26. jan 2013

Árni Páll er góður valkostur

Við sem eigum þess kost þessa dagana að kjósa okkur formann í Samfylkingunni getum valið á milli tveggja öflugra kosta. Ég hef átt því láni að fagna að hafa kynnst báðum frambjóðendum og mannkostum þeirra og því var valið ekki auðvelt. Guðbjartur er yfirvegaður og traustur og á gott með að tala við fólk. Hann hefur staðið sig vel í erfiðum verkefnum ríkisstjórnarinnar undanfarin misseri og verið traustsins verður. Gutti hefur verið auðfúsugestur á fundum Samfylkingarfélagsins í Kópavogi og alltaf tilbúinn til að ræða þau mál sem kallað hefur verið eftir. Það er í raun lúxusvandamál að þurfa að velja milli tveggja góðra kosta svo við skulum ekki sýta það.

Að velja á milli
Árni Páll er mjög ólíkur Guðbjarti. Hann kemur fyrir sjónir sem kraftmikill og skeleggur en ég veit líka að þessi óþreyjufulli stjórnmálamaður er djúpt hugsandi leiðtogi sem greinir viðfangsefnin og skoðar ólíkar leiðir. Honum þykir vænt um fólk og hann er lífsglaður maður sem hefur gaman af því að hlusta og sætta ólík sjónarmið.

Helstu ástæður
Ég hef ákveðið að kjósa Árna Pál til að leiða Samfylkinguna næstu ár. Árni Páll er litríkur og kraftmikill og er stjórnmálamaður nýrra tíma. Hann er svo eldklár og þroskaður að hann nær jafn vel til þeirra sem eldri eru og unga fólksins. Hann er heilsteyptur jafnaðarmaður með skýra pólitíska sýn og veit hvert þjóðin þarf að stefna, en ekki síður það sem mikilvægt er, hvernig við förum þangað. Hann hefur yfirgripsmikla þekkingu á efnahags- og utanríkismálum og vel útfærðar hugmyndir um hvernig koma megi á auknu jafnvægi í fjármálum þjóðar sem tekst á við afleiðingar af efnahagslegu stórslysi sem varð vegna þess að grímulaus sérhagsmunagæsla réði hér ríkjum í landinu í áratugi.

Þegar vel gengur og þegar á móti blæs
Árni Páll hefur sinnt grasrót Samfylkingarinnar með aðdáunarverðum hætti og hann veit að formaður Samfylkingarinnar þarf að vera í tengslum við fólkið sem starfar úti í aðildarfélögunum, bæði í stemningu sigra og fögnuðar en ekki síður þegar á móti blæs og hindranir blasa við. Hann er góður félagi, ósérhlífinn og duglegur. Árni Páll virðist alltaf hafa gaman af því að takast á við fjölbreytt verkefni.

Samfylkingin til sigurs
Árni Páll  hefur hæfileika til að hrífa fólk með sér og kveikja með því áhuga og baráttuanda.  Árni Páll hefur kraftinn til að leiða Samfylkinguna til sigurs í alþingiskosningunum í vor. Hann hefur alla burði til að gera Samfylkinguna að enn stærri og kröftugri jafnaðarmannaflokki sem stendur vörð um gildi jafnaðarmennskunnar, almannahagsmuni og uppbyggingu heilbrigðara samfélags.

Ég kýs Árna Pál til formanns í Samfylkingunni.

Höfundur er formaður Samfylkingarfélagsins í Kópavogi