16. jún 2008

Að vakna af værum blundi

Ástand efnahagsmála nú er grafalvarlegt. Vorið 2007 ritaði Jón Sigurðsson, fyrrum ráðherra, aðfararorð í rit Samfylkingarinnar um efnahagsmál og sagði þá meðal annars: „Hættan er sú að Ísland missi trúverðugleika á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, en þá væri voðinn vís með hækkandi vaxtaálagi, gengisfalli og verðbólgugusu.“ Fátt lýsir betur því ástandi sem við búum við í dag. Við bætast svo ófyrirséðar hækkanir á hrávöru og eldsneyti sem valda enn frekari verðhækkunum hér á landi.

En það er eins og margir forðist að horfast í augu við að núverandi ástand er bein afleiðing þess ójafnvægis sem hefur verið meginboðorð í efnahagsstefnunni undanfarinn áratug. Allt frá upphafi stóriðjuframkvæmdanna fyrir austan hafa stjórnvöld skipulega vanrækt efnahagsstjórnina og talið sjálfum sér og öðrum trú um að á Íslandi ættu við einhver allt önnur viðmið um efnahagsstjórn en í öðrum ríkjum. Þótt Seðlabankinn hafi reynt að standa í ístaðinu hefur hann líka gerst sekur um alvarlegt vanmat á þeim hættum sem að steðjuðu.

Mistök undanfarinna ára
Okkur var sagt að engin ástæða væri til að óttast þau miklu vaxtamunarviðskipti sem helltust yfir landið og þrýstu gengi krónunnar í óraunhæfar hæðir. Í kjölfarið komu misseri gegndarlausrar einkaneyslu, þar sem falskt gengi lagðist á eitt með einstaklega hagstæðu verði erlendrar neysluvöru til að halda niðri verði á innflutningi. Á sama tíma var vanrækt að nýta einstaklega hagstætt gengi og góð skilyrði á alþjóðlegum lánamörkuðum til að styrkja gjaldeyrisforðann.

Okkur var líka sagt að það væri skynsamlegt að lækka almennan tekjuskatt ár frá ári á árunum 2004-2006. Með því var hellt olíu á eftirspurnareldinn sem allir vissu að logaði þá þegar glatt. Engin ríkisstjórn annars staðar í Evrópu hefði látið sér til hugar koma að beita almennri tekjuskattslækkun við þessar aðstæður. Hér á landi voru gagnrýnendur þessa ábyrgðarleysis úthrópaðir sem sérstakir talsmenn óheftra ríkisafskipta og andstæðingar skattalækkana. Alveg virtist hafa farið framhjá stjórnvöldum að eftir að gengi gjaldmiðilsins hafði verið látið fljóta ættu stjórnvöld enga aðra kosti en ríkisfjármál - og þar með skattastefnu - til að hafa áhrif á verðbólguþróun.

Okkur var einnig sagt að engin úrræði væru tiltæk til að hefta innrás bankanna á íbúðalánamarkaðinn síðla árs 2004. Seðlabankinn hafði þá nýlega stóraukið peningaframboð og auðveldaði þannig í reynd bönkunum að fjármagna undirboð gagnvart Íbúðalánasjóði. Bankinn greip einnig alltof seint til stýrivaxtahækkana til að taka á ástandinu. Stjórnvöld áttu einnig ýmsa möguleika til bregðast við, ef vilji hefði verið til þess.

Síðast en ekki síst voru allir stjórnmálaflokkar tilbúnir að styðja matarskattslækkun rétt fyrir kosningar 2007. Sú lækkun skilaði þeim eina árangri að falsa verðbólgutölur síðustu mánuðina fyrir kosningar og tryggja þannig áframhaldandi svikalogn, en alltaf var vitað að mjög ólíklegt væri að þessi aðgerð myndi skila almenningi nokkrum ávinningi við þessar aðstæður. Matarskattslækkunin er líklega besta dæmið um sigur sýndarmennskunnar yfir raunveruleikanum í efnahagsstjórn síðustu ára, þótt af mörgu sé að taka.

Ný stefnumörkun
En nú er raunveruleikinn kominn í heimsókn og kallar okkur til verka. Með sama hætti og við fluttum áður inn verðhjöðnun og nutum góðs af, flytjum við nú inn erlendar kostnaðarhækkanir á degi hverjum. Óhóflegur innflutningur alltof eyðslufrekra bílófreskja undanfarin ár veldur eigendum miklum höfuðverk. Verðbólguhraði umfram allar spár bendir til þess að fyrirtækin hafi víðtæka vantrú á að við náum að afstýra alvarlegri verðbólgu. Kaupmáttaraukning sem var að miklu leyti byggð á óhóflegri skuldsetningu og eiginfjárdrætti er horfin.

Við þessar aðstæður er mikilvægt að stjórnvöld marki skýra stefnu. Aðildarumsókn að Evrópusambandinu og stefnumörkun um upptöku evru fæli í sér slíka stefnu, því hún myndi skuldbinda ríkið til að haga efnahagsstjórn með ábyrgum hætti. En þótt við náum ekki saman um aðildarumsókn á næstu vikum er engin ástæða til að sitja með hendur í skauti. Ef við viljum endurheimta stöðugleika er nauðsynlegt að stjórnvöld skuldbindi sig til að ná alþjóðlega viðurkenndum stöðugleikamarkmiðum. Þar eru þekktust stöðugleikamarkmið Maastricht-samningsins sem fela í sér lága verðbólgu, hóflega skuldastöðu ríkissjóðs, lága langtímavexti og gengisstöðugleika. Þessi viðmið eru nauðsynleg forsenda upptöku evru en þau eru líka nauðsynleg forsenda þess að hér verði náð efnahagslegum stöðugleika, óháð aðildarumsókn að ESB. Varaformaður Sjálfstæðisflokksins hefur tekið undir mikilvægi þessa í ræðu og riti.

Þjóðarsátt um nýja leið
Ný þjóðarsátt á að felast í því að stjórnvöld setjist að borði með aðilum vinnumarkaðarins, fulltrúm sveitarfélaganna og Seðlabankanum og geri formlegt samkomulag um að Maastricht-viðmiðunum verði náð innan tiltekins tíma. Jafnframt ættu fulltrúar stjórnarandstöðuflokka að koma að slíkri þjóðarsátt. Þá er von til að við sköpum víðtæka samfélagssátt um þær aðgerðir – sumar hverjar sársaukafullar – sem nauðsynlegar eru til að endurheimta stöðugleikann. Það er nefnilega flest sem bendir til þess, eins og höfundur Reykjavíkurbréfs hefur bent á, að sjálfstæð peningamálastefna lítils ríkis á jaðri Evrópu þurfi að fela í sér meiri fórnir og meiri aga en menn geta leyft sér sem eru hluti af stærri heild. En hér á landi verða einfaldlega að gilda sömu efnahagslögmál og í nágrannalöndunum.

Forsætisráðherra hefur boðað endurskoðun á framkvæmd peningamálastefnunnar. Það er brýnt að sú endurskoðun hefjist sem fyrst og að hún fari fram fyrir opnum tjöldum og með þátttöku færustu alþjóðlegra sérfræðinga. Hún á að taka mið af því hvernig unnt sé að ná stöðugleikamarkmiðunum og í henni á að velta við hverjum steini. Fátt er heimskulegra við núverandi aðstæður en að gagnrýna þá sem vilja tala með opnum og fordómalausum hætti um hagstjórnarmistök undanfarinna ára, veikleika gjaldmiðilsins og ómarkvisst stjórnkerfi peningamála. Einn versti galli íslenskrar samfélagsumræðu er að við eigum til að veigra okkur við að spyrja og leita svara við erfiðum spurningum. Það er höfuðsök okkar nú síðustu ár. Leiðin til að skapa tiltrú á innviðum íslensks efnahagslífs er að ræða af heiðarleika og hreinskiptni fyrir opnum tjöldum um ágallana og leita bestu leiða til að bæta úr þeim. Þöggun og sjálfbirgingur eru vont vegarnesti fyrir metnaðarfulla þjóð sem þarf nauðsynlega á tiltrú að halda á alþjóðlegum vettvangi.

Birt í Morgunblaðinu, 16. júní 2008.