu máli frelsið skiptir okkur. Við verðum að varðveita tækifærin sem felast í opnu og frjálsu landi. En við megum ekki verða bláeyg gagnvart umheiminum. Frjálsar fjármagnshreyfingar hafa á sér skuggahliðar. Það reyna flest Evrópulönd þessi misserin og það reyndum við árið 2008. Skylda okkar er að verja íslenskan almenning fyrir þeim skuggahliðum og leita til þess bestu lausnanna. Við eigum ekkert að hræðast í því efni og megum engan kost útiloka fyrirfram. Við höfum áður kosið okkur hálfgildings aðild að Evrópu, því við töldum okkur trú um að þannig yrðum við síður öðrum þjóðum háð. Annað kom á daginn. Hálfgildings aðildin setti okkur í meiri hættu og gerði okkur háð öflum sem við hvorki réðum við né skildum. Nú þurfum við að velja rétt.

Að beita samtaki

Thor Vilhjálmsson sagði í viðtali stuttu fyrir andlát sitt í fyrra: „Eins og Kjarval sagði: Fólk sem lyftir aldrei neinu í samtaki verður aldrei þjóð. Og nú ríður á þessu: Samtak, verða þjóð og vinna fyrir okkur sem þjóð, meðal þjóða heimsins.“

Við lifum einstaka tíma. Margt af því sem við töldum öruggt og sjálfgefið er horfið eða véfengt. Fyrirmynda er erfitt að leita – mörg lönd eru að krafsa sig í gegnum vandamál sem við höfum þegar leyst eða eru að gera mistök sem við gerðum eða komumst hjá. Þess vegna verðum við að tileinka okkur auðmýkt gagnvart þeim verkum sem við stöndum frammi fyrir, skilja hætturnar og taka á þeim af þeirri alvöru sem hæfir. Forsprakkar stjórnmálanna láta enn sem að þeir hafi hver fyrir sig öll svörin. Ríkisstjórnin eigi að grobba sig og stæra og stjórnarandstaðan að yfirbjóða. Áfram eigi að kallast á af hótfyndni og stráksskap, eins og ekkert hafi í skorist.

Framtíðin er í okkar höndum. Við getum búið til ný stjórnmál, þar sem við beitum samtaki; hlustum, ræðum og leitum samvinnu um lausnir. Það er okkar að gefa slíkum stjórnmálum rúm og kveðja galskap gærdagsins.