24. jan 2013

Árna Pál til forystu

Framundan eru einar mikilvægustu þingkosningar í áratugi. Næsta ríkisstjórn mun móta þá  stefnu sem verður tekin í kjölfar endurreisnar landsins. Í Samfylkingunni verður kosið um formann í febrúarmánuði  í rafrænni kosningu meðal allra flokksfélaga. Það skiptir miklu máli hver verður formaður í Samfylkingunni sem er burðarflokkur í íslenskum stjórnmálum. Árni Páll Árnason hefur boðið sig fram til þess verkefnis og er að okkar mati öllum þeim kostum búinn sem formaður jafnaðarmanna þarf að bera.

Yfirgripsmikil þekking
Í fyrsta lagi er Árni Páll hugmyndaríkur og áræðinn stjórnmálamaður. Hann hefur skýra pólitíska sýn og er einn fárra þingmanna sem hafa yfirgripsmikla þekkingu á þremur mikilvægustu verkefnum næstu ára í íslenskum stjórnmálum. Þessi verkefni eru að klára umsóknarferli Íslands að ESB, að ljúka endurreisn og tryggja uppbyggingu efnahagskerfisins og að tryggja að takmörkuðum gæðum sé sem jafnast skipt á milli þjóðarinnar. Á þessum málum hefur Árni  Páll þekkingu umfram aðra þingmenn. Þekkinguna hefur hann meðal annars öðlast sem ráðherra efnahagsmála, velferðarmála og varaformaður utanríkismálanefndar Alþingis.

Þegar blása þarf til sóknar
Í öðru lagi býr Árni yfir þeim kostum sem prýða sterkan forystumann. Hann hlustar á pólitíska andstæðinga og hann sættir ólík sjónarmið. Hann er sveigjanlegur þegar við á en staðfastur þegar svo ber undir. Hann talar alltaf af sannfæringu og þekkingu – og af eldmóði þegar blása þarf til sóknar. Árni Páll er einlægur jafnaðarmaður með skýra framtíðarsýn. Árni Páll hlustar á félaga sína innan flokks sem utan og er heiðarlegur í ákvarðanatöku.

Auðmýkt, elja og dugnaður
Í þriðja lagi hefur Árni Páll tekist á við þau verkefni sem honum hafa verið falin af auðmýkt og þeirri elju og dugnaði sem einkennir hann. Hann fer óhræddur nýjar leiðir og stendur við erfiðar og umdeildar ákvarðanir án þess að falla í þá gryfju að kaupa sér vinsældir með röngum ákvörðunum. Við treystum Árna Páli best til þess að leiða Samfylkingu jafnaðarmanna til sigurs í vor og til framtíðar.

Guðríður Arnardóttir, Hafsteinn Karlsson og Pétur Ólafsson eru bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar í Kópavogi