12. nóv 2012

Að líta dáð á ný - þjóð í höftum

 

 

„Minn staður er hér, þar sem Evrópa endar
og auðnir hnattarins taka við.
Eldgróf í sæ, með ísgráan múrinn
á aðra hlið.

Örlagastaður sem stundirnar markar.
Hér stendur rótum í gleði og sorg
mitt sveitamannslíf, mín hálfgildings hugsun
í hálfgildings borg

og er viðspyrna, farg; það fellur hér saman —
flækjuleg reynsla. Hvort nýtist hún mér
til fullnaðarsöngva? Útmörk. Evrópa
endar hér.“

(Hannes Pétursson, 1970)

 

Við getum ekki haldið áfram að tala um efnahagsmál úr samhengi við aðgang okkar að hinu alþjóðlega viðskiptaumhverfi, um gjaldeyrishöft úr samhengi við samningssamband okkar við önnur Evrópuríki eða um gjaldmiðilsmál úr samhengi við möguleika okkar til að losa um höft. Efnahagsstefna Íslands, Evrópustefna og stefna um afnám gjaldeyrishafta – allt er þetta ein og órofa heild og byggir hvað á öðru.

Valið er skýrt. Annar kosturinn er að Ísland verði til lengri tíma í höftum, lífskjör haldi áfram að dragast aftur úr því sem tíðkast í nágrannalöndum okkar og atvinnulíf verði sífellt einhæfara. Hinn kosturinn er að Ísland nái tökum á þátttöku í frjálsu og alþjóðavæddu hagkerfi og geti boðið íbúum samkeppnishæf lífskjör og tækifæri. Hvaðeina sem við gerum þessi misserin hefur áhrif á hvor leiðin verði ofan á. Það þarf lítið til að okkur beri af leið. Agaleysi í ríkisrekstri getur ýtt okkur fram af brúninni, rétt eins og glámskyggni okkar á skaðsemi hafta. Þess vegna þurfum við að greina rétt stöðu okkar í alþjóðlegu samhengi og taka skynsamleg skref í kjölfar vandaðrar greiningar. Verkefnið hlýtur að vera að finna leiðir til að við getum þróað áfram samkeppnishæft og opið hagkerfi, en án þess að efnahagslegum stöðugleika sé ógnað.

Ísland er í Evrópu

Ísland varð með EES-samningnum aðili að mikilvægasta þætti Evrópusamstarfsins, innri markaði sem tryggir hindrunarlaus viðskipti með vörur, þjónustu, frjálsa för vinnuafls og fjármagnshreyfingar. Við metum oft ekki til fulls mikilvægi þessarar þátttöku. Hún skiptir sköpum í daglegum rekstri fyrirtækja, sem kaupa aðföng og hráefni frá Evrópu og selja vörur þangað. Menntakerfi okkar er orðið hluti af evrópsku mennta- og rannsóknaneti. Þess vegna er óhjákvæmilegt að allir hugi að stöðu Íslands í evrópsku samstarfi og hvernig hún verði best tryggð.

Ástæðan fyrir aðild okkar að innri markaðnum árið 1993 var augljós, en þó langt í frá óumdeild. Íslenskt efnahagslíf var komið í ógöngur einangrunar, hringamyndunar og pólitískra flokkadrátta undir lok níunda áratugar síðustu aldar. Fyrir ungu fólki í dag hljómar það fjarstæðukennt að pólitískar skoðanir en ekki vörugæði hafi ráðið kaupum á bifreiðum, tækjum, olíu, tryggingum og frakt, en sú var engu að síður raunin. Hægt var að aka um sveitir landsins og sjá á bíla- og vélakosti hvort viðkomandi bóndi kysi Framsókn eða Sjálfstæðisflokk. Frægt er tilsvar Framsóknarmannsins: „Frekar keyri ég bensínlaus en á bensíni frá Skeljungi“.

Þetta einhæfa atvinnulíf var komið í þrot af súrefnisleysi. Það var óhagkvæmt, varið fyrir samkeppni og naut hvorki fullnægjandi aðgangs að fjármagni á arðsemisforsendum né nauðsynlegs aðgangs að erlendum mörkuðum. Hið lokaða Ísland forréttindahópa Kolkrabba og Sambandsins gekk vel á meðan sjávarafli jókst ár frá ári, en um leið og gjöfular auðlindir hættu að niðurgreiða kostnað þjóðarinnar af fákeppni og klíkuveldi hætti hagkerfið að vaxa. 

EES – samningurinn var mikilvægur

EES-samningurinn leysti þetta vandamál í einu vetfangi og var alger forsenda efnahagsuppgangs sem hófst strax upp úr miðjum tíunda áratugnum. Íslenskar útflutningsgreinar fengu fullan og hindrunarlausan markaðsaðgang og tollar á flestar sjávarafurðir féllu niður. Íslenskar samkeppnisgreinar fengu ný vaxtartækifæri sem þær nýttu vel – Össur, Marel, Actavis, CCP eru bara nokkur dæmi um fyrirtæki sem skutust áfram í meðbyr frjálsra markaðsviðskipta og aðgangs að fjármagni og mörkuðum og hefðu ekki getað vaxið með sama hætti nema fyrir tilkomu EES-samningsins.

Samkeppnislöggjöf var sett í fyrsta sinn að evrópskri fyrirmynd og þannig var bundinn endir á víðtækt og landlægt samráð um verð og framboð á vöru og þjónustu, sem hafði takmarkað getu samfélagsins til verðmætasköpunar um áratugi og jafnvel aldir. EES-samningurinn opnaði einnig fyrir erlent fjármagnsstreymi til Íslands, sem var burðarstoð í uppbyggingu atvinnulífsins.

EES gaf Íslendingum líka kærkomið og langþráð frelsi til athafna í eigin rétti, braut niður pólitískt skömmtunarvald og kom böndum á rótgróið ofríki íslenskra stjórnvalda gagnvart eigin borgurum. „Með EES fengum við frelsi til að vera við sjálf“ sagði ein góð kona. EES-samningnum fylgdi líka fjölþjóðlegt eftirlit og dómsvald, sem var ekki síður mikilvægt. Íslensk stjórnvöld gátu ekki lengur virt að vettugi að vild skuldbindingar samkvæmt alþjóðasamningum. Eftirlitsstofnun EFTA var sett á fót til að tryggja að íslensk stjórnvöld færu að EES-samningnum og EFTA-dómstólnum var falið dómsvald um réttindi og skyldur.

Til að uppfylla skyldur okkar samkvæmt samningnum þurftum við að tileinka okkur þær grunnreglur markaðshagkerfis sem nágrannalönd okkar hafa lengi byggt á: Frjálsa samkeppni og bann við hringamyndun, samkeppnishömlum og ríkisstyrkjum í atvinnulífi. Nágrannalönd okkar búa við aldalanga reynslu af frjálsum mörkuðum, þar sem ólíkir hagsmunir leikast á og aðferðir við eftirlit með markaðshegðun hafa þróast á löngum tíma. Reynsla Íslands af frjálsum og valddreifðum markaði nær ekki einu sinni tveimur tugum ára.

Við afnámum ofurvald innlends klíkuveldis og sköpuðum landsmönnum aukið vald til að móta eigin örlög. Án EES-samningsins er alls óvíst að okkur hefði miðað að ráði í rétta átt að þessu leyti. Innlend hagsmunaöfl höfðu öldum saman náð að standa gegn viðskiptafrelsi í landinu.

Frelsið er yndislegt - en vandmeðfarið

En opnun hagkerfisins og aukið frelsi til athafna hafði líka í för með sér vandamál, sem enginn sá fyrir. EES-samningurinn tók gildi um það leyti sem algerlega hindrunarlaus innri markaður ESB með vörur, þjónustu, frjálsa för vinnuafls og fjármagns varð loksins til. Aðildarríki ESB höfðu unnið að því að afnema allar hindranir í viðskiptum sín á milli um áratugi. Allt frá upphafi níunda áratugarins höfðu vestræn ríki líka stefnt að auknu frelsi í fjármagnsflutningum milli landa. Markmiðið var að fjármagnið ætti greiða leið yfir landamæri og allir áttu að njóta ávinnings af því fullkomna frelsi, þegar hagkvæmnin ein réði því hvar fjármagnið lenti á endanum.

Fjármálakerfi heimsins tók stakkaskiptum á þessum tíma. Reglur voru rýmkaðar um allan heim og tækniframfarir gerðu flókin viðskipti miklu auðveldari. Fullt frelsi til fjármagnsflutninga á hinum evrópska markaði skapaði óteljandi ný tækifæri. Fyrir vikið margfölduðust viðskiptin milli ára, hvort sem talið var í fjölda samninga eða í fjármunum sem skiptu um hendur. Þessi nýja veröld hrundi með fjármálakreppunni 2008.

Stjórnmálamenn um öll lönd játa nú að þeir hafi ekki skilið til fulls eðli fjármálamarkaða eða gereyðingarmátt þeirra. Engir gerðu sér til fulls grein fyrir því hver áhrif fullt frelsi til fjármagnshreyfinga gæti haft á efnahagslegt öryggi almennings í hinum vestræna heimi. Þvert á móti var almenn samstaða um mikilvægi aukins markaðsfrelsis. Hægri menn studdu markaðsfrelsið því það myndi auka hagnað og arðsemi. Jafnaðarmenn studdu það því þeir voru sannfærðir um að frjálst heimshagkerfi myndi draga úr aðstöðumun milli ríkari ríkja og fátækari, brjóta niður forréttindi innlendra valdastétta og skapa jafnari tækifæri til verðmætasköpunar.

Alþjóðasinnar, jafnt til hægri og vinstri, vissu líka hversu skaðleg efnahagsleg þjóðernisstefna hafði reynst, allt frá því að ríki heims reistu tollmúra í kreppunni miklu á fjórða áratug síðustu aldar og gerðu þannig alvarlega niðursveiflu að langvinnri heimskreppu og bjuggu í haginn fyrir ofbeldisöfl. Allir höfðu líka séð að samkeppni ríkja um að fella gengi til að bæta stöðu sína hvert gagnvart öðru hafði engu skilað öðru en verðbólgu, óstöðugleika og skertri samkeppnishæfni ríkja. Það var því almennt álitinn mikill fengur af auknum milliríkjaviðskiptum og auknu frelsi í fjármagnshreyfingum.

Það varð hlutskipti Íslands að gera hvort tveggja í senn: Að gera grundvallarbreytingar á innlendu viðskiptaumhverfi í frjálsræðisátt og opna þetta viðskiptaumhverfi fullkomlega fyrir alþjóðlegum hræringum. Við stukkum því í einu vetfangi úr einangruðu haftasamfélagi og yfir í opið, fjölþjóðlegt samkeppnisumhverfi, sem var að taka stórfelldum breytingum á sama tíma. Eftir á að hyggja var alltaf óhjákvæmilegt að slík stökkbreyting myndi valda togstreitu af einhverjum toga og að einhverjir vaxtarverkir myndu gera vart við sig á þessari vegferð.

Hagvarnir litnar hornauga

Við hin hröðu umskipti kom í ljós að íslenskt stjórnkerfi var algerlega óreynt og vanbúið til að regla frjálsa markaði. Við bjuggum ekki yfir langi hefð fyrir frjálsum viðskiptum og eðlilegri verðmyndun á frjálsum markaði, eins og nágrannalönd okkar. Hér varð ekki einu sinni til Kauphöll og markaðsviðskipti með hlutabréf fyrr en upp úr 1990. Á Íslandi var engin þekking eða reynsla til að greina íslenska markaði og sérkenni þeirra. Slík greining hefði átt að vera nauðsynleg forsenda skynsamlegs regluverks. Reynslan kenndi mönnum líka fljótt að vísan til evrópskra reglna komi í veg fyrir að stjórnsýsla eða stjórnmálamenn þyrftu sérstaklega að rökstyðja val á stefnumörkun, enda vissi þjóðin almennt að í EES-samningnum fælist skuldbinding um upptöku samevrópskra reglna. Fyrir vikið var það einföld leið að byggja bara á hinu samevrópska regluverki, sem barst okkur með EES-samningnum, án nokkurrar efnislegrar aðlögunar. Af því leiddi svo að við lögðum aldrei sérstakt mat á séríslenska áhættuþætti, eins og náin tengsl og landlægar klíkumyndanir í viðskiptalífi, sem gerðu skuldsett viðskiptalíf jafn viðkvæmt og spilaborg í aðdraganda hrunsins 2008. Við lögðum heldur aldrei mat á hverjar væru eðlilegar starfsheimildir banka á alþjóðlegum markaði út frá íslenskum hagsmunum og þeirri áhættu sem stórt bankakerfi með mikla alþjóðlega starfsemi skapaði fyrir íslenskt efnahagslíf sem var lítið í samanburði.

Áherslan meðal aðildarríkja ESB var á opið hagkerfi og hugmyndir um einhvers konar hagvarnir voru almennt litnar hornauga og tengdar einangrunarhyggju og tollmúrum fyrri áratuga. Allar sérlausnir hefðu þurft að byggja á efnislegri og rökstuddri greiningu á séreðli íslenskra markaða og það er augljóst að henni gat aldrei verið fyrir að fara þegar hvorki voru til íslenskir markaðir né greining á hegðun þeirra. Líklega höfðum við því hvorki sjálfsskilning né efnislegar forsendur til að útbúa hugmyndir um séríslenskar lausnir á þeim tíma.

Almennt má segja að í hinu evrópska fjórfrelsi hafi falist djúpstætt vanmat á þeim hættum sem gætu skapast af samspili frjáls innri markaðar með fjármálaþjónustu yfir landamæri og áframhaldandi tilvist sjálfstæðra gjaldmiðla og þess að stuðningur við banka og eftirlit með þeim  og umgjörð innstæðutrygginga væri á ábyrgð hvers ríkis um sig. Í þessum veikleikum lágu orsakir Hrunsins að stóru leyti og sumir þessara veikleika hafa valdið Írum og nú Spánverjum gríðarlegum erfiðleikum. Íslenska hrunið var því ekkert séríslenskt, þótt smæð íslenska hagkerfisins og veikleiki krónunnar hafi valdið því að þessar hættur ollu fyrr tjóni og mögulega meira tjóni hér á landi en annars staðar.

Með innri markaðinum urðu gjaldmiðlar vörur – rétt eins og korn eða olía eða hvað annað sem gengur kaupum og sölum á markaði. Skyndilega varð almenningi mögulegt, án vandkvæða, að kaupa gjaldmiðil – ekki til að nota til kaupa á vöru eða þjónustu, heldur til að veðja á verðþróun hans eða njóta vaxtakjara viðkomandi ríkis. Við supum seyðið af þessu á árunum fyrir hrun, þegar vaxtastig hér var hærra en í Evrópu og fjármálafyrirtæki um alla Evrópu buðu viðskiptavinum að njóta íslenskra vaxtakjara með kaupum á krónueignum. Þessi viðskipti voru jafnvel á færi einstaklinga sem gátu keypt krónur eða eignir í krónum með íslenskum vöxtum í heimabankanum sínum. Afleiðingin varð gríðarlegt innflæði erlends gjaldeyris sem styrkti gengi krónunnar, bjó til innistæðulausan kaupmátt og lækkaði verðbólgutölur. Vandinn var bara að þegar harðnaði á dalnum vildu allir út á sama tíma og gjaldeyrismarkaðurinn hrundi. Þess vegna eru hér gjaldeyrishöft og þess vegna eru hér fastar aflandskrónur.

Við þennan vanda bættist annar alvarlegur ágalli. Vegna smæðar hagkerfisins, sveiflna gjaldmiðilsins – og líklega líka rótgróinna efasemda Íslendinga um ágæti erlendrar fjárfestingar – var lítið um beina erlenda fjárfestingu hér á landi í kjölfar EES-samningsins, nema í áliðnaði. Þess í stað nýtti íslenskt atvinnulíf hið nýfengna frelsi til öflunar fjármagns til að taka lán. En þá liggur áhættan öll hjá Íslendingum: Ef gengi krónunnar fellur hækka erlendu lánin og vaxa innlendum fyrirtækjum hratt yfir höfuð. Ef harðnar á dalnum hækka vextir. Hrunið sýnir betur en nokkuð annað hversu varhugavert það er að byggja efnahagsuppbyggingu alfarið á lánsfé. Umsvifameiri bein erlend fjárfesting hér á landi hefði aukið á efnahagslegan stöðugleika, greitt frekar fyrir tækniþróun í íslensku atvinnulífi og ekki farið svo glatt úr landi. Hækkun fjármagnskostnaðar vegna gengisbreytinga eða versnandi ytri aðstæðna hefði lent á hinum erlendu fjárfestum.

Öll vitum við svo hvernig aðdragandi hrunsins leiddi í ljós miklar veilur á því regluverki sem gilti um fjármálastarfsemi á innri markaðnum. Íslensku bankarnir höfðu engan lánveitanda til þrautavara sem gat séð þeim fyrir alþjóðlega nothæfum gjaldmiðli og því voru engin bjargráð möguleg eftir að fyrsti stóri íslenski bankinn lenti í vandræðum. Innstæðutryggingakerfið reyndist of veikburða fyrir banka með starfsemi víða um lönd, jafnvel þótt það hefði verið útbúið í fullu samræmi við hið evrópska regluverk. Enn og aftur var gjaldmiðillinn þar lykilþáttur. Íslenskt bankakerfi gat ekki starfað á evrópskum markaði með íslenska krónu sem gjaldmiðil. Eina leiðin til þess hefði verið ef allir bankar á svæðinu hefðu haft aðgang að einum lánveitanda til þrautavara, sem hefði tryggt þeim aðgang að gjaldeyri og ef sameiginlegt innstæðutryggingakerfi hefði verið við lýði, sem hefði starfað þvert á landamæri.

Höftin aðeins var – veikja heilbrigða viðskiptahætti

Allir þessir áhættuþættir eru enn hluti af innri markaðnum og ekki hafa verið útbúnar leiðir til að takast á við þá nema að litlu leyti á evrópskum vettvangi. Við erum nú í vari fyrir þeim, vegna gjaldeyrishaftanna, en yrðum á ný berskjölduð fyrir þeim þegar höftum væri aflétt.

Þrátt fyrir höftin búum við vissulega enn við marga kosti EES-samningsins. Íslensk fyrirtæki njóta aðgangs að evrópskum markaði fyrir vöru sína og þjónustu og við getum frjáls tekið okkur búsetu hvar sem er á hinu evrópska efnahagssvæði og fengið þar vinnu. En við höfum ekki getað lifað við frjálsar fjármagnshreyfingar og höftin koma í veg fyrir að fjármagn streymi til landsins til að þjónusta íslenskt efnahagslíf og fólk og fyrirtæki í milliríkjaviðskiptum lenda daglega í vandræðum vegna hafta.

Gjaldeyrishöft eru hörmuleg. Það vitum við af áratuga reynslu og það sjáum við nú sífellt skýrar með hverjum degi sem líður í viðjum hafta.Sá ágæti hagfræðingur Dr. Benjamín J. Eiríksson kallaði höft „stíflugarða á floti“ og það var réttnefni. Fé finnur sér farveg. Höft breyta þeim farvegi, gera hagkvæma hluti óhagkvæma og öfugt.

Höftin voru sannarlega óhjákvæmileg til að stöðva stjórnlaust fall krónunnar í árslok 2008. Og gjaldeyriseftirlit er óumflýjanlegt meðan höft eru við lýði. Og öllum ber að fylgja lögum og virða. Hinn siðferðilegi og heimspekilegi vandi við höft er hins vegar sá að með þeim er athæfi, sem áður var fullkomlega löglegt og er samkvæmt almennri réttlætisvitund okkar siðlegt, gert ólögmætt.  Athæfi sem er sjálfsagt og eðlilegt í öllum nágrannaríkjum okkar verður skyndilega glæpsamlegt á Íslandi einu. Og það sem meira er: EES-samningurinn kveður beinlínis á um rétt til einstaklinga og fyrirtækja til óheftra milliríkjaviðskipta með fjármagn. Höftin eru ósamrýmanleg EES-samningnum, nema sem neyðaraðgerð. Við erum því annars vegar með alþjóðlegt regluverk sem hefur lagagildi á Íslandi sem veitir rétt til að gera eitthvað og svo önnur innlend lög sem gera sama hlut glæpsamlegan.

Flest alþjóðleg fyrirtæki okkar vaxa nú um stundir erlendir, meðal annars vegna haftanna. Sú hætta er því raunveruleg að við missum ekki bara úr landi vöxt þessara fyrirtækja heldur líka höfuðstöðvar þeirra og skatttekjur sem þeim fylgja. Það að alþjóðleg fyrirtæki á Íslandi hafi ama af höftunum er ekki það versta. Mun verra er að engin ný alþjóðleg fyrirtæki munu ná að vaxa frá íslenskum rótum þegar litið er til framtíðar í skjóli svona hafta. Þess í stað munu nýir sprotar aðeins ná því að vaxa kyrkingslega á bakvið við múra.  

Afnám hafta á að vera aðalverkefni stjórnmálanna

Ætla mætti að stjórnmálin snerust fyrst og fremst um lausn á þessum bráðavanda sem læsir landið í þriðjaheimsviðskiptaumhverfi, eyðileggur tækifæri til verðmætasköpunar og brýtur niður heilbrigt viðskiptasiðferði.

Staðreyndin er samt sú að enginn sem nær máli – hvort heldur er innanlands eða utan – hefur lengur trú á að höftum verði aflétt í fyrirsjáanlegri framtíð með þeim meðölum sem tiltæk eru.

Erfiðasta hindrunin í vegi afnáms hafta er hin fullkomna óvissa sem væri um hvað það væri sem tæki við eftir höft. Mun krónan einungis taka dýfu í nokkra mánuði og ná svo aftur eðlilegu jafnvægisgengi eða getum við búist við langvinnu tímabili veiks gengis krónunnar með gósentíð útflutningsgreina en hörmulegum afleiðingum fyrir innlenda verslun, þjónustugreinar og skuldsett heimili?

Allir þekkja aflandskrónuvandann og óþarfi að fjölyrða um hann. Aflandskrónurnar þurfa út og við verðum að geta losað þær út á kjörum sem við stöndum undir. Hitt gleymist oft í umræðunni að íslenskt efnahagslíf er nú þegar mjög skuldsett í erlendum gjaldeyri. Ríki, sveitarfélög, orkufyrirtæki og einstök fyrirtæki eru með erlendar skuldir. Til að greiða af þessum skuldum þarf að afla gjaldeyris. Tveir nýju bankanna eru að stærstum hluta í erlendri eigu og munu greiða arð til eigenda sinna úr landi á næstu árum. Til þess þarf líka gjaldeyri. Stærsti óvissuþátturinn sem háir okkur nú við afnám hafta er hvert raunverulegt heildarumfang þessara skuldbindinga er og hvort geta þjóðarinnar til að afla gjaldeyris mun standa undir því útflæði sem fyrirsjáanlegt er vegna þeirra á næstu áratugum. Er Ísland, með öðrum orðum, of skuldsett í erlendum gjaldeyri?

Mikilvægasta verkefni næstu mánaða er að kortleggja þessa stöðu til fulls. Við það mat er mikilvægt að velta við hverjum steini, taka alla þætti með í reikninginn og vanmeta ekki útflæðisþrýstinginn. Við höfum til dæmis séð erlendar eignir lífeyrissjóðanna rýrna hlutfallslega á undanförnum árum og það er óumflýjanlegt að þeir verji miklum hluta handbærs fjár til fjárfestinga erlendis um leið og höftum verður aflétt, ef þeir eiga að ná að dreifa áhættu sinni og standa undir því hlutverki sem þeim hefur verið falið. Við verðum að gera ráð fyrir öllu slíku í þessu reikningsdæmi. Það borgar sig ekki að nálgast þetta verkefni með „þetta reddast“ hugarfarinu. Þvert á móti er staðan sú að ef við tökum ekki allt með í reikninginn og vanmetum heildarumfang skuldbindinganna eru allar líkur á að krónan súnki við afnám gjaldeyrishafta og haldist veik um langa hríð, með hörmulegum afleiðingum fyrir efnahagslífið.

En hvað er til ráða ef aflandskrónur og erlendar afborganir opinberra aðila og einkaaðila – allra hér á Íslandi – reynast meiri en sem nemur getu landsins til að skapa gjaldeyri? Þá bíður okkar mikilvægt verkefni, sem eru samningar við erlenda kröfuhafa um lækkun þessara skulda. Erlendir kröfuhafar hafa hag af því að Íslandi gangi vel og þeim getur ekki hugnast sú framtíðarsýn að íslenskt efnahagslíf læsist í doða vegna ofskuldsetningar. Við höfum í tvígang áður gripið til aðgerða sem greiddu fyrir skynsamlegum skuldaskilum við erlenda kröfuhafa. Fyrst settum við neyðarlögin, sem vörðu hagkerfið. Næst var samið um skiptingu bankanna í gamla og nýja og svigrúm skapað fyrir úrvinnslu skulda heimila og fyrirtækja. Nú er síðasta verkefnið eftir: Að tryggja að Ísland í heild – ríkisrekstur sem einkarekstur – geti staðið undir erlendum skuldum.

Getur krónan virkað? Getur EES virkað?

En eftir stendur þá spurningin um hvort krónan muni geta spjarað sig í eðlilegum viðskiptum á gjaldeyrismarkaði eftir að höft hafa verið afnumin. Getur krónan virkað án sérstakra stuðningsaðgerða og verður verðmyndun hennar eðlileg?

Þátttaka okkar í innri markaðnum hefur skilað okkur miklum árangri en líka gert okkur berskjölduð fyrir hættum sem leitt hafa af samspili frjálsra fjármagnsflutninga og tilvist lítils gjaldmiðils. Gengi krónunnar sveiflast í frjálsu umhverfi langt umfram það sem undirliggjandi efnahagsstærðir gefa tilefni til. Á toppi innflæðis erlends fjármagns vorið 2006 styrktist krónan á sama tíma og fréttir bárust af stórfelldum niðurskurði í þorskafla. Ekkert sýnir betur að gengisþróun krónunnar endurspeglaði ekki verðmætasköpun í hagkerfinu. Fyrir vikið varð íslenskur almenningur ofurseldur dyntum erlendra spekúlanta. Þegar þeir vildu allir út á sama tíma hrundi gjaldeyrismarkaðurinn og haftatíminn tók við.

Getum við aflétt höftum og lifað við umgjörð EES? Höfum við nægilega sterka umgjörð um hagvarnir okkar innan EES? Er EES-samningurinn dæmi um „hálfgildings hugsun“ í anda þess sem Hannes Pétursson lýsti í ljóðinu hér að framan – lausn sem einkennist af þörf okkar fyrir að stíga ekki skrefin til fulls, en dugar kannski heldur ekki til fullnustu?

Við getum ekki í dag uppfyllt ákvæði EES-samningsins og alls óvíst er hvernig við förum að því þegar fram í sækir. Við höfum reist gjaldeyrishöft sem ekki standast ákvæði samningsins. Í nýútkominni skýrslu Seðlabankans um varúðarreglur eftir höft er gert ráð fyrir að áfram verði unnt að viðhalda ýmsum hömlum á frjálsum fjármagnshreyfingum, eftir að höftum hefur verið aflétt. Þegar nánar er að gáð er óvíst að þær standist allar ákvæði EES-samningsins. Þannig er til dæmis gert ráð fyrir banni við lántöku heimila og fyrirtækja sem ekki hafa erlendar tekjur í erlendri mynt, en Eftirlitsstofnun EFTA hefur gert athugasemdir við Ísland um bann við gengistryggðum lánveitingum og telur það ekki samrýmast ákvæðum EES-samningsins. Við munum, að óbreyttu regluverki, eiga erfitt með að takmarka heimildir íslenskra banka til að sækja á erlenda markaði eftir afnám hafta og innstæðutryggingakerfi hefur ekki verið útfært með trúverðugum hætti fyrir íslenska banka að afléttum höftum. Og jafnvel þótt hægt væri að laga EES-samninginn að slíkum hömlum – höftum undir nýju nafni – fælist að öllum líkindum í þeim ákvörðun um að skapa séríslenskt einangrunarregluverk um íslenskan fjármálamarkað. Slíkt mun hafa í för með sér afleiðingar – þær augljósustu enn hærri fjármögnunarkostnað fyrir íslensk fyrirtæki og heimili.

Því til viðbótar er sífellt að koma betur í ljós að EES-samningurinn reynir mjög á þanþol stjórnarskrárinnar að því er varðar framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana. Með hugmyndaríkri túlkun stjórnarskrárinnar má telja mögulegt að fela alþjóðastofnunum, sem Ísland á aðild að, tiltekin verkefni en þó er þar teflt á tæpasta vað. Málið vandast hins vegar ef um er að ræða alþjóðastofnanir sem Ísland á ekki aðild að. Í sífellt ríkari mæli blasir nú við að stofnanir ESB þurfi að fá völd til að taka ákvarðanir sem gildi líka um Ísland og Noreg, sem standa utan ESB. Þessi staða er uppi varðandi viðskiptakerfi með losunarheimildir, um lyf til barnalækninga og, það sem mestu skiptir, um nýjar stofnanir á sviði fjármálastöðugleika og bankaeftirlits. Sú öfugsnúna staða er því uppi nú að Ísland – sem varð fyrir miklu höggi vegna skorts á sameiginlegu regluverki um fjármálastöðugleika og bankaeftirlit – getur ekki leitt í lög hér þær úrbætur á því sviði sem Evrópusambandsríkin hafa þegar tekið ákvarðanir um. Við erum því enn sem fyrr bundin af því að hafa í heiðri fullt frelsi til fjármagnsflutninga, en höfum ekki stjórnskipulegar heimildir til að takmarka það frelsi og regla fjármálakerfið með sama hætti og hin löndin á hinu evrópska efnahagssvæði. Samningurinn leyfir okkur ekki líklega ekki heldur séríslenskar haftalausnir, sem eru að öðrum kosti nauðsynlegar fyrir farsæla sambúð fjármagnsfrelsis og fljótandi veikburða gjaldmiðils. Fátt sýnir betur hversu öfugsnúin staða Íslands er orðin innan umgjarðar EES-samningsins.

Af öllu þessu leiðir að EES-samningurinn er okkur umtalsvert vandamál og ekki er einfalt að finna leiðir til að lifa við hann að óbreyttu. Við munum eiga í erfiðleikum við afnám hafta og tæpast hafa það svigrúm til að setja hömlur sem Seðlabankinn telur nauðsynlegt til að reka sjálfstæðan gjaldmiðil í umgjörð frjálsra fjármagnshreyfinga. Við höfum ekki stjórnskipulegar heimildir til að láta fjölþjóðlegar eftirlitsstofnanir fá fullnægjandi valdheimildir til fjármálaeftirlits og varúðar, sem gætu sett fjármagnsfrelsinu alþjóðlega viðurkenndar hömlur. EES-samningurinn býður því að óbreyttu ekki upp á annað en að endurtaka tilraunina um samspil minnsta fljótandi gjaldmiðils í heimi og óhefts fjármagnsflæðis. Hún tókst ekki vel.

Glerperlur, eldvatn og logandi bál?

En er einhvers betra að vænta af fullri aðild að ESB? Er ekki Evrópuríkin í miklum vanda?

Fjármálakreppan frá 2008 hefur nú þróast í torleysta skuldakreppu. Heimili á Vesturlöndum hafa um áratugi gengið á eigið fé og aukið skuldsetningu sína. Þetta á við um Bandaríkin, Bretland, ýmis evruríki og svo Ísland, en í misríku mæli. Skuldsetning í atvinnulífi hefur líka aukist í kjölfar sífellt fjölbreyttara framboðs á fjármálaþjónustu. Sama má svo segja um hið opinbera – ríki og sveitarfélög – í ýmsum ríkjum. Evran greiddi að mörgu leyti fyrir þessari þróun, því með henni fengu flest aðildarríkin og bankar þeirra aðgang að lánsfé á mun lægri kjörum en þeim hefðu ella boðist. Fleiri og fleiri gátu því tekið hærri og hærri lán. En það þurfti ekki evruna til – þar er reynsla Íslendinga ólygnust. Bætt lánshæfismat íslenska ríkisins nýttist íslenskum bönkum til útþenslu með sama hætti. 

Grunnurinn að vandanum er því skuldsetning heimila, fyrirtækja og opinberra aðila. Þeim mun fleiri þættir efnahagslífsins sem eru skuldsettir upp í rjáfur, því minna svigrúm er til að takast á við óvænt áföll. Þess vegna er enginn eðlismunur á orsökum vanda evruríkjanna Spánar, Írlands og Portúgals og svo Lettlands, Ungverjalands og Bretlands. Eini munurinn felst í því hversu víðtæk skuldsetningin var og hvort það voru ríkið sjálft, sveitarfélögin, bankakerfið, heimilin eða fyrirtækin sem stofnuðu til skuldanna. Sú staðreynd að reglur innri markaðarins byggja á því að hvert ríki um sig styðji við og regli eigið fjármálakerfi veldur því hins vegar að vandi banka verður fljótt vandi þjóða á hinum evrópska markaði. Þar gildir einu hvort við eigum í hlut eða evruríki. Spurningin er bara hversu vel eða illa gengur að komast hjá því að bankakerfi í vanda verði viðkomandi þjóð að fótakefli.

Þegar harðnar á dalnum hætta bankar að geta lánað og lánsfé verður torfengnara og hækkar í verði. Bankar vilja að lán séu greidd upp eða vextir hækki.

Afleiðingarnar verða ólíkar eftir því hvaða land á í hlut, en þær eru alltaf erfiðar. Ísland byggði allt sitt á erlendum lánum. Fyrir vikið komu áhrif versnandi skilyrða að fullu og öllu fram á gjaldeyrismarkaðnum. Erlendir bankar heimtuðu að íslenskir skuldarar borguðu lánin sín. Spákaupmenn vildu líka breyta krónunum sínum í evrur. Enginn gjaldeyrir var til og krónan hrundi.

Evran veldur því að kreppan hefur annars konar áhrif á evruríkin. Innan evrusvæðisins er ekki um gjaldeyrisyfirfærslur að ræða. Þar koma afleiðingar fram á skuldabréfamarkaði, þar sem áhættuálag á skuldug ríki og skulduga banka eykst. Ríkin þurfa að verja meira fé til að styðja við fjármálakerfi sín. Hóflegar ríkisskuldir geta fljótt orðið algerlega óviðráðanlegar þegar vaxtastigið fer upp úr öllu valdi.Vandinn er sá sami, en afleiðingarnar verða aðrar.

Hið öfugsnúna er að við núverandi aðstæður ýkir evran aðstöðumun aðildarríkjanna. Lántökukostnaður Þjóðverja hefur þannig lækkað stórlega á meðan kostnaður annarra hefur hækkað. Spánverjar og Ítalir hafa undanfarið þurft að borga 6-7% vexti á 10 ára skuldabréfum, en Þjóðverjar borga nú rétt rúmt prósent og njóta neikvæðra vaxta á bréfum til tveggja ára - fjárfestar borga semsé fyrir að fá að lána Þjóðverjum peninga til skamms tíma. Fjármögnunarkjör þessara þjóða voru hins vegar áþekk fyrir 2008. Þjóðverjar hafa þannig sparað sér tugi milljarða evra í vaxtagjöld á þessu ári einu, á meðan að öll önnur lönd þurfa að skuldsetja sig - og almenning - til að standa skil á vaxtagreiðslum, sem oftar en ekki renna á endanum til þýskra banka.

Þetta ójafnvægi  hefur sífellt víðtækari áhrif. Vaxtastig það sem ríkið borgar er það gólf sem vaxtastig allra annarra miðast við. Þannig mun vaxtakostnaður ítalskra og spænskra fyrirtækja rjúka upp að óbreyttu þegar þarlendir bankar munu hækka vexti. Augljóst virðist því að þessi staða muni valda vaxandi misvægi á evrusvæðinu, sem birtist í lakari samkeppnisstöðu banka í ríkjum í erfiðleikum, hættu á fjármagnsflótta og mismun í fjármögnunarkjörum ríkja sem er langt umfram það sem eðlilegt getur talist.

Evran hafði þannig áhrif til að auka skuldsetningu sumra evruríkja og hún ýtir – við núverandi aðstæður – undir misvægi milli aðildarríkja, en hún er sem slík hvorki orsök vanda allra evruríkja né hindrun í vegi skynsamlegra lausna á vandanum. Ekki má gleyma því að evran kemur líka í veg fyrir að menn geti beitt hefðbundnum lausnum sem ríki hafa gripið til í alvarlegum fjármálakreppum hingað til – stórfelldum gengisfellingum, höftum á fjármagnsútstreymi og einangrunarstefnu í milliríkjaviðskiptum. Það er auðvelt að mæla með hinni „íslensku leið“ stórfelldrar gengisfellingar – sem felur í sér launalækkun um tugi prósenta – en við vitum líka að slík leið skapar engin verðmæti heldur einfaldlega flytur þau til. Ef allir færu hana, væru allir á sama stað.

Ef evran á að lifa, þurfa aðildarríkin til að takast á við hið raunverulega misvægi sem er að baki kreppunni og þá veikleika sem þegar hafa komið fram í evrusamstarfinu. Eðlislíkt misvægi olli hér bankahruni og haftabúskap og við stöndum ráðalaus gagnvart því. Þetta misvægi ógnar ekki bara stöðugleika evrusamstarfsins heldur líka umgjörð frjálsra fjármagnshreyfinga á hinum samevrópska markaði. Ef ekki tekst vel til kann innri markaðurinn og sá stöðugleiki sem honum hefur fylgt um áratugi að vera í hættu. Það er jafn mikið áhyggjuefni fyrir okkur og önnur Evrópuríki.

Samspil frjálsra fjármagnshreyfinga og sjálfstæðs, veikburða gjaldmiðils var einn stærsti sveifluvaldur hér á landi í aðdraganda hruns og olli á endanum hruni gjaldeyrismarkaðar og upptöku gjaldeyrishafta. Flest allir viðurkenna kostnaðinn við sjálfstæðan gjaldmiðil fyrir svo lítið ríki, þótt sumir telji að það svigrúm sem er til að fella gengi vegi upp á móti þeim kostnaði að hluta eða öllu leyti. Heildarmyndin í því efni er langt í frá einföld. Hlutskipti Íra og Grikkja er vissulega annað en okkar að því leyti að þeir hafa ekki getað lækkað laun með gengisfellingu og atvinnuleysi hefur líklega orðið meira en það hefði orðið ef þessi ríki hefðu átt þess kost að fella gengi. En á móti vegur að íbúðalán almennings í þessum löndum hafa ekki hækkað vegna gengisfalls og þorri fyrirtækja í þessum löndum hefur ekki lent í öngstræti vegna lána sem tekin voru í erlendum gjaldmiðli. Kaupmáttur hefur ekki dregist eins mikið saman og hjá almenningi hér á landi, því neysluvara í þessum löndum er í ríkum mæli framleidd á evrusvæðinu, þótt innflutt sé. Og það sem mest er um vert: Bæði ríkin hafa getað tekist á við vandamál sín án þess að setja á gjaldeyrishöft. Það vekur athygli að þrátt fyrir mikinn vanda Grikkja skuli almenningur í Grikklandi halda dauðahaldi í evruna. Enginn virðist vilja hið íslenska ástand: Stórfellda gengisfellingu, upptöku drökmunnar og gjaldeyrishöft.

Bætt regluverk í Evrópu – Tíminn vinnur með okkur

Lausn á vanda evrusvæðisins þarf að minnsta kosti að fela í sér sameiginlegt regluverk um fjármálakerfið og aukinn aga í ríkisútgjöldum aðildarríkjanna. Fyrir hálfu ári var öll áhersla á meiri aga í ríkisútgjöldum evruríkjanna. Síðustu mánuði hefur orðið mun ljósara að um raunverulega skuldakreppu er að ræða, en ekki kreppu sem stafar fyrst og fremst af ábyrgðarleysi í ríkisrekstri.

Nýtt regluverk um fjármálakerfið (sem nefnt hefur verið upp á frönsku „union bancaire“), fæli í sér samevrópskt bankaeftirlit, sameiginlegan lánveitanda til þrautavara og sameiginlegt innstæðutryggingakerfi sem jafnar aðstöðumun innan svæðisins. Slík umgjörð hefði haft mikil áhrif til að forða Spánverjum úr þeim vanda sem þeir standa nú frammi fyrir og hefði skipt sköpum fyrir okkur og Íra ef við hefðum notið hennar árið 2008. Hún er líka forsenda þess að hægt sé að sjá fyrir sér að íslenskt fjármálakerfi geti aftur nýtt sér frjálsar fjármagnshreyfingar á sameiginlegum evrópskum markaði. Með henni væri hægt að vinna gegn því misvægi sem birtist nú í ólíkum fjármögnunarkjörum banka eftir því hver bakhjarlinn er og misjafnri tiltrú á innstæðutryggingar. Árangurinn mun hins vegar líka vera í réttu samhengi við það hversu miklum fjármunum ríki evrusamstarfsins eru tilbúin að heita til þessa verkefnis.

Umgjörð um aukinn aga í ríkisrekstri aðildarríkjanna hefur þegar verið útfærð að miklu leyti. Hún myndi torvelda stjórnlausan hallarekstur og gera ríkjum erfiðara fyrir að fela útgjöld og fegra ríkisreikninginn. Slík umgjörð myndi hjálpa okkur mjög. Það er hollt að muna að efnahagsvandi á Íslandi undanfarna áratugi hefur nær ávallt verið vegna þess að stjórnvöld hafa misst stjórn á eftirspurnarhlið hagkerfisins, en ekki vegna ytri áfalla. Eina undantekningin frá því er kreppan sem fylgdi hruni síldarstofnsins 1968. Við höfum ekki tamið okkur þann hagstjórnaraga sem þurft hefði til að gera okkur kleift að takast á við þensluáhrif stórframkvæmda eða aflaaukningu. Það er því líklega erfitt að finna land sem myndi hafa meiri augljósan hag af því að undirgangast skuldbindingu um bætta hagstjórn og aukinn aga í ríkisrekstri en Ísland.

Ef þessar útbætur takast vel bendir allt til að aðild að ESB og upptaka evru sé heppilegasti kosturinn fyrir Ísland. Ef Ísland verður hluti af evrusamstarfinu getum við að mörgu leyti tekist betur á við þá áhættu sem felst í frjálsum fjármagnsflutningum, enda ekki lengur hægt að spila á gengi krónunnar í viðskiptum á markaði. Reynslan af skuldakreppunni sýnir þó að kálið er ekki allt sopið þó í ausuna sé komið og að útflæðisvandi getur birst á skuldabréfamarkaði þótt engum gjaldeyrismarkaði sé til að dreifa. Mikilvægt er að meta þá áhættu rétt og hvernig hægt er að bregðast við henni með skynsamlegri hagstjórnarstefnu.

EES-samningurinn er í öngstræti og mun ekki að óbreyttu gera okkur kleift að afnema höft og láta íslenskt fjármálakerfi búa við hliðstæðan rekstraraga og fjármálakerfi í öðrum ríkjum á innri markaðnum. Sú staðreynd ein gerir það óhjákvæmilegt að við höldum áfram aðildarferlinu og tökum þátt í því úrbótaferli á evrusamstarfinu sem framundan er. Það ferli mun taka í það minnsta fram til ársloka 2014 og þá fyrst verður að fullu ljóst hver umgjörð evrusamstarfsins verður. Það hentar okkur vel. Við þurfum að sjá hvernig okkur gangi í að leysa aflandskrónuvandann og fikra okkur þannig út úr gjaldeyrishöftunum. Það er líka gott fyrir okkur að hafa tímann fyrir okkur í samningum við ESB um mikilvæga samningskafla sem ekki er byrjað að semja um, auk þess að sterk rök mæla með því að ekki sé gott að semja um sjávarútvegsmál með makríldeiluna óleysta. Við þurfum á tímanum að halda.