26. apr 2007

Að verðlauna síbrotamenn

Morgunblaðið hrósar í forystugrein forystu stjórnarflokkanna fyrir að taka nú í aðdraganda kosninga hvert úrbótafyrirheit stjórnarandstöðunnar og gera það að sínu. Þetta telur Morgunblaðið góð vinnubrögð því í lýðræðisríki byggi stjórnmál á málamiðlunum.

Á þessu máli er önnur hlið.

Hún er sú að ríkisstjórnarflokkarnir skrumskæla lýðræðið með þessari aðferðafræði. Þeir koma nú fram á völlinn – Sjálfstæðisflokkurinn farinn að sýna hinn litförótta fálka í rauðum lit – og lofa annari stjórnarstefnu en rekin hefur verið. Fyrir vikið fær almenningur í landinu ekki að kjósa milli ólíkra kosta og ríkisstjórnin þarf ekki að standa reikningsskil gerða sinna.

Stjórnmálaflokkar eiga að rækja skyldur sínar við almenning með samráði og samræðu á kjörtímabilinu, ekki með því að hlaupast frá verkum sínum rétt fyrir kosningar. Sú ríkisstjórn sem nú fer frá hefur einstæða afrekaskrá í að forsóma lýðræðisleg vinnubrögð – hvort heldur er í fjölmiðlamálinu, meðferð viðræðna við Bandaríkin um varnarmál, samskiptum við aldraða eða í stuðningi við Íraksstríðið.

Annar ókostur er sá að reikningsdæmið gengur ekki upp. Sjálfstæðisflokkurinn lofar framkvæmdum og úrbótum í almannaþjónustu, sem hann hefur sjálfur vanrækt. Hann lofar líka skattalækkunum. Hins vegar blasir við halli á ríkissjóði strax á næsta ári, vegna efnahagsmistaka ríkisstjórnarinnar. Ef Samfylkingin yrði ber að slíku ábyrgðarleysi er ég hræddur um að heyrast ritstjóri Morgunblaðsins myndi kalla eftir skýringum á slíku ósamræmi.

Kjósendur þurfa að velja. Annars vegar eru stjórnarflokkarnir eins og samviskulausir síbrotamenn sem lofa enn á ný því sem líka var lofað síðast og þarsíðast. Hins vegar er Samfylkingin sem leggur fram skýra sýn um öflugt alþjóðavætt atvinnulíf, uppbyggingu almannaþjónustu og afnám biðlistavæðingar íhaldsins. Hvor skyldi nú vera trúverðugri kostur?

Birt í Morgunblaðinu 26. apríl 2007.