22. apr 2007

Að tala tungum tveim - og segja sitt með hvorri

Í ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins segir m.a.: „Fjölskyldan er hornsteinn samfélagsins og Sjálfstæðisflokkurinn mun sem endranær standa vörð um þau gildi sem gott fjölskyldulíf byggir á. Samvera fjölskyldunnar, heilbrigð og uppbyggjandi afþreying, góðir skólar, auðvelt aðgengi að heilbrigðisþjónustu og öruggt umhverfi eru dýrmæt og eftirsóknarverð lífsgæði.“

Aðför að barnafjölskyldum
Í ríkisstjórnartíð Sjálfstæðisflokksins undanfarin ár hefur þrengt að barnafjölskyldum með margvíslegum hætti. Í síðustu viku rakti ég hér hvernig hagstjórnarmistök dúettsins Davíðs og Geirs hefðu valdið heimatilbúinni ofþenslu sem leitt hefur af sér ofurvexti og verðbólgu. Þessi hagstjórnarmistök Sjálfstæðisflokksins hafa bitnað verst á fólki sem stendur í íbúðakaupum og greiðir af verðtryggðum lánum. Það fólk er almennt líka það fólk sem sinnir uppvexti barna í ríkustum mæli.
Þetta er verðbólguskattur Sjálfstæðisflokksins sem hefur valdið hækkun verðtryggðra lána og því þyngri afborgunum. Vextir yfirdráttarlána eru á þriðja tug prósenta. Þetta heimatilbúna okurvaxtaumhverfi á sér enga hliðstæðu í löndum sem við höfum áhuga á að bera okkur saman við.

Húsnæðislánaklúður af verstu sort
Mistök ríkisstjórnarinnar á lánamarkaði valda því að barnafjölskyldur landsins borga nú upp undir tvöfalt hærra verð fyrir sama húsnæði en fyrir fjórum árum. Með öðrum orðum: Við búum í sömu íbúðunum – en þær eru bara tvöfalt dýrari og afborganirnar margfalt hærri. Þetta er sannarlega „kaupmáttaraukning“ og „framfarasókn“ sem bragð er að, svo vitnað sé í tvo margtuggna orðaleppa úr landsfundarályktunum Sjálfstæðisflokksins.
Fjöldi barnafjölskyldna sem áður naut vaxtabóta til að létta greiðslubyrði vegna afborgana húsnæðislána hefur nú misst vaxtabætur vegna hækkandi húsnæðisverðs. En þótt húsið sem þú býrð í sé dýrara en áður ert þú engu bættari. Þú þarft eftir sem áður stað til að búa á og annað húsnæði hefur hækkað jafn mikið og þitt eigið.

Yfirvinna í boði Davíðs og Geirs
Geir Haarde talar af nokkrum þjósti um mikla „kaupmáttaraukningu almennings“ þegar efnahagsklúður hans og Davíðs er gagnrýnt. Vera kann að unnt sé að reikna einhverja meðaltalskaupmáttaraukningu sem máli skiptir. Slíkur reikningur tekur þá ekki með í reikninginn að meðaltals„almenningurinn“ – þessi sem er með annan fótinn í eldi og hinn í ís – er ekki til. Sá „almenningur“ sem elur upp börn og kaupir sér íbúð þekkir annan veruleika og í honum er ekki allt útmakað í „samveru fjölskyldunnar, heilbrigðri og uppbyggjandi afþreyingu“ svo vitnað sé aftur í hina sykurklístruðu stemmningu úr landsfundarályktun Geirs. Vinnudagurinn lengist stöðugt. Aldrei hefur verið erfiðara fyrir ungt fólk að kaupa sína fyrstu íbúð. Heimilin eru skuldsettari en nokkru sinni fyrr. Það er hinn kaldi veruleiki.

Birt í DV 17. apríl 2007.